Ritverk Árna Árnasonar/Lifrin og lýsið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2013 kl. 16:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2013 kl. 16:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Lifrin og lýsið“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Lifrin og lýsið


Allt frá fyrstu tíð og fram til síðustu aldamóta var lýsi einungis til sem sjálfunnið hér í Eyjum sem annarsstaðar á landinu. Var lifrin látin í kagga mikla og látin grotna þar, en ausið ofan af, hinu sjálfrunna lýsi, á brúsa til geymslu og neyslu manna. Sjálfunnið lýsi þótti gott og kjarnmikið, enda mun það oftlega hafa borgið lífi íslenskrar alþýðu fyrr og síðar.
Hér var það alsiða, að eldri menn drukku það í krúsum og varð gott af. Þá var og hið mesta hnossgæti að fá skonnroksköku bleytta eða niðurdífða í hrálýsi. Sagði mér gamall maður hér fæddur og uppalinn (Guðjón Björnsson), að það hefði oftlega orðið sér drjúg kjarnfæða og hitamikil, er hann var á yngri árum að fara á sjó, að stinga köku í lýsiskaggann og borða á leiðinni til skips. Enda sagðist hann hafa búið að því um daginn, því að ekki tíðkaðist þá að hafa sjóbita.
Að sjálfsögðu hafa farið forgörðum býsna mikil verðmæti með þannig lagaðri nýtingu lifrarinnar, en annað þekktist ekki, fyrr en um aldamótin. Þá höfðu selstöðukaupmennirnir undanfarið ávallt fengið mest alla lifur og greiddu t.d. 6 aura fyrir hvern pott af lifur 1900-1901. Þetta þótti líka gott. Menn urðu að vera ánægðir með það. Aðrir fluttu ekki út lýsi.
Menn höfðu enga aðstöðu til þess þar til árið 1901-02, að ungur maður, Gísli Johnsen, réðst í að setja upp meðalalýsisbræðslu, hina fyrstu hér í Eyjum. Var sú aðferð notuð að setja upp á hlóðir stóran blikkpott, tvöfaldan, er hafði vatn á milli laga.
Nú var lifrin látin í pottinn og síðan kynt undir honum. Hitnaði nú pottvatnið til suðu og bræddi lifrina mikið til á 2 ½ til 3 tímum. Var lýsið síðan látið setjast til og vatnið afkælt sem hægt var, áður en lýsinu var ausið úr honum í önnur ílát til frekari afkælingar og tilsetnings, áður en því var ausið á tunnur.
Úrgangi lifrarinnar var svo fyrst í stað hent, en brátt komust menn upp á það að setja heitan grútinn í allstóra léreftspoka, sem fyrirkomið var í trégrind yfir járnrennu. Lak nú töluvert úr grútnum af lýsi, er nefnt var pokalýsi og því safnað í sérílát. Eftir þetta var svo grútnum hent í sjóinn eða hann notaður til áburðar á tún og garða. Þetta var stórframför frá því sem var, og ekki svo lítið hagsmunamál fyrir Eyjaskeggja. Nú fengu þeir 12 til 15 aura fyrir lifrarlíterinn, og lifrin nýttist mörgum pörtum betur og varð miklu dýrmætari verslunarvara.
Að selstöðukaupmönnunum hafi verið vel við þetta uppátæki Gísla, er varla við að búast, en þeir urðu að fara að dæmi hans, leggja í uppsetningu bræðslutækja og greiða sama verð og hann fyrir lifrina.
Hálfsóðaleg þótti bræðsluvinnan svona fyrst í stað, enda voru víst stundum ekki sem hreinlegastir menn við hana. Sumir jafnvel báru framan á sér grútarpokana til úrlosunar og voru víst ekki alltaf að skipta um föt eða þvo sér. En þetta breyttist fljótt til batnaðar.
Þessi fyrsta bræðsla Gísla Johnsen stóð á „Nausthamri“, þar sem nú stendur eitt af húsum Einars Sigurðssonar, - vélarhúsið - ofan við olíutankana.
Síðar eða 1912 var svo tekið upp enn annað bræðslufyrirkomulag af Gísla Johnsen með gufu, þannig að notaður var gufuketill, sem gat hleypt af sér gufu. Voru leiddar leiðslur frá þeim katli, - gufuleiðsla - í stór trékör eins og kramarhús í laginu, og snéri víði endinn upp, en að neðan var loka. Var nú lifrin látin í körin og gufunni hleypt niður í lifrardyngjuna, sem tættist í sundur og bráðnaði við hitann enn betur en áður var. Eftir að þessu var lokið, var afkælingaraðferðin sú sama og verið hafði. Um lokuna neðst var svo úrgangurinn tekinn.
Síðar komu svo pressur til að ná enn betur úr grútnum. Þannig hélst þetta allt þangað til enn fullkomnari tæki komu, þegar Lifrarsamlag Vestmannaeyja varð til og fékk fullkomnustu lifrarvinnslutæki, sem ógerlegt er að lýsa með fáum orðum. Lifrarsamlagið er samlag útgerðarmanna, sem stofnað var árið 1932 og hefir mjög orðið til hagsmunaauka og fjárauka fyrir meðlimi sína, vinnugjafi fjölda manns og til að auka hróður útflutningsvara Eyjabúa.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit