Blik 1936, 3. tbl./Baldvin Einarsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. september 2009 kl. 12:03 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. september 2009 kl. 12:03 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Blik 1936, 3. tbl.

BALDVIN EINARSSON

Fæddur 2. ágúst 1801 — Dáinn 9. febr. 1833.

Eftir Þorstein Þ. Víglundsson skólastjóra.

KÆRU ungmenni. Í dag, 1. des., á vel við, að við minnumst nokkurra einkenna og kosta okkar ágætustu manna, sem hafa tekið þátt í viðreisnarstarfi þjóðarinnar á liðnum tíma. Ekkert megnar fremur að vekja og hvetja til drengilegra starfa, dugs og dáða. Við skulum hér minnast Baldvins Einarssonar. Rúm blaðsins leyfir aðeins stutt mál.
Á sínum stutta starfstíma hér gaf hann okkur öllum nokkur heilræði. Og hann gerði meir. Hann lifði sjálfur samkvæmt þeim. Hann hefir sannað okkur það í og með lífi sínu, að það er hægt.
1. Vertu duglegur og skyldurækinn í stöðu þinni og stétt, hver sem hún er. Leggðu þig allan fram við starf þitt. Sá, sem eigi gerir það, getur eigi vænzt hamingju í því.
Sjálfur byrjaði Baldvin smádrengur að vinna. Hann varð brátt hægri hönd foreldra sinna á heimili sínu. Hann vann öll störf sín með jafn ljúfu geði, eftir því sem kraftar hans leyfðu, jafnt hin óhreinni sem hin þokkalegri. Þegar hann var 17 ára gamall, hafði hann áunnið sér svo mikið traust og álit fyrir dugnað, útsjón og samvizkusemi, að hann var settur formaður fyrir hákarlaskip föður síns og aflaði vel. Við þekkjum það bezt hér, hvaða kröfur eru gerðar til duglegra vélbátaformanna. Þó mun það starf að ýmsu leyti vera auðveldara nú á dögum en að stunda hákarlaveiðar á dögum Baldvins Einarssonar. Oft var þá legið á opnum skipum svo sólahringum skipti við hákarlaveiðarnar, og eigi sjaldan í stormi og hríðarveðrum. Það þurfti dugnað, hörku og skapfestu til, ef það átti að bera góðan árangur.
Síðar, þegar Baldvin kom í skóla, sýndi hann sama dugnaðinn, sömu skylduræktina við námið.
2. Vertu námgjarn. Kappkostaðu að eignast hagnýta þekkingu.
Á tímum Baldvins var hér aðeins einn skóli, Bessastaðaskólinn. Ef æskumenn vildu þá nema bókleg fræði, urðu þeir að stunda sjálfsnám, eða fá tilsögn hinna tiltölulega fáu skólagengnu manna (helzt prestanna) ellegar þá að kosta sig í Bessastaðaskóla.
Fjórtán vetra gamall varði Baldvin öllum frístundum sínum til þess að lesa góðar bækur. Hann kenndi sér sjálfur að skrifa og reikna, og skilja og lesa danskar bækur í tómstundum sínum á milli fjárgeymslu og sjóróðra. Haustið 1822, þá 21 árs gamall, hóf hann síðan nám í Bessastaðaskóla.
3. Settu þér göfugt markmið í lífinu og beittu allri orku þinni til að ná því.
Þegar Baldvin hafði lokið námi í Bessastaðaskóla, sigldi hann til Kaupmannahafnar og lagði stund á laganám við háskólann þar. Hann ásetti sér að verða þjóð sinni og fósturjörðu að sem allra mestu liði. Hann vildi helga þjóðinni krafta sína eftir því sem efni og orka leyfðu. Frelsis- og menningarmál þjóðarinnar voru hans hjartfólgnustu áhugamál. Efnalítill tók hann nú til að gefa út tímarit. „Ármann á Alþingi,“ kallaði hann það. Með því vildi hann ná til þjóðarinnar og vekja hana til íhugunar um hennar eigin velferðar- og framtíðarmál.
Þegar hann hafði lokið laganáminu, tók hann að stunda nám við fjöllistaháskólann í Höfn og lagði þar mesta stund á náttúrufræði. Þá ákvörðun mun hann hafa tekið, þrátt fyrir fátækt sína, vegna hinna brýnu þarfa á því að rannsaka náttúru Íslands og framtíðarmöguleika þjóðarinnar í því sambandi. Með því starfi gat hann vakið ást og traust þjóðarinnar á landinu og athygli hennar á gæðum þess.
4. Vertu óeigingjarn og fórnfús í starfi þínu.
Útgáfa tímaritsins gat aldrei orðið annað en fórn fjármuna og tíma fyrir Baldvin. Hann lét það eigi á sig fá, þótt hann fátækur væri. Að vísu fékk hann dálítinn styrk til þess að gefa út tímaritið sitt, en hann varð að skrifa meiri hlutann af því sjálfur. Hann stundaði erfitt nám og hafði þar að auki fyrir fjölskyldu að sjá. Flest allir dagar fóru til þess að fullnægja skyldunum við þetta tvennt. Á nóttunni, meðan aðrir sváfu, skrifaði hann því oftast greinarnar í tímaritið sitt, sem vekja skyldu þjóðina og vísa henni veginn fram á við.
5.Eigðu samúð með þjóð þinni. Það er hin sanna ættjarðarást.
Starf Baldvins fyrir þjóðina var sprottið af einlægni, fórnfýsi og brennandi áhuga fyrir gæfu hennar og gengi. Hann átti ríka samúð með henni og unni henni af hjarta. Henni vann hann þess vegna allt, er hann mátti.
Hann vildi einnig fá aðra íslenzka námsmenn í Höfn til þess að hugleiða hið hörmulega ástand þjóðarinnar og helga henni krafta sína. Í þeim tilgangi stofnaði hann þar félagsskap með þeim og var lífið og sálin í honum, meðan hann lifði.
Hann dó af slysförum á 32. aldursári.
Þá kvað Bjarni skáld Thorarensen:

Ísalands
óhamingju
verður allt að vopni,
eldur úr iðrum þess
ár úr fjöllum
breiðum byggðum eyða.

Hann kvað ekki meira. Þetta var þó aðeins upphafið. Það var sem sorgin synjaði honum máls. Þjóðin hafði misst sinn bezta mann á unga aldri.

                            —————

Það er þetta áhugaríka fórnarstarf í víðsýni og trú, sem einkennt hefir frelsishetjurnar okkar og fært okkur aftur heim sjálfforræðið og sjálfstæðið. Þó er það síðara ekki enn fengið að fullu. Mikið starf er enn óunnið í þágu þess. Spakur maður hefir sagt, að gleggstu einkenni frjálsa, — sjálfstæða — mannsins væri þau, að hann gerði hiklaust, það sem samvizka hans segði honum, að væri satt og rétt, hvað sem það kostaði hann.
Sjálfstæði einstaklinganna, þegnanna, er sjálfstæði þjóðarinnar.
Ef æskulýðurinn okkar ber gæfu til að helga sér þær manndyggðir, sem Baldvin Einarsson og aðrir slíkir vinir þjóðarinnar hafa haft til brunns að bera í öllu starfi sínu, þá er framtíð lands og þjóðar örugg. Við eigum öll í sjálfum okkur stærri og smærri vísi til slíkra manndyggða. Kostum öll kapps um að skapa þeim vísi vaxtarskilyrði, þá mun vel fara.