Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Ljósstjörnurnar. Vitrun Guðmundar Bekk

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. nóvember 2011 kl. 15:43 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. nóvember 2011 kl. 15:43 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


Ljósstjörnurnar. Vitrun Guðmundar Bekk.


(Eigið handr. hans sjálfs, veturinn 1916).


Guðmundur Einarsson Bekk er þriðji maður frá Ísfeld snikkara skyggna. Hann er maður áreiðanlegur og mun enginn rengja frásögn hans, og því bað ég hann um eiginhandarrit af vitrun þessari, sem hér fer á eftir orðrétt:
„Veturinn 1911—12 var ég veturvistarmaður hjá Ólafi Jónssyni í Garðhúsum í Vestmannaeyjum. Húsið átti hann og bróðir hans, Einar að nafni, og bjuggu þeir í því ásamt mági sínum, Guðmundi trésmið Magnússyni, og einum leigjanda. Húsið var stórt, byggt á steyptum grunni, sem myndaði hina neðstu hæð. Síðan var fullkomin vegghæð og hátt ris, svo húsið mátti nærri heita tvílyft. Neðsta gólfi eða kjallara, sem svo var nefndur, var skipt í fjóra hluta með gangi í miðju, og var eldhús Guðmundar í öðrum enda, en Ólafs í hinum, og geymslur þar innar frá. Eldhús Ólafs var í norðvesturhorni hússins; voru á því tveir glergluggar, er sneru móti norðri. Í því rými svaf ég. Var rúm mitt í horninu til vinstri handar við annan gluggann. Á næsta lofti uppi yfir, var eldhús Einars. En svefnhús húsbænda minna var við hliðina á því, eða í suðvesturhorni hússins. Allan fyrri hluta vetrar gengu austan stormar, þótt yfir tæki fyrstu daga janúar. Hinn 4. janúar slitnuðu nokkrir bátar upp af höfninni og rak þá inn í Sand, sem kallað er, og er fyrir hafnarbotninum. Bátur húsbónda míns missti stýrið og bilaði lítið eitt meira, svo formanninum, Stefáni Ólafssyni á Fagurhól, og eigendunum kom saman um að færa bátinn af höfninni, 5. janúar, yfir undir Heimaklett innan verðan, því þar var meira skjólið, enda var hann þar á þurru um fjöru, en á floti um flóð og höfðum við hann þar vogbundinn milli stórra kletta og lágum í honum yfir hvert flóð, til að gæta hans, formaðurinn, hásetarnir og ég. Gengum við þaðan inn fyrir Botn og heim, er við þurftum eigi að gæta hans lengur í það og það skiptið.
Aðfaranótt hins 6. janúar fórum við frá bátnum kl. að ganga eitt um nóttina. Þegar við komum heim undir frystihús Eyjabúa, mæta okkur menn með ljósker í höndum, er segja okkur, að menn af svokölluðum Vertshúsbát séu drukknaðir. Hafi þeir ætlað út í vélbát á höfninni á litlum bát norskum (skektu), en honum víst hvolft og sé einn maður þegar fundinn. Skiptumst við fáum fleiri orðum á, og héldu hvorir sína leið. Þegar ég kom heim, kveikti ég ljós á vegglampa, sem hékk yfir borði, er stóð við höfðaenda á rúmi mínu. Þvoði ég mér svo og borðaði mat, sem beið mín, og bjóst að því búnu að leggjast fyrir. Þegar ég var kominn úr jakkanum, sný ég mér að rúminu, til að fletta ofan af því ábreiðunni. En þá sé ég jafnhátt augum mínum tvær blikandi fagrar stjörnur, á stærð við krónupeninga, miklu hvítar og skærari en lampaljósið, sem hékk, er svaraði tveim álnum frá hægri öxl minni og logaði enn skært.
Mér varð bilt við og snéri mér frá rúminu, en þó þegar að því aftur og sé hið sama yfir miðju rúminu. Gugna ég þá enn meir og dettur nú í hug að fara til Ólafs. En er ég kem fram á mitt gólfið, kemur þessi spurning óvænt í huga mér: „Getur það verið, að þetta standi í sambandi við manntjónið?“ Vík ég mér svo enn að rúminu, sem stjörnurnar glitruðu enn yfir. Er þá sem stýrt sé af vörum mér þessum orðum: „Finni ég ykkur með morgninum, skal ég sjá um að þið verðið bornir upp.“ Á sama augnabliki er sýnin horfin og ég orðinn fullkomlega rólegur. Hátta ég og svaf vært til morguns, klukkan að ganga átta.
Nú fór ég hina sömu leið til bátsins okkar. Þegar ég var kominn lítinn spöl vestur fyrir frystihúsið, mæti ég manni og töluðumst við við. En þá komum við báðir jafn snemma auga á tvö lík, er lágu í litlu sandviki niður undan Landlyst. Af einhverjum ástæðum virtist mér maðurinn hafa beig af að eiga við líkin, eða eigi finnast þess full þörf. En af ástæðum, sem lesandinn rennir grun í, var mér áfram um að bera líkin upp. Féllst hann þá fljótt á það, og bárum við svo líkin nokkra faðma upp að veginum. Þar beið ég hjá þeim meðan maðurinn sótti menn með vagn, er fluttu líkin heim.
Mér þótti leitt að geta ekki atburðar þessa í Vestmannaeyjum, sem orsakaðist mest af því, að ég þóttist þar verða var við óhug og myrkfælni, sem ég hefi verið alveg laus við um dagana. Aftur hefi ég sagt hann hér nokkrum mönnum, sem ég veit að rengja mig ekki. Ritað í marz 1916.

Guðmundur Bekk.“

(Sigf. Sigfússon: Ísl. þjóðsögur III. 14—16)