Blik 1972/Endurminningar frá hákarlaferðum
„Hákarlatúrar“ var það kallað hér í daglegu tali, þegar farið var í hákarlalegur. Þær voru mikið stundaðar hér á opnum skipum á tímabilinu
1860-1888. Eftir þann tíma virtist hákarlinn tregast. Lifrin, sem eingöngu var sótzt eftir, var þá í lágu verði, og voru menn þá síður fúsir til að leggja á sig slíka vosbúð og hættu, sem samfara var hákarlaveiðunum.
En karlmannlegt þótti það jafnan að fara til hákarla eða koma úr hákarlaferðum. Ég man glöggt, hvað andlit sjómanna okkar voru með miklum gleðisvip, þó að svört væru af kolareyk og sóti úr skinnstökkunum, sem héngu að jafnaði uppi í útieldhúsum, þegar þeir voru ekki notaðir. Utan á sótlaginu á andlitinu var svo ef til vill sjávardrif eftir langar siglingar. Augun voru rauð af vökum í tvo sólarhringa samfleytt við mikla áreynslu.
Oft skipuðu sjómenn þessir upp mikilli lifur, sem þeir báru í málum á kaðalbörum til búða (verzlananna). Þar stóð formaður bátsins og taldi lifrartunnurnar með búðarmanni. Margt hraut þá spaugsyrðið.
Bátar þeir, sem notaðir voru í þessar ferðir, voru 6- og 8-æringar frá 26-33 feta langir milli stafna. Þeir voru hin svokölluðu vertíðarskip, sem goldið var eftir 4 hlutir (mannshlutir). Þau höfðu fjórar árar á borð (8-æringar), en bátar hétu þau, er teknir voru eftir 3 hlutir og
höfðu þrjár árar á borð (6-æringar). Allir bátar minni en þessir voru kallaðir jul, hvort sem goldið var eftir þá 2 1/2 hlutur eða aðeins 1 hlutur.
En auk þeirra hluta, sem teknir voru eftir þessa báta í venjulegum fiskiróðri, var tekinn einn beituhlutur eftir hákarlatúrinn eða tveir beitu- og sóknarhlutir saman, en sókn var hér í merkingunni legufæri, þ.e. 120 faðma tóg til að liggja við með akkeri og forhlaupara, 5-6 faðma langri festi eða keðju milli akkerisins og legufærisins (tógsins) og svo handfæri (handvaður) sver með lóði (sökku) og öngultaumi úr mjórri keðju 2-3 faðma (4-6 metra) langri. Þessi tæki áttu skipaeigendur (hákarlaskipanna) að hafa til reiðu ásamt 3-4 skutlum (hákarlaskutlum), 4 hnífum (hákarlasveðjum) með 3/4 alin (45-50 sm) löngu blaði vel eggjuðu á svo sem 2 álna (125 sm) löngu skafti. Þá fylgdi þar með hákarlsdrepur, sem var tvíeggjaður hnífur 3/4 alin á lengd í 3 álna löngu skafti. Þá kom þar til eitt eggjárnið enn, - tromphnífurinn, sem var eggjaður „húllkíll“ (eggjað bugjárn ), sem stungið var gegnum haus hákarlsins þannig að gat varð þar í gegn.
Mjó festi lá undir hákarlsskipinu þversum, fest beggja vegna undir langband eða sigluþóftu. Var þó annar endi hennar lauslega festur. Við þann enda var bundið snæri, sem þrætt var gegnum gatið á hákarlshausnum með mjóu skafti, og var rauf í enda þess fyrir snærisendann, þegar þrætt var gegnum hákarlshausinn. Þessi spýta var kölluð trompskaft. Til þess að lempa snærið í gegnum gatið var notaður knúbakki, sem var gildur og sterkur stálkrókur í álnarlöngu tréskafti. Seig svo hákarlsskrokkurinn niður á trompfestina (keðjuna, sem lá undir kjöl skipsins). Þess voru dæmi, að á trompfestina var safnað allt að 50 hákarlsskrokkum, sem þræddir voru á hana á þennan hátt. (Annars staðar á landinu var þetta kallað að setja á tamp og trompfestin kölluð tampur, og gat hann einnig verið kaðall eða tóg. - Þ.Þ.V.).
Þegar halda skyldi heim, var öðrum enda trompfestarinnar sleppt út fyrir borðið og hún dregin inn í skipin á hitt borðið og drógust þá hákarlsskrokkarnir af festinni.
Að minnsta kosti þurfti einn tromphnífur að fylgja hverju hákarlsskipi, þrír knúbakkar, tvær ífærur, sem voru stórir og efnismiklir járnkrókar með kaðli, en án agnhalds.
Vatnskútur (kvartel) fylgdi hverju hákarlaskipi. Einnig komfyr og kaffiketill og 4-6 „krúsir“ (krukkur eða „fantar“) til þess að drekka kaffið úr.
Að síðustu skal því ekki gleymt, að 6-8 potta (lítra) kútur af brennivíni var hafður með í hverja hákarlalegu (hákarlatúr).
Allt þetta þurftu formenn að hafa í standi og á vísum stað, hvenær sem til þurfti að taka á tímanum frá veturnóttum til vordaga. Þá þurfti einnig að eiga næga beitu, þ.e. hrossakjöt hangið og svonefnt blóðkjöt. Það var hrossakjöt, sem á blóðvelli var látið í ílát, þegar hross var slegið af, ásamt blóðinu, sem hirt var til að geyma það í. Flestir létu ögn af rommi í blóðið, svo að það rotnaði síður. Þá var einnig oft smáselur ýldaður 2-3 mánuði, heill með innyflum, t.d. látinn í fjós, svo að hann gæti úldnað sem mest og kuldi ekki kæmist að honum. Af öllu þessu var hin sterkasta og versta ólykt og ekki sjóveikum hent að vera nálægt, er þetta var matreitt fyrir hákarlinn. Það verk var ætlað einhverjum þeim manni, sem ekki var talinn liðugur í snúningum til þess að fást við dráp eða skurð hákarlsins. Þá þurfti sá hinn sami að kunna að skera og laga beituna eftir vild fiskimannsins. Og brjóstheill þurfti hann að vera og laus við sjóveiki.
Einnig var notað í beitu saltað selsspik. Þá var skinnið haft með spikinu til þess að beita héldist betur á önglinum. Beitan var skorin í smáferhyrninga og „þrædd“ upp á allan öngulinn upp að sigurnagla. Venjulega var svo haft þríhyrnt þykkildi á oddi öngulsins. Gallpungur var og hafður, þegar hákarl var fenginn, svo og blóðkjötsstykki eða úldinn selsbiti. Öngullinn var beittur þannig, að annar bitinn var reykt hrossakjöt en hinn saltað selsspik.
Venjulega var tveim sóknum (færum) rennt sinni á hvort borð. Þó voru stundum notaðar þrjár sóknir til að byrja með til þess að gera meiri brá í sjóinn til að hæna hákarlinn að.
Bátaábyrgðarsjóðurinn valdi á hverju ári þrjá menn til þess að yfirlíta vetrarvertíðarskip, segl og siglutré og legugögn og svo áhöld þau, sem nota átti við hákarlaveiðar. Gefa skyldu þeir skriflega skýrslu um ástand hvers skips. Legutóg voru reynd þannig, að annar endi tógsins var bundinn fastur, en 12 frískir menn fóru í hinn endann og tóku á sem orkuðu. Væri um sóknarfæri að ræða (handvaðsfæri), toguðu þrír valdir menn í endann eins og þeir orkuðu. Hvort tógið fyrir sig var þá álitið ófúið, ef ekki slitnaði við átökin.
Flestir hákarlaformenn höfðu sérstakar gætur á, ef einhverjir kölluðu til hákarlaveiða. Ástæðan fyrir þessu var sú staðreynd, að alltaf vildi reynast þýðingarlaust að liggja með handvað í nálægri tíð í námunda við þau mið, þar sem hákarlsskrokkum hafði verið sökkt. Frá þeim miðum þurfti að liggja býsna langt, ef hákarlstúrinn ætti að skila nokkrum árangri. Væri t.d. hákarlsskrokkum sökkt fyrir sunnan Geirfuglasker, væri helzt ekki gerandi að fara styttra frá þeim stað en austur fyrir Holtshraun. Það var trú manna, að hákarlinn lægi yfir dauðum hákarlsskrokkum og æti þá, og á meðan liti hann ekki við beitu, þó að það væri blóðúldið hrossakjöt eða selsspik vætt í rommi. Einnig var sú kenning við lýði, að hákarlinn yrði sjúkur af að éta meðbræður sína og liti ekki við beitu af þeim sökum. Það kom oft fyrir, ef óvanir menn sátu undir sókn, eins og það var nefnt, og smávaxnir hákarlar bitu á öngulinn, að ekki var nema hausinn á önglinum, þegar upp var dregið. Þeir hinir lifandi höfðu þá étið þann, sem fastur var, án þess að maðurinn, sem undir sókninni sat, yrði þess var. En ekki þótti sá vaðarvanur, eins og komizt
var að orði, sem þetta lét henda sig, enda þótt vitað sé, að hákarlinn fari flestra fiska hægast að við hinn beitta öngul. Hjá vönum hákarlamönnum kom þetta ekki fyrir.
(Heimild: Skrásetning mín eftir munnlegri frásögn G.L svo og minnisbók hans).