Blik 1967/Friðrik J. Guðmundsson, Batavíu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. júlí 2007 kl. 14:42 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. júlí 2007 kl. 14:42 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Friðrik Jóh. Guðmundsson frá Batavíu
Þessi mynd er af málverki af v/b Sigríði, fyrsta vélbát Vigfúsar útgerðarmanns Jónssonar í Holti (Asvegur 2). Báturinn var keyptur 1907. Synir Vigfúsar, Guðmundur, Jón og Guðleifur, gáfu Byggðarsafni Vestmannaeyja málverk þetta til minningar um föður sinn. Engilbert Gíslason málaði.

Fáir núlifandi Íslendingar munu gera sér í hugarlund þá þrek- og mannraun, sem það var að byggja upp og starfrækja vélbátaútveginn íslenzka á fyrstu árum hans. Vélbátarnir voru litlir og veikbyggðir. Ef til vill voru vélarnar furðu góðar og gangvissar, en þekkingin á meðferð þeirra var af mjög skornum skammti og tök og tækni til viðgerðar á þeim var tilfinnanlega lítil og ófullkomin. Ekkert stýrishús eða stjórnarskýli var á bátunum, og sá, sem hélt um stýrisvölinn eða stýrissveifina stóð í svokölluðu stýrisgati í þilfarinu aftan við vélarhúsið. Þegar eitthvað var að veðri, stóð stýrimaður þar „í grænum sjó“.
Engin hitunartæki voru í lúkar til þess að ylja þar upp. Þar urðu því sjómennirnir að hýrast í kulda og fúlu rakalofti frá austrinum í bátnum, sem meira og minna var mengaður rotnandi fiskblóði og slorslepju. Sú rotnun olli kolsýrulofti í þessum óvistlegu vistarverum skipverja.
Til þess að fjarlægja sjóinn úr bátnum eða austurinn var notast við lélegar handdælur á þilfari.

Ömurlegast af öllu var þó það, hversu veikbyggðir bátarnir voru fyrstu árin, meðan reynslan var að ryðja sér til rúms, opna augu manna fyrir göllum eða gæðaleysi þessara fyrstu vélbáta á frumstigi eða við upphaf vélvæðingaraldarinnar á þessu landi. Allt var smátt í sniðum og byggt af vanefnum og sárri vöntun á mörgum hlutum. Línan var t. d. lögð og dregin við kertaljós. Við öldustokkinn á stjórnborða aftarlega á bátnum var festur stafur eða völur svo sem tveggja metra hár. Við hann var lagnarlugtin fest með tveim járnhespum. Eitt kerti logaði í ljóskeri þessu. Það var öll ljóstæknin, sem skipshöfnin réði yfir. Við þessa týru var línan lögð með höndunum, oft í svartamyrkri og byl. (Sjá slíka lagnarlugt í Byggðarsafni Vestmannaeyja). Fyrst framan af var línan einnig dregin á höndum á vélbátunum.

Við þessar veiðiaðstæður allar innti sjómannastéttin íslenzka af hendi þrekraun, afrek liggur mér við að segja. Sigur hennar í þessari baráttu upp á líf og dauða, varð sigur allrar þjóðarinnar og leiddi fram til æ fullkomnari veiðitækni og valds yfir náttúruöflunum á vissu sviði. Kjarkur og athafnaorka sjómannanna reyndist ódrepandi.
Meðan vélbátaútvegurinn okkar var á frumstigi, reyndi oft mikið á hyggjuvit og útsjón formannsins og útgerðarmannsins, sem mjög oft var einn og sami maðurinn.

Nú týna þeir íslenzkir sjómenn óðum tölunni, sem harðast stóðu í stríðinu og fastast sóttu sjóinn á íslenzka vélbátaflotanum á fyrsta og öðrum áratug þessarar aldar. Þeir þeirra sem enn eru lífs, eru háaldraðir. Einn þessara háöldruðu sjómanna hér er Friðrik Jóh. Guðmundsson í Batavíu við Heimagötu (nr. 8). Foreldrar hans voru hjónin í Batavíu Guðmundur Ögmundsson og Ingibjörg Sigurðardóttir. Guðmundur var fyrsti vitavörður á Stórhöfða. Það var 1906.

Friðrik Guðmundsson er fæddur 2. nóv. 1888 í Batavíu, sem áður hét Brandshús fram til ársins 1880.
Kornungur að árum byrjaði Friðrik í Batavíu að vinna við þurrkun fisks á stakkstæðum eins og þá var títt hér. Þar lágu bernskuspor barna í Eyjum allt sumarið, væru þau ekki send í sveit. Nokkra aura fengu þau í aðra hönd fyrir stakkstæðisvinnuna.

Árið 1908 hafði Ástgeir Guðmundsson bátasmiður í Litlabæ lokið við að smíða 8-9 smálesta vélbát fyrir Kristján formann Einarsson í Batavíu o. fl. Þessi bátur var Von, VE 109. Hún var byggð úr furu og knúin 8 hestafla Dan-vél. Matthías Finnbogason, vélasnillingur á Litlhólum, setti vélina í bátinn. En með honum vann Friðrik í Batavíu, þá tvítugur að aldri. Hann átti að verða vélamaður á hinni nýju fleytu og var nú í námi hjá Matthíasi. Þarna lærði hann að þekkja hvern hlut í vélinni eftir því sem þeim var komið fyrir og gildi hans eða not eða þá áhrif á gang vélarinnar. Og náttúran reyndist hér sem oftar náminu ríkari hjá hinum unga manni. Hann heillaðist af allri þessari tækni og varð hinn farsælasti vélamaður á útvegi þessum um nær 30 ára skeið.

Um árabil var Friðrik J. Guð. mundsson vélamaður á Austfjörðum, bæði í Norðfirði og Seyðisfirði. Sex vetrarvertíðir var hann vélamaður hjá Sigfúsi skipstjóra Scheving í Heiðarhvammi á vélbátnum Maí.
Friðrik hætti að fullu að stunda sjó árið 1953, þá hálfsjötugur að aldri. Síðan hefur hann unnið við fiskiðnaðinn hér fram til hins síðasta.
Mörg sumur hvíldi hann sig frá sævarvolkinu með því að stunda múrarastörf.

Friðrik kvæntist 18. desember 1909 Sigríði Guðmundsdóttur, hinni mætu konu, ættaðri af ströndum Breiðafjarðar. Þeim hefur orðið 4 barna auðið. Þrjú þeirra eru látin. Börnin voru þessi:

  1. Ingibergur, verkstjóri við Vestmannaeyjahöfn og afgreiðslumaður, síðast hafnsögumaður, f. 27. jan. 1909. Giftur Ágústu Jónsdóttur. Heimili: Brimhólabraut 19. Þau eignuðust 3 börn. Ingibergur lézt 2. jan. 1964.
  2. Filippía, f. 29. júní 1912. Dáinn 29. júní 1933.
  3. Sölvi, f. 20. ágúst 1917, verkstjóri. Kvæntur Inger, f. Hansen. Heimili: Safamýri 34, Rvk. Þau eiga 2 börn.
  4. Helgi, f. 8. des. 1928. Hann drukknaði barn að aldri hér í höfninni.

Á næsta ári verður hinn aldni sægarpur, víkingur, Friðrik J. Guðmundsson áttræður. Blik þakkar honum fyrir ýmsa fræðslu um aldamótatímana hér í Eyjum og árnar honum, konu hans og fjölskyldu allra heilla.

Stórhöfðaviti um 1915, norðurhlið. Vitinn var fullgerður til nota 1906. Þá gerðist Guðmundur Ögmundsson í Batavíu vitavörður. Hann var þá ekkjumaður (kona hans dó 1905) og íbúð hans var í byggingunni undir sjálfum vitanum. Árið 1910 var svarta húsið til hægri byggt. Hætti þá Guðmundur Ögmundsson vitastörf um en Jónatan Jónsson gerðist vitavörður. Útidyr voru á skúrnum svarta út í sundið milli hans og íbúðarhússins svarta. Upp úr því sundi lá járnstigi upp í vitann. Hellisey sést á myndinni og hornið á Suðurey til vinstri við fólkið. Maðurinn með hattinn er Árni kaupmaður Sigfússon. Konan með hvíta slifsið og slegna sjalið er frú Ólafía Árnadóttir kona Árna. Aðrir tveir á myndinni óþekktir.