Sigurður Sigurðsson (þrístökkvari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. febrúar 2017 kl. 12:24 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. febrúar 2017 kl. 12:24 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson frá Hólmi málarameistari, kaupmaður, afreksmaður í frjálsum íþróttum fæddist 22. apríl 1914 og lést 12. apríl 1982.
Foreldrar hans voru Sigurður Gunnarsson málari, útgerðarmaður, f. 18. september 1883 á Háfshóli í Djúpárhreppi, Rang., drukknaði 16. janúar 1916, og sambýliskona hans Guðbjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 12. febrúar 1879 í Káraneskoti í Reynivallasókn í Kjós, d. 2. júlí 1944.

Bróðir Sigurðar var
1. Ólafur Sigurðsson frá Hólmi, símastarfsmaður, f. 17. nóvember 1909 á Hólmi í Eyjum, d. 19. mars 2002.
Hálfbróðir Sigurðar, samfeðra, var
2. Eggert Ólafsson Sigurðsson vinnumaður í Múlakoti, bóndi í Smáratúni í Fljótshlíð, f. 4. ágúst 1916 í Reykjavík, d. 31. maí 1987.
Föðursystur Sigurðar voru:
1. Dýrfinna Gunnarsdóttir kennari, f. 3. júlí 1889, d. 29. maí 1979, kona Páls Bjarnasonar skólastjóra Barnaskólans.
2. Katrín Gunnarsdóttir kennari, f. 15. desember 1901, d. 13. febrúar 1996, kona Arthurs Emils Aanes vélstjóra.

Sigurður missti föður sinn, er hann var á öðru ári sínu.
Hann ólst upp með móður sinni til unglingsára, var með henni á Skjaldbreið 1920.
Hann var leigjandi á Hilmisgötu 5, Árdal hjá Árna og Margréti Mörtu Johnsen 1930.
Hann lærði málaraiðn hjá Engilbert Gíslasyni 1934-1938, lauk Iðnskólanum og sveinsprófi 1938, fékk meistararéttindi 1942 og sótti námsskeið í greininni.
Sigurður var málarameistari í Reykjavík um nokkurra ára skeið, stofnaði málningarverslunina Málarabúðin 1954 og rak hana síðan sem fjölskyldufyrirtæki, þar sem börnin unnu með honum.
Hann framleiddi fyrstu málningarúllurnar, sem gerðar voru hérlendis.
Sigurður var mikill stökkvari í frjálsum íþróttum, bæði í þrístökki, langstökki og hástökki. Hann var meðal Ólympíufara til Berlínar 1936. Hann keppti í þrístökki, stökk slétta 14 metra og komst í aðalkeppnina. Þar gekk honum ekki eins vel, en Íslandsmet hans stóð árum saman.
Þau Ragnheiður giftu sig 1943 og eignuðust þrjú börn.
Sigurður lést 1982 og Ragnheiður 1997.

Kona Sigurðar, (27. júlí 1943), var Ragnheiður Ásgrímsdóttir húsfreyja, f. 30. september 1919, d. 9. maí 1997. Foreldrar hennar voru Ásgrímur Guðjónsson frá Eyrarbakka, vélstjóri, tollvörður, f. 27. júlí 1892, d. 26. janúar 1980, og kona hans Nikólína Ragnheiður Oddsdóttir frá Brennistöðum í Flókadal í Borgarfirði, húsfreyja, f. 20. ágúst 1891, d. 4. ágúst 1970.
Börn þeirra:
1. Ásgrímur Sigurðsson verslunarmaður í Reykjavík, f. 26. janúar 1944, d. 21. október 1973.
2. Sigurður Sævar Sigurðsson verslunarmaður, f. 12. mars 1948.
3. Björg Ragnheiður Sigurðardóttir verslunarmaður, f. 12. september 1951.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.