Blik 1971/Heimsókn í enska skóla

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. september 2010 kl. 16:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. september 2010 kl. 16:15 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Heimsókn í enska skóla


Stuttur kafli úr langri sögu


Síðan eru liðin hartnær 40 ár.
Veturinn 1931 varð afráðið í samráði við fræðslumálastjórn landsins, að ég dveldist í Englandi þá um sumarið og kynnti mér enska skóla, sérstaklega framhaldsskólana. Enskir skólamenn lögðu á ráðin um það, að ég dveldist á Leeds-svæðinu í Norður-Englandi og heimsækti skóla þar, því að borgin sú og nálæg héruð voru þá talin í fararbroddi um fræðslumál og skólarekstur þar í landi.
Ég fann Leeds og fékk að tilviljun gistingu hjá mætum hjónum, er öll rúm í gistihúsinu reyndust leigð.
Ég hafði ávæning af því, að Englendingar yfirleitt bæru lítið skyn á íslenzku þjóðina, tilveru hennar og uppruna, enda þótt enskir sjómenn hefðu skafið íslenzka landhelgi áratugum saman og beitt íslenzka sjómenn ofbeldi og bellibrögðum. Einnig höfðu þeir oft reynzt þeim hjálparhellurnar miklu, er litlu fleyturnar íslenzku áttu það undir guði og lukkunni og svo enskum togarakörlum, hvort þeim tækist að ná landi eða farast, þegar óveðrin dundu á.
Eitt sinn tóku ensku hjónin mig með sér í teboð hjá kunningjum. Þeir höfðu óskað þess sérstaklega, að þau tækju Íslendinginn með, svo að kunningjarnir fengju að sjá hann. Íslending hafði það fólk aldrei séð fyrr. Mér var tekið mæta vel hjá þessu vinafólki hjónanna, sem ég bjó hjá. Hvimleiðastir þóttu mér heimilishundarnir, sem gerðu sér dælt við gestinn íslenzka og vildu helzt skríða upp á hné hans og leggja sig þar.
Daginn eftir hringdi heimiliafaðirinn, sem við vorum boðin til, og lét í ljós við gestgjafa minn, hversu fólkið hefði haft mikla ánægju af að sjá og kynnast Íslendingnum. Og svo kom það: Andlitsfallið var ekkert ólíkt því, sem það átti von á, sem sé „eskimóiskt“ samkvæmt myndum í bókum, sem það hafði haft kynni af. Þetta tjáðu hjónin mér og hlógu að, enda hafði ég sagt þeim deili á uppruna íslenzku þjóðarinnar, og þau vissu nokkurn veginn, hvar Ísland var að finna á hnettinum.
Mér flaug í hug frásögn Jóhanns skálds Sigurjónssonar um fyrirbrigði, er bar fyrir hann, er hann var eitt sinn staddur í Edinborg. Skozk kona, sem hann bjó hjá, spurði, hvaðan hann væri, hverrar þjóðar hann væri. Hann sagði sem var. Og skáldið segir orðrétt: „Þá horfði hún á mig litla stund sem steini lostin. Ég held, að hún hafi búizt við að sjá íslenzkan Eskimóa, fremur en íslenzkan mann, hvítan og þokkalega klæddan.“

Mér hafið verið fylgt í ýmsa skóla Leeds-borgar og umhverfisins undanfarna daga, og mjög var fólkið alúðlegt og vinsamlegt. Ég heimsótti barnaskóla, iðnskóla, unglingaskóla og menntaskóla. Alls staðar var mér vel og vinsamlega tekið. Mér fannst eins og þeirra væri þágan, að ég sæi sem mest og kynntist öllu sem bezt.
Margt var nýstárlegt að sjá, fróðlegt og athyglisvert í þessum ,,hornsteinum brezka heimsveldisins“, eins og ensku skólarnir hafa stundum verið kallaðir. Tíminn var þó óhallkvæmur; liðið fram á sumar og skólaslit víðast hvar í aðsigi.
Morgunninn var fagur. Veður kyrrt og blítt.
Þennan dag var ferðinni heitið í sveitaþorpsskóla í námunda við borgina.
Ég rölti steinlagt strætið í hægðum mínum. Nógur tími, því að ég hafði farið snemma á fætur.
Flest húsin eru múrsteinshús, sótug og svört í þessari verksmiðjuborg, sem er miðstöð ullariðnaðar. Sextíu verksmiðjureykháfa eygði ég út um svefnherbergisgluggann minn.
Ég rataði orðið á Ráðhústorgið, þar sem ljónin hvíldu á stöllum beggja vegna hinna breiðu trappa ráðhússins. Við torgið voru skrifstofur fræðslumálastjórnarinnar. Þangað var ferð minni heitið þennan morgun. Þar skyldi ég mæta kl. 9. Á tilskildum tíma er ég á áfangastaðnum. Von bráðar kemur bifreiðin, sem á að flytja okkur leiðsögumann minn út í sveitaþorpið.
Fylgdarmaðurinn veitir mér leiðsögn í skrifstofu skólastjóra barnaskólans. Þar kveðjumst við. Hlutverki hans er lokið.
Skólastjórinn er alúðlegur maður, miðaldra, og vill allt fyrir mig gjöra. Aldrei hafði hann áður séð Íslending og kunni lítil skil á þjóð minni.
Hann hafði tjáð nemendum sínum, að von væri á Íslendingi í skólann þennan dag og sagði, að þeir lifðu í eftirvæntingu að sjá mann frá þeim hjara heims.
Við fórum um gang skólans, sem var gamalt hús. Kennt var í öllum stofum. Svolítið gat í axlarhæð var á hurð hverri á kennslustofunum. Þar lagði skólastjóri auga við um leið og við gengum um ganginn. Þá er gengið í kennslustofu. Þar eru um 30 börn, piltar og stúlkur, feit og pattaraleg, fallegur hópur á 13-14 ára aldri. „Gáfaðasta bekkjarsögnin,“ hvíslar skólastjóri í eyra mér. Börnin eru öll að teikna, þegar við komum inn. Hvert barn hefur blóm í glasi á borðinu hjá sér, dregur upp mynd af því á blað og litar.
Nú verður verkfall. Íslendingurinn kominn.
„Leggið nokkrar spurningar fyrir Íslendinginn,“ sagði skólastjóri við börnin. Upp kom hönd. „Já, James, um hvað viltu spyrja?“ spurði skólastjóri. „Herra,“ sagði pilturinn, ,,ég vildi spyrja, hvort Íslendingurinn man, hvað hann hefur skutlað marga seli um ævina.“ „Aldrei drepið sel,“ sagði ég. Önnur hönd upp. „Davíð, um hvað viltu spyrja?“ sagði skólastjóri. „Herra, mig langar til að vita, hvort Íslendingurinn hefur nokkurn tíma lent í kasti við hvítabirni.“ ,,Aldrei séð hvítabjörn nema á myndum,“ sagði ég brosandi. Hönd kom upp. ,,Já, Bill?“ ,,Herra, á Íslendingurinn kajak?“ ,,Nei, engir kajakar á Íslandi, aðeins á Grænlandi,“ sagði ég.
Upp kom hönd, hægt og hikandi.
„Já, Annie, gerðu svo vel að spyrja,“ sagði skólastjóri. „Herra, mig langar til að vita, hvort Íslendingurinn á konu og börn.“ ,,Já, ungfrú Annie, ég á konu og tvö börn.“ Þá brosti allur hópurinn og leit á Annie. Hún hafði sigrað; fengið jákvætt svar.
Nú reis upp stúlka borubrött. ,,Herra, mig fýsir að vita, hvort kona Íslendingsins ber börnin sín í skinnpoka á bakinu, meðan þau eru lítil,“ sagði hún. „Slíkt á sér ekki stað á Íslandi,“ sagði ég, „við Íslendingar erum ekki Eskimóar.“
„Ekki Eskimóar, ekki Eskimóar,“ heyrðist suða í bekknum.
Upp kom hönd eldsnöggt. „Já,“ sagði skólastjóri og teygði úr sér, því að fyrirspyrjandinn var smásnáði aftast í bekknum. ,,Herra, hefur Íslendingurinn nokkurn tíma drepið sauðnaut?“ Nei, sauðnaut voru ekki til á Íslandi.
Það leyndi sér ekki lengur, að blessuð börnin höfðu orðið fyrir miklum vonbrigðum. Ég hafði afneitað öllu því, sem þau vissu um Eskimóa og heillað hafði þau mest, er þau lásu um þá og heimkynni þeirra.
Næsta dag var svo ferð minni heitið til Mr. Norden, eins merkasta skólamanns borgarinnar. Hann stjórnaði skóla í mörgum deildum og aldursflokkum. Yngstu nemendur hans dvöldu í vöggustofu. Elztu nemendurnir hurfu frá honum stúdentar. Athyglisverð fræðslustofnun.
Leiðsögumaður fræðslumálastjórnarinnar skilaði mér til Mr. Norden nokkru fyrir hádegisverð. Það var gert með sérstökum ásetningi: Ég skyldi sjá með eigin augum og kynnast matseld námsmeyjanna.
Meðan við snæddum, sagði skólastjóri mér margt um aga og reglur í enskum skólum. Hann tók reyrstaf ofan af vegg þar í skrifstofu sinni. „Notið þér slíkt áhald í skóla yðar?“ spurði hann. „Nei,“ sagði ég og varð dálítið undrandi. Þá kom mér í hug reglustikuaginn í gömlu skólunum okkar, högg á neglurnar með reglustiku. „Hvað getið þér ímyndað yður, að við gerum við þennan staf?“ spurði skólastjóri glettnislega. „Ekki trúi ég því, að þér berjið óþæga stráka með honum,“ sagði ég eins mikið í gamni og alvöru. „Jú, þér eigið kollgátuna,“ sagði hann. Svo skýrði hann fyrir mér þær föstu reglur, sem giltu um notkun reyrstafsins. Settur var „kennararéttur“ og mál sökudólgsins tekið fyrir og dæmt. Enginn mátti fullnægja „dómnum“ nema sjálfur skólastjórinn og þá í viðurvist kennaranna. Tala vandarhögganna á rassinn var samkvæmt úrskurði kennaradómsins. ,,Fyrir hvað hegnið þér svona hastarlega?“ spurði ég. „Fyrir þjófnað, t.d. eða meiri háttar skemmdir í skólanum,“ sagði skólastjóri, „eða veruleg siðferðisbrot.“
Á matmálstíma kom ég í borðsalinn. Þar snæddu tugir nemenda mat, sem námsmeyjarnar höfðu sjálfar matreitt undir handleiðslu kennslukvenna í þeirri grein. Einn merkur liður skólastarfsins. - Mr. Norden skólastjóri vissi deili á þjóð minni og kannaðist við Snorra Sturluson einan Íslendinga.
Hann hafði nú fylgt mér í hinar ýmsu deildir skólans, sýnt mér vöggustofuna rækilega og öll áhöldin þar, eldri barnaskóladeildirnar og menntaskóladeildina. Sumum deildunum hafði verið slitið, því að liðið var fram á sumar, eins og áður segir.
Loks fól skólastjóri mig kennslukonu til fræðslu. Hún átti að skýra fyrir mér hið ,,innra starf“, kennsluaðferðir í unglingadeildunum.
Ég fylgdi henni inn í hennar eigin kennslustofu. Miðir veggir voru þar alþaktir myndum, sem mér varð starsýnt á. - „Þessar myndir eru flestar frá brezku nýlendunum,“ sagði hún. „Við notum mjög mikið myndir við fræðslustarfið. Þær festa í minninu.“ Svo sýndi hún mér upphleypt landakort, sem hún hafði búið til sjálf. Eitt slíkt kort af Nýja-Sjálandi gaf hún mér.
,,Ég á töluvert af myndum frá yðar heimkynnum,“ sagði hún, „afsakið, ég þarf að sækja þær fram.“ Ég fylltist forvitni og eftirvæntingu. Myndir frá Íslandi í enskum skóla og notaðar þar við kennslu, hvílík dásemd!
Ég hugleiði hlutina, því að ég er einn. Skima um veggina og skoða myndirnar. Hvað var þetta? Brúnt blað innan um myndirnar með smámynd í efra horni þess til hægri. Ég nálgast það. Var sem mér sýndist? Já, vissulega. Efst á brúna blaðinu í hægra horni var ofurlítil mynd af íslenzka fánanum, og svo var eitthvað prentað á blaðið. Ég gekk alveg að veggnum. Undir myndinni af fánanum stóð letrað: „Fáni Eskimóa“. Mér hnykkti við. Hver var svo frásögnin á blaðinu prentuð meðfram fánamyndinni og neðan við hana? Ég tók að lesa. Jú, ég kannaðist við frásögnina. Hún var einnig skráð í dönskunámsbók Jóns Ófeigssonar, ef ég mundi rétt, og hét þar: „Stúlkan í kalda landinu“. Frásögn af Eskimóastúlku, klæðnaði hennar og sleðaferð.
Kennslukonan kom nú inn með margar myndamöppur, o.fl. Þar með tvo strípalinga, annan stóran, hinn afarlítinn.
,,Hérna langar mig að sýna yður nokkrar myndir frá yðar heimkynnum,“ sagði hún blíð og elskuleg. Ég þakkaði. „Fyrirgefið frú, hvaðan hafið þér fengið þessa mynd? og benti á blaðið með myndinni af íslenzka fánanum. ,,Ég klippti blaðið úr ensku tímariti,“ sagði hún.
Svo tók hún til að sýna mér myndirnar. Þarna sýndi hún mér myndir af hvítabjörnum á sundi, á hafísjökum, við selaát. Þarna voru myndir af Eskimóafjölskyldum, klæðnaði þeirra og kofum. Þarna voru myndir af snjóhúsum hlöðnum haglega, eins og dr. Vilhjálmur Stefánsson lýsir í bók sinni „Veiðimenn á hjara heims“.
Meðan ég skoðaði þegjandi myndirnar, hafði kennslukonan tekið upp hjá sér dálitla skinntreyju og klætt stóra strípalinginn í hana. Á bak treyjunnar var saumaður dálítill poki úr sama efni. Í pokann hafði hún stungið litla strípalingnum. Allt var þetta gert af alúð og lagni.
Nú brá hún upp strípalingnum hreykin í bragði og brosandi. ,,Svo hef ég hérna útbúið fyrir nemendur mína dálitla eftirmynd af íslenzkri móður,“ sagði hún. Nú gekk yfir mig. Þetta var þá eftirlíking af konunni minni og með strípalinginn okkar á bakinu!
Hvað átti ég að gera? Sterkur enskumaður var ég ekki. Mig skorti mest alla æfingu í að tala málið. Og hér hefði þurft kröftuga ræðu til þess að kveða niður alla þessa endaleysu, og bæta síðan duglega úr þessari takmarkalausu fáfræði um land mitt og þjóð.
Ég sagði með gætni:
„Fyrirgefið frú, mig langar til að spyrja yður, hversu mikið skólanám hafa enskir kennarar í yðar stöðu?“
Hún svaraði því með ánægju:
,,Fyrst stúdentspróf, síðan þriggja ára nám í kennaraháskóla.“ Já, ekki minna, og þetta var hin staðgóða fræðsla um eitt af nágrannalöndunum, Ísland! Ég reyndi svo eins kurteislega og ég gat, að gera blessaðri ensku kennslukonunni það skiljanlegt, að við Íslendingar værum ekki Eskimóar, heldur værum við af norrænum kynstofni, blandaðir Keltum.
Enska kennslukonan stóð kyrr og hljóð, meðan ég lét „dæluna ganga“ hægt og slitrótt. Auðséð var, hvað hún hugsaði. Hún hafði auðsjáanlega ekki mikið fyrir því að sálgreina þennan Íslending. Hann þóttist vaxinn upp úr hinum eiginlega kynstofni sínum og frá honum og vildi ekki lengur við hann kannast. Hún sagði ekkert. Það tók því ekki. Hún var menntuð kona og kurteis. Henni var það ósamboðið að munnhöggvast við menntunarlítinn Skrælingja, sem afneitaði kynstofni sínum. Hún var þegn brezka heimsveldisins!
Já, síðan eru liðin 40 ár, og heil heimsstyrjöld hefur geisað síðan þetta átti sér stað. Á þessu árabili hefur Ísland orðið fullvalda ríki og aðildarríki sameinuðu þjóðanna. Nú mundi líklega vandfundinn enskur eða skozkur kennari og jafnvel kona þar í alþýðustétt, sem ekki ber skyn á uppruna Íslendinga og lífshætti þeirra í stærstum dráttum. Sjaldnast er minnzt á þá, sem mestar eiga þakkir skyldar fyrir almenna land- og þjóðarkynningu erlendis. Það eru ýmsir íslenzkir keppendur á erlendri grundu, svo sem íþróttamenn, taflmenn og bridgespilarar. Gangi þessum mönnum vel í keppni sinni eða kappleikjum, vekja þeir óskipta athygli á þjóðinni. Þó munu flugfélögin okkar orka meira um landkynningu en nokkur annar aðili íslenzkur.
Sjálfur hef ég orðið áskynja um það. „Loftleiðir og Surtsey er það eina, sem ég veit um Ísland,“ sagði enski Kanadabúinn, sem hjá mér sat vestur yfir hafið.

Þ.Þ.V.