Runólfur Magnússon (Stóra-Gerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. september 2014 kl. 20:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. september 2014 kl. 20:28 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Runólfur Magnússon sjávarbóndi í Stóra-Gerði fæddist 22. febrúar 1818 í Búðarhóls-Norðurhjáleigu (nú Lækjarhvammur) í A-Landeyjum og lést 20. mars 1894 í Eyjum.

Faðir hans var Magnús bóndi í Búðarhóls-Norðurhjáleigu, skírður 18. janúar 1771, d. 16. júlí 1849, Nikulásson bónda í Búð í Þykkvabæ, f. 1724, d. 3. aprí 1790, Þorgilssonar bónda í Nýjabæ í Holtum, f. 1689, Ísólfssonar, og konu Þorgils, Guðnýjar húsfreyju, f. 1691, Erlendsdóttur.
Móðir Magnúsar bónda í Búðarhóls-Norðurhjáleigu og barnsmóðir Nikulásar í Búð var Valgerður, síðar húsfreyja í Skíðbakkahjáleigu í A-Landeyjum, f. 1740, Þorvaldsdóttir bónda í Fróðholtshjáleigu á Rangárvöllum, f. 1712, d. 9. nóvember 1793, Þorgautssonar, og e.t.v. Gróu, f. 1712, Kolgrímsdóttur.

Móðir Runólfs í Stóra-Gerði og kona Magnúsar bónda var Kristín húsfreyja, f. 1780, Árnadóttir bónda í Hallgeirsey í A-Landeyjum, f. 1748, d. 15. október 1809, Magnússonar bónda á Kirkjulandi þar, f. 1702, á lífi 1763, Ólafssonar, og konu hans, Kristínar húsfreyju, f. 1712, d. 18. desember 1809, Jónsdóttur.
Móðir Kristínar í Búðarhóls-Norðurhjáleigu var Jódís húsfreyjs, f. 1741, Sigurðardóttir bónda, smiðs og skipsformanns á Búðarhóli þar, f. 1702, d. 29. maí 1783 í Þerney í Kollafirði, Þorkelssonar, og konu Sigurðar, Margrétar húsfreyju, f. 1709, Guðmundsdóttur.

Runólfur var vinnumaður á Hemlu í V-Landeyjum 1840, var 28 ára kvæntur sjómaður í Stóra-Gerði 1845 með Ingiríði 28 ára, - sjávarbóndi í Stóra-Gerði 1850 með Ingiríði konu sinni og barninu Birni tveggja ára. Þar var einnig Helga tengdamóðir hans 67 ára. Sama fólk var með honum í Stóra-Gerði 1855, en Runólfur sonur þeirra var þá 5 ára tökubarn í Dölum.
Við manntal 1860 var Runólfur tómthúsmaður í Hjalli með Ingiríði, Birni 12 ára og Eiríki 6 ára, en Runólfur yngri var 10 ára fósturbarn í Dölum.
Við fermingu Björns 1863 bjuggu þau í Háagarði.
Eiríkur sonur þeirra lést 1866 og Ingiríður kona hans lést 1870, og á því ári var Runólfur 53 ára lausamaður á Vesturhúsum.
Við skráningu 1880 var hann 62 ára vinnumaður á Reyðarvatni á Rangárvöllum, en fluttist aftur til Eyja og var þar niðursetningur í Litlakoti 1890.
Runólfur lést 1894.

Kona Runólfs var Ingiríður Björnsdóttir húsfreyja, f. 9. september 1818, d. 4. júlí 1870.
Börn þeirra hér:
1. Elísabet Runólfsdóttir, f. 23. desember 1844, d. 8. jan 1845 úr ginklofa.
2. Stefanía Runólfsdóttir, f. 11. mars 1846, d. sama dag úr ginklofa.
3. Björn Runólfsson, f. 7. febrúar 1849. Hann fór til Vesturheims 1887, d. 27. ágúst 1932 í Spanish Fork í Utah.
4. Runólfur Runólfsson prestur, f. 10. apríl 1851, d. 20. janúar 1929 í Spanish Fork í Utah.
5. Kristín Runólfsdóttir, f. 16. febrúar 1853, d. 20. apríl 1853 „af Barnaveiki“.
6. Stefanía Runólfsdóttir, f. 6. júní 1854, d. 12. júní 1854 „af Barnaveiki“.
7. Eiríkur Runólfsson, f. 9. febrúar 1855, d. 14. júlí 1866 úr taugaveiki.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • FamilySearch.org
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Rangvellingabók. Valgeir Sigurðsson. Rangárvallahreppur, Hellu 1982.