Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Minningar frá Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. júní 2018 kl. 15:15 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. júní 2018 kl. 15:15 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Hafsteinn Stefánsson:

Minningar frá Eyjum


Jón Vigfússon
Guðmundur Vigfússon
Sigurjón Ingvarsson
Einar Jónsson
Björgvin Angantýsson
Már Pálsson

Heimaey
Meðan báran á berginu gnauðar um börnin þín stendur þú vörð.
Þú ert umvafin ólgandi hafi og angan frá gróandi jórð.

Á sólríkum sumarsins degi sœlt er að koma á þinn fund.
Þá fagna mér útsker og annes, eyjarnar, drangar og sund.

Þú ert fögur í floskirtli grœnum fóstra hins bjargsœkna manns.
Demantur Drottins í sænum og djásnið í möttlinum hans.

Sagan er óendanleg og alltaf að gerast. Aðeins örsjaldan kemur það fyrir að menn taka sér penna í hönd og festa á blað minningar löngu liðinna daga. Minningar, sem oft vilja gerast ærið áleitnar við hugann. Lengi hefur mig langað að færa til frásagnar og reyna að lýsa einni af þeim minnisstædustu veiðiferðum sem ég hefi tekið þátt í á mínum sjómannsferli, en það var þegar íslenskt veiðiskip fékk verulegan afla í þorsknót í fyrsta sinn.
Um áramótin 1954-55 réðst ég í skiprúm til hins aflasæla og nafnkunna skipstjóra Guðmundar Vigfússonar frá Holti í Vestmannaeyjum. Skipið, sem Guðmundur stýrði, var Vonin VE 113. Átti hann ásamt bræðrum sínum, Jóni, sem var vélstjóri, og Guðlaugi matsveini, skip og útgerð og hafði verið svo um áratugi. Ekki mun ofsagt að þeir bræður hafi talist til þess kjarnafólks sem hvað harðast barðist við hinn mikla konung, Ægi, og stóð að uppbyggingu og verðmætasköpun Vestmannaeyja — oft við óblíðar aðstæður. Hygg ég að líða muni langur tími áður en minningin um þessa ágætu bræður fellur í gleymsku hjá Vestmanneyingum.
Að þessu sinni höfðu þeir bræður ákveðið að stunda netaveiðar eingöngu. Sjómenn voru þá að byrja að nota nælon-net með mjög góðum árangri. Virtist mönnum að þar mundu verða algjör þáttaskil í veiðiskap, svo miklum mun meiri afla skiluðu þessi nýju net en gömlu hampnetin. Almennt var það svo að menn veiddu á línu framan af vertíð, allt fram í miðjan mars. Þá voru netin lögð og þeirra vitjað daglega, ef veður leyfði, fram á lokadag. Það er mitt álit að ekki hafi verið margir sjómenn þess tíma sem töldu það vænlegt til árangurs að byrja vertíð með net. En Guðmundur Vigfússon batt ekki alltaf bagga sína sömu hnútum og aðrir samtíðarmenn, því átti ég eftir að kynnast. Ekki höfðum við farið margar veiðiferðir þegar hann trúði mér fyrir því að hann hefði haft samband við Fiskifélag Íslands og að þeir hefðu farið þess á leit við sig að hann reyndi nýtt veiðarfæri sem þeir hefðu látið gera. Þetta veiðarfæri var nót, 140 faðmar á lengd, og átti að geta náð niður á 28 faðma dýpi. Nótin var í aðalatriðum sett upp eins og síldarnót, að vísu var hún gerð úr grófara garni og möskvarnir stærri (dragnótarriðill). Nú skal haft í huga að skipverjar voru skráðir á netaveiðar og skipti því verulegu máli hvort þeir vildu taka þátt í þessu fyrirhugaða ævintýri.
Skipverjar voru þeir sem nú skulu nefndir, auk bræðranna sem ég hef áður talið: Sigurjón Ingvarsson frá Skógum í Eyjum. Hann var lengi skipstjóri á mótorbátnum Gísla Johnsen og hélt uppi áætlunarferðum á milli Vestmannaeyja og Stakkseyrar. Hann var orðinn nokkuð fullorðinn, en traustur maður og handfastari en margir þeir sem yngri voru. Einar Jónsson, oft kenndur við Heiðarhvamm, en ættaður frá Skála undir Eyjafjöllum. Hann var afburðaverkmaður að hverju sem hann gekk, hvort sem var á sjónum eða í landi. Pétur Pétursson, ungur maður, harðduglegur.
Hann var frá Stóru Hildisey í Landeyjum, en var oftast kenndur við Fagurhól í Vestmannaeyjum. Björgvin Angantýsson, ungur maður. Kom frá Siglufirði með foreldrum sínum sem bjuggu í Vestmannaeyjum um langt árabil. Björgvin mun hafa verið yngstur, glaðsinna og bráðröskur. Már Pálsson, kom barn að aldri með foreldrum sínum frá Fáskrúðsfirði. Hann var í báðar ættir frá sjómönnum kominn og hafði því ekki langt að sækja þótt hann gæti tekið til hendi. Og svo undirritaður.
Ef satt skal segja þá leist mér ekki á þessa hugdettu, en taldi líklegt að fyrst skipstjóri hefði fengið þennan brennandi áhuga, þá væri heillavænlegast að lýsa sig samþykkan og allt að því áhugasaman fyrir þorsknótaveiði. Við skipverjar ræddum þetta okkar á milli og þótt allar setningar, sem sagðar voru um málið, væru ekki bornar fram með mjög elskulegum hreim þá verður ekki annað sagt en skipshöfnin hafi verið sammála um að reyna nótina.
Þann 26. febrúar 1955 komum við að landi í fyrra lagi. Við áttum í sjó 5 tólfneta trossur sem allar voru nærri Eyjum, tvær við Sandagrunnið og þrjár vestan við Karga. Guðmundur hafði orð á því við okkur hvort ekki væri rétt að við yrðum í landi næsta dag og gætum við þá gert nótina klára, en hún var þá komin til Eyja. Við höfðum um daginn orðið varir við margar loðnutorfur, sumar mjög stórar, og renndum við í þær handfærum og fengum þorsk. Það var ekki um að villast að sá guli var undir. Þetta vakti með okkur bjartsýni og voru menn nú orðnir spenntir að reyna nýja veiðarfærið. Var því stungið upp á því að við skyldum þá um kvöldið nota tímann og drífa nótina um borð. Vel leit út með sjóveður og mikils virði að fá gott veður til að byrja með. Ég man vel ánægjusvipinn á Guðmundi þegar hann fékk þessar jákvæðu undirtektir. Voru nú hendur látnar standa fram úr ermum. Við lögðum nótina fyrir aftan stýrishús og fram í ganginn stjórnborðsmegin, fremri toggálginn hafði ekki verið tekinn í land í byrjun vertíðar og var því fljótlegt að ganga frá snurpuvírnum inn á togvinduna. Við höfðum tilbúinn lítinn háf til að háfa úr nótinni ef eitthvað fengist, önnur verk sem til greina gætu komið yrði að vinna með handafli.
Árla morguns næsta dag vorum við byrjaðir að draga netin sem við áttum við Kargann. Veðrið var eins og best verður á kosið og gekk fljótt og vel að afgreiða trossurnar. Síðan var siglt inn að Sandagrunni og dregnar þær trossur sem þar voru. Var því komið vel fram yfir hádegi þegar við höfðum lagt síðustu netin. Viðsáum eftir því seinna að við skyldum ekki láta netin ódregin þennan dag, en í þeim voru samanlagt um 700 fiskar, eða það sem kallast gat mjög tregur afli.
Nú var lónað með hægri ferð í átt heim að Eyjum. Ekki leið löng stund þar til við sáum loðnuflekk allstóran. Renndum við í hann færum og íengum nokkra væna þorska. Hressileg skipun kvað við úr stýrishúsinu: „Látið hana fara strákar!" Sleginn var hringur um torfuna og snurpað. Skipið lá rétt fyrir því litla en þægilega suðaustan kuli sem á var. Allt gekk því að óskum með kastið. Við byrjuðum að draga inn nótina, það var erfitt verk, því að ekki var „blökkinni" fyrir að fara. Nokkur hluti nótarinnar var kominn inn fyrir borðstokkinn þegar við fengum einn vænan þorsk ánetjaðan. Fátt eða ekkert benti til þess að nokkur afli að ráði væri í nótinni. En þegar við áttum eftir u.þ.b. fjórða hluta nótarinnar ódreginn gat að líta sýn sem ég hygg að enginn okkar muni gleyma, þótt gamlir verði. Geysileg mergð afþorski kom þarna upp á yfirborðið og synti hring eftir hring í nótinni. Það var um stund sem við áttuðum okkur ekki á því hvort þetta væri raunveruleiki eða draumur. Með þeim frum-stæðu tækjum. sem við höfðum, gekk illa að háfa. Samt náðum við öðru kasti sem gaf öllu meira en það fyrra. Heim til Eyja komum við um kl. 11 um kvöldið með 64 tonn og má segja að á bryggjunni hafi verið uppi fótur og fit. Það voru vissulega ánægðir menn sem gengu til hvílu að lokinni löndun aflans. Menn voru svolítið stoltir yfir því að hafa skilað góðu dagsverki. Það hvarflaði síst að okkur félögunum að svo mikil misnotkun yrði á þessu veiðarfæri, sem raun varð á, og tíminn átti eftir að leiða í ljós: rányrkja og algjört skipulagsleysi. En það væri efni í annan kapitula, nokkuð langan, sem vissulega mætti læra eitthvað af.
Hafsteinn Stefánsson

Vonin VE 113
Guðlaugur Vigfússon