Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Leggjagrjótsdraugurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Leggjagrjótsdraugurinn færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Leggjagrjótsdraugurinn)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Leggjagrjótsdraugurinn.


Á leiðinni upp fyrir Hraun, skammt eitt ofan við Hvíld, er grjóthryggur, sem nefndur er Leggjagrjót. Þar hafði einhvern tíma verið drepinn mórauður hundur, og gekk hann aftur og gjörði mönnum, sem um veginn fóru eftir dagsetur, allskonar skráveifur.
Þegar Þorbjörn Arnbjörnsson var unglingur heima hjá föðurbróður sínum og fóstra, Ögmundi Ögmundssyni í Landakoti, var hann einhverju sinni sendur upp fyrir Hraun til þess að sækja þangað hangikjöt. Dvaldist honum lengi upp frá við leiki með börnunum þar, og var komið myrkur, er hann lagði af stað heimleiðis með hangikjötið í poka á bakinu. Bar ekkert til tíðinda fyrri en Þorbjörn var kominn rétt niður fyrir Hvíld. Heyrir hann þá að eitthvað kemur hlaupandi á eftir sér. Varð hann mjög hræddur, því að hann hafði heyrt margar sögur af Leggjargrjótsdraugnurn, og tekur til fótanna og hleypur allt hvað hann getur. En eftir því, sem hann herðir hlaupin þeim mun hraðar er hlaupið á eftir honum, og sá hann þann kost vænstan, að sleppa pokanum, svo að hann yrði léttari á sér. Létti hann ekki hlaupunum fyrri en hann var kominn heim í baðstofu í Landakoti, og þóttist eiga fótum sínum fjör að launa. Var hann þá svo móður, að hann var kominn að því að springa, enda hafði hann hlaupið svo hratt, að afturgangan náði honum ekki, og var hún þó á hælunum á honum alla leiðina. Morguninn eftir fann fóstri hans hangikjötið spölkorn fyrir neðan Hvíld og var það með ummerkjum.
Einu sinni var Einar sálugi Pálsson, sem seinast átti heima í Langholti, á leið upp að Ofanleiti að kvöldlagi, til þess að hitta Jónínu, unnustu sína. Þegar hann var kominn skammt upp fyrir Leggjagrjót, veit hann ekki fyrri til, en hundsafturgangan hleypur upp á bak honum og leggur fæturna fram yfir axlirnar. Varð Einari ákaflega bilt við, og reynir af öllum mætti að koma hundinum af baki sér, en hvernig sem hann lét, gat hann ekki losað sig við hann. Átti hann í þessu stríði við hundinn alla leið upp fyrir Norðurgarðshlið, en þá yfirgaf afturgangan hann loksins. Var þá mjög af Einari dregið, því hundurinn hafði þrýst fótunum að kverkum honum, svo að honum lá við köfnun, en hann gat með engu móti losað um tökin, svo var afturgangan hamrömm. Ekki varð Einari meint af viðureign sinni við drauginn, og aldrei varð hann var við hann síðan. En það sagði Einar, að varla hefði hann komizt í hann krappari en í þessari viðureign.
(Sögn Þorbjarnar Arnbjörnssonar).