Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Haustfreð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. mars 2018 kl. 21:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. mars 2018 kl. 21:36 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


RUNÓLFUR JÓHANNSSON


HAUSTFERÐ


Okkur vantar grein í Sjómannablaðið, hefur þú ekki eitthvað? var sagt til mín, niðri á bryggju, nú fyrir skömmu.
Það er nú heldur lítið um það, var svar mitt, þetta er yfirleitt svo viðburðasnautt, og þó. Eitthvað mætti kannski rifja upp úr hversdagsleikanum, ef vel væri að gáð.
Og svo förum við þá að leita og líta í kringum okkur.
Til að byrja með verður okkur litið hérna útá höfnina, en þar virðist ekkert markvert að sjá. Bátarnir liggja á festum sínum, í löngum röðum, sem liggja frá austri til vesturs, því fáir hafa ennþá verið settir upp í Skildingafjöru eða Botn. Á miðri höfninni liggur flutningaskip við múrningar. Þetta er norskt skip, fraktdallur, eins og þau voru yfirleitt kölluð.
Við múrningar, sagði ég, já, vel á minnzt, þetta er nefnilega í októberbyrjun 1923.
Athyglin beinist ekki að skipinu vegna stærðar þess, eða fegurðar, þar er um ekkert sérstakt að ræða, en það vantar tvo háseta, og það út af fyrir sig er rétt að athuga.
Kaupið, það er víst ekki hátt, en ferðalög framundan, og þau væri ekki rétt að sitja af sér, enda ekki feitan gölt að flá hér heima um þetta leyti árs, fannst okkur a.m.k., sem réðumst sem hásetar um borð í e/s Snenet frá Kristianíu.
Héðan var haldið til Siglufjarðar og tekinn síldarfarmur, sem flytja átti til Stokkhólms. Látið var í skipið svo mikið sem hægt var, og voru þilförin fyllt stafna á millum að heita mátti. Á framþilfari voru tunnurnar standandi og þétt skorðaðar, en á afturþilfari liggjandi og hlaðið uppundir bátaþilfar, og skorðaðar og vírbundnar eins vel og kostur var á, að okkur fannst, og var síðan haldið af stað og út.
Úr því að ég er að rifja þetta upp, er rétt að lýsa skipinu svolítið. Þetta var nýlegt skip, um fjögurra ára og byggt í Hollandi. Vélin, sem var gufuvél, var afturí, en brúin miðskips, og þar um var afturþilfarið hækkað upp. Lestarrúmið var í einu lagi. Íbúð skipstjóra og bryta var undir brúnni, stýrimanna, vélamanna og matsveins afturí, en háseta og kyndara framá, undir bakkanum. Fjórtán manna áhöfn var um borð.
Ferðin gekk vel fyrir Langanes og nokkuð austur fyrir land, en þá tók að hvessa af NA. Og leið nú ekki á löngu, unz ekki var hægt að halda áfram og lagzt til drifs með þeim hætti, að látið var horfa uppí og ferðin ekki höfð meiri en svo, að rétt stýrði.
Til að byrja með fór allt vel, en bráðlega fóru tunnurnar á afturþilfarinu að losna og týnast út, og var nú í nógu að snúast að binda þær og skorða, en alltaf fór á sömu leið og var lítið við þær ráðið.
Ég man ekki hvað marga sólarhringa við lágum svona og glímdum við tunnuskrattana, en þó kom að því, að veðrinu slotaði svo, að hægt var að snúa til stefnu og halda áfram, en þá var líka svo komið, að hægt var að fara frjáls ferða sinna um afturþilfarið. Tunnurnar, sem þar voru, höfðu allar kvatt okkur og siglt sinn sjó, og voru þær okkur lítil eftirsjá.
Undir kvöld, daginn sem snúið var til stefnu, sást til sólar svolitla stund, en nóg til þess að hægt var að taka sólarhæð, og var þá stefnunni breytt um 8 strik til b.b., og eftir sólarhringsferð komum við með þeirri stefnu til Trangisvogs í Færeyjum.
Þótt versta veðrið væri afstaðið, var hann enn hvass á austan, og þar sem kolin voru á þrotum, að þeir sögðu, varð að halda áfram sem mögulegt var, og þar sem dekklestin afturá var farin fyrir borð, lá skipið of mikið fram og fór illa í sjó, enda fóru tunnurnar á framdekkinu að sýna á sér fararsnið, en við því var lítið hægt að gera, nema skjótast niður á þilfarið, þegar hægt var, að þeim tunnum sem festust í lensportunum og slá botninn úr þeim með sleggju, og flutu þær svo bráðlega upp fyrir öldustokkinn.
Í Trangisvogi tókum við kol og héldum svo áfram eftir að hafa gengið vel frá öllu. Á leið okkar yfir Norðursjó fór allt í skrall á ný, og er við komum til Helsingjaeyrar voru um 50 tunnur eftir af allri dekklestinni, og héngu þær saman að mestu á laggargjörðunum, og gátum við haldið þeim flestum á leiðarenda.
Í Helsingjaeyri var að sjálfsögðu stoppað dálítið og nauðsynjar teknar um borð. Skipstjórinn, sem orðinn var nokkuð gamall og hafði lengst af verið langferða-skipstjóri á seglskipum, hélt sig nú miðskips, ásamt einhverjum fleirum, en við hásetarnir, sem höfðum að mestu frí þennan dag, eða á meðan stoppað var þarna, tókum eina síldartunnu hernámi og slógum úr henni botninn, en því vorum við orðnir nokkuð vanir. Öfluðum við okkur gjaldeyris með því að selja upp úr henni síldina; við seldum í smásölu og fremur ódýrt, að þeir sögðu sem keyptu. Bráðlega voru nógir kaupendur á bryggjukantinum, og íslenzka spiksíldin, eins og þeir kölluðu hana, gekk fljótt og vel út, þótt pækillinn væri eitthvað orðinn blandaður, og vorum við fljótir að selja upp úr tunnunni án nokkurra athugasemda.
Á leið okkar yfir Austursjó og inn að sænsku ströndinni bar fátt til tíðinda, en úr því var innanskerjaleiðin farin, og tók hún 8 klukkutíma.
Ég man hvað mér þótti víða fallegt á þessari leið: eyjar, vötn og skógar, og trén að mestu í fullum blóma. Við Íslendingarnir vorum eins og börn. Þetta var fyrsta kynning okkar, að heita mátti, af meginlandinu. Og þessi mikli skógur, sem okkur hafði verið sagt frá og við lesið um, stóð nú þarna fyrir augum okkar, teygði sig víða fram á yztu nafir og speglaðist í vatnsfletinum.
Og nú fór húsum og mannvirkjum að fjölga. Hægt var á ferð skipsins og lagzt að bryggju. Við vorum að þessu sinni komnir á leiðarenda, komnir til Stokkhólmsborgar.