Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Vatnsleiðslan til Eyja 1968

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. apríl 2019 kl. 13:36 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. apríl 2019 kl. 13:36 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Guðjón Ármann Eyjólfsson

Vatnsleiðslan til Eyja 1968
Útlögn vatnsleiðslu milli lands og Vestmannaeyja í júlí 1968

Guðjón Ármann Eyjólfsson

Frumraun
Ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að ganga til samninga við erlent stórfyrirtæki um framleiðslu vatnsleiðslu til þess að flytja ferskt vatn frá fastalandinu yfir 90 metra djúpt Eyjasund út til Eyja er vafalaust ásamt hafnargerð sú framkvæmd, sem hefur skipt mestum sköpum í sögu Vestmannaeyja. Með kjarki og framsýni stóðu Vestmannaeyingar og allir flokkar í bæjarstjórn einhuga að því verki.
Framkvæmdir Vestmannaeyjabæjar vatnsleiðslunnar var þá stærsta verkefni sem bæjarfélag af þessari stærð á Íslandi hafði ráðist í og brotið var blað í sögu Eyjanna. Verkið var frum¬raun danska stórfyrirtækisins NKT (Nordisk Kabel og Trádfabrik), sem fór inn á nýja braut framleiðslu og áður óreynda. Vatnsleiðslan á milli lands og Eyja var fyrsta leiðsla sinnar tegundar sem var lögð svo langa leið og á svo miklu hafdýpi.

Henry P. Lading.

Áður en þessi heillavænlega ákvörðun var tekin höfðu menn rætt fram og aftur hvernig ætti að leysa þann mikla vanda sem skortur á neysluvatni var orðinn í Vestmannaeyjum. Uppástungur komu fram um eimingu sjávar og jafnvel að nota kjarnorku til þess að framleiða vatn.
Gerð vatnsleiðslunnar og útlögn frá sérstaklega byggðu skipi. sem lagt var við verksmiðju Norræna símafélagsins í Kaupmannahöfn, þar sem leiðslan var vafin upp á heljarmikla tromlu á skipinu eftir því sem framleiðslunni miðaði áfram, var verk brautryðjenda. Skipið hét H. P. Lading og var þriðji hluti af upphaflega gömlu olíuskipi. Öflugur dráttarbátur, Frigga, frá danska björgunarfyrirtækinu Switzer, dró H.P. Lading með kapalinn upp til Íslands í júlímánuði 1968.

Vatnsskortur
Vestmannaeyingar höfðu frá aldaöðli mátt búa við vatnsskort. Vatnsbólin, Lindin, austast í Herjólfsdal og Vilpa austur við Vilborgarstaði, voru bæði lítil og ónóg og algert neyðarbrauð fyrir vaxandi kaupstað með þróttmikilli og vaxandi fiskvinnslu eftir ströngustu gæðakröfum og stöðlum. Dönsku kaupmennirnir í Garði höfðu fyrr á tíð safnað vatni undir Löngu og voru þar miklar ámur til þess að safna bergvatninu í. Kaupskip sem komu með vörur til Vestmannaeyja á vorin og sigldu á brott síðla sumars með þurrkaða skreið eða saltfisk til Miðjarðarhafslanda fengu einnig vatn undir Löngu. Síðar var þarna steyptur brunnur og vatnið leitt að lítilli bryggju vestast við Lönguna, fram af Neðri-Kleifum, þar sem vélbátar tóku vatn fram undir 1950. Á fjöru streymir einnig vatn úr smásprænu innst í Klettshelli og var stundum farið þangað til að ná í vatn þegar allt um þraut. Við nokkur hús voru strax fyrir aldamót byggðir sérstakir brunnar og brunnhús, t.d. við Frydendal. Eftir að hús með bárujárnsklædd þök voru reist byggðu menn steinsteypta brunna eða brunna hlaðna með steinlími við hvert íbúðarhús og var regnvatni safnað af húsþökum, en hvorki var það vatn heilsusamlegt né kræsilegt til drykkjar. Á húsþökin settist sót frá olíu- eða kolareyk meðan hús voru upphituð með því eldsneyti, auk þess sem fuglar báru óhreinindi og drituðu á þökin.

Séð aftan á Henry P. Lading. Ljósm.: Sigurg. Jónass.

Sumir reyndu að hreinsa rigningarvatnið áður en það fór í brunnana með því að láta vatnið fara í gegnum fínan skeljasand, sem var í tveim aðskildum, steinsteyptum hólfum, t.d hafði Eyjólfur, faðir minn á Bessastöðum, útbúið þannig hreinsara. Þrátt fyrir þetta settist sót innan á brunna og varð að hreinsa þá og kústa með sementsblöndu a.m.k. einu sinni á ári. Vatn í Vestmannaeyjum var því munaðarvara, sem varð alltaf að spara og fara vel með. Til þess var tekið í Reykjavík og annars staðar þar sem hefur verið bruðlað með vatn, að Vestmannaeyingar mattu aldrei heyra í rennandi vatni eða sjá opin krana öðru vísi en ganga þar að og loka fyrir.

Landtakan.

Sumarið 1966 var þurrviðrusamt og varð þá svo mikill vatnsskortur í Eyjum að vatn var flutt til Vestmannaeyja með skipum, en tugir heimila voru á biðlista til þess að fá vatn, sem var keyrt um bæinn á vörubílum, sem höfðu stóra vatnstanka á pöllunum. Vatnsbílar voru einnig í stöðugum vatnsflutningum frá vatnspóstinum í Herjólfsdal, þegar þar var fáanlegt vatn. Bæjarsjóður hafði sett allmikið fé í að leita með jarðborunum eftir vatni á Heimaey, bæði í Löngulág, þar sem síðar var byggður mikill vatnsgeymir, sem tekur 5.000 tonn af vatni, og norðan við Hána, en þar var á sínum tíma boruð dýpsta borhola á íslandi, 1565 m. djúp. sem gaf þó ekki þann árangur sem skyldi. Það var því til mikils að vinna ef unnt yrði að leysa þennan vanda, vatnsskort Vestmannaeyinga, bæði til heimilisnota og við fiskvinnsluna.
Auk þess sem það skipti hvert heimili miklu máli að fá betra neysluvatn til drykkjar og þvotta var brýn nauðsyn fyrir fiskiðnaðinn, fiskvinnslustöðvar, loðnu- og síldarbræðslur, að fá nægilega mikið og gott vatn; sérstaklega eftir að aukin áhersla var lögð a loðnuveiðar og bræðslu loðnuaflans.

Lögn vatnsleiðslu
Í ritinu Við Ægisdyr eftir Harald Guðnason fyrrverandi skjalavörð, er ágætur og ítarlegur kafli um Vatnsveitu Vestmannaeyja.
Hér er þessi saga rifjuð upp sem inngangur að skýrslu um lögn fyrri vatnsleiðslunnar 16. og 17. júlí 1968, sem ég tel vert að geyma í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja (Sjá skýrslu á bls. 49).
Síðari vatnsleiðslan var lögð árið 1971, en samanlagt flytja þær 4 til 5 þúsund tonn af vatni á sólarhring. Vatnið er leitt 22,5 kílómetra frá vatnsbóli í landi Merkurbæja undir Vestur-Eyjafjöllum að dæluhúsi á Bakkafjöru í Landeyjum, en Vestmannaeyjabær keypti á sínum tíma vatnsréttindin. Leiðin frá Bakkafjöru og út til Eyja er rúmir 13 kílómetrar.

Leiðin til Eyja fyrir rafstreng og vatnsleiðslur
Það má telja upphaf að leið þeirri sem valin var fyrir vatnsleiðslurnar um Álinn og Eyjasund, að sumarið 1961 voru gerðar all umfangsmiklar sjómælingar til þess að finna leið fyrir rafstreng út til Vestmannaeyja.
Ég, undirritaður, tók þátt í þeim mælingum sem stýrimaður og sjómælingamaður á sjómælingabátnum Tý með Gunnari Bergsteinssyni, sem var skipstjóri og stjórnaði mælingunum. Ég man eftir að við hófum rannsóknina með því að tveir Eyjaformenn fóru með okkur á Tý upp undir sand. Eyjólfur faðir minn og Þorgeir Jóelsson á Sælundi, sem var hverjum manni kunnugri á Eyjamiðum. Einnig var með okkur Garðar Sigurjónsson rafveitustjóri. Um tíu árum áður, sumarið 1951 að mig minnir, hafði Pétur Sigurðsson gert umfangsmiklar sjómælingar á Tý til þess að finna hreina og hraunlausa leið frá sandinum og út til Eyja. Sú leið lá austan við Ellirey og Bjarnarey, sunnan við Bjarnareyjarál og dýpri Mannklakk upp í Kópavík suður á Heimaey, sunnan Kervíkurfjalls og var a.m.k 5 kílómetrum lengri leið en sú sem við fundum þarna um sumarið.
Mér hefur alltaf fundist að þessi ferð upp undir sand, snemmsumars árið 1961, með þeim Þorgeiri og Eyjólfi, hafi gert útslagið á að við vorum öruggari um að við myndum finna betri og styttri leið vestan við Ellirey sem varð einnig raunin.

Ég man eftir að ég sagði í hálfkæringi við Þorgeir frænda minn sem ég þekkti vel, að einhvern tíma hlyti hann að hafa reynt þarna fyrir sér með snurvoð! en það var að sjálfsögðu ekki góð latína að viðurkenna það um borð í skipi Landhelgisgæslunnar! Hann brosti í kampinn með sinni sérstöku hægð og fasi og við fórum síðan heim til hafnar svipaða leið og bæði rafstrengur og vatnsleiðslurnar tvær voru síðar lagðar, rétt vestan við Ellirey og austan við lngimundarklakk; taldi Þorgeir þessa leið vel færa og þá bestu.
Við vorum síðan við sjómælingar á Tý umhverfis Eyjarnar um sumarið fram að mánaðamótum ágúst/september.
Mér var falið það hlutverk að fara með Lóðsinn og gera botnrannsóknir á væntanlegri leið fyrir rafstrenginn milli lands og Eyja. Við fórum af stað í ágætis veðri og sléttum sjó. Með var áhöfnin á Lóðsinum og nokkrir hafnarstarfsmenn. Minnist ég m.a. Sigga Valda og Sigga á Löndum, einnig var með okkur bormaður frá Jarðborunum ríkisins, Guðmundur að nafni, sérstaklega liðlegur og duglegur náungi. Ég tók staðarákvarðanir og réði hvar yrði borað og valdi auðveldustu og öruggustu aðferðina. Við lágum alltaf í miðinu „eyjarnar saman", þ.e. Bjarnarey og Ellirey ,,kyssa", þegar við hófum boranir upp við sandinn og héldum síðan áfram í því miði til Heimaeyjar yfir Eyjasund og Álinn. Þetta varð því örugglega bein lína og aðeins þurfti að taka eitt lárétt horn, þvert á miðið við hvern stað. Veður var ágætt og í blíðskaparveðri unnum við stanslaust í meira en sólarhring við boranir og botnrannsóknir.
Við tókum síðustu athugunina og botnsýnin við Litlaklettsnef, þar sem er ægifínn sandur. Þá minnir mig að klukkan hafi verið um níu að morgni, en við höfðum byrjað daginn áður upp úr átta um morguninn. Öllum þótti ég þaulsetinn, en ég vildi nota blíðuna og sagði við karlana að þetta væri eins og á snurvoð! og létu sér það allir vel líka. Sumarið eftir, 1962, var rafstrengur lagður eftir þessari leið. Hann hefur ekki hreyfst, nema auðvitað inni í Klettsvík, þar fór strengurinn strax í sundur veturinn eftir að hann var lagður.

Hér sést lega vatnsleiðslanna beggja, en sú seinni var lögð 1971. Einnig sýnir kortið tvo neðansjávarrastrengi. Sá vestari liggur ekki lengur upp á Eiðið. Legu hans hefur verið breytt eins og pennastrikið sýnir. Bannsvæði allra fiskveiða er merkt rækilega sitthvoru megin við leiðslurnar og kaplana. Þetta er hluti úr korti 321.
Frá vinstri Frigga, Lóðsinn, Henry P. Lading, Magni og Goðinn.

Það var alveg sama hvað við Vestmannaeyingarnir sögðum um þennan krók inn í Klettsvík. Það fékk engu um þokað.
Ég og Garðar, rafveitustjóri á Borg, vöruðum mjög við að taka rafstrenginn upp í Klettsvík og bentum á, að hann yrði þar aldrei til friðs, eins og kom líka á daginn í vetrarveðrum. Síðan voru lagðir rafstrengir úr Klettsvík upp í Heimaklett og þaðan niður á Skans í þrjá steinsteypta staura, sem voru mikil mannvirki, af því að þarna var mjög djúpur jarðvegur. Ég skildi aldrei þessa aðferð. Það var t.d. ekki á færi annarra en góðra fjallamanna að vinna uppi í Kletti og vann m.a. Sigurður Jóelsson, sem var frábær fjallamaður, við það verk. Í Klettsvík varð einnig að steypa mikil berghöld fyrir loftstrengina, sem lágu upp í Heimaklett. Við Garðar Sigurjónsson vorum sammála um að það hlyti að vera ódýrara að fara með leiðsluna inn Leiðina og sprengja og grafa hana þar niður eins og var síðar gert með vatnsleiðslurnar árið 1968 og 1971. Einn þessara miklu rafmagnsstaura stendur enn austan við Skansinn, sem nokkurs konar minnismerki um verkið og lögn rafmagns frá fastalandinu til Eyja árið 1962. Það var hugsanlega hluti af þeirri hugmynd að fara þessa merkilegu leið.

Sagan endurtekur sig
Hér endurtók sig eiginlega sagan frá því er gerð hafnargarða í Vestmannaeyjum hófst árið 1913. Danskir verkfræðingar komu til mælinga og athugana í Eyjum í maímánuði sumarið 1912. Þá var blíðuveður og verkfræðingarnir létu sem vind um eyru þjóta, þegar Eyjamenn vöruðu við hörðum vetrarveðrum og sögðu að grjót í hafnargarðana yrði að vera af stærstu og þyngstu gerð. Þegar Vestmannaeyingar höfðu barist við að treysta Hringskersgarðinn í 16 ár, en fyrstu árin eftir að bygging hafnargarðsins hófst var garðurinn stundum í rúst eftir austan og suðaustan hvassviðri og stórsjó, þá lýsti Thorvald Krabbe, hafna- og vitamálastjóri, því yfir, ,,að þegar farið var að byggja garðana, kom í ljós, að sjávaraflið á þessum stað var miklu meira en hægt var að ímynda sér fyrirfram." Það var einmitt það sem heimamenn höfðu bent á frá upphafi. Sumarið 1968 vöruðum við Vestmanneyingarnir við sterkum vetrarsjó í Klettsvíkinni eins og það var forðum daga fyrir eldgosið í Heimaey 1973.

Borun á Lóðsinum
Botnsýni úr borkjörnum við borun á Lóðsinum voru lögð í kassa og kjarnarnir vandlega merktir. Ég hélt að það hlyti að vera merkilegt fyrir jarðvísindamenn, en aldrei hefi ég frétt meira af þessum kössum og veit ekkert hvað varð um þá. En þá leið sem við fórum á Lóðsinum yfir Eyjasund og Álinn, var sandur og möl á botninum allt að 40 til 50 sentimetra undir yfirborði sjávarbotnsins. Rétt norðan við Ellirey var grófari möl og kantur, um það bil einn til tveir metrar á hæð, sem ég gæti trúað að harður straumur hafi sorfið, en á Eyjasundi og ekki hvað síst hart upp við sandinn getur straumur orðið mjög sterkur, ekki síst vesturfallið, eins og sjómenn, sem hafa verið þarna á veiðum, þekkja mjög vel.

Vatnslögnin 1968
Ég var því nokkuð kunnugur væntanlegri leið vatnsleiðslunnar á milli lands og Eyja. Þegar H.P.Lading var kominn til Vestmannaeyja, en skipið kom til Eyja 10. júlí. Óskaði N.P.Nielsen skipstjóri eindregið eftir því að með honum við undirbúning leiðarmerkja og til staðsetninga við útlögnina yrði sjómaður, sem kynni eitthvað í siglingafræði. Þannig gerðist það að ég fór að vinna við þetta skemmtilega verkefni. Yfirumsjón með verkinu hafði Þórhallur Jónsson, þá bæjarverkfræðingur, en einnig var með skipinu danskur verkfræðingur, Magnús H. Magnússon bæjarstjóri.

Tvö lárétt horn mæld. Greinarhöfundur Guðjón Ármann Eyjólfsson til hægri.

Guðlaugur Gíslason alþingismaður og fleiri frammámenn fylgdust einnig grannt með verkinu. Uppi á landi, á Bakkafjöru, stjórnaði Hávarður Birgir Sigurðsson bæjarverkstjóri landtöku á vatnsleiðslunni sem var fleytt í land á tómum olíutunnum. Hann fagnaði mér, gömlum skólabróður úr gagnfræðaskóla, þegar við ösluðum í land upp grunnsævi á fjörunni þarna við Tangann. Kafarar, og minnir mig að Sölvi í Batavíu væri þar fremstur í flokki, unnu við að skera tunnurnar frá leiðslunni. Á Haugunum, austur á Urðum, og inni í Botni, voru nokkrum dögum fyrir útlögnina reistir miklir þríhyrningar, sem leiðarmerki til að sigla inn eftir við lögn leiðslunnar og varð að staðsetja merkin nákvæmlega. Það var gert með sextanti og theodolít. Dagana áður en lítlögnin hófst var nokkur spenningur um hvort við myndum fá nógu gott veður til að athafna okkur upp við sandinn og vorum við Eyjamennirnir órólegir og vildum alls ekki missa neinn tíma. Allt fór þetta sem betur fer mjög vel og má segja eins og best varð á kosið. Ég vona að skýrslan sem var samin fyrir bæjarstjóra og einnig send Sjómælingum Íslands, gefi allglögga mynd af því hvernig þessi sögufræga útlögn gekk fyrir sig um borð í H.P.Lading þennan spotta yfir sundið milli lands og Eyja.

Þetta var fögur sumarnótt og þegar dimmast var, húm nætur með fallegri þokuslæðu á fjallatoppum, sem er oft í Eyjum á mið- eða síðsumri. Eitthvað gerði þetta okkur erfiðara fyrir að taka lárétt horn, sem við tókum á fimm mínútna fresti með sextanti, ég og yfirstýrimaðurinn á dráttarbátnum Frigga, en kom þó ekki að sök. Þegar við komum til hafnar var okkur vel fagnað og við höfðum þá góðu tilfinningu, að bæjarbúum fyndist að unnið hefði verið gott verk, sem skipti Vestmannaeyinga og alla mjög miklu. Margir þökkuðu af heilum hug, en ánægjulegast var að fá að vera einn af þeim mörgu sem þarna höfðu lagt hönd að verki.
Ekki er nokkur vafi á því að lögn þessara tveggja vatnsleiðslna út til Vestmannaeyja ásamt heimæð til allra húsa í bænum. aðveitulögn frá vatnslindinni upp við Eyjafjallajökul, bygging dælulhúss á Bakkafjöru og fimm þúsund tonna vatnstanka í Löngulág voru tímamótaframkvæmdir. Mannvirkin eru og munu verða fjöregg Eyjanna. Þetta átti ekki hvað síst eftir að koma í ljós, þegar eldgosið með allri þeirri röskun og eyðileggingu sem því fylgdi reið yfir Vestmannaeyjar og Vestmannaeyinga árið 1973. Endurreisn mannlífs og atvinnu í Vestmannaeyjum eftir þær hremmingar hefði orðið nærri óyfirstíganleg, ef ekki hefði notið þessarar framkvæmdar, lagnar vatnsleiðslu út til Eyja ásamt fullkominni vatnsveitu, sem var í höfn þegar eldgosið dundi yfir.

Guðjón Ármann Eyjólfsson
skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík