Blik 1973/Ingibergur Gíslason skipstjóri, Sandfelli

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. október 2010 kl. 12:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. október 2010 kl. 12:30 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Ingibergur Gíslason skipstjóri, Sandfelli


Ingibergur Gíslason, Sandfelli.

Hann var á sínum atorkuárum í hópi kunnustu sjómanna þessa bæjar.
Ingibergur Gíslason er fæddur í húsinu Sjávargötu á Eyrabakka 16. jan. 1897. Hann er hart nær 76 ára, þegar þessi orð eru skrifuð.
Foreldrar Ingibergs voru hjónin Gísli sjómaður Karelsson og Jónína Þórðardóttir frá Vatnsholti í Flóa. Gísli, faðir Ingibergs, drukknaði í lendingunni á Stokkseyri árið 1908. Þá var Ingibergur 11 ára gamall.
Ungur að árum tók Ingibergur að stunda sjóinn, fyrst á opnum skipum, og svo á vélbátum og togara.
Árið 1919 fluttist hann hingað til Vestmannaeyja. Þá hóf hann hér sjósókn og stundaði sjó hér eftir það í hálfa öld eða til ársins 1969. Lengst af var hann formaður hér eða skipstjóri á vélbátum.
Árið 1925 kvæntist Ingibergur dóttur hjónanna á Sandfelli við Vestmannabraut (nr. 36), Guðjóns skipstjóra Jónssonar og Ingveldar Unadóttur. Hét hún Árný. Með Árnýju Guðjónsdóttur eignaðist hann sex börn og eru fimm þeirra á lífi.
Árnýju konu sína missti hann árið 1943.
Sérstakar ástæður valda því, að ég birti hér að þessu sinni þessi orð með mynd af Ingibergi Gíslasyni. Ástæðurnar eru þrjátíu ára saga Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem birtist hér í þessu hefti Bliks.
Veturinn 1952 seldi Ingibergur Gíslason mér lóð af lendum Sandfells við Vestmannabraut. Á lóð þeirri vildi ég fá byggt hús yfir starf Sparisjóðsins, sem þá hafði verið á hrakhólum í miðbænum frá stofnun hans eða s.1. 10 ár.
Hugsjón mín og okkar Ingibergs var sú, að Sparisjóðurinn fengi húsrými á neðri hæð byggingarinnar og Byggðarsafn bæjarins á efri hæðinni. — Ekki meira um þessa hugsjón okkar hér. Annars staðar verður um þetta framtak rætt í þessu hefti ársritsins (Sjá bls. ... ).
Mér er enn í fersku minni, hversu Ingibergur Gíslason brást fljótt og drengilega við þessari hugsjón minni og seldi mér lóðina á mjög viðráðanlegu verði. Ég er honum ávallt þakklátur fyrir góðan skilning á hugsjón minni og drengskap þeim, sem hann sýndi mér. – Enga sök átti hann á því, að allt snérist þetta við og varð á annan veg. Þó fékk Sparisjóðurinn að njóta húsrýmis í byggingu þessari um fimm ára skeið.