Ingólfur Arnarson
Ingólfur Arnarson fæddist 31. ágúst 1921. Ingólfur fæddist í Vestmannaeyjum og var hér uppalinn. Móðir hans var Sólrún Eyjólfsdóttir verkakona í Vestmannaeyjum fædd 1892.
Hann lauk námi við Barnaskóla Vestmannaeyja, stundaði nám í íþróttaskóla í Haukadal og tók mótorvélapróf. Hann lærði rafsuðu í Kaupmannahöfn og var í þrjú ár í vélvirkjanámi í Vélsmiðjunni Magna. Í kjölfarið stofnaði hann sjálfur ásamt öðrum Vélsmiðjuna Völund árið 1957. Sama ár lauk hann meistaraprófi í plötu og ketilsmíði.
Ingólfur stofnaði fiskverkunina Eyjaver sf árið 1961 og tengdist jafnframt útgerð á Ingþór VE-75 og Stefáni Þór VE-15.
Ingólfur var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum og sat í byggingarnefnd og brunamálanefnd Vestmannaeyja 1958-1962 og í hafnarstjórn 1958-1970. Hann var formaður Íþróttafélagsins Þórs 1942-1948 og 1952-1954 og formaður Alþýðuflokksfélags Vestmannaeyja 1951-1954 og 1957-1961.
Ingólfur vann mikið fyrir sjávarútveginn. Hann var í stjórn LÍÚ, framkvæmdastjóri Útvegsbændafélags Vestmannaeyja og seinna Útvegsmannafélags Suðurnesja. Hann var formaður Fiskideildar Vestmannaeyja og síðar formaður Fiskideildar Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og nágrennis.
Frá 1978-1981 var Ingólfur umsjónarmaður þátta um sjávarútveg og siglingar í Ríkisútvarpinu.
Ingólfur kvæntist 31. maí 1946 Beru Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Jónssonar og Elínborgar Gísladóttur í Laufási. Þau eignuðust þrjá syni:
- Þorstein Ingólfsson skrifstofustjóra hjá Berg-Hugin ehf, kona hans er Kristrún Gísladóttir og eiga þau tvö börn, Sólrúnu Þorsteinsdóttur og Ingólf Þorsteinsson.
- Gylfi Ingólfsson vélstjóri, kona hans er Anna Jenný Rafnsdóttir og dóttir þeirra er Berglind Ýr Gylfadóttir.
- Ingólfur Ingólfsson starfsmaður Fiskistofu, kona hans er Júlíanna Theodórsdóttir og þau eiga Margréti Rós Ingólfsdóttur og Ölmu Ingólfsdóttur.
Ingólfur lést úr krabbameini 12. september 2002.