Blik 1973/Sparisjóður Vestmannaeyja og eldgosið
Sparisjóður Vestmannaeyja
og eldgosið
Einhver íhugull náungi uppgötvaði þessa staðreynd: Fólkið getur verið án peningastofnunar, en hún ekki án fólksins. — Og nú voru í hríð eldgossins peningastofnanir Eyjabúa sviptar fólkinu, stoðir þeirra og styttur dreifðar út um hvippinn og hvappinn, — þær einar og yfirgefnar.
Þessar staðreyndir tóku að sækja á hugann, þegar frá leið og íhyglin kom aftur til sjálfs síns, — sálarlífið náði jafnvægi á nýjan leik eftir átökin miklu.
Viðskiptavinirnir höfðu dreifzt í flesta landshluta. Þarna voru stoðir stofnunarinnar brostnar, a.m.k. um stundarsakir. Hjá Eyjafólki sjálfu voru fólgnir meginhlutar alls fjármagns Sparisjóðs Vestmannaeyja, — lán á lán ofan um árabil, lán til húsbygginga, lán til mótunar og myndunar heimilis, lán til margvíslegra tækjakaupa samkvæmt kröfum tímans og óskum húsmæðranna.
Og „kvittanirnar“, víxlarnir, lágu eftir á öruggum stað, í öruggri geymslu svo lengi sem hraunflóðið rynni ekki yfir miðbæinn.
Ömurlegar hugsanir sóttu á. — Og hvert var að víkja? Hvar áttum við víst húsrými utan Eyja handa þessari stofnun? — Þessi spurning lá sem mara á huga mér, þegar leið fram á daginn 23. janúar, þar sem við dvöldumst í góðu yfirlæti á heimili sonar okkar og konu hans í Hafnarfirði.
Þá allt í einu hringdi síminn. Einn af bankastjórum Seðlabanka Íslands, Svanbjörn Frímannsson, færði mér þau skilaboð frá stjórn bankans, að rýmt yrði fyrir okkur í húseign Seðlabankans við Hafnarstræti, ef við vildum þekkjast það boð. Geta má nærri, hversu þungu fargi var af mér létt. Vinir í raun, vinir í raun. Jafnframt hvatti bankastjórinn mig til þess að vinda að því bráðan bug að sækja Sparisjóðinn til Eyja, flytja hann þegar suður með gögnum og gæðum, Eyjafólki til trausts og halds.
Ég náði þegar símtali við skrifstofustjóra Sparisjóðsins, Benedikt Ragnarsson, og gjaldkerann Ólaf Haraldsson, og við afréðum að fara til Eyja um kvöldið með v/s Heklu. En þá var það fararleyfið, því að þá þegar höfðu verið sett höft á ferðir fólks til Eyja. — Ráðandi einstaklingur hét mér leyfinu handa okkur þrem. Jafnframt hét hann því að senda það skipstjóranum á v/s Heklu.
Þegar við komum um borð í skipið og hittum skipstjórann, hafði honum ekkert fararleyfi borizt varðandi okkur. Hvað var þá til ráða? Þybbast við og láta bera okkur í land, því að öðruvísi færum við ekki þá leiðina. Í því vorum við staðráðnir. En blessaður skipstjórinn trúði okkur og lét kyrrt liggja, svo að allt féll í ljúfa löð.
Við hlutum hinn bezta aðbúnað á skipinu.
Þegar til Eyja kom, létum við hendur standa fram úr ermum, þrátt fyrir glóandi gjóskuregn og ausandi eimyrju. Við tókum til öll „gögn og gæði“, sem við gátum ímyndað okkur, að við þyrftum að nota til þess að reka Sparisjóðinn í Reykjavík, þar sem okkur gæfist nú kostur á að koma til móts við Eyjafólk í þrengingum þess, eftir því sem aðstaða okkar leyfði. Við fylltum tvær bifreiðar bókum Sparisjóðsins og öðrum nauðsynlegum gögnum. Aðra bifreiðina átti skrifstofustjórinn okkar, en hina kunningi okkar, sem bað okkur að taka hana með til Reykjavíkur. Okkur var sú þágan mest.
Síðan voru bifreiðarnar troðnar bókum og öðrum nauðsynjum til reksturs stofnuninni, látnar í lest Heklu og fluttar til Þorlákshafnar.
Tvennt létum við þó ekki í bifreiðarnar af eigum Sparisjóðsins. Það var sjóðurinn, rúmar tvær milljónir, og víxlabirgðarnar, sem námu meira en sjötíu og þrem milljónum króna.
Sjóðinn lét gjaldkerinn í járnkassa og hann síðan í pappakassa, sem var vandlega krossbundinn. Kassa þennan skyldi hann síðan aldrei við sig skilja fyrr en á áfangastað — í Seðlabankahúsinu í Reykjavík.
Víxlabirgðirnar, andvirði 73 millj. og vel það, létum við í traustan pappakassa fremur óásjálegan, svo að engu var þar eftir að sækjast! Enda áttum við ekki kost á öðru íláti betur við hæfi. Kassann krossbundum við vandlega. Síðan fól ég sjálfum mér varðveizlu hans. Af honum skyldi ég aldrei sleppa hendi fyrr en á áfangastað.
Í Heklu fengum við félagar sérstakan klefa til umráða.
Þegar til Þorlákshafnar kom, var bifreiðum okkar skipað upp á bryggju þar ásamt tugum annarra bifreiða Eyjafólks, sem fluttar voru í lest skipsins. Síðan óku nefndir starfsmenn Sparisjóðsins farartækjum þessum til Reykjavíkur. Þangað komum við kl. 5 e.h. miðvikudaginn 24. jan. Þar tóku traustar hendur á móti okkur við dyr Seðlabankans og flutningi okkar, enda þótt búið væri að ljúka starfi dagsins og loka bankanum. Brátt voru öll gögn Sparisjóðs Vestmannaeyja komin í heila höfn.
Daginn eftir, fimmtudaginn 25. jan., var Sparisjóðurinn síðan opnaður til viðskipta. Reksturinn annaðist starfsfólk mitt einvörðungu, en ég hvarf aftur til Eyja til þess að annast flutning á fleiri jarðneskum munum til meginlandsins.
Nú var starfsemi Sparisjóðsins fyrst og fremst í því fólgin að greiða Eyjabúum út sparifé sitt, sem nú þurftu vissulega á þeim skildingum að halda í nauðum sínum. Þær greiðslur námu nokkrum milljónum fyrstu vikurnar.
Stjórn Seðlabankans og bankaráð hafði afráðið að hlaupa undir bagga með Vestmannaeyingum og veita þeim vaxtalaus lán, allt að 50 þúsundum króna hverri fjölskyldu, til þess að draga úr sárustu neyð og auðvelda fjölskyldum nauðsynlegustu fyrirgreiðslur. Sparisjóðurinn og Útvegsbankinn (útibú hans í Eyjum) voru látnir annast þessar lánveitingar fyrir Seðlabankann. Hjálp þessi til Vestmannaeyinga var þeim ómetanleg á nauðastundum þessum. Þessi lánastarfsemi til almennings í Eyjum var innt af hendi næstu níu vikurnar og höfðu þá nær 99% Eyjafólks notið þessarar drengilegu hjálpar. Þakklátir megum við Eyjabúar vera þeim mönnum, sem hér neyttu valds síns til ómetanlegra mannúðarstarfa til hjálpar okkur á erfiðustu stundum. Einhvers staðar var kveinað vegna þessa eina hundraðshluta, sem ekki dró sig eftir björginni. Þá minnist ég orða gamla afa, sem eitt sinn sagði við drenginn sinn: „Til eru menn, sem ekki nenna að tyggja, þó að gómsætur biti sé lagður á tungu þeirra. Og enn síður nenna þeir að kyngja honum.“ — Já, þetta sagði afi gamli. Og hann mælti þeim mönnum vissulega ekki bót eða tók málstað þeirra.
Skyldi fullyrðing hans eiga nokkrar rætur í raun og sannleika? Ég býst við því, líka með okkur Eyjabúum.
Eftir að jarðeldarnir brutust út á Heimaey og flytja varð úr kaupstaðnum báðar bankastofnanir Eyjafólks eins og annað þar, áttu þær vissulega við fjölmarga erfiðleika að etja.
Mikinn vanda bar að höndum í rekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja. Réttindi stofnunarinnar á ábyrgðaraðilum (ábyrgðarmönnum) töpuðust daglega í tugatali sökum þess, að engin tök voru á að afsegja víxla. Hin löglega skrifstofa bæjarfógetans í Vestmannaeyjum var ekki lengur til í kaupstaðnum og við flúnir af hólmi. Hvar voru svo skuldunautarnir niður komnir? Ekkert varð vitað fyrst í stað um allan fjölda þeirra. Tugir milljóna, — nei, ég má naumast til þess hugsa. — Hrollvekja. — Peningastofnun án fólks getur ekki átt sér stað. Grundvöllinn vantar.— Stoðirnar engar til.
Til þess að bjarga hagsmunum bankastofnana Vestmannaeyinga úr þeirra fjárhagslegu erfiðleikum, gaf alþingi út „Lög um bráðabirgðabreytingu á dómstjórn í Vestmannaeyjum o. fl.“ Lög þessi eru dagsett 31. jan. 1973, nr. 3.
Í annarri grein laganna eru þessi ákvæði: Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum skal afsegja víxla með greiðslustað í Vestmannaeyjum með fullu gildi á aðsetursstað embættis bæjarfógetans í Vestmannaeyjum í Reykjavík.
Samkvæmt þriðju grein laga þessara var frestað gjalddaga á öllum fjárskuldbindingum með greiðslustað í Vestmannaeyjum til 23. febr. 1973. Síðan var frestur þessi framlengdur til 23. marz s.l. (Lög nr. 5, dags. 21. febr. 1973).
Þarna var þá lánastofnununum tryggður réttur á ábyrgðaraðilum fyrstu tvo mánuðina frá fyrstu stundum eldsumbrotanna. Þarna var líka veittur lagalegur frestur á greiðslu allra skulda til 23. marz. Samt sem áður þurfti Sparisjóðurinn að standa straum af milljónagreiðslum á sparifé til Eyjabúa, enda þótt lítið greiddist af víxlum hans eða útistandandi fé, og engin innlög ættu sér stað. Þessar milljónir fengum við að láni hjá Seðlabankanum með hinum bundnu innstæðum Sparisjóðsins þar að bakhjarli, rúmum 20 milljónum króna. Þannig flaut þetta allt, og ekki að feigðarósi. Það skulum við sannreyna. En nú voru mikil átök framundan í innheimtustörfunum. — Hér drepum við á það helzta í sem allra stytztu máli.
Við í Sparisjóði Vestmannaeyja notuðum greiðslufrestinn til 23. marz til þess að leita uppi skuldunauta stofnunarinnar, dvalarstaði þeirra. Þeir reyndust 34 alls og voru þessir:
1. Reykjavík
2. Mosfellssveit
3. Hafnarfjörður
4. Akranes
5. Borgarnes
6. Stykkishólmur
7. Hellissandur
8. Ísafjörður
9. Sauðárkrókur
10. Skagaströnd
11. Ólafsfjörður
12. Akureyri
13. Húsavík
14. Raufarhöfn
15. Vopnafjörður
16. Seyðisfjörður
17. Neskaupstaður
18. Reyðarfjörður
19. Stöðvarfjörður
20. Djúpivogur
21. Höfn í Hornafirði
22. Stokkseyri
23. Eyrarbakki
24. Þorlákshöfn
25. Grindavík
26. Keflavík
27. Gerðar í Garði
28. Ytri-Njarðvík
29. Innri-Njarðvík
30. Vogar
31. Selfoss
32. Hella á Rangárvöllum
33. Hvolsvöllur
34. Villingaholtshreppur
Þessi staðanöfn gefa nokkra hugmynd um, hversu víða Vestmannaeyingar dreifðust eftir ósköpin, sem yfir þá dundu.
Þrátt fyrir skuldaskilafrestinn, komu nokkrir viðskiptavinir Sparisjóðsins og greiddu víxla sína á gjalddaga. Þeir víxlar urðu 149 talsins að upphæð samtals 2,7 millj. kr.
Samtals féllu í gjalddaga 1435 víxlar í Sparisjóði Vestmannaeyja á tímabilinu 23. jan. til 23. marz s.l. Þeir skiptust þannig á mánuðina:
Janúar | 54 víxlar |
Febrúar | 755 — |
Marz | 626 — |
Alls | 1435 víxlar |
Þegar fresturinn var á enda, afgreiddum við þannig vanskilavíxlana:
Afsagðir voru | 378 víxlar |
Fallið frá afsögn | 402 — |
Eiginvíxlar veðtryggðir | 454 — |
Öruggir víxlar án afs. | 52 — |
Samtals | 1286 víxlar |
Greiddir á tímabilinu | 149 — |
Alls | 1435 víxlar |
Nú afréðum við að miða árangurinn af innheimtustörfunum við júnílokin og settum markið hátt. Samtals féllu til greiðslu í Sparisjóðnum á tímabilinu 23. jan. til 30. júní 2424 víxlar og andvirðið nam um 70 milljónum króna.
Við unnum svo sleitulaust að innheimtustörfunum næstu þrjá mánuðina. Við þurftum að ná persónulegu sambandi við Eyjafólk á öllum landshornum svo að segja.
Að leikslokum fannst okkur sjálfum, að við mættum vel una árangrinum. Hinn 30. júní áttum við óinnheimta víxla að dagsverki loknu sem hér segir:
Gjaldf. í janúar | 1 víxill |
— febrúar | 28 víxlar |
— marz | 40 — |
— apríl | 25 — |
— maí | 41 — |
— júní | 59 — |
Samtals | 194 víxlar |
Andvirði þessara ógreiddu víxla nam nokkrum hundruðum þúsunda króna. Við vorum satt að segja í sjöunda himni yfir þessum árangri og undruðumst stórum eins og allar aðstæður voru erfiðar. — Ekki get ég einvörðungu þakkað okkur sjálfum þennan mikla og góða árangur af ötulu starfi. Við höfum í Sparisjóði Vestmannaeyja um tugi ára reynt Eyjabúa, konur ekki síður en karla, að heilbrigðum hugsunarhætti og traustri skapgerð í viðskiptalífinu, og þeir eiginleikar brugðust okkur vissulega ekki í þessu innheimtustarfi. Þökk og heiður sé því mæta fólki.
Sparisjóður Vestmannaeyja á veð svo að segja í öðruhverju íbúðarhúsi í kaupstaðnum, eða í 567 húsum samtals. Nú hefur Viðlagasjóður frá upphafi þessara örðugleika greitt afborganir og áfallinn kostnað af öllum þessum veðlánum til hjálpar Eyjafólki og peningastofnunum þeirra. Vitaskuld hefur þetta góða og veigamikla hjálparstarf Viðlagasjóðsstjórnarinnar til handa okkur reynzt ómetanlegt í innheimtustörfunum. Því megum við ekki gleyma, hversu sú mikla hjálp hefur reynzt okkur hallkvæm í alla staði, einstaklingum ekki síður en lánastofnunum. Hana þökkum við af alúð.
Þegar þetta greinarkorn er að fullu skrifað og búið undir prentun, í byrjun sept., eigum við í Sparisjóði Vestmannaeyja örfáa víxla óinnheimta af öllum víxlabirgðunum.
Ég veit, að sú fullyrðing gleður alla Eyjabúa, því að sú staðreynd er þeim sómi og traustyfirlýsing, svo mjög sem þetta hefur allt saman á okkur reynt og skapað mikla erfiðleika við að etja.
Með gagnkvæmum skilningi Vestmannaeyinga og víðsýnni stjórn og traustri í Sparisjóði Vestmannaeyja, ætti hann að verða því vaxinn að lána tugi milljóna til endurreisnar Vestmannaeyjakaupstað á næsta ári og árum.
Eftir að eitt dagblaðanna í Reykjavík hafði rætt við félagsmálaráðgjafa og geðlækni um rannsóknir þeirra á sálarlífi Vestmannaeyjafólks eftir eldgosið, spurði blaðamaðurinn sjálfan sig og lesendur sína: „Hafa Vestmannaeyingar innbyggt varnarkerfi gegn náttúruhamförum?“ — Snillingurinn Sigmund gaf Bliki þessa mynd. Hún talar sínu máli.