Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Björgunarfélag Vestmannaeyja 80 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. apríl 2019 kl. 14:33 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. apríl 2019 kl. 14:33 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Björgunarfélag Vestmannaeyja 80 ára

Það var 3. ágúst 1918 að Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað. Fyrst hafði því máli verið hreyft á kosningafundi áríð 1914 af Eldeyjar Hjalta. Megintilgangurinn með stofnun þess var að kaupa og reka björgunar- og varðskip við Vestmannaeyjar. Þetta var 10 árum áður en Slysavarnarfélag Íslands var stofnað og fyrir daga íslenskrar landhelgisgæslu. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu eftirtaldir: Karl Einarsson alþingismaður formaður. Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður skrifari, Gísli Lárusson kaupfélagsstjóri, Þorsteinn Jónsson útvegsbóndi og skipstjóri, Sigurður Sigurðsson lyfsali var ráðinn erindreki stjórnar.
Fyrsta verkefnið, var að fá lagðan talsíma suður í Stórhöfða, til þess að hægt væri að koma skilaboðum, sem fyrst niður í bæ, ef til nauðstaddra báta sæist.

Í ágúst 1919 bauðst félaginu danska hafrannsóknarskipið Thor til kaups. Þetta var gufuskip, 115 fet á lengd, 21 á breidd, 11 á dýpt og ganghraðinn var 10 sjómílur. Kaupverðið var 150 þúsund krónur.
Styrkur alþingis til kaupanna var 90 þúsund krónur, og hér í Eyjum söfnuðust 182 þúsund krónur. Eftir kostnað erlendis og heimsiglingu kostaði skipið krónur 272,427,00,-.
Það var svo hinn 26. mars 1920 að Þór kom í fyrsta skipti til Eyja við mikinn fögnuð íbúanna. Á meðan hann var í eigu Björgunarfélagsins til miðs árs 1926, er eftirfarandi til um störf hans. Þar vantar tvö fyrstu árin:
Í landhelgi voru tekin 65 skip. Sektir námu 490 þúsundum króna. Að auki voru afli og veiðarfæri gerð upptæk, og rann það allt í ríkissjóð. Hann fór á þessum tíma 80 sinnum til að leita að bátum og dró 40 í land. Á þeim voru 2-300 menn. Hann var oft í flutningum með vörur og fólk, og þegar sæsíminn slitnaði voru loftskeytatæki skipsins notuð til þess að hafa samband við land. Hann gætti veiðarfæra Eyjabáta fyrir ágangi erlendra togara, og hífði oft upp netahnúta. Á vertíðinni 1921 var læknir um borð í skipinu. Til reksturs skipsins veitti bæjarsjóður Vestmannaeyja samtals 450 þúsund krónum, meðan það var í eigu Vestmannaeyinga.
Þegar Björgunarfélagið hætti rekstri Þórs a miðju ári 1926, og ríkið yfirtók reksturinn, skuldbatt það sig til þess að hafa björgunar- og varðskip á Eyjamiðum á vetrarvertíðum. Það gekk eftir til ársins 1960, þegar Vestmannaeyjahöfn eignaðist Lóðsinn. Margt á mörgum árum lét Björgunarfélagið til sín taka til öryggis sæfarendum til fjölda ára. Fylgst var vel með öllum nýjungum í öryggisbúnaði og hann keyptur til notkunar þegar á reyndi.

Bjarni Sighvatsson, fyrsti formaður Björgunarfélags Vm., eftir að það og Hjálparsveit skáta sameinuðust 21. mars 1992

Hjálparsveit skáta Árið 1965 kom Jón Ögmundsson, þáverandi félagsforingi Skátafélagsins Faxa, með þá tillögu að stofna hjálparsveit innan félagsins. Á þjóðhátíð Vestmannaeyja hinn 6. águst 1965 hóf sveitin störf.
Það var svo 26. janúar 1966 að gengið var frá stofnun hennar, og kosin stjórn. Örn Bjarnason læknir var sveitarforingi, Halldór Svavarsson aðstoðarsveitarforingi. Sigurður Þ. Jónsson ritari og Sigurjón Einarsson gjaldkeri. Varamenn voru kjörnir Hörður Hilmisson og Gunnar Hinriksson.
Þann 29. nóvember 1971 var stofnað Landssamband hjálparsveitar skáta, og var Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum ein af 9 storfsveitum sambandsins.

Sameiningin
Hinn 21. mars 1992 voru Björgunarfélag Vestmannaeyja og Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum, sameinuð í eitt björgunarfélag, sem hlaut nafnið Björgunarfélag Vestmannaeyja, og merki Hjálparsveitarinn varð merki þess. Hjálparsveitin átti húseign að Faxastíg 38, sem var nánast full af björgunurtækjum og Björgunarfélagið átti hlut í Básum á Básaskersbryggju, og var hann sömuleiðis nánast fullur af björgunartækjum. Nú nýlega hefur hluturinn í Básum verið seldur öðrum félögum, sem þar eiga hluti, Slysavarnardeildinni Eykyndli, S/s Verðanda og vélstjórafélagi Vestmannaeyja. Aðsetur Björgunarfélagsins er nú á einum stað að Faxastíg 38.

Adólf Þórsson núverandi formaður Björgunarfélagsins. Með honum á myndinni er dóttir hans, Sólveig.

Fyrstu stjórn hins nýja Björgunarfélags skipuðu: Bjarni Sighvatsson form. Grímur Guðnason varaformaður, Eiríkur Þorsteinsson gjaldkeri og Aðalsteinn Baldursson ritari.
Meðstjórnendur voru kjörnir: Reynir Jóhannesson, Adólf Þórsson, Halldór Sveinsson og Jóhann Heiðmundsson.
Í dag skipa eftirtaldir stjórn félagsins: Adólf Þórsson formaður, Bjarni Halldórsson varaformaður, Bjarni Sighvatsson ritari og Sigurður Þ. Jónsson gjaldkeri.
Meðstjórnendur eru: Ólafur E. Lárusson og Davíð Friðgeirsson. Frá síðustu áramótum hefur Adólf Þórsson jafnframt verið í hálfu starfi hjá félaginu.

Það er hverri byggð nauðsynlegt að hafa öflugt björgunarfélag. Ekki síst. þar sem sjósókn er mikil og hörð eins og hér í Eyjum. Þetta sáu stofnendur Björgunarfélags Vestmannaeyja fyrir 80 árum, löngu áður en aðrir landsmenn, að undanskildum séra Oddi V. Gíslasyni í Grindavík, sem var frumkvöðull slysavarna meðal sjómanna á öldinni sem leið.

Við skulum standa vörð um Björgunarfélag Vestmannaeyja, þakka því farsælt starf í 80 ár, og óska því gæfu á komandi árum.