Blik 1939, 5. tbl./Afreksverk

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. júní 2023 kl. 19:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. júní 2023 kl. 19:57 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Guðfinna Stefánsdóttir:

Afreksverk.

Siggi gekk í hægðum sínum niður bryggju. Það var blæjalogn og sólin sendi síðustu geisla sína á klettinn, sem gnæfir upp úr sjónum, andspænis bryggjunni. Siggi var heillaður af blíðu kvöldsins. Bláu augun hans ljómuðu af hrifningu.
Siggi var meðalstór drengur, á að gizka 15—16 ára, með stór, gáfuleg augu og hvelft enni. Hann var berhöfðaður, og hinir ljósu lokkar hans liðuðust niður með gagnaugunum og minntu á öldur hafsins, þegar sólin skín á þær.
Móðir hans var ekkja. Hún hafði misst manninn sinn, þegar Siggi var á fyrsta árinu. Síðan hafði hún unnið fyrir sér og drengnum sínum, sem nú var eina gleðin hennar í lífinu.
Þarna stóð nú Siggi með hendur í vösum og leit yfir höfnina og tvo smádrengi, er voru á báti skammt frá bryggjunni. Annar þeirra var auðsjáanlega óvanur að róa, því að hann datt hvað eftir annað aftur yfir sig af þóftunni. En hinn var víst að kenna honum. Siggi horfði brosandi á drengina. Jæja, nú missti klaufinn árina. Drengurinn lagðist út á borðstokkinn og teygði sig eins langt og hann gat, en æ, nú datt hann sjálfur á eftir henni. Hinn drengurinn rak upp óp og fór að hjálpa stallbróður sínum, en þá hvolfdi bátnum og nú busluðu báðir drengirnir í sjónum örvita af hræðslu. — Siggi hafði horft á þetta með öndina í hálsinum og beið nú ekki lengur boðanna, heldur steypti sér, eins og hann stóð, í sjóinn til þess að bjarga drengjunum. Annar þeirra hafði náð sér í ár og hélt sér þannig uppi, en hinn var í kafi. Siggi stakk sér í kaf og kom von bráðar upp með drenginn meðvitundarlausan. Hann synti þegar með hann að bryggjunni. — Margir menn höfðu safnast á bryggjuna, meðan á þessu stóð, og tóku við drengnum hjá Sigga. Síðan synti hann aftur til hins drengsins og kom með hann að vörmu spori. En þá var Siggi orðinn svo þreyttur að það þurfti að hjálpa honum upp á bryggjuna. Menn þeir, er nærstaddir voru, létu í ljós hrifningu sína yfir dugnaði Sigga og sundkunnáttunni. Hann gekk nokkur skref áfram um leið og hann leit brosandi til mannanna, en þá hneig hann meðvitundarlaus niður. Hann var nú borinn heim til sín, og tók móðir hans þar við honum. Það gladdi hana að frétta um þetta afreksverk Sigga.
Hann varð að liggja rúmfastur um nokkurn tíma, því að hann hafði ofreynt sig. — Daginn eftir komu báðir drengirnir og faðir annars þeirra og þökkuðu Sigga fyrir þá miklu dáð, er hann hafði sýnt. Faðir annars drengsins var kaupmaður og bauð Sigga stöðu hjá sér, þegar hann hefði náð sér aftur.

G. S. II. b.