Blik 1972/Víða liggja leiðir og vegamót

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. september 2010 kl. 18:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. september 2010 kl. 18:30 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



EINAR SIGURFINNSSON:


Víða liggja leiðir og vegamót


Þessi aldraði vinur allra Vestmannaeyinga, Einar Sigurfinnsson, sem nú býr í Hveragerði, sendir Bliki þessa grein til birtingar. Um leið tjáir hann okkur hinn hlýja hug sinn til fólksins hér, aðdáun sína á húsmæðrum Eyjanna, myndarskap þeirra og gildi hins mikilvæga starfs góðrar móður og húsmóður.
Framtíð æskulýðsins íslenzka verður honum bænarefni og hann minnist drengjanna, sem með honum störfuðu í K.F.U.M. Einar Sigurfinnsson gleðst innilega yfir velgengni Eyjabúa og mennilegri framþróun kaupstaðarins. Blik óskar honum og öllu hans fólki allra heilla.

Þegar löng leið hefur verið gengin, verða skrefin þung og stutt. Þá reikar hugurinn til kennileita og vegamerkja, sem á leiðinni urðu. Málefni, viðburðir og menn, sem orðið hafa á vegi manns á ferðalaginu, verða einskonar vörður, sem hugurinn staldrar við. Þar er svipast um.

Einar Sigurfinnsson.

Ég er einn þeirra ferðalanga, sem hef nú gengið alllanga leið, en flest eru sporin ógreinileg eða falin undir fönn.
Dvalarstaðir mínir hafa verið: Meðalland, Biskupstungur, Vestmannaeyjar og nú Hveragerði. Auk þess stutt viðdvöl í Reykjavík.
Fæddur er ég í Meðallandi árið 1884 og átti þar heimili fyrri hluta ævinnar, alls 42 ár. Skaftafellssýsla er þess vegna mín ættar-, æsku- og aðalathafnaslóð. Hún á því ríkust ítök í huga mínum. Um viðburði, athafnir og heimahætti þar hef ég skrásett allmikið. Sumt af því er prentað í tímaritum. Annað er í handriti syrpu minnar.
Úr Skaftafellssýslu flutti ég til Reykjavíkur, þar sem ég átti heima í þrjú ár. Fátt er um þau ár að segja. Vinna stopul og óviss. En þá gerist sú saga, að sonur minn, Sigurbjörn, hefur skólanám sitt, sem hefur orðið gifturíkt og mér mikið ánægjuefni. Og þá var ég leiddur á fund þeirrar konu, sem síðan hefur verið tryggur förunautur minn og blessun lífs míns í 43 ár.
Svo tekur við 26 ára búseta í Iðu í Biskupstungum, lengst af sem útlendingur við lítil kynni af sveitungunum nema næstu nágrönnum, enda var bústaðurinn í útjaðri sveitarinnar og aðskilinn með slæmri torfæru, sem oft tafði og hindraði samskipti manna. Þá gerðist það, sem ég tel mér eitt af mikilvægum höppum ævinnar: Ég gerðist félagsmaður goodtemplarastúkunnar Bláfells og tók eftir getu þátt í starfi hennar öll þau ár, sem það varaði. Þar átti ég samleið með góðum félögum á ýmsum aldri og ánægjulegar stundir, þó að fundarsókn væri mér erfið. - Vegna starfs míns, þó að lítið væri, í því ágæta félagi eignaðist ég nokkra trygga vini í öðrum landshlutum, því að stundum var ég fulltrúi stúku minnar á þingum Reglunnar. - Já, templarareglan, aldrei get ég oflofað þá heillastund, þegar ég gekk henni á hönd fyrir 65 árum. Og víst er um það, að betri væri hagur og horfur okkar kæru þjóðar, ef hugsjónir Reglunnar og heillaverk hefðu verið metin sem skyldi, hagnýtt og í heiðri höfð.
Að ýmsu leyti var erfitt að búa að Iðu. Heyskapur seintekinn, samgöngur stirðar og lögferjan þung kvöð og stundum nokkur hætta henni samfara. Þó tel ég gott að eiga þennan kafla ævinnar í minningunum. Vegna hans er ég margri reynslu ríkari.
Á Iðu-árum mínum voru stórhátíðir þjóðarinnar haldnar og að megin hluta innan Árnessýslu : Alþingishátíðin 1930 og Lýðveldishátíðin 1944. Og sú þriðja var í aðsigi: 9 alda afmælisminning biskupsstóls í Skálholti. Síðasta sumarið mitt að Iðu var hafinn undirbúningur þeirrar hátíðar. Þá hófst endurbygging á kirkju staðarins og íbúðarhúsi, og hefur það framtak heppnazt vel eins og merkin sýna. Þá var líka m.a. gjörð ýtarleg rannsókn með uppgrefti á grundvelli og undirstöðum eldri dómkirkna þar á staðnum, legstöðum biskupa o.fl. Því verki öllu stjórnaði fornminjavörður, núverandi forseti þjóðarinnar, herra Kristján Eldjárn. Varð ég honum þá nokkuð kunnugur, - og að góðu. Þau kynni okkar stöfuðu af því, að ég var þá safnaðarstjóri Skálholtssóknar. Þetta heillaverk, sem þá var unnið í Skálholti, heldur enn áfram til heiðurs og gæfu landi og þjóð.
Og nú var svo komið, að búskapurinn var orðinn mér um megn. Einkasonur okkar hjóna var kvæntur og farinn í burtu frá okkur, - fluttur til Vestmannaeyja. En þar hafði hálfbróðir hans búið um allmörg ár, sonur minn frá fyrra hjónabandi.
Þetta voru tvær taugar, sem toguðu okkur öldruðu Iðu-hjónin út yfir Eyjaálinn. Oft hafði ég séð hamraborgir Vestmannaeyja suður undan Landeyjasandi, m.a. í smalagöngum af Vörðufelli. Og í „útsker það“ var ég kominn á gamals aldri. Sjötugur karl og sextug kona hugðust þó varla sækja gull í greipar Ægis, draga það upp af fiskimiðum Eyjabúa. En háir hamrastallar hófu heillavonir. Og óravídd hafsins í allar áttir minntu á, að torráðnar verða stundum gátur þær, sem á vegi manns verða. Snortinn af fegurð þessa litla lands undum við fremur vel hag okkar. Fólkið var gott. Greiðvikni þess kynntist ég fljótt og „útlendingskennd“ okkar bagaði ekki. Líklega er það lífið á þessum litla hólma upp úr víðáttu hafsins, sem kennt hefur íbúuunum hjálpsemi, samheldni og einhug. Veiðiferðir í björg og á haf út heimtuðu samstarf og heilhuga félagsskap. Þar varð hver höndin að vera annarri tengd, „einn fyrir alla, allir fyrir einn.“
Rosasamt var sumarið 1955, svo að mörgum varð minnisstætt. En þó var hvergi hikað við störf.
Gagnfræðahús var risið af grunni upp við Löngulág. Margt var þar enn ógert úti og inni. Þar komst ég að verki, - vann þar úti og inni eftir atvikum. Þar störfuðu þá trésmiðir, múrarar, pípulagningarmenn o.fl. og þar var unnið af kappi. Þessum mönnum varð ég málkunnugur. Driffjöðrin í öllum þessum framkvæmdum var skólastjórinn Þ.Þ.V. Hann varð fljótt góðkunningi minn, og hefur sá kunningsskapur haldizt æ síðan. Það vildi nú svo til, að þessi maður var jafnframt forstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem nú mun vera þrítugur að aldri. Ég fór sannarlega ekki varhluta af stuðningi þeirra manna, sem stjórnuðu þeirri stofnun, þegar ég þurfti á hjálp að halda til þess að eignast íbúð í Eyjum. - Já, vissulega er þess vert að minnast afmælis Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem ég hygg að hafi átt og eigi drjúgan þátt í því, hve margir Eyjabúar, einkum fátækari hluti þeirra, hafa getað eignazt þak yfir höfuð sér og haldið því, þó að efnahagslegir erfiðleikar hafi steðjað að eða knúið dyra. Eigin íbúð er frumskilyrði ánægjulegs heimilishalds. Búskapur í leiguíbúð er dýr og ótryggur. Þess vegna er hver sú stofnun verð þakklætis og heiðurs, sem stuðlar að batnandii hag og aðstöðu almennings í þeim efnum. Og mikill vandi hlýtur það að vera að stjórna slíku fyrirtæki sem sparisjóður er við lítil fjárráð, mikla ásókn almennings, en húsnæði lítið og óhentugt, og þá ekki sízt, ef ríkjandi er mikill hjálparvilji við nauðleitarmenn.
Nú gleður það mig, að Sparisjóður Vestmannaeyja er nú starfræktur í eigin húsnæði, þar sem starfsskilyrði eru góð og viðskiptin fara sívaxandi til heilla og hagsældar öllum almenningi í bænum.
Útvegsbankinn hefur útibú í Eyjum. Þar eru ágæt starfsskilyrði í rúmgóðu húsnæði. Viðskiptin þar munu meiri og stærri í sniðum, helzt við útgerðarmenn, fiskvinnslustöðvar og önnur stór fyrirtæki. Ekki er þeim smærri úthýst þar. Það hef ég sjálfur reynt.
Það líður að hausti. Þá ræð ég mig til starfs. Þetta kom mér allt nokkuð sérkennilega fyrir, - ég, sem var nýfluttur í bæinn, aldinn að árum skyldi gerast sendisveinn eða snúningastrákur hjá Landsímanum. Ég tók það að mér að bera út símskeyti, símtalskvaðningar o.fl. um bæinn þveran og endilangan. Og svo einnig í skip og báta, sem lágu við bryggjurnar. Öllu þurfti að koma til skila svo fljótt, sem kostur var. - Nokkuð erilsamt var þetta embætti! En ég hafði fullan vilja til að leysa það sæmilega af hendi. Það tókst mér, held ég, svo að ekki varð að fundið. Starfsfólkið var gott við mig. Símritarar góðir menn og öruggir. Sérstaklega á ég kærar minningar um Árna frá Grund, eins og hann var oft nefndur. Með þeim manni var gott að vera og vinna; margfróður öðlingur, orðhagur vel og drengur hinn bezti.
Glæsilegur hópur stúlkna sátu við skiptiborðið og handléku titti sína fimum fingrum, glaðlegar á svip með léttan hlátur. Tilsvör þeirra lífguðu lund og léttu spor hins sjötuga erindreka. Samvinna hans og þeirra var hin bezta. „Þú ert traustur og allar stelpurnar eru farnar að elska þig,“ sagði Þórhallur stöðvarstjóri einu sinni á útborgunardag. - Ekki afleitar fréttir það!
Vegna sendils-starfsins varð ég fljótt kunnugur öllum leiðum og mörgu fólki, því að við marga átti ég erindi og oftast orðaskipti um leið. Oft lá leiðin á vinnustaði, og vissulega var þar margt markvert að sjá, en lítill tími til athugunar. Starfsfólkið var flest með gleðibragði, fumlaust, örugg handtök og aðgætin augu, en vélar og færibönd á hverju strái og inntu af hendi þyngstu verkin. Allt var þar hreint og þrifalegt, vinnusalir, matstofur og stóru eldhúsin. Þannig komu fiskiðjuverin mér fyrir sjónir.
Annars staðar í Eyjum kynntist ég svo smiðum, sem bjuggu til fallega hluti úr viði og málmi. Hús í smíðum voru um allan bæ, meira og minna langt komin. Og þarna var ég tíður gestur í dráttarbrautunum, þar sem heyrast högg og hvinir. Þar vinna skipasmiðir kappsamlega að viðgerðum á fiskibátunum, sem segja má að séu fjöreggið, sem líf og starf bæjarbúa byggist á. Þá eru það veiðarfæragerðirnar, sem leggja sitt til að fiskurinn fáist eða náist úr djúpi sævar. Hver hlekkurinn er öðrum tengdur og hvergi má vera veila eða brestur í þeirri hlekkjafesti. Öllu þessu veitti gestsaugað athygli, en það er talið glöggt.
Gaman þótti mér að koma á Skansinn, stanza þar stundarkorn og sjá bátaflotann halda úr höfn. Þar vissi ég marga sækappa innan borðs, sem ekki hika, þó að alda ýfist og brotni á brjóstunum breiðu. Og oft var tignarlegt að sjá út Flóann, þegar „komið var rok um svið“ og sædrifið huldi fleyin, sem komu að landi færandi björg í bú. Stundum sáust aðeins siglutopparnir. Þá var sannarlega gott að vita „sjómannslíf í herrans hendi.“
Margoft átti ég erindi til einkaheimila. Stundum var erindið að spyrja um einhvern, sem illa gekk að finna. Oftast var húsfreyjan heima og börnin á ýmsum aldri. Erindi var fljótlokið. Oftast þó einhver orðaskipti. Stundum var sagt, að nýlagað kaffi væri á borðinu. Þá var naumast hægt að neita því.
Misjöfn voru þessi hús í Eyjum að vexti og vænleik, og geysimunur er á búnaði þeirra, þegar inn er komið. En nær alls staðar var hreint og fágað út úr dyrum, svo að hvergi sást blettur. Og hlýju andaði á móti manni út að yztu dyrum. Ég sá oft vel búin börn kringum starfandi móður. Það er fögur og heillandi sjón. Já, innan heimilisveggjanna er mikið verk unnið, sem ekki má vanmeta. Það ber ekki mikið á hverju handarviki húsfreyjunnar eða margra barna móður. En verkin hennar eru þau þó, sem mestu varðar og eru hin allramikilvægustu, ef vel eru af hendi innt. „húsfreyjan mótar heimilisheiðurinn,“ segir gamalt orðtak, og heimilið er hyrningarsteinn þjóðfélagsins, lind þjóðargæfunnar og varanleiki hennar. Þannig er varið starfi þessara heimakæru kvenna. Á vökustarfi þeirra veltur mikið um heill og gæfu þjóðfélagsins. Og eiginmaðurinn á sætrjánum eða annars staðar við erfið og hættusöm störf fjarri heimilinu, hlakkar til að koma heim og njóta heimilisyls, ef til vill aðeins stutta stund, þar til skyldustörfin kalla hann á ný á athafnavettvanginn.
Oft kom það fyrir, að ég varð að koma í hús, þar sem sorgin hafði knúið dyra, einhver úr fjölskyldunni hafði „kvatt heimilið hinzta sinn“. Þá var orkan smá og orðin manns fátækleg, en huggarinn eini sanni var beðinn að láta yl frá sér streyma um mitt veika handtak. Ef til vill hefur það stundum fært ofurlítinn yl í sárt hjarta.
Fagurt og ánægjulegt er bros barna og unglinga, sem maður mætir á förnum vegi. Þau verma oft inn að hjarta, ekki sízt, er aldurinn færist yfir. - Ég minnist K.F.U.M.-drengjanna. Nú eru þeir orðnir stórir og sterkir fullhugar í starfi og leik. Guð blessi þá. - Sannarlega er þörf og skylda að biðja fyrir æskulýð lands vors, því að alvarlegri hættur eru á leið hans nú en nokkru sinni fyrr.
Og minnin flögra að mér eitt af öðru. Uppi á 3. hæð Sparisjóðsbyggingarinnar er Byggðarsafn Vestmannaeyja til húsa. Og þó að það húsrými væri þröngt, þá var þar ánægjulegt að koma og margt að sjá. Þar geymast hlutir, sem tilheyra sögu og atvinnu liðinna tíma. Þar er líka safn eða uppspretta fiska. Og þar mun vera eitthvert fjölþættasta safn ýmissa sjávardýra sinna tegunda, svo sem skelja og kuðunga. Þetta safn mun að mestu orðið til fyrir atbeina eins manns, sem hefur unnið að vexti þess og viðgangi í tómstundum sínum.
Allgott safn lifandi fiska á bærinn í umsjá Friðriks Jessonar.
Bókasafn gott á kaupstaðurinn. En það er enn geymt í þröngu og óhentugu húsnæði. Þangað var mér tíðförult. Og gott var að skipta við ágætan mann, sem þar réði hillum, Harald Guðnason. Nú stendur þetta um húsnæði safnanna í Eyjum allt til bóta, því að hafin er bygging safnahúss. Þar munu þau betur geta gegnt hlutverkum sínum.
Margir róma náttúrufegurð Eyjanna, enda mun það svo, að óvenjulega margbreytni í landslagi er að sjá á ekki stærra svæði en Heimaey er. Ekki má þá gleyma hinu fjölskrúðuga gróðurríki og svo fuglalífinu. Háir hamrastallar iða og óma af lífi, sem svo leitar sér fanga á sæ út. Brimið svarrar við urðir og útsker, og stundum er hafflöturinn spegilsléttur dag eftir dag. Útsýn til lands er margbreytileg og fögur og fjarlægð fjallanna hæfileg, svo að litir og lögun njóta sín og hrífa hugann í björtu veðri.
Einatt gekk ég út í hraunið, austur á Urðir og upp á Helgafell. Þangað komst ég hvert sumar. Þaðan er fagurt að litast um í nálægð og fjarlæg. Þar er útsýniskringla til leiðbeiningar.
Landakirkja fannst mér fögur bygging. Þangað lá leið mín oft, þegar ástæður leyfðu. Og þangað var gott að koma. - Prestarnir eru meðal vina minna, og starf sitt unnu þeir af heilum hug. Í kringum kirkjuna er allstórt, vel ræktað svæði girt fallegri girðingu. Hana lét Kvenfélag Landakirkju gera. Kvenfélag þetta annast ræktun lóðarinnar og prýði kirkjunnar innan veggja, svo að allt er þetta starf bæjarfélaginu til heiðurs og sóma. Eyjabúar unna kirkju sinni og eru örir á fé henni til fegrunar. - Þá er grafreiturinn þar skammt frá, vel hirtur. Þar má sjá marga minnisvarða mætra manna og kvenna, sem lifað hafa og starfað í byggðarlaginu og getið sér þar góðs orðtírs. „Þegar þú gengur um þennan reit, þín sé til reiðu bænin heit,“ yrkir séra Hallgrímur.

Eftir 12 ára Eyjadvöl draga atvikin eða örlögin okkur aftur til Árnessþings, og Hveragerði verður heimkynni okkar, - hlýtt og vinalegt smáþorp í faðmi fjalla. Þar er mikill varmi í jörðu og þéttir gufubólstrar stíga til lofts. Laufmikil og gróðurrík tré vaxa við næstum hvert hús í þorpinu. Og undir glerþökum stórra vermihúsa er margskyns grænmeti ræktað, og svo blómaskrúð mikið og margbreytilegt svo að fegurð grær þar árið um kring, og eins þótt vetrarstormar blási. Í Hveragerði býr starfsamt fólk og flestir hafa nóg að gera. Gróðurmoldin og allt, sem nýtilegt dafnar í henni við jarðarvarma og sólarljós, krefst sívakandi natni og starfs, sem aldrei má hvika frá.
Tært vatn, heitt og kalt rennur hvert hús, þrotlaust nótt og dag.
Fólk er vingjarnlegt og góða nágranna eigum við hjónin.
Í Hveragerði á Náttúrulækningafélagið heilsuhæli, miklar og fagrar byggingar í fáguðu umhverfi. Sú heilsulind er eftirsótt og þéttsetin af fólki úr öllum landshlutum. -
Dvalarheimilið Ás er einnig þéttskipað öldruðu fólki eða þrotnu að kröftum af öðrum ástæðum en elli. Þar eru einnig miklar byggingar og umgengni til fyrirmyndar úti sem inni. Allt virðist gert til þess að vistfólkinu líði eins vel og kostur er.
Báðar þessar stofnanir, sem ég nú nefndi, setja sinn sérstæða svip á staðinn og gera hann víðkunnan. Þar er mikil umferð og gestakoma, enda við þjóðbraut. Marga fýsir einnig að skoða blómaskálana og það, sem þar er á boðstólum.
Ný kirkja er í smíðum í Hveragerði.
Ég hygg nú varla fært að stikla lengur um þessar minninganibbur, enda er komið að leiðarlokum.
Kveðju sendi ég mínum mörgu samferðamönnum og þakka samverustundir og samskipti. Þjóð minni bið ég af heilum hug blessunar guðs. Og guði mínum segi ég lof og þakkir fyrir langan og góðan ævidag.

Síðasta dag júlímánaðar 1971.