Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Samferðamaðurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:22 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:22 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Samferðamaðurinn færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Samferðamaðurinn)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Samferðamaðurinn.


Ofanbyggjarar voru vanir að fylgjast að ofan eftir, þegar þeir fóru til skips að næturlagi á vetrarvertíðinni, sérstaklega þeir, sem réru á sama skipi, og var venja að þeir hittust hjá Norðurgarðshliði. Það var eitt sinn, þegar Pétur í Þorlaugargerði kom að Norðurgarðshliði, að hann sá mann skammt á undan sér á leið ofan eftir. Og með því að enginn var fyrir á staðnum, taldi hann að hinir hefði rölt af stað, þó hann væri ekki kominn. Hann hélt því strax áfram og gekk rösklega til að ná í samferðamanninn. Snjór var á jörðu og dimmt af nóttu. Þegar hann hafði gengið góðan spöl, þykir honum kynlegt, að ekki skuli draga saman með honum og manninum, sem var skammt á undan honum. Hann hvetur nú sporið og hleypur við fót. Þegar það dugar ekki, hugsar hann með sér, að þetta skuli ekki svo til ganga. Setur hann nú á sprett, og hyggst að ná manninum í einu kasti, en allt fer á sömu leið, það dregur hvorki sundur né saman með þeim. Pétur var röskleika maður og ekki fyrir að láta hlut sinn að óreyndu. Þótti honum því hart að verða að gefast upp við að ná mannskömminni. En það er sama hvaða ráðum Pétur beitir, þessi undarlegi maður er alltaf jafnlangt á undan honum, hvort sem hann gengur, eða hleypur, eins og mest hann má. Gekk þetta alllengi, en allt í einu stakk Pétur við fótum og sér nú, að ekki muni allt með felldu. Sér hann nú, að hann er kominn fram á Kaplagjótubarminn, og að þessi undarlegi förunautur gengur beint upp Tíkartærnar.
Pétur var ekki vanur að koma of seint til skips, en nú þykist hann sjá fram á, að svo muni fara að þessu sinni, og jafnvel að hann muni verða af sjóferðinni, því ekki var að vita, hvað lengi hann hafði verið undir áhrifum þessarar óheillaveru, sem hafði ginnt hann eins og þurs í þessar ógöngur. Hann brá því við og hélt sem skjótast skemmstu leið í Sandinn. Og þrátt fyrir þessa leiðinlegu lykkju, sem hann hafði lagt á leið sína, kom hann þangað jafnsnemma félögum sínum. Voru þeir að koma hjá Londonsgarðinum, þegar hann kom að Vertshúsinu. Má af því marka, að hann hefur verið fljótur í förum að þessu sinni, enda var honum létt um sporið á þeim árum.
(Eftir handriti Kjartans Jónssonar. Hér er ekki ráð fyrir gjört, að Olnbogadraugurinn hafi verið að verki, og er frásögnin hér nokkru fyllri)