Svaðkot

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. ágúst 2007 kl. 12:53 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. ágúst 2007 kl. 12:53 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Bærinn Svaðkot var ein af Ofanleitishjáleigum fyrir ofan hraun. Stóð bærinn í útsuður frá Ofanleiti og skammt frá því húsi. Mjög vandaður hlaðinn garður úr grjóti var kringum Svaðkot en sá garður lenti undir flugbrautinni þegar hún var lengd til vesturs.

Sá galli þótti við jörðina Svaðkot að tún bæjarins voru langt sunnan við bæinn sjálfan og þurfti því að fara með áburð og hey yfir Gvendarhústúnin. Þótti það til mikilla óþæginda. Þegar Jón Jónsson , sonur Jóns hreppstjóra í Dölum , byrjaði búskap sinn í Svaðkoti ásamt konu sinni Guðríði Bjarnadóttur (þau eru foreldrar Ragnheiðar Jónsdóttur frá Þrúðvangi) , nokkru fyrir aldamótin 1900, ákvað hann að flytja bæinn suður í jarðartúnin og reisti hann þar.

Árið 1903 tóku við ábúð í Svaðkoti Jón Guðmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir en þau fluttu hingað úr Landeyjum. Árið 1925 réðst Jón í að byggja nýtt íbúðarhús í Svaðkoti, á nær sama stað og gamla bæjarhúsið hafði staðið, en örlítið vestar. Naut hann þar aðstoðar sona sinna, Jóhanns og Sigurgeirs en ákvað um leið að gefa húsinu nýtt nafn og heitir þar síðan Suðurgarður.

Ekki hefur verið búskapur á Svaðkotsjörðinni (Suðurgarði) síðan nokkru eftir miðja síðustu öld en tómstundabændur hafa aðstöðu í útihúsum jarðarinnar og nytja túnin.


Heimildir