Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Morðið við Gíslakletta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Morðið við Gíslakletta færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Morðið við Gíslakletta)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Morðið við Gíslakletta.


I.


Á síðara hluta 17. aldar var séra Pétur Gissurarson, sonur séra Gissurar Gamalíelssonar að Staðarbakka í Miðfirði, prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Móðir séra Péturs var Guðrún hálfsystir Arngríms lærða á Melstað, hins merkasta manns, sem kunnugt er. Séra Pétur stundaði nám í Skálholtsskóla, og lauk þar námi árið 1635. Það var á biskupsárum Gísla Oddssonar. Gaf biskup Pétri þann vitnisburð, að hann hefði farið yfir það, sem venja sé til að kenna í skólanum, og fari hann þess vegna þaðan, en ekki vegna óknytta.
Að loknu námi í Skálholtsskóla mun Pétur hafa siglt, og stundað framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla um nokkurt skeið. Árið 1639, er hann aftur kominn til landsins, og er þá viðstaddur, þegar Brynjólfur Sveinsson tók við Skálholtsstól. Var biskup strangur maður og siðavandur og lærdómsmaður mikill. Vandaði hann mjög val á skólameisturum og kennurum við Skálholtsskóla um sína daga. Segir Séra Jón Halldórsson í Biskupasögum sínum, að þá væri „heyrarar í skólanum, um hans daga, vel lærðir attestati og skólameistara ígildi.“ Séra Pétur mun hafa haft á sér nokkurt lærdóms orð, því að hann var um alllangt skeið kennari við Skálholtsskóla, og í miklum metum hjá Brynjólfi biskupi. Á yfirreiðum biskups var hann meðal fremstu virðingarmanna í flokki biskups og nefndur consiliarius (ráðgjafi). Séra Pétur var í Skálholti frá 1639—1649, að hann varð aðstoðarprestur hjá séra Þorsteini Björnssyni á Útskálum. Að Ofanleiti varð hann prestur árið 1658, en lét af prestskap árið 1689, þá fjörgamall orðinn. Hann andaðist árið 1690.
Kona séra Péturs var Vilborg, dóttir Kláusar Eyjólfssonar lögréttumanns að Hólmum í Landeyjum. Var Kláus hinn merkasti maður. Sýsluvöld fór hann með í Vestmannaeyjum um nokkurt skeið eftir Tyrkjaránið þar, og átti mikinn þátt í lausn þeirra vandræðamála um hórdómsbrot, sem komu upp í Eyjum hin næstu ár eftir ránið, og fara áttu eftir Stóradómi. Kláus skrifaði fyrstur manna um Tyrkjaránið og hefur það rit hans verið prentað. Börn þeirra séra Péturs og Vilborgar voru:
1. Séra Gissur að Ofanleiti. Tók hann við kallinu árið 1689, þegar faðir hans lét af prestsskap fyrir elli sakir, og var þar prestur þangað til hann andaðist á páskadaginn árið 1713, og var hann þá á 60. ári. Séra Gissur var tvíkvæntur, og var fyrri kona hans Sigríður, dóttir Eyjólfs Jónssonar lögréttumanns á Brunnastöðum, en ekki er getið barna þeirra. Síðari kona hans var Helga dóttir séra Þórðar Þorleifssonar á Þingvöllum, og var sonur þeirra Nathanael bóndi í Vestmannaeyjum. Séra Gissur hefur ritað mjög merka lýsingu á Vestmannaeyjum og atvinnuháttum þar.
2. Séra ArngrímurKirkjubæ í Vestmannaeyjum. Hann varð fyrst prestur í Hellnaþingum árið 1688, og var hann þá 25 ára að aldri.
Árið 1693 varð hann prestur í Fljótshlíðarþingum, en lét þar af embætti árið 1717. Síðan varð hann prestur í Reykjadal, en var þar aðeins skamma hríð (1726—1728). Árið 1733 fékk hann Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, og var hann þar prestur þangað til hann dó árið 1742, 79 ára gamall.
Séra Arngrímur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigrún dóttir Ólafs bónda Árnasonar á Heylæk. Eignuðust þau fjögur börn, Ólaf, bónda á Heylæk, Ingibjörgu, konu Teits, sonar séra Gottskálks Þórðarsonar á Keldum, Ólöfu, fyrri konu Bjarna Þorlákssonar bónda í Öndverðarnesi, og Vilborgu, sem giftist Snorra Böðvarssyni lögréttumanni að Ægissíðu. Síðari kona hans var Ragnheiður, dóttir Markúsar Snæbjarnarsonar sýslumanns í Vestmannaeyjum og Rangárvallasýslu. Hún hafði áður verið gift séra Þorvaldi Björnssyni í Stóradal. Ekki áttu þau börn, og slitu samvistir. Þóttist hún vargefin, að því er Gísli Konráðsson hinn fróði segir í Prestasögum sínum, og var stirð í sambúðinni. Er það sögn manna, að séra Arngrímur tæki sér svo nærri heimilisböl þetta, að hann væri um tíma sturlaður á geðsmunum.
3. Guðríður, kona Magnúsar Ísleifssonar bónda á Höfðabrekku.
4. Emerentíana, kona Ólafs Árnasonar klaka, sýslumanns í Vestmannaeyjum frá 1698 til 1719, að hann andaðist. Áður hafði Ólafur verið þar sýslumaður í umboði annara eða frá því um 1693. Ólafur bjó í Dölum.
5. Gísli, sem myrtur var í Vestmannaeyjum 19. júní árið 1692. Verður nánar sagt frá þeim atburði, þegar gjörð hefur verið grein fyrir því fólki, sem kom við morðsmálið.
Gísli mun ekki hafa verið settur til mennta, eins og bræður hans, heldur mun hann, er hann staðfesti ráð sitt, hafa tekið einhverja Vestmannajarða til ábúðar, og jafnframt búskapnum stundað sjómennsku. Þegar hann var myrtur, var hann að gæta að fiski sínum í fiskigarði uppi á eynni, en fiskigarðarnir lágu undir jarðirnar. Gísli var enn í föðurgarði árið 1687. Þá er þess getið, að hann hafi gefið til Landakirkju 3 fiska gjöf. Þessa er getið í reikningabók Landakirkju, og er Gísli þá talinn eiga heima á Ofanleiti.
Kona Gísla hét Ingibjörg Oddsdóttir. Segir í Mælifellsannál, að þau hafi gengið í hjónaband í byrjun maímánaðar árið 1692, og er þess einnig getið þar, að áður hefði hún átt barn „með þeim danska umboðsmanni í Eyjunum, er Pétur hét.“ Mun þar átt við Pétur Vibe, sem var umboðsmaður konungs í Vestmannaeyjum á árunum 1687 til 1693.
Anders Svendsen, konungsumboðsmaður, mun hafa andazt árið 1686, og Pétur Vibe þá tekið við þeim störfum. Árið 1687 var á alþingi samþykktur dómur Einars Eyjólfssonar dæmdur á Hvítingaþingi um kærur Péturs Vibe á hendur Jóni Stígssyni. Fátt sagna fer um Pétur Vibe. Árni Magnússon minnist aðeins á hann í skýrslum sínum um reikningshald Landakirkju, og segir hann hafa farið illa með fé hennar, líkt og fleiri kaupmenn og konungsumboðsmenn um það leyti.
Um ætterni Péturs Vibe er nú ókunnugt, en sennilegt virðist, að hann hafi verið í ætt við, og ef til vill sonur Mikaels Vibe varakanslara, er andaðist 1. maí 1690. Og hefur þá bróðir hans verið Ditlev Vibe (d. 1731), er um þessar mundir var háttsettur embættismaður í kansellíinu, yfirritari og leyndarráð að nafnbót.
Af völdum þeim, sem Pétur Vibe fór með í Vestmannaeyjum, virðist mega ætla, að hann hafi haft mikils megandi styrktarmenn að baki sér, og ekki sízt af því, hversu vel hann slapp við hlutdeild sína í morðinu á Gísla Péturssyni, jafn bendlaður og hann var við það, eins og síðar segir.
Pétur Vibe mun ekki hafa verið við eina fjöl felldur, ófyrirleitinn og ágengur. Í Vallaannál er sagt frá því, að Pétur Vibe hafi komið til Alþingis árið 1693 frá Bessastöðum, og að hann sigldi við lítinn orðstír og „með ófögrum orðróm margra kvenna um illan þátt í morðsmálinu.“
Þegar Árni Magnússon var í Vestmannaeyjum árið 1704, tók hann þá skýrslu af Einari nokkrum Guðbrandssyni, að 1693 hefði Pétur Vibe leigt honum eitt af tómthúsunum á Löndum með því skilyrði, að hann greiddi Vibe hátt festargjald, en neitað honum um Dali, nema fyrir kæmi of fjár, auk afgjaldsins. Treysti hann sér ekki til þess að inna þá greiðslu af hendi, og leigði því tómthúsið að Löndum, og bjó hann þar enn árið 1695, en flutti síðar að Brattahúsi, sem stóð í Kastalanum.
Um ætterni Ingibjargar, konu Gísla, leikur nokkur vafi. Í sögnum, sem gengið hafa í Vestmannaeyjum segir, að faðir hennar væri Oddur Ólafsson, dóttursonur Odds Péturssonar, sem nefndur var Oddur á Hánni, því að hann horfði þaðan á rán og illvirki Tyrkja árið 1627. Oddur var alkunnur formaður, maður af norsku bergi, og drukknaði hann árið 1636. Af skjallegum gögnum verður nú ekki séð, hvort nokkur fótur er fyrir þessu. Í gjafaskrám í reikningabók Landakirkju, er getið manns, sem hét Oddur Ólafsson, með nokkurra fiska gjöf, og er hann fyrst nefndur þar árið 1662. Er hann þá talinn með ábúendum Vilborgarstaða. Árið 1666 er hann einnig nefndur og þá talinn með bændum í Dölum. Eftir það finnst hann ekki nefndur þar, og mun hann því hafa dáið um þetta leyti, ungur maður. Kemur þetta vel heim við aldur þeirra Ingibjargar og Ingveldar Oddsdætra, ef þær hafa verið milli tvítugs og þrítugs árið 1692, sem er næsta líklegt. Einmitt þá giftist Ingibjörg Gísla Péturssyni að því er segir í annálum.
Það var jafnan siður reikningshaldara Landakirkju, en einokunarkaupmennirnir höfðu það reikningshald á hendi, að geta þess í reikningabókinni, ef einhver búandi lét hjá líða eða þrjóskaðist við, að gefa til kirkjunnar. Bendir það til þess að Oddur hafi andazt um þessar mundir, að hann er ekki nefndur í reikningabókinni.
Móðir þeirra Ingibjargar og Ingveldar hét Guðrún Sveinsdóttir, og andaðist hún árið 1694, að því er séð verður. Var hún tvígift, og hét síðari maður hennar Magnús og var Salbjörg dóttir þeirra, að því er segir í minnisgrein eftir Árna Magnússon, en ekki koma þau feðgin við morðsmálið.
Systir Ingibjargar hét Ingveldur, eins og áður segir. Maður hennar hét Markús Ólafsson. Mun hann um tíma hafa verið vinnumaður í Garðinum hjá einokunarkaupmönnunum, því árið 1687, er hann talinn eiga heima í Skansinum, en árið 1692 er hann fluttur að Þorlaugargerði, og 1694 er hann kominn að Ofanleiti, að því er sagt er í reikningabók Landakirkju.
Þegar manntalið fór fram árið 1703, bjó hann með ráðskonu á hálfum Norðurgarði. Þá eru börn hans talin tvö: Höskuldur 12 ára og Margrét 9 ára. Margrét er því fædd á árinu 1694 og kemur það heim, því Ingveldur var ekki sett í varðhald fyrri en það ár, eða seint á árinu 1693.
Þegar Árni Magnússon gjörði jarðabókina fyrir Vestmannaeyjar árið 1704, býr Markús enn á hálfum Norðurgarði. Bú hans er þá svipað og hjá öðrum eyjarskeggjum: 1 kýr, 1 kvíga, 1 hross, 1 ær á Heimalandi, 5 ær í úteyjum, 5 sauðir og 7 lömb. Heimilismenn eru sjö.
Í jarðabókinni frá árinu 1695 er Markús hvorki talinn meðal bænda né tómthúsamanna, en þó virðist mega ráða það af jarðabókinni frá 1704, að hann hafi verið byrjaður búskap fyrir 1692, og aldur Höskuldar sonar hans bendir til hins sama, en hann mun hafa verið fæddur 1691.
Þess er getið í jarðabókinni, að Markús eigi fiskhjall í Skipasandi, sem hann hafi keypt fyrir einn ríkisdal af Pétri Vibe umboðsmanni. Hann fór af landi burt árið 1693, hálfgjört landflótta, eins og áður segir. Markús mun hafa flosnað upp frá búskap, þegar morðsmálið hófst árið 1693. Um annað fólk, sem kom við mál þetta, er ekki kunnugt fram yfir það, sem síðar segir.
Það skal tekið fram, að það er með öllu rangt, sem Espólín segir í Árbókunum, að Ingibjörg Oddsdóttir hafi eignazt barn með Hans Christiansen umboðsmanni, og fyrir þá sök myrt mann sinn. Engin rök verða fundin til þess, að Hans Christiansen hafi verið við mál þessi riðinn að neinu leyti. Hann mun fyrst hafa komið til Vestmannaeyja, er Pétur Vibe fór af landi burt árið 1693, og er það sagt beinlínis í Vallaannál.
Eftirfarandi frásögn er rakin eftir Lögþingsbókunum árin 1693, 1694, 1605 og 1696.

II.


Sunnudaginn 19. júní árið 1692 laust eftir embætti gekk Gísli Pétursson einn saman að heiman til þess að athuga fisk sinn, sem hann átti í fiskigarði uppi á Heimaey. Skömmu síðar fór Ingibjörg kona hans á eftir honum, en sendi vinnukonu þeirra hjóna, Steinunni Steinmóðsdóttur, til Ingveldar systur sinnar til þess að sækja hana. Á leiðinni heim til hennar mætti Steinunn Ingveldi, og gengu þær síðan báðar, þar til þær fundu Gísla og Ingibjörgu við kró nokkra. Var Gísli þá orðinn alldrukkinn, er þau hittust. Hafði Ingibjörg haft með sér brennivín, er hún fór eftir Gísla, og hafði gætt honum á því, en hann var mjög drykkfelldur.
Gengu þau síðan öll að annari kró þar nærri, og fóru þau hjónin og Ingveldur inn í hana, en Ingibjörg skipaði Steinunni einslega að staldra við úti og hafa gát á mannaferðum. Er inn í króna var komið, dró Ingveldur upp brennivínsflösku, og drukku þau öll þrjú úr henni. Gjörðist Gísli nú ákaflega drukkinn og seig á hann höfgi. Hallaði hann höfðinu upp að konu sinni, en hún stóð þá upp og fór út úr krónni, en bað Gísla að bíða meðan hún svipaðist um eftir lambi sínu. Í þeim svifum greip Ingveldur upp stein, sem lá í króardyrunum og færði hann í höfuð Gísla. Þaut hún síðan út, og hrundu þær systur í sameiningu krónni ofan á Gísla. Hjálpuðust þær systur og Steinunn síðan að við það, að dysja hann frekar. Krær þessar voru topphlaðin grjótbyrgi, einhlaðin.
Að kvöldi sunnudagsins voru menn farnir að undrast um fjarveru Gísla. Bauðst þá Brynjólfur Magnússon í Þorgerðarhjalli til þess að leita hans, en Ingibjörg latti hann fararinnar, svo að hann fór hvergi. Daginn eftir fannst lík Gísla eftir tilvísan Páls Jónssonar, ellefu ára gamals pilts, sem hafði séð tvo kvenmenn vera eins og að einhverju flýtisverki við klettinn, þar sem líkaminn fannst. Þar heita síðan Gíslaklettar, sem hann var myrtur.
Var Gísli hræðilega limlestur. Segir í þingsvitni, er tekið var 24. apríl 1693, að tólf áverkar hafi verið á höfði, ,,og annað eyrað nokkuð frá höfðinu aftanverðu rifið, höfuðskelin brotin, og mikið af heilanum útfallið, sem og aðrir fleiri smááverkar á höfðinu.“
Í fyrstu mun ekki hafa fallið grunur á þær systur. Segir í Fitjaannál, að sá orðrómur hafi gengið, að álfar muni hafa orðið honum að bana, vegna þess að hann hefði verið heitinn álfkonu, er hann átti kunningsskap við, en svikið hana í tryggðum.
Um þessar mundir var rík hjátrú alþýðu manna hér á landi, og er því ekki ósennilegt, að orðrómur þessi kunni að hafa orðið til þess, að dauða Gísla var lítill gaumur gefinn um sinn. Hvað, sem því líður, er víst um það, að rannsókn var ekki hafin fyrri en næstum því ári síðar, eða 24. apríl 1693, að Ólafur Árnason sýslumaður í Dölum þingaði í málinu á Hvítingaþingi. Í því réttarhaldi var Steinunn Steinmóðsdóttir yfirheyrð, og leidd nokkur vitni. Tvö vitni báru um áverka þá, sem voru á líkinu, og hefur áður verið sagt frá þeim.
Tveir menn báru það, að þeir hefði heyrt Steinunni Steinmóðsdóttur bendlaða við morðið á Gísla. Í Fitjaannál er þess getið, að Steinunn hafi fyrst komið á loft orðrómi um illvirki þeirra systra og hlutdeild sína í morðinu. En fleira mun þar hafa komið til, og stutt þann orðróm. Daginn, sem morðið var framið, sá ellefu ára drengur, Páll Jónsson að nafni, tvær konur við klett þann, sem líkið fannst við, og hefur þegar verið sagt frá því. Einnig hafði drengur á svipuðu reki og Páll, Halldór Árnason að nafni, verði á gangi nálægt þeim stað, sem líkið fannst. Hitti hann þar Steinunni Steinmóðsdóttur. Réð hún honum frá að ganga lengra í þá átt, og tók um leið hníf úr barmi sér og þrýsti hári sínu með honum undir trafið. Viðurkenndi Steinunn að hafa hitt Halldór á þessum slóðum og kvaðst hún hafa gengið með honum nokkurn spöl heimleiðis frá krónni.
Þá hafði Einar Brandsson séð Gísla sunnudaginn 19. júní á gangi með kvenmanni, er hann hugði að væri Ingibjörg kona hans. Ennfremur bar Sturla Einarsson það, að hann hefði séð Ingibjörgu ganga þaðan, sem menn fundu lík Gísla.
Í hinu fyrsta réttarhaldi komu ekki fram frekari upplýsingar um morðið, en þegar hefur verið frá sagt. Bárust nú böndin svo að Steinunni, að eftirmálsmennirnir, þeir séra Gissur og séra Arngrímur, bræður Gísla, héldu því fram í réttinum, að hún hefði valdið dauða Gísla bróður þeirra. Á þinginu var henni dæmdur tylftareiður til að sanna sakleysi sitt, en hún kom honum ekki fram. Fékk hún engan til þess að sverja með sér, að hún hefði engan þátt átt í dauða Gísla. Á þessu sama þingi „var tekið almennilegt rigti með lófataki um Steinunni Steinmóðsdóttur, að hana hefði heyrt rigtaða af þessum manndrápsverknaði, hvar upp á og svo lögðu eið tveir skilríkir bændur.“ Sá vitnisburður var Steinunni gefinn á þinginu, að hún hefði fengið „meinlauslega kynning upp á undanfarið athæfi.“
Síðan þingaði Ólafur Árnason að nýju í málinu 27. apríl næstan eftir, og skýrði Steinunn þar greinilega frá öllum atvikum, eins og áður er lýst. Bar hún það, að Ingibjörg Oddsdóttir hefði verið frumkvöðull að morðinu. Þá skýrði Steinunn frá því, að Ingibjörg hefði heitið á fátæka einhverju sinni, að Gísli yrði fjarverandi heimili sínu, „svo hún kynni til umboðsmannsins að komast.“ Steinunn var síðan flutt til Alþingis um sumarið, og var þar þingað yfir henni 1. júlí. Bætti hún þá við hinn fyrri framburð sinn, að Ingibjörg „hafi alvarlega af sér falað, að fyrirkoma Gísla sáluga Péturssyni, því hún gæti ei að því gjört, að hún gæti hann ei séð, þó hún væri rekin í gegn.“ Einnig sagði Steinunn, að Ingibjörg hefði haft í hótunum við sig, ef hún vildi ekki gjöra það. Mundi hún láta drepa hana, „þar hún svo mikið með hana ætti og hún væri sinn þénari.“ Síðan hafi Ingibjörg gefið henni tvo ríkisdali sunnudaginn næstan áður en morðið var framið. Um hlutdeild Ingveldar bar Steinunn það fram á þingi, sem haldið var að Hvítingum 28. apríl 1693, að hún „hafi í samráðum og samvitund verið með systur sinni Ingibjörgu, að Gísli sálugi Pétursson myrtur og líflátinn yrði, og þar um hafi nefndar systur samtök haft í Dönskuhúsunum í Vestmannaeyjum.“ Einnig skýrði hún frá hlutdeild Ingveldar um morðið sjálft. Það hefur áður verið rakið.
Þegar hér var komið rannsókn málsins, var Steinunn „til samtals færð við þær systur“ á héraðsþing, sem haldið var að Hvítingum 14. apríl 1694, og hélt hún þar enn staðfastlega við framburð sinn í málinu. Þær systur þrættu þverlega og neituðu framburði Steinunnar, „og sögðu lygi vera.“
Eins og áður hefur verið sagt, fór Ólafur Árnason í fyrstu með rannsókn málsins, en var, svo sem í upphafi segir, mágur Gísla, giftur Emerentíönu systur hans, og málið honum því of skylt. Einar Eyjólfsson var því á Alþingi 8. júlí 1693 skipaður setudómari í því af Kristjáni Müller amtmanni. Jafnframt var honum heimilað, að taka með sér út í Vestmannaeyjar af meginlandi eins marga menn og hann teldi við þurfa. Var honum og skipað að setja Steinunni þegar í varðhald vegna framburðar hennar í héraði og á Alþingi, og skyldi hann leita „úrræða og tilhlutunar prinsipalanna fullmektugs þar í Eyjunum, monsieurs Hans Christianssonar.“ En Ólafi Árnasyni var lagt á herðar að flytja Steinunni í varðhaldi aftur út í Vestmannaeyjar.
Einar Eyjólfsson, sem var sonur séra Eyjólfs Jónssonar á Lundi, hafði oft verið skipaður setudómari. Þótti hann skarpvitur maður og vel lærður um fornfræði alla og lög. Hann var mikill vinur Müllers amtmanns, og fékk veitingu fyrir Snæfellsnesssýslu árið 1695, en dó sama ár, 54 ára.
Á héraðsþingi að Hvítingum 14. apríl 1694 var málum þeirra Ingibjargar, Ingveldar og Steinunnar vísað til Öxarárþings. Með Steinunni varð ekki komizt til þings. Veiktist hún um það bil hastarlega, svo að henni var ekki hugað líf. Var hún „af sínum sóknarpresti afleyst og sakramenteruð, eftir mannlegu áliti að dauða komin, og auglýsti þá enn sem fyrr, að við sínar áður auglýstar lýsingar og framburð standa vilji, hverjar hún sagði allar sannar vera, vildi þar upp á glaðlega lifa og deyja.“
Málið var nú að nýju tekið fyrir í lögréttu 5. júlí 1694. Voru þær systur, Ingibjörg og Ingveldur, áður fluttar til Þingvalla, en með þeim voru mættir verjendur þeirra, Stefán Jónsson lögréttumaður og Brynjólfur Hannesson. Hafði Einar Eyjólfsson skipað Stefán 22. ágúst 1693, og virðist hann þá hafa verið staddur í Vestmannaeyjum. Mun hann strax eftir þingið 1693 hafa farið út í Vestmannaeyjar, til þess að halda áfram rannsókn málsins, en ekki eru þau próf fyrir hendi. Þá mun hann hafa dæmt Ingibjörgu tylftareið, er hún skyldi afsanna með áburð þeirra bræðra, séra Arngríms og séra Gissurs, að hún hefði myrt Gísla, en hún kom honum ekki fram, og var því talin fallin á honum 23. ágúst 1693.
Tók lögrétta nú til að vega og meta málavöxtu. Voru þessi atriði talin „Ingibjörgu heldur mót en með í málinu:
1. Auglýsing og framburður Steinunnar Steinmóðsdóttur. 2. Sýnileg blóðrennsla af framliðnum líkama Gísla sáluga, þá hans kona Ingibjörg þar að kom, og það af tveimur mönnum svarið, sem þar eru hreppstjórar á Eyjunum.“ 3. Framburður Brynjólfs Magnússonar, að hann hefði boðizt til að leita Gísla, en Ingibjörg fengið hann af því.
Ingveldi hafði einnig verið dæmdur tylftareiður. En á þingi, sem haldið var að Hvítingum 14. apríl 1694 „sóru öll hennar tólf eiðvætti henni á mót.“ Í því réttarhaldi bar vinnukona Ingveldar, Herdís Jónsdóttir, að sunnudaginn, sem Gísli var myrtur, hefði Ingveldur verið lengst af heima, en að áliðnum degi hefði hún ekki séð hana. Þó hefði það ekki verið langa stund. Um klæðnað Ingveldar þennan dag bar henni og saman við Steinunni Steinmóðsdóttur.
Var nú í lögréttu 6. júlí 1694 lagður dómur á mál þeirra allra. Um Steinunni Steinmóðsdóttur varð niðurstaða dómsmanna þessi: „Hverja hennar meðkenning lögþingismenn innan vébanda fullkomlega virða og álykta að vera sanna bevísing þar til, að fyrrtéð Steinunn Steinmóðsdóttir hafi í samvitund og samverknaði verið að morði Gísla sáluga Péturssonar, með þeim systrum Ingibjörgu og Ingveldi Oddsdætrum. Er því í herrans nafni endileg dómsályktun téðra lögþingismanna innan vébanda, að fyrrnefnd Steinunn Steinmóðsdóttir hafi sitt líf forbrotið, en straffsins tegund og þess executio (fullnæging) er af téðum dómendum sett undir tilhlutan og dispensationem (ráðstöfun) hans velb. kongel. Majst. amtmanns yfir Íslandi, herra Christians Müller.“
Um þær systur, Ingibjörgu og Ingveldi, var ekki kveðinn upp endanlegur dómur á þessu þingi. Voru dómsmenn staddir í hinum mesta vanda. Þótt þær væri hafðar í varðhaldi fannst enginn bilbugur á þeim. Neituðu þær stöðugt, að hafa átt nokkurn þátt í því að myrða Gísla. Segir í dómsástæðunum, að þær hafi verið „iðulega og í nákvæmasta máta, sem orðið hefur, bæði af andlegum og veraldlegum, yfirheyrðar og examineraðar, með margföldum áminningarfortölum.“ Þrátt fyrir það hafi þær „báðar og hvor um sig, sem berlega forhertar manneskjur, þrálega þverneitað, að valdar séu á nokkurn hátt í morðsverki eða líftjóni Gísla sáluga Pétursonar.“
Þótti dómsmönnum, með tilliti til vitnaframburðanna og játningar Steinunnar, sem „þeirra líf mætti sýnast hanga sem á einum þræði,“ en treystu sér þó ekki til þess að dæma þær til dauða, vegna þess að játning þeirra fékkst ekki. Nú voru verjendur þeirra systra, Stefán Jónsson, sem var verjandi Ingibjargar, og Brynjólfur Hannesson, sem var verjandi Ingveldar, spurðir að því, hvort þeir hefði nokkrar málsbætur fram að færa fyrir þær systur. Neituðu því báðir. Niðurstaða dómsins varð sú, að allt málefni þeirra systra var lagt „undir náð og ónáð vors allra náðugasta arfakóngs og herra, Kristjáns V.“ Var amtmanni síðan falið að koma málinu á framfæri og ákveða, hvar þær systur skyldi geymdar, þar til málinu væri lokið.
Eftir að dómar höfðu verið kveðnir upp, komu þeir séra Gissur og séra Arngrímur, fyrir lögréttu og fóru fram á vitnisburð lögréttumanna um það, hvort þeir hefði ekki sótt málið sæmilega „sem réttum eftirtalsmönnum byrjaði.“ — Var þeim gefinn sá vitnisburður, að þeir hefði „ærlega, skikkanlega, löglega og í forsvaranlegan máta procederað (sótt málið).“
Árið eftir var málið að nýju tekið fyrir á Öxarárþingi 4. júlí 1695. Var þá loks kveðinn upp endanlegur dómur yfir þeim systrum. Voru þær nú fluttar til Þingvalla aftur og enn að nýju yfirheyrðar. Var þar ekkert lát á þeim að finna, og segir í dómsástæðunum, að þær sýni „sig enn nú í forherzlulegum andsvörum og þverlegri neitun.“ Hljóðar dómsniðurstaðan á þessa leið: „Þar fyrir í nafni drottins, er lögmanna og lögréttumanna innan vébanda, endileg ályktun, að hér téðra beggja systra, Ingibjargar og Ingveldar Oddsdætra, eiðfalli beri hart og minnilega að straffast, þar svo aðskiljanlega merkileg líkindi og svarnar kringumstæður hafa í téðu morðsmáli fram farið og þess vegna fullkomlega dæma, að áðurtéð Ingibjörg Oddsdóttir, sem og hennar systir Ingveldur, skuli báðar og hvor um sig, fast og stórlega kagstrýkjast hér á Öxarárþingi, eftir tilsögn þeirra lögmannanna Sigurðar Björnssonar og Lauritzar Christianssonar. Og þar að auki skuli þær vera frá þessu Íslandi útlægur og öllum kringumliggjandi eyjum, og séu sjálfar í framkvæmd og útvegum hið allra fyrsta hér úr landi að koma, ef ei vilja síðar mót laganna ákvæði á það auka, á landinu friðlausar reiknist fyrir þverúð og óhlýðni mót þessum dómi.“
Strýkingin fór fram 6. júlí, eða tveimur dögum eftir að dómurinn var kveðinn upp. Áttu þær systur síðan að sigla um sumarið, Ingibjörg í Keflavík, en Ingveldur á Eyrarbakka, en þær fengu ekki far. Árið eftir (7. júlí 1696) kom mál þeirra systra enn fyrir alþingi. Höfðu engar ráðstafanir verið gjörðar um flutning þeirra burt úr landinu og sjálfar höfðu þær ekki getað fengið flutning. Ályktuðu því lögmenn og lögréttumenn innan vébanda, að standa skyldi við þann fyrra dóm, að þær skyldi sjálfar verða sér úti um far erlendis. Ef þær væri ekki farnar burtu á þriðja ári eftir að dómurinn var kveðinn upp, hefði þær fyrirgjört lífinu. Þetta var lagt fyrir sýslumanninn, þar sem þær kynni að dvelja, að tilkynna þeim hið allra fyrsta.
Eftir að þær Ingibjörg og Ingveldur höfðu verið hýddar á alþingi 1695, var þeim sleppt úr varðhaldinu, og flæktust þær til Vestfjarða, og dvöldu þar úr því til ársins 1698, að mál þeirra var að nýju tekið fyrir á alþingi, og þær dæmdar rétttækar, hvar sem þær næðust.
Hafði Ingibjörg þá eignazt barn með Árna Jónssyni í Barðastrandarsýslu, og var hann dæmdur í sekt fyrir það. Þetta sama ár var þeim komið af landi burt með frönskum hvalveiðamönnum og er sagt, að Ingibjörg hafi gifzt í Englandi. Talið er að séra Páll Björnsson í Selárdal hafi hjálpað þeim systrum að komast utan.
Með öðrum hætti er sagt frá burtför þeirra systra af landinu í handriti einu í safni Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn. Frásögnin er á þessa leið:
„Eftir annálum, skrifuðum af einhverjum manni á Vestfjörðum undir biskupanöfnum, er þetta eftirfylgjandi seinast í Skálholtsbiskupatíð, undir mag. Jóni Þorkelssyni, sem kallast að vera 33. Skálholtsbiskup. Hér stendur við árið 1702: Á þessa árs sumri með skipherra Páli Andréssyni, skipherra á Skutulshöfn, sigldi Vestmannaeyjakona Ingveldur Oddsdóttir, en hennar systir Ingibjörg sigldi með engelsku hvalveiðaskipi af Tálknafirði anno 1700.
Þessari Ingveldi kom í skip Sesselja Sæmundsdóttir á Hóli í Bolungarvík, með tíu ríkisdala undirgift fram yfir hafið.“ Þessi frásögn virðist sanni nær. Að öðru leyti er ekki kunnugt um afdrif þeirra systra.
Eins og áður getur, lá Steinunn Steinmóðsdóttir þungt haldin, er dómur féll í máli hennar á alþingi 1694. Árið eftir var hún flutt til alþingis, „kreppt í kláf, með mjög veikum burðum.“ Átti nú að fullnægja dauðadóminum, er hún var komin til heilsu. En skömmu eftir að hún var komin á Þingvöll, strauk hún úr tjaldi Magnúsar Kortssonar lögréttumanns úr Rangárvallasýslu, sem hafði haft hana í varðhaldi. Amtmaður lýsti þá eftir henni, 9. júlí 1695, og ákvað að hún skyldi rétttæk, hvar sem hún næðist, og skyldi þar fullnægja dauðadóminum. Henni er svo lýst í skjali þessu, að „flestum sýndist sem kreppt og kararómagi, og svo í yfirlit sem afskræmileg og sóttlera, nokkuð toginleit og gráföl, nokkuð rauðbirkin, með fatla hönd og hnífskurð þvert um innan til á hægra handlegg.“ Lítil gangskör mun hafa verið gjörð til þess að hafa uppi á Steinunni, og er sagt, að hún hafi lifað vestur undir Jökli til hárrar elli, undir dulnefni.

III.


Af framburði Steinunnar Steinmóðsdóttur er ljóst, að Pétur Vibe hefur verið meira en lítið riðinn við morðsmál þetta. Sagði hún beinlínis að þær systur, Ingibjörg og Ingveldur, hefði haft samtök í Dönskuhúsum að myrða Gísla, og þess gat hún einnig, að Ingibjörg hafi heitið á fátæka, að Gísli yrði fjarverandi heimili sínu, svo að hún gæti komizt til umboðsmannsins.
Virðist augljóst, að náið samband hafi verið milli þeirra Péturs Vibe og Ingibjargar eftir að hún giftist Gísla, en áður hafði hún átt barn með honum. Frásögn Steinunnar virðist vera sönn að öllu leyti, og verður ekki önnur ályktun af henni dregin, en að Pétur Vibe hafi átt upptökin að því, að þær systur frömdu þetta hermdarverk. Eftir að rannsókn málsins komst á rekspöl fór Pétur Vibe með skyndingu til Bessastaða, að því er virðist, til þess að leita ráða og hjálpar amtmanns í málum þessum, og þaðan fór hann til alþingis. Eftir þing sigldi hann síðan til Danmerkur, og kom aldrei síðan til Íslands, og er ókunnugt um feril hans þaðan í frá.
Skipun Einars Eyjólfssonar sem setudómara virðist gjörð af ráðnum hug. Var hann mikill vinur amtmanns og annarra Dana. Það er ekki einleikið, að í málinu er ekkert gjört til þess að upplýsa þátttöku Péturs Vibe í morðinu, enda þótt framburður Steinunnar bendi eindregið til þess að hlutdeild hans hafi verið svo áberandi, að full ástæða var til að höfða mál einnig gegn honum. Af því, hvernig Pétur Vibe hagar sér eftir að skriður komst á rannsókn málsins, má og vera ljóst, að hann hefur verið verulega hræddur um að hlutdeild sín mundi hafa ærið alvarlegar afleiðingar, og á það hefur hann ekki viljað hætta. Annars er það ekki einsdæmi í íslenzkri réttarfarssögu fyrri alda, að danskir menn slyppi vel við afbrot sín gagnvart Íslendingum.
Mál þetta vakti mikla athygli, eins og vænta mátti, og hefur Pétur Vibe fengið sinn dóm hjá almenningi, þótt honum auðnaðist að forða sér undan refsivendi íslenzkra dómstóla.