Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Sjóstangveiðifélag Vestmannaeyja
Flugfélagsmótin upphafíð
Saga sjóstangaveiðimóta hér í Vestmannaeyjum nær aftur til ársins 1960, en þá var haldið hér mót á vegum Flugfélags íslands. Hugmyndin var þeirra Flugfélagsmanna, en þeir fengu Axel Ó. Lárusson til að sjá um framkvæmdina hér. Aðrir heiðursmenn sem komu þarna við sögu voru m.a. Páll Þorbjörnsson, sem var yfirvigtarmaður og Guðlaugur Stefánsson í Gerði sá um að rita það sem þurfti.
Flugfélagsmótin urðu 3, en það var í febrúar 1962, að áhugi kom fram um að stofna hér sjóstangaveiðifélag og útkoman varð SJÓVE, sem ennþá starfar og hefur krafturinn aldrei verið meiri en einmitt nú. Ekki eru til bækur um fyrstu árin, þær eru um alla starfsemi félagsins frá árinu 1969, það eru fyrstu sjö árin sem vantar inn í. Þrátt fyrir þetta er vitað að fyrstu stjórn skipuðu Þórhallur Jónsson formaður, Axel Ó Lárusson gjaldkeri og ritari var Steinar Júlíusson.
Sá sem þetta ritar minnist þess að þegar hann kom hingað fyrst til Vestmannaeyja var Gullfoss flaggskip íslenska kaupskipaflotans hér um hvítasunnuna. Vakti þetta forvitni mína og var mér þá sagt að það stæði yfir sjóstangaveiðimót og væri skipið notað sem hótel fyrir aðkomumenn og þá einkum útlendinga, sem á þessum árum voru nokkuð fjölmennir á sjóstangaveiðimótunum. Útlendingum fækkaði er frá leið og nú eru þeir hættir að láta sjá sig, þó sagði Pétur Steingrímsson núverandi formaður að eitthvað væri farið að spyrjast fyrir um mótin aftur erlendis frá.
Ég neita því ekki að sem aðkomumanni þótti mér talsvert til þessa koma að sjálfur Gullfoss væri sendur hingað til að hýsa fólk sem væri hingað komið til að veiða þorsk og aðra fiska úr sjó.
Ekki þýðir að svindla
Löngum hefur það verið sagt um þá sem veiða á stöng, þó sennilega einkum þá sem veiða lax, að þeim hætti til að ýkja, eða að m.k. að segja ekki alveg satt. Þetta er ekki hægt að segja um sjóstangveiðimenn. Hjá þeim er allt skjalfest og allir fiskar vigtaðir af mjög svo ábyggilegum mönnum og þýðir ekkert að reyna svindla því vigtarmennirnir eru mjög vandir að virðingu sinni og ekki þarf að reyna að hafa áhrif á þá. Sem dæmi um þetta er hægt að fletta upp í mótabók SJÓVE og má taka mót frá árinu 1969.
Það ár er Axel Ó Lárusson, með samtals 129,8 kg. og dró þá stærsta þorskinn sem vigtaði 9,1 kg. Það hefur ekki þurft að grípa til skyndilokunar hans vegna. Sveinn Jónsson sem varð efstur þetta árið sló Axel við því hann var með 138,2 kg. Á þessu móti, sem var innanfélagsmót, tóku þátt tværfjögurra manna sveitir.
Það er ekki fyrr en á árinu 1970 að til eru skýrslur um hvítasunnumót, en þau verður að telja rósina í hnappagati SJÓVE. 27 þátttakendur voru á þessu móti og varð Ole Gaard Jensen aflakóngur og þarna kemur fram á sjónarsviðið afladrottning, Jóhanna Valdimarsdóttir með 99,5 kg. En konur hafa frá upphafi verið mjög virkar í sjóstangveiðinni.
Lúðrasveitin mætti á bryggjuna
Axel Ó. Lárusson segir að hann ásamt Steinari Júlíussyni umdæmisstjóra Flugfélagsins hér í Eyjum hafi verið sendir til Næstved í Danmörku til að kynnast framkvæmd sjóstangaveiðmóta. Með það fyrir augum að standa fyrir móti hérna í Vestmannaeyjum. Jóhann Sigurðarson í London átti hugmyndina og var ætlunin að reyna auka túristatraffikina hingað. Gefum Axel orðið: „Mótið 1960 var mjög fjölmennt og fengum við Guðlaug Gíslason þáverandi Alþingismann í lið með okkur og til að hafa gistinguna á hreinu var Gullfoss fenginn. Fyrstu dómarar voru Gulli í Gerði og Páll Þorbjörnsson og þeir voru það í nokkur ár.
Eitt árið leigðum við Sælahúsið undir gistingu og 1962, var það hótel H.B."
Var þetta ekki stór viðburður í bæjarlífinu, á þessum árum?
„Ég er nú hræddur um það. Þegar við komum að landi var lagst framan við Vinnslustöðina, eins og er reyndar gert núna, og það má segja að nær allir bæjarbúar, sem vettlingi gátu valdið, væru á bryggjunni. Lúðrasveitin spilaði lauflétta músík. Þetta var eins og á sjómannadaginn. Fiskurinn var vigtaður á bryggjunni og var fylgst með því af miklum spenningi. En þar voru í aðalhlutverki Guðlaugur Stefánsson og Páll Þorbjörnsson (í frétt í Morgunblaðinu frá 1962 er þeim hrósað fyrir nákvæmni og vel unnin störf.) Mikil og vegleg veisluhöld, sem fram fóru í Akóges, fylgdu þessum mótum. Eftir veiðina klæddu menn sig upp og söfnuðust saman í Akóges. í lokahófinu var sameiginlegt borðhald þar sem verðlaun voru afhent. Voru margar ræður fluttar við það tækifæri og síðan var verið að fram eftir nóttu þar sem sagðar voru veiðisögur m.m. Já þær eru ógleymanlegar stundirnar frá þessum tíma og ekki má gleyma því að maður eignaðist marga kunningja í gegnum þetta allt saman. Get ég þar nefnt Magnús í Pólnum og fl. og fl. þessir kunningjar mínir frá þessum árum eru því miður margir horfnir af sjónarsviðinu því ég var með þeim al yngstu á fyrstu mótunum."
Var ekki talsvert af útlendingum á fyrstu mótunum? Jú þeir voru þó nokkrir sérstaklega man ég eftir Bandaríkjamönnunum af Keflavíkurflugvelli, sem komu hingað í sérstakri flugvél. Einu sinni buðu þeir okkur á mót til sín og þá gistum við á hótelinu á vellinum sem seinna varð gamla flugstöðin."
Axel tók þátt í öllum mótum fram að gosi, en þá lagðist starfsemin niður um nokkur ár Var það ekki fyrr en á árinu 1976, að nokkrir áhugamenn um sjóstangveiði tóku sig til og endurreistu félagið. Hjálmar Eiðsson í bankanum var einn þeirra sem þá komu við sögu félagsins og hefur verið þátttakandi í öllum hvítasunnumótunum síðan.
Endurreist eftir gos
Hjálmar sagði frá því að eftir fyrsta sjóstangaveiðimótið sem haldið var 1960, hefðu allir Englendingarnir sem komu á Gullfossmótið
selt bæði hjól og stangir fyrir lítinn pening. Hefðu þeir ekki nennt að fara með þetta heim til sín. „Það voru þó nokkrir sem notuðu þetta tækifæri til að fá sér ódýrar stangir og hjól og það má segja að þetta hafi verið upphafið hjá mörgum og e.t.v. ástæðan fyrir þeim mikla áhuga sem hefur verið fyrir sjóstangveiði hér í Eyjum. En útlendingunum fækkaði sem komu til að taka þátt í mótunum, síðast man ég eftir Hollenskum hjónum sem komu hérna nokkrum sinnum. Hvítasunnumótiðhefursamt alltaf verið alþjóðlegt þ.e.a.s. verið öllum opið hvaðan úr heiminum sem er. Hvítasunnumótið hefur til skamms tíma verið eina tveggja daga mótið á landinu, en þegar Ísfirðingarnir fóru að halda mót fyrir einum þrem árum höfðu þeir það í tvo daga og svo eru Akureyringarnir farnir að halda tveggja daga mót.“
Þá gat Hjálmar þess að sennilega væru félagar um 100 í SJÓVE og þar af væru nokkrir upp á landi.
Pétur Steingrímsson formaður félagsins sagði í stuttu spjalli þegar verið var að ræða undirbúning næsta hvítasunnumóts að fleira en fiskur fengist á færin t.d. hefði Jóhann Fr, Kristinsson frá Akureyri einu sinni fengið 100 kall á stöngina. Það mætti eflaust segja margar fleiri sögur af veiðskap þeirra sjóstangveiðimanna, en til þess þyrfti sennilega heila bók. Getur þú ekki sagt eina góða sögu af sjálfum þér úr móti?
„Það er nú kannski ekki skemmtisaga, en ég lenti í því einu sinni á móti fyrir vestan að fá öngul í fingurinn. Við vorum staddir utan við Grænuhlíðina og þá var strax tekin stefnan í land. Þegar við vorum hálfnaðir kom bátur með lækni til móts við okkur og gerði hann að sárinu í snarheitum. Þess má geta að læknirinn átti að gera aðgerð á konu í landi, en fannst það miklu meira spennandi að komast á sjóinn til að sjá þessa undarlegu menn sem stunda stangveiði á sjó.“
Pétur sagði að nú stæði fyrir dyrum Hvítasunnumótið sem jafnframt er afmælismót en í fyrra var haldið fjölmennasta mót í sögu félagsins. Þátttakendur voru 81 og í einmuna veðri fékkst mesti afli frá upphafi eða rúm 14 tonn. Sagði Pétur þegar þetta er skrifað, að sennilega yrðu enn fleiri keppendur í ár. Mótið í fyrra er fjölmennasta mót sem haldið hefur verið á landinu og aldrei hefur meiri afli verið dreginn á land á slíku móti. „Akureyringar hafa alltaf verið okkar „erkifjendur", en þeir hafa tekið þátt í þessum mótum frá upphafi. Það hefur verið mjög góð samvinna okkar í milli þó keppnin hafi oft verið mikil. Ég get sem dæmi nefnt að þeir hafa m.a. látið okkur hafa flugur sem sem þorskurinn gleypir við.“
Aðal tilefni þessarar greinar var 25 ára afmælið og svona í lokin hvað hafið þið gert að tilefni þessarra tímamóta?
„Fyrsta árshátíð í sögu félagsins var haldin í vetur með miklum glæsibrag og á hvítasunnumótinu verður keppt um sérstaka verðlaunagripi sem einungis eru vegna þessara tímamóta og einnig er verið að útbúa sérstaka verðlaunagripi með merki félagsins og fleira verður gert.
Saga félagsins verður ekki sögð án þess að minnast á kempur eins og Svein Jónsson og Boga Sigurðsson sem eru orðnir þjóðsaganapersónur í lifanda lífi og er full ástæða til að skrá sögu þeirra og það fyrr en seinna. Sjóstangveiði virðist eiga það til að leggjast á heilu ættirnar ogrná þar nefna þær Borgarhóls systur, Þóru, Þuru, Ellu Boggu og Lillu, en þær hafa svo sannarlega gert garðinn frægan á síðustu árum.
Ég vil enda þessi skrif á því að óska félaginu til hamingju með þessi merku tímamót og vonandi verður tilefni til þess eftir 25 ár að tipla á því stærsta í 50 ára sögu félagsins.
Ómar Garðarsson