Blik 1936, 1. tbl./Úr skólaslitaræðu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 17:14 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 17:14 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1936


ÚR SKÓLASLITARÆÐU


Eftir ÞORSTEIN Þ. VÍGLUNDSSON skólastjóra


Nemendur á ykkar aldri, og þó eldri séu, hugsa æði mikið um prófeinkunnir. Og mig grunar, að hræðslan við þær aftri hér blátt áfram sumum unglingum frá framhaldsnámi. Það er illa farið, ef svo er, því að eins og við höfum oft áður minnzt á, þá lærum við fyrst, og fremst fyrir lífið, þótt próf hafi hins vegar reynzt nauðsynleg hjálpartæki, ef svo mætti segja, til þess að skerpa viljann og auka kappið.
Þótt einkunnir þær, sem þið hafið hlotið, séu æði misjafnar, geta þær allar, hinar lágu sem hinar háu, verið ykkur hvatning, ef rétt er á litið.
Til ykkar, sem hlotið hafið háu einkunnirnar, vildi ég segja þetta: Kappkostið að halda þeim í skóla lífsins, ekki fremur en verða vill fyrir dómi mannanna, heldur umfram allt fyrir dómi ykkar eigin samvizku. Leggið alúð við hana, en daufheyrizt ekki við röddu hennar, þá mun ykkur ávallt takast að gera mun á réttu og röngu. Og í ljósi trúarinnar munuð þið þá finna til hins guðdómlega samhengis í lífinu. Ályktanir hennar munu leiða til þess sannleika, sem sigrar að lokum.
Þið, sem hlotið hafið lægri einkunnirnar, skoðið þær ekki réttan mælikvarða á manngildi ykkar og manndóm. Látið því ekki hugfallast. Það sannast mjög oft, að starfshæfni mannsins kemur ekki í ljós við prófborðið. Margt próflágt ungmenni hefir orðið hinn nýtasti maður í þjóðfélaginu. Og það vona ég, að sannist á ykkur. Sá orðstír er sú einkunn, sem mest er um vert. Og verið þá fyrst og fremst trú yfir litlu.
Þið hafið langflest gert eins og þið hafið getað, og reynzt okkur prýðilegir unglingar, siðprúðir, duglegir og ástundunarsamir.
Við kennararnir megum því gleðjast og þakka ykkur. Slíkir ágætir eiginleikar nemenda gera kennslustarfið auðveldara og skemmtilegra, og það er aðdáan­legt, hvað sum ykkar hafa lagt mikið á sig og afkastað miklu.
Börnin og unglingarnir bera heimilum sínum, foreldrum og skólum vitni.
Dýrmætasta eign skólanna, eins og foreldranna, eru góð börn, góð, dugleg og siðprúð ungmenni.
Við Íslendingar metum mjög mikils miklar gáfur. Það er ofureðlilegt, svo gáfuð sem þjóðin er. En sá tími mun og koma, að hún lærir að meta sem vert er viljastyrk og siðgæðisfestu. — Við lifum á ógnaöld. Sterkir straumar aukinnar áfengisnautnar flæða um landið. Við vitum það, að í kjölfar hennar fer margt annað illt. Hún drepur svo margt nýtilegt og gott, og leiðir fjölda góðra ungmenna á villigötur, gerir þau að mannleysum og ræflum. Ég minnist margra fluggáfaðra æskumanna frá skólaárum mínum. Það hryggir mig að hugsa til þess, að sumir þeirra — alltof margir — hafa farið í hundana, sem stundum er kallað, fyrir skort á siðgæðisfestu og orðið áfengisnautninni að bráð.
Þegar ég var drengur, var mér sagt, að ég gengi hana móður mína ofan í jörðina, ef ég gengi aftur á bak. Auðvitað finnst ykkur það fjarri öllum sannleik. Ég hefi stundum um þetta hugsað síðan, og ég hefi komizt að þeirri niðurstöðu, að það má færa þetta til sanns vegar — í óeiginlegri merkingu. Mér fljúga í hug æskumenn, sem eiga þess kost að læra eitthvað, sem auka má manngildi þeirra og gera þá hæfari þjóðfélagsþegna. Þeir byrja nám, en hætta svo í miðjum klíðum sökum leti eða viljaleysis, eða gutla við eitthvert tímanám til málamynda. Aðrir hverfa í sollinn og siðleysið svo fljótt, sem þeir geta losnað undan vernd móður sinnar. Áfengisstraumurinn og annað, sem honum er samfara, hirðir þá og skolar þeim fyrr eða síðar ofan í „göturæsin.“
Í staðinn fyrir það að sækja fram, eins og dugleg og þróttmikil ungmenni þrá, þá ganga þessi ungmenni aftur á bak. Þau ganga hana móður sína ofan í jörðina, og sig um leið auðvitað. Slík ungmenni þreyta svo og særa mæður sínar, sem hafa fórnað öllu fyrir þau og annazt þau með ástríkri móðurumhyggju, að það gengur næst lífi þeirra. Þær eldast um ár fram. Sú þraut styttir líf þeirra. Ekkert getur verið eins voðalegt fyrir góða móður eins og það, að vita barnið sitt grotna niður í sorapyttum þjóðfélagsins. Og ekkert má fremur gleðja góða móður og lengja líf hennar en það, að vita barnið sitt, sem hún elskar, kappkosta að verða sem nýtastur maður og öruggur um vilja og siðgæði, hvaða freistingar sem verða á vegi þess.
Við ykkur stúlkurnar vildi ég geta þess, að mér hefir stundum verið það ráðgáta, hvernig ungar og óspilltar stúlkur geta brotið odd af oflæti sínu og myndað samlíf við pilta, sem drekka, eða gefið sig á vald þeirra á hvaða hátt, sem það er, þó að þær sjái og þekki ævi drykkjumannskonunnar, eins og hún er yfirleitt. Á nokkur kona bágara í þjóðfélaginu? Hvað er fátækt — sem þó oftast fylgir áfengisnautninni — hjá þeim voða hörmungum. Stúlkur! Það er að fljóta sofandi að feigðarósi, grafa sig lifandi.
Varizt vondan félagsskap og eiturlyfjanautnir.
Ég vil enda þessi orð mín til ykkar með orðum séra Magnúsar Helgasonar fyrrverandi kennaraskólastjóra — hins mæta skólamanns, og óska þess, „að skóli lífsins, sem þið eigið nú fyrir höndum, geri ykkur æ glöggskyggnari á það, sem gott er og fagurt í mannlífinu, og fundvís á hvern góðan neista í sjálfum ykkur og öðrum . . . og um fram allt næmari á hin eilífu algildu sannindi, sem ein geta svalað okkar dýpstu þrá, og leitt okkur að því takmarki, sem okkur er ætlað að ná; þá gangið þið gæfugötu, á guðs vegum, hvort sem brautin verður annars greið eða torfær, lífsgangan létt eða þung.“

Þorsteinn Þ. Víglundsson.