Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1970/ Fiskikóngur Vestmannaeyja 1970

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. mars 2018 kl. 12:57 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. mars 2018 kl. 12:57 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Fiskikóngur Vestmannaeyja 1970


AFLAKÓNGUR VESTMANNAEYJA 1969


Óskar Matthíasson.

ENGUM kom á óvart, að Óskar Matthíasson skipstjóri á Leó skyldi verða fiski- og aflakóngur sama árið. Hann hefur undanfarin ár verið í fremstu röð fiskimanna í Vestmannaeyjum og er löngu þekktur fyrir myndarlega útgerð og sjómennsku.
Óskar er þvi vel kunnur af síðum Sjómannadagsblaðsins. Hann varð fiskikóngur Vestmannaeyja 1965 og 1966, vertíðarnar 1960, 1961 og 1969 annar aflahæsti.
Ritstjóri blaðsins heimsótti „kónginn“ nú skömmu eftir lokin. Hann var þá nýkominn frá Reykjavík, en þar hafði hann fylgst með smíði nýs báts, sem hann og synir hans kaupa.
Á þessu skipstjóra- og útgerðarmannsheimili andar skemmtilega af skipum og sjó. Á vængdyrum forstofu eru greyptar myndir tveggja fyrri báta Óskars, Nönnu, sem hann keypti í félagi við Sveinbjörn Guðmundsson í vertíðar-lok 1947 og Leó, sem Óskar keypti af Þorvaldi Guðjónssyni 1951; á vegg hangir mynd af afla-skipinu Leó VE 400, sem hann keypti frá Þýzkalandi árið 1959. Sigurjón, sonur Óskars, er með Leó í fyrsta sumamirnum, en Sigurjón var með bátinn allt s. l. sumar. Það er fylgst vel með öllu á heimilinu: Hann er á Víkinni, segir Óskar, fékk 1 1/2 tonn í fyrsta hali, 2 tonn í næsta og er að hífa núna, í skítabrælu. Annar sonur Óskars, Kristján, gengur hressilega til stofu. Hann er nýkominn úr öðrum túr sem skipstjóri á Blátindi. Þeir fengu rúm 30 tonn austur við „Höfða“, í fyrri túrnum fékk hann 20 tn.; 50 tonn á viku er ágæt byrjun. Matthías er úti með Engey á trolli.
Við Óskar spjöllum vítt og breitt um báta og útgerð, liðna vertíð og aflabrögð.
- Já, hörðustu árin voru á Nönnu, segir Óskar, þá átti maður ekki krónu og var álitinn hálfvitlaus að vera fara út í þetta, en eftir árið áttum við Bjössi bátinn.
Oft var hart sótt. Þau bjuggu þá á Bakkastíg, og Þóra, kona Óskars, hefur eitt sinn sagt mér, að hún hafi verið fegin, þegar hún flutti þaðan og þurfti ekki að horfa út á sjóinn.
Þetta voru erfið ár, við vorum á snurvoð, eilífur tóaburður; stundum ekki nema 3 á bátnum og vakað út heilu túrana.
Það hefur víst áður birzt í blaðinu um fyrstu vertíðina mína með Ingibergi, segir Óskar. Ég var mikið sjóveikur, en sá þó aldrei annað en sjóinn. Svo var það, þegar ég var á Skuldinni með Jóni Ben. á annarri vertíð minni, að Gunnlaugur heitinn á Gjábakka, sá mikli dugnaðarvargur, segir við mig: „Hvað á nú að gera við svona bölvaða aumingja til sjós, sem eru reknir í land fyrir sjóveiki eins og hverjir aðrir sveitarómagar“. Nú, ég sagði víst lítið, en þegar við erum komnir vestur undir Þrídranga, þá fer Gunnlaugur upp úr lúkar og kastar upp. Ég lét hann þá heldur betur heyra það, þrælvanan sjómanninn, sem hefði verið 40 ár til sjós og væri sjóveikur. Við þetta hljóp í mig einhver kergja, og ég gat ekki hugsað mér, að láta gamla manninn sjá, að ég ældi. Ég get því þakkað Gunnlaugi á Gjábakka, að ég hélt áfram á sjónum. Oft minntist ég á þetta við hann síðar; hló hann þá dátt, en vildi aldrei viðurkenna, að hann hefði verið sjóveikur.
Síðan kemur þessi klassíska spurning um vertíðina í vetur og aflabrögðin.
Í vetur var einstök blíða, aðeins tvisvar frátök og fiskirí ágætt. Við tókum netin 11. febrúar og vorum með þau úti alla vertíðina til 13. maí, fengum við samtals 1282 tonn. Þetta er því ágætt, því að hæsti bátur var kominn með rúm 200 tonn, þegar við byrjuðum. Í fyrra var afli þó enn skarpari, að mér fannst. Þá byrjuðum við ekki fyrr en 23. febrúar; vorum að lagfæra stýrishúsið á bátnum og fengum til vertíðarloka alveg um 1300 tonn (1296).
- Hvernig var aflinn?
- Aflinn var að mestu ufsi í byrjun vertíðar. Vorum við á inn og vestur og við Klöppina. Þá vestur og út af Knarrarósi og Stokkseyri. Gekk fiskur sérlega grunnt í vetur.

Ég vil leggja áherzlu á og vil að komi skýrt fram í þessu spjalli, að þennan góða afla á ég mikið að þakka prýðismannskap. Margir hafa verið með mér um áraraðir, einn til dæmis 13 vertíðir.

Leó VE 400 aflaði 2.100 tonna af bolfiski 1969. Brúttó aflaverðmæti: 14.060.000 kr.
Skipshöfnin á Leó. Talið frá vinstri: Jón Guðmundsson, Óskar Þorleifsson, Guðbrandur Valtýsson 2. vélstjóri, Ægir Sigurðsson, Sigmar Ólafsson, Sigurjón Óskarsson stýrimaður, Óskar Matthíasson skipstjóri með Leu, Sveinbjörn Snæbjörnsson matsveinn, Matthías Sveinsson 1. vélstjóri, Elvar Andrésson, Jón Úlfarsson.

- Það er mikið talað um óhemju netafjölda í sjó þessa vertíð. Hvað segir þú um það?
- Jú, það er alveg rétt. Eins og þú veist, má víst ekki hafa fleiri en sjö 15 neta trossur í sjó, en með þeim mannskap, sem ég hef, hreinsum við með leik úr 10 trossum. Hjá mér verður aldrei nema ein trossa tveggja nátta og þá alltaf sú trossa, sem ég veit, að lítið er í. Sumir komast ekki yfir að draga nema 7 trossur; þetta er allt undir mannskapnum komið. Þessum orðum mínum til sönnunar skal ég gefa þér upp matið á fiskinum okkar í vetur, sem var prýðilegt.

Í 1. flokk A fóru 872 tonn eða 68,2%
Í 1. flokk B fóru 342 tonn eða 26,9%
Í 2. flokk fóru 68 tonn eða 5,2%
Þetta gerir samt. 1282 tonn eða 100%<br

Úthaldsdagar Leós s. l. vertíð voru 95, en í 73 sjóferðum varð aflinn 1282 tonn og aflaverðmæti kr. 6.885.133. Aflinn var því að meðaltali um 18 tonn í sjóferð. Á bátnum var 11 manna áhöfn og hásetahlutur 209 þús. kr.

- Hvenær var besti róðurinn ykkar í vetur?
- Það var 1. mars, þá vorum við á Klöppinni og fengum um 55 tonn af ufsa. Það var alltaf þetta jafna og góða fiskirí í vetur. Eins og ég sagði þér var miklu skarpara fiskirí í fyrra, og þá fengum við til dæmis 470 tonn á hálfum mánuði á áður óþekktu smáhrauni út af Knarrarósvita, allt púra þorskur.

Óskar varð aflakóngur Vestmannaeyja árið 1969, og með mest aflaverðmasti Vestmannaeyjabáta sl. ár. Þetta ár kom Leó með rúm 2100 tonn af bolfiski að landi. Var Sigurjón, sonur Óskars, með bátinn á togveiðum allt sumarið og aflaði rúm 800 tonn. Vertiðaraflinn var 1296 tonn ósl.m.b., en sumaraflinn var 808 tonn. Samtals eru þetta 2104 tonn. Brúttóaflaverðmæti bátsins (með 27% og bónus) var rúmar 14 milljónir króna - 14.060.000 kr., en skiptaverðmæti aflans 10.432.000 kr. Eru þeir feðgar, Óskar og Sigurjón, og skipshafnir þeirra vel að heiðrinum komnar.

Hjónin Þóra Sigurjónsdóttir og Óskar Matthíasson. Frú Þóra er góður fulltrúi íslenzku sjómannskonunnar og tekur með lífi og sál þátt í störfum eiginmanns síns og sona. Þau hafa eignazt 7 börn og eru þrír sona þeirra hjóna nú aflasælir skipstjórar í Vestmannaeyjum.

Eitt skemmtilegasta einkenni á fjölskyldu Óskars og Þóru er samheldnin og erfð starfsins. Þar á heimilinu ríkir sú erfð, sem vantar ákaflega mikið í sjómanna- og útgerðarmannafjölskyldur hér á landi. Þar, sem starfið gengur frá föður til sonar með alla þá þekkingu, sem lífrænt og náið samband við starf föðurins skapar frá blautu barnsbeini.
Þegar talið berst að þessu, segir Óskar: Nú, strákanir hafa alltaf verið með lífi og sál í þessu. Þeir hafa allir skorið af og fellt netin og voru alltaf niðri í kró eða niðri á bryggju. Þegar maður er í útgerð er svo margt í kringum þetta fyrir utan sjálfa róðrana, svo að allt heimilið verður þátttakandi í þessu.
- Þú ert með nýjan bát í smíðum?
- Já, við strákarnir og öll fjölskyldan höfum stofnað hlutafélag, sem við köllum Ós, um smíði á nýjum báti. Þetta verður 105 tonna skip mælt eftir nýju reglunum (137 eftir gömlu), smíðað í Stálvík h.f. og verður tilbúið í nóvember. Eg hefði haft bátinn 50 til 60 tonnum stærri, ef ekki hefðu komið til nýju reglurnar um landhelgina upp að 3 sjómílum fyrir báta undir 105 tonn að stærð. Annars eru þær reglur ágætar og sjálfsagt að það sé mönnum orðið dýrt spaug að fara í landhelgi. Verndun fiskistofnanna er okkur nauðsyn. Báturinn verður með 800 hestafla Manheim-vél.
- Er þetta ekki óvenjustór vél?
- Jú, en ég hef trú á, að hægt sé að toga með allt að 180 feta höfuðlínutroll í stað 90 feta, eins og nú er, ef vélarkrafturinn er nógur.
- Hvað kostar nú svona skip?
- Tilbúið kostar það ca. 25 milljónir króna. Fyrir framan okkur liggur teikning af glæsilegu skipi. Mannaíbúðir eru fyrir 12; 3 klefar eru aftur í káetu, en 2 frammi í. Stampageymsla er aftast í þilfarshúsi og lokaður bakborðsgangur.
- Þú hefur ekkert hugsað um skutskip?
- Nei, þessir bátar álít ég, að séu meira alhliða og frekar við okkar aðstæðu, línu og net.
Nú kemur frú Þóra og heimasætan, 15 ára dóttir þeirra hjóna, með rjúkandi kaffi og kræsingar.
- Þú værir nú varla svona mikil aflakló og útgerðarmaður, ef Þóra stæði þér ekki við hlið.
Óskar hlær við. — Það er víst satt. Ég færi víst aldrei á sjóinn, ef Þóra vekti mig ekki, því að við vekjaraklukku vakna ég ekki og sef andvaralaus í landi. Hún sér líka um ýmislegt í landi með yngri strákunum, Óskari Þór og Leó.
Þóra segir mér skemmtilegar sögur um syfjaðan bónda sinn, sem er þá þeim mun betur vakandi á sjónum, eins og dæmin sanna og sýna.
Ég kveð svo þessi ágætu hjón og heimili, sem hafa komist í góð efni fyrir dugnað og eljusemi og eignast sjö mannvænleg börn.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og allir Eyjamenn óska Óskari Matthíassyni og skipshöfn hans og fjölskyldum til hamingju og allra heilla með verðskuldaða titla Aflakóngs Vestmannaeyja 1969 og Fiskikóngs 1970. Það allra besta finnst okkur, að margt bendir til, að er fram líði stundir, geti þessir titlar gengið í erfðir.