Blik 1963/Norsk búnaðaráhöld

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. september 2010 kl. 21:44 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. september 2010 kl. 21:44 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Norsk búnaðaráhöld
(Norsk verkmenning varð íslenzk)


Fáar þjóðir þekkja betur uppruna sinn og sögu en við Íslendingar. Þjóðinni er hin sögulega forvitni í blóð borin, þráin til að skyggnast inn í liðna tíð og tíðir sinnar eigin þjóðar, vita deili á atburðum og ekki sízt einstaklingum, sem lifað hafa og starfað með þjóðinni og fyrir hana í minni eða ríkari mæli eftir gáfum og getu.
Einn er sá þáttur í sögu okkar, sem mér finnst, að ávallt hafi orðið hornreka eða útundan hjá okkur. Það er atvinnusagan. Einn kafli hennar fjallar um ýmiss konar tæki, verkfæri og áhöld, sem forfeður okkar fundu upp og notuðu um aldir, líka áður en rúnaristur og skráðar sögur urðu til.
Með tækjum þessum og tækni sinnar tíðar léttu þeir sér lífsbaráttuna á ýmsa lund, eins og við gerum á okkar vísu, þótt í miklu fullkomnari mæli sé.
Með tækjum og tækni verður maðurinn „meiri en hann sjálfur“.
Löngu fyrir landnámsöld Íslands bar svipur norskrar bændamenningar með sér sérstakt yfirbragð, sérmótaða hætti þroskaðs bændasamfélags í byggingum, skipagerð, áhöldum, tækjum o.s.frv., og ekki sízt í daglegum heimilisháttum.

Sömu búnaðaráhöld eða svipuð voru notuð þar öld eftir öld og fram til síðustu tíma vélvæðingar og tækni.

Akuryrkjan og kvikfjárræktin voru meginstoðir norska atvinnulífsins í fornöld. Tæki þurfti til að erja jörðina og afla kornsins og vinna sem mest og bezt matvæli úr afurðum kvikfjárræktarinnar. Hugsuðir þess tíma lögðu heilann í bleyti, gerðu sitt ítrasta til að finna upp svo fullkomin tæki, sem kostur var, til að létta sér lífsins önn. En úrræðin urðu þó jafnan lítil, tækniþróunin hægfara. Vísindin efla alla dáð, svo sem vitað er. En forusta þeirra var lítilmótleg öldum saman og tækniþróunin að sama skapi smáleg, sem vænta mátti, meðan vísindin voru ekki upp úr því vaxin að glíma við gátuna um nafla Adams og dans englafjöldans á einum nálaroddi.
Eins og gefur að skilja fluttu ekki norsku landnámsmennirnir aðeins með sér húsdýr sín hingað í „sælunnar reit“, heldur einnig margs konar áhöld og verkfæri til nota bæði innan húss og utan í daglegri búskaparönn á hinum ýmsu tímum ársins. Þeir reyndu eftir megni að hefja hér þá atvinnuvegi og stofna til þeirra atvinnuhátta, sem þeir höfðu alizt upp við í Noregi og stundað árum saman. Þó kom brátt í ljós, að ýmsar greinar norsks atvinnulífs urðu ekki starfræktar hér sökum vöntunar á hráefni svo sem trjáviði til skipabygginga og húsagerðar. Einnig varð kornræktin hér á landi jafnaðarlega stopulli atvinnuvegur en víðast hvar í Noregi, þó að þeir hefðu með sér að heiman öll þátíðar tæki til þeirra hluta.
Við vitum þó, að forfeður okkar stunduðu kornrækt til loka 14. aldar eða þar til plágan mikla, svarti-dauðinn, dundi yfir og lagði þriðjung þjóðarinnar í gröfina á 2—3 árum. Þannig hafa þessir sögulegu atburðir verið tjáðir íslenzkum skólaæskulýð fram á síðustu tíma. En ekki alls fyrir löngu heyrði ég fræðimann halda því fram, að kornyrkja hefði verið stunduð á landi hér fram á 16. öld. Þóttist hann hafa fundið heimildir fyrir því. Þetta kann að vera rétt í vissum skilningi og með sérstakri athugasemd. Við segjum að tími opinna skipa eða árabáta sé liðinn, en þó munu enn finnast bæir við ströndina, þar sem stundaður er sjór á árabát eða árabátum.
Margra fornra landbúnaðartækja er getið í sögum okkar. Þau breyttust ekki eða lítið öld fram af öld fremur en t.d. í móðurlandinu Noregi. En háð getur það verið erfiðleikum að afla sér hugmynda um, hvernig þau mörg hver hafa litið út. Nú er það vitað, að stór hluti landnámsmannanna kom frá Vestur-Noregi og þá sérstaklega Hörðalandi. Það er því ómaksins vert að líta inn á landbúnaðarsafn Hörðafylkis og skoða þar fornar minjar, verkfæri og áhöld, sem áður hafa geymd verið á skemmuloftum og í öðrum skranhirzlum norskra bænda og bændakynslóða jafnvel öldum saman. Safnið er til húsa að Stend, norska búnaðarskólanum alkunna. Forstöðumaður þessa markverða safns lánaði mér á sínum tíma nokkrar myndir af fornum hlutum, sem ég lét gera prentmyndir eftir, svo að lesendur Bliks mættu kynnast þeim, svo mjög sem áhugi þeirra fyrir sögulegum staðreyndum virðist mikill og vakandi. Um það ber salan á Bliki okkar fegurst vitni.
Fyrsta myndin, sem hér birtist, er af arðri. Hann var plógur forfeðranna, sem þeir létu þræla sína draga eða uxa um aldaraðir (samanb. sögu Hjörleifs og Ingólfs). Arðurinn velti ekki jarðveginum en rótaði honum til og losaði hann. Þegar menn finna upp á því að festa veltifjöl eða moldverpi á arðrinn, svo að jarðvegurinn byltist til, veltist, um leið og arðurinn ristir jarðveginn, fær tæki þetta plógsnafnið. (Annars mun orðið arður vera skylt latneska orðinu aratrum, sem þýðir „plógur“ eða eitthvert tæki slíkt til jarðvinnslu).
Þau áhöld, sem ætla má að séu svipuð þeim, er forfeður okkar notuðu hér á landi öldum saman, eru þessi: Hin elzta gerð arðursins, þreskiþústirnar, orfin, brýnisslíðrin, brýnin, einjárnungarnir (ljáirnir), hrífurnar með löngu sköftunum, sáðaskarnir, kornsáldin, trékvíslarnar, hítin og e.t.v. járnslegnu rekurnar.
(Forstjóri Landbúnaðarsafns Hörðalands, J. Revheim, hefur góðfúslega lánað mér myndirnar fyrir atbeina rektors Búnaðarskólans á Stend, Asbjörns Öye. Ég færi þeim báðum alúðarþakkir fyrir velvildina.)

———



Arður með sveig úr hesligrein til að stjórna honum. Mjög gömul gerð.




Þreskivél knúin vatnsorku. Um hjól hennar gekk tóg eða reim, sem tengd var við eða lá um kvarnarásinn í kornmyllunni í myllukofanum úti við bœjarlœkinn. Með slíkri vél var hægt að þreskja 3—4 tunnur korns á 10—12 tímum. Með þúst varð aðeins þreskjuð ein tunna korns á sama tíma.





Þrjár járnslegnar trérekur og ein með járnblaði. Lengsi til hægri er rekuskaft.






Frá vinstri: 1. Mykjukvísl (til að moka mykju). 2. Kvísl til að dreifa mykju. 3. Trékvísl til ýmissa nota. 4. Járnslegin reka





Hít (n. skinnhit). Hún var gerð úr tveim heilum sauðskinnum, sem saumuð voru saman svo að rönd félli að rönd og skækill að skækli. Hítin var sérstaklega notuð til að bera í korn að myllu til mölunar og svo mjölið heim aftur.




Ýmsar gerðir af hrífum. Þær hinar fjórar með lengsta skaftinu voru notaðar til að hylja með kornið á akrinum, þegar búið var að sá. Sú hin stytzta var notuð til að mylja mykju og næst stytzta til að raka yfir kartöflurásir, þegar settar voru niður kartöflur. Hrífurnar voru ýmist með járn- eða trétindum.




Kornhreinsari, smíðaður 1880 eftir fyrirmynd frá Búnaðarskólanum á Stend frá árinu 1860. Áður voru notuð trog til að hreinsa kornið, tína úr því hismi og annað rusl. (Sjá næstu mynd.)




Kringlóttu ílátin eru „sáðaskar“, sem notaðir voru til að sá úr korni á akur með hendinni. Trogið á miðri myndinni er eintrjáningur úr furubol, kornhreinsunartrog.





Þennan plóg kalla Norðmenn grindarplóg (grinda-plog). Á honum er veltifjöl eða moldverpi úr tré.




Stuttorf og langorf ásamt þrem brýnisslíðrum með brýnum í.





Stand-arður (n. Nabbard) frá Búnaðarskólanum á Stend. Á standinum er handfang til að stjórna arðrinum með.




Kornsáld. Hið efra er riðið úr birkitágum, en hið neðra úr lindarbasti.





Gömul gerð af hreykiplógi frá Hvammi í Harðangri.





Akurplógur með moldverpi úr járni.





Raðsáningarvél. Gerð hennar eða fyrirmynd er frá Lom í Guðbrandsdal og þar fyrst búin til 1780. Þessa vél fékk safnið frá Ygre á Voss.




Þreskiþústir frá ýmsum byggðum á Hörðalandi. Þústir voru gerðar úr tveim stöfum, slagvelinum og handvelinum, sem haldið var um. Til þess að tengja stafina saman var ýmist notazt við viðju, álaskinn, nautssin eða hrútssin.









Mismunandi gerðir af Stendplóginum fræga, er sýna þróun hans.









Illgresisherfi frá Laxavogi.