Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Eldeyjarleiðangur 1982

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. ágúst 2017 kl. 10:37 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. ágúst 2017 kl. 10:37 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Árni Johnsen:


Eldeyjar-leiðangurinn 1982


Í kórverki drottningar Atlantshafsins


Leiðin upp, leiðangursmenn í bjarginu að fást við stigann góða, en aðrir bíða átekta í skúta nokkru neðar

Frá því að Eldey var fyrst klifin hafa það nær ávallt verið Vestmannaeyingar sem hafa haft frumkvæðið í Eldeyjarferðum, en það er undarlegt hvernig hrammur kerfisins hefur reynt að einangra þessa sérstæðu eyju, jafnvel svo að helst á hún að vera gleymd og grafin.
Fyrst var Eldey klifin 1894 af Eldeyjar-Hjalta Jónssyni og Vestmannaeyingunum Ágústi og Stefáni Gíslasonum. Það varð frægðarför hin mesta, enda er leiðin upp Eldey með því ótraustara sem gerist í björgum Íslands, laust, hált og þverhnípt. Fræg er Eldeyjarförin 1939 þegar lið Eyjamanna varð að yfirgefa eyna í skyndi vegna fárvirðis sem skall yfir. Náðu þeir þó áður mestu af súlunni sem hafði verið slegin, en eftir þá för var eyjan friðuð á röngum forsendum, þ.e. þeim að mistök hefðu átt sér stað. Það var ekki um að ræða nein mistök, en hins vegar er erfitt að stjórna tilbrigðum veðurguðanna eins og sumir halda sem vinna ekki nema við póleruð skrifborð. Þar til 1971 var ekki farið í Eldey, en þá tókum við okkur upp sjömenningar úr Vestmannaeyjum og klifum eyna, ljósmynduðum og kynntum þessa sérstæðu eyju og skrifuðum greinar um hana í íslensk blöð og erlend. Fyrir þá ferð vorum við ákærðir sem lögbrjótar og glæpamenn en ég fór fram á að gerð yrði vettvangsrannsókn til þess að sýna fram á hvað við hefðum eyðilagt. Bauðst ég til þess að við Eyjamennirnir skyldum koma dómurum og fríðu föruneyti þeirra upp á Eldey, en smátt og smátt fjaraði málið út, þeir hafa ugglaust hræðst það að við myndum skilja þá eftir ef þeir færu á annað borð út með okkur. Í þessari ferð ákvað ég að stefna að því að fara aftur í Eldey til þess að gera kvikmynd um eyna, þótti samt vissara að láta nokkur ár líða til þess að sefa embættismennina.
Síðastliðinn vetur stóð ég síðan í miklum bréfaskriftum við Náttúruverndarráð og gekk treglega að fá leyfi, því ekki voru allir á eitt sáttir. Eftir mikið japl, jaml og fuður var mér loks synjað um leyfi gegn vilja ýmissa reyndustu manna ráðsins syo sem dr. Sigurðar Þórarinssonar og Sigurðar Blöndals skógræktarstjóra, en rökin sem sett voru á blað fyrir synjuninni voru svo vitlaus að mér voru færð vopnin upp í hendurnar á silfurbakka.
M.a. var því haldið fram að ef við skytum nöglum í bergið til þess að komast upp yrði þvílíkur hávaði að mikil hætta væri á því að súlan hyrfi úr eynni og kæmi ekki aftur. Velviljaðir menn í ráðinu fengu því svo fyrir komið að forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, dr. Sveinn Jakobsson jarðfræðingur, mætti á fund Náttúruverndarráðs til þess að láta í ljós sitt álit og deildar sinnar stofnunar. Talaði hann máli mínu mjög skelegglega og þar með var leyfið komið, því ekki var hægt að hunsa álit vísindamannanna augliti til auglitis. Vísindamenn mæltu eindregið með leyfisveitingunni, en ég hafði lagt fram þrjár ástæður, kvikmyndun Eldeyjar, súlumerkingar og töku jarðvegssýna fyrir Náttúrufræðistofnun.

Eldeyjarfararnir 1982. Standandi frá vinsri: Örn Harðarson, Jón Arason, Páll Reynisson, Haraldur Geir Johnsen, Olgeir Sigmarsson, Valur Andersen, Árni Johnsen, Hörður Guðjónsson, Trausti fuglamerkingamaður, Hjálmar R. Bárðarson og Sigurður Sigurbergsson (Siggi minkur). Sitjandi frá vinstri: Halldóra Filippusdóttir, Hlöðver Johnsen, Þorkell Húnbogason, Ragnar Jónsson, Páll Steingrímsson og Hörður Hilmisson. Myndina tók Ragnar Axelsson, ljósmyndari Morgunblaðsins.

„Það þýðir lítið að vera að eiga þessa eyju ef enginn má sjá hana“, hafði dr. Sigurður Þórarinsson sagt við mig þegar umsókn mín var til umræðu og það er staðreynd að þótt Eldey sé eitt sérstæðasta náttúruundrið í íslensku fuglalífi, þá hefur þessi eyja varla verið til í hugum landsmanna nema eins og hver önnur óáþreifanleg þjóðsaga. Veldur það bæði að Eldey er torsótt bæði vegna sjávargangs og illkleifra hamra og eins að í liðlega 40 ár hefur eyjan verið friðlýst og mönnum meinað að ganga um þennan hluta Íslands, hvað þá meir.
Vegna geðþóttaákvörðunar Náttúruverndarráðs fékkst ekki leyfi til þess að klífa eyna fyrr en eftir 13. ágúst.
18 manna lið Eldeyjarfara var því tilbúið til farar þann 14. ágúst, en ég hafði boðið Sjónvarpinu að gera kvikmyndina, Ragnar Jónsson frá Látrum skyldi stjórna súlumerkingum og jarðfræðingur frá Náttúrufræðistofnun átti að sjá um jarðvegssýni til rannsókna. Það gaf ekki í Eldey þennan laugardag í ágúst og hófst nú mikil yfirlega og vangaveltur um hegðun veðurguðanna næstu vikur. Allt kom fyrir ekki, ruddasjór í hafi lokaði leiðinni að flá Eldeyjar og það var ekki fyrr en föstudaginn 20. ágúst að ég ræsti allan mannskapinn til Eldeyjarferðar. Það hafði reyndar rofað til á mánudeginum, og strákarnir heiman úr Eyjum höfðu komið sér í skyndi upp á fastalandið, en síðan ygldi hann sig aftur og þá var ekkert annað að gera en bíða. Við Júlli á Bryndísi ræddum saman aðfaranótt föstudagsins 20. ágúst og bárum saman bækur okkar og veðurfræðinga Veðurstofunnar sem höfðu sýnt mér mikla þolinmæði í kortaathugun undanfarna daga.
Strákarnir í Eyjum lögðu því upp árla dags eftir ræs kl. 5 og komu fljúgandi til Keflavíkurflugvallar á einkaflugvél Vals Andersen og Þorkels Húnbogasonar, sem báðir eru þaulvanir bjargmenn. Fór Valur tvær ferðir á vél sinni með liðið úr Eyjum, en aðrir leiðangursmenn komu af Reykjavíkursvæðinu.

Trausti og Dóra í merkingum

Við höfðum sótt um það að fá leyfi til að gista í eynni, því við töldum einsýnt að við myndum lenda í tímaþröng með allan þennan mannskap og þau viðamiklu verkefni sem átti að sinna. Gistileyfi var hafnað af Náttúruverndarráði, en auðvelt hefði verið að tjalda á hákolli Eldeyjar í slakka sem engin súla verpir í, eða á Neðribring Eldeyjar.
Það var lagt af stað úr Höfnum um kl. 9 um morguninn á Bryndísi, Júlíusar Árnasonar og Rögnu Sigurðardóttur konu hans sem hefur róið með manni sínum sl. 30 ár við Reykjanes og á Þórarni, bát Jóns Björns Vilhjálmssonar, Bubba.
Við höfðum fallið með okkur og kalda af norðri, en hann hafði rifið sig úr logni þegar birta tók af degi.
Var siglt blítt og létt til hinnar rómuðu eyjar og um kl. 11 var komið að Eldey og um leið var byrjað að ferja fólkið í land á Trana í Görn Ve, gúmmíhraðbát, sem er upplagður farkostur við erfiðar aðstæður í úteyjum. Það gekk snaggaralega að koma fólkinu í land og að lokinni bæn á bænabring, svokölluðum Neðribring Eldeyjar, var lagt í bergið, enda ekki til setunnar boðið tímans vegna og verkefnanna sem biðu. Til þess að flýta fyrir okkur höfðum við tekið með okkur álstiga sem við fengum lánaðan hjá Áka Gränz listmálara í Njarðvíkum.
Þegar við fórum í Eldey fyrir 11 árum höfðum við nægan tíma til að klífa bergið með því að skjóta kengjum í bergið þar sem það var þverhnípt og fikra okkur þannig upp til þess að skoða okkur um stutta stund og taka myndir. Hins vegar er það ekki nýtt að menn auðveldi sér bergleiðina með stigum eða plönkum, og til dæmis notuðu Eldeyjar-Hjalti og félagar hans stiga þegar þeir klifu Eldey fyrst skömmu fyrir síðustu aldamót.

Úteyingurinn í Eldeyjarheimsókn, verst var að mega ekki taka neitt af öllu þessu kjöti

Við vorum nærri fjórar klukkustundir upp þverhnípt bergið, en lengstur tími fór í það að gera færan síðasta spölinn upp á eyna, 15 metra bergvegg sem er ekki aðeins þverhníptur á kafla, heldur slútir hann fram yfir sig á öllum efri kaflanum. Það þurfti því að koma fyrir festingum í berginu til þess að unnt væri að hemja stigann, sem var bundinn saman úr þremur 6 m löngum álstigum, hver upp af öðrum. Það reyndist tafsamt að skjóta festingunum í bergið, sérstaklega vegna þess hve veikt það reyndist og ótraust, mun lausara á þessu svæði en fyrir 11 árum. Kann það að vera háð tímabundinni hringrás, þvi á þessum stað flýtur súluskítur niður bergið þegar mikið rignir og í súluskítnum eru sterk efni sem tæra eða mola bergið niður í rólegheitum. Við notuðum Hiltiskotbyssu til þess að skjóta þar til gerðum kengjum að berginu og síðan voru bönd þrædd í. Á meðan verið var að koma fyrir festingunum var sá sem hékk í kengjunum hverju sinni tengdur í öryggisband sem lá niður á sylluna fyrir neðan og þar héldu menn stíft við bjargmanninn. Þetta var tafsamt verk og ekki bætti úr að norðvestan kaldi næddi um bergið og síðasti kaflinn lá í forsælu á þessum tíma dagsins. Bjargmennirnir voru því orðnir ærið kaldir þegar erfíðasti hjallinn var klár til uppgöngu, en þegar Siggi minkur var fyrstur kominn á brún í stiganum góða var leiðin tiltölulega auðfarin. Að vísu var stiginn ekki eins stöðugur og æskilegt hefði verið, þvi hann rambaði ekki aðeins fram og til baka þar sem hann reis lóðréttur 15 metra í loft upp, eins og 6 hæða blokk, heldur dansaði hann hreinlega rúmbu með miklum tilþrifum vegna þess að hann var aðeins festur efst og neðst auk þess að hliðarstög voru á honum neðarlega.

Siggi minkur, Keli og Árni, en þeir sem snúa bakhlutanum í myndavélina eru Trausti, Hjálmar, Palli Steingríms og Halli Geir lengst til hœgri.

Um kl. 3 voru allir komnir á brún, 18 manna hraðskeytt lið, en í leiðöngrum sem þessum ræður úrslitum að traustir og hæfir bjargmenn séu til staðar. Það voru Valur Andersen, Siggi minkur (Sigurður Sigurbergsson), Haraldur Geir Hlöðversson, Þorkell Húnbogason, Hörður Hilmisson, Ragnar Jónsson, Hörður Guðjónsson og Hlöðver Johnsen, auk leiðangursstjóra, sem sinntu störfum bjargmanna. Aðrir leiðangursmenn voru sjónvarpsmennirnir Örn Harðarson, Páll Reynisson kvikmyndatökumaður og Jón Arason hljóðupptökumaður, Olgeir Sigmarsson jarðfræðingur, Halldóra Filippusdóttir flugfreyja hjá Flugleiðum, en hún er fyrsta konan í sögunni sem klífur Eldey, Hjálmar R. Bárðarson siglingamálastjóri, en hann á sæti í Náttúruverndarráði, Páll Steingrímsson kvikmyndatökumaður, Trausti Tryggvason og Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins.
Á leiðinni upp hafði Olgeir jarðfræðingur tekið nokkur sýni af bergi Eldeyjar, en það hefur aldrei verið rannsakað af vísindamönnum. Þegar allir voru komnir á brún var hafist handa við kvikmyndun frá uppgöngustað áður en fullorðna súlan tæki flugið við komu gesta í eyna. Síðan var drifið í því að hífa farangur leiðangursmanna upp af Neðstabring, en tveir bjargmannanna brugðu sér niður bjargið til þess að hnýta farangur í bönd fyrir hífingar. Var síðan tekið til starfa í gríð og erg að merkja súluunga, undir stjórn Ragnars Jónssonar læknis, kvikmynda fuglabyggðina, taka ljósmyndir og síðast en ekki síst, að skera súluunga úr netadræsum sem þeir voru fastir í á allmörgum bælum. Það var eftirtektarvert að þeir sem sinntu því verki af leiðangursmönnum vom eingöngu veiðimennirnir í hópnum, þaulvanir fuglaveiðimenn í lundabyggðum Vestmannaeyja. Það er vaxandi vandamál í súlubyggðum landsins hve súlan ber mikið af nælondræsum í bæli sín. Oft kemur það síðan fyrir að ungarnir festast í lykkjum sem standa út úr drithraukunum, vaxa þannig fastir í lykkjunni og eiga sér ekki lífs von. Á þessari dagstund í Eldey þar sem hratt var farið yfir skárum við tugi súluunga lausa úr höftum.
Súlubyggðin í Eldey er stærsta súlubæli í heiminum á einum stað, en talið er að um 16 þúsund pör búi í Eldey og auk unga eru þar tugir þúsunda fugla sem ekki eru orðnir kynþroska og líklega er meira af fuglum sem eru geldfuglar, en súlan verpir í 20 ár eftir að hún er orðin kynþroska, 5 ára gömul. Alls voru merktir á sjöunda hundrað súluungar og er það heimsmet á einum stað á einum degi.
Það er stórkostlegt að heimsækja þessa sérstæðu eyju, en slíkur er áburðurinn uppi á eynni að það vex ekki stingandi strá þar, gúanóið er svo mikið og menn verða að gæta þess hvar þeir stíga niður, því ella er hætt við að menn gangi í for upp á miðjan legg. Lyktin í súlubyggðinni er svo sterk, að fiskimjölsverksmiðja sem keflvískar húsmæður myndu kvarta yfir á háu tónunum, er aðeins eins og vasaútgáfa af ilminum sem leikur um kolla Eldeyjar. Hins vegar hrósuðum við happi yfir því að það var gjóla við brúnir, en allt venst þetta ef menn eru jákvæðir.

Undir sólsetur á flá Eldeyjar í blíðu, en til vinstri gapir hamarinn illkleifi þar sem leiðin liggur upp

Byggðin í Eldey er eins þétt og súlubyggð getur verið og má segja að eyjan sé alsetin, enda situr fuglinn svo þétt að brúnin getur verið kögruð af stélum fuglanna allt um kring þegar lítið flug er á drottningu Atlantshafsins í Eldey. Úr lofti séð virðist Eldey svo til slétt að ofan, en kollur eyjarinnar skiptist í fjölmarga reiti og slakka, eins konar gilskorninga sem hver hefur sinn halla. Súlubyggðin skiptist því í marga reiti þótt um eitt súlubæli og samfellt sé að ræða. A nibbum og hryggjum sitja drottningamar síðan og bugta sig og beygja, sýna listir sínar, skylmast, dansa, blaka vængjum, reigja háls, munda sig til ástaleikja, venja unga sína, og svo framvegis, en súlan hefur einhvern litskrúðugasta persónuleika allra fugla.
Það var farið að líða á kvöld þegar lokið var við að merkja á sjötta hundrað súluunga, skera tugi úr höftum, taka mörg hundruð ljósmyndir og filma í kvikmynd fyrir sjónvarpið. Þrátt fyrir ítarlega leit fannst enginn gróður uppi á Eldey og er það í rauninni einkennilegt þar sem svo margir fuglar búa. En svo er súluskíturinn magnaður að upplagi að engin jurt þolir nábýlið. Hins vegar er urmull af skordýrum á bælunum, en við vorum nú lítið spennt fyrir þeim í þetta skiptið.
Niðurferðin gekk hægt og sígandi, nibbu af nibbu, polki í berginu, og mannskapurinn mjakaðist aftur niður á flána þar sem Trani í Görn beið hinn rólegasti. Hópur af sel, bæði útsel og landsel, hafði dólað daglangt á klöppunum, en þeim þótti vissara að koma sér til hafs þegar þessir óvæntu gestir nálguðust.

Palli dreifir brauði í Ragga, Sigga mink og Kela

Það var lúadautt við Steðjann og slíkt er sjaldgæft við Eldey. Þetta var þvi eins glerfínt og frekast varð á kosið, eins og Súlli á Saltabergi, Hlöðver Johnsen, orðaði það, en hann var þarna að heimsækja Eldey eftir liðlega 40 ár frá því að hann steig þar síðast á brúnir. Hlöðver er hinn sprækasti fjallamaður þótt kominn sé á sjötugs aldur, en hann ásamt Hjálmari R. Bárðarsyni voru aldursforsetarnir í leiðangrinum.
Enn blakti íslenski fáninn við hún hjá Júlla og Rögnu á Bryndísi, þau höfðu flaggað þegar fyrsti maðurinn var kominn á brún. Það var traust. Og ekki leið á löngu þar til Trani hafði tiplað ölduna létt með mann-skapinn um borð í móðurskipin tvö. Þá roðaði kvöldsólin þessa perlu íslands, eitt stærsta hreiður í heimi þar sem mikið var spjallað og mikið þrefað í dagsins önn, þar sem fuglamálið ræður ríkjum, en enginn verðbólga hefur náð að skjóta upp kollinum.
Í vestri seig sól og gæsahópur rásaði í oddaflugi á æfingu fyrir haustið, en í Eldey gekk lífið sinn vanagang. Ótrúlega mikill hluti af ungunum var ekki gerður eins og sagt er á veiðimannamáli um skerlinginn, unga sem enn er verulega dúnaður og því ófær til flugs á hafið. Líklega hefur aðeins um 15% af ungunum verið gerður fugl, en til þess að hann fljúgi til hafs þarf móðirin að svelta hann um tíma. Þá loks kemur að því að hann tekur til sinna ráða. Þannig hefur hver tegund sinn stíl í lífsbaráttunni. Það er annaðhvort að duga eða drepast og það er einmitt það eftirsóknarverða við stað eins of Eldey, að kynnast því hvernig þessi stórkostlega fuglabyggð lifir lífi sínu. Það er ekki aðeins skóli fyrir hvern einn mann að klífa það berg sem ver Eldey. Það er ekki síður skóli að verða vitni að því lífríki sem Eldey er og þar hefur sjónvarpsmyndin vonandi skilað stórum hlut til landsmanna sem allt of lengi hafa ekki haft tækifæri til þess að kynnast þessari miklu Drottningu Atlantshafsins, þeirri stærstu í heiminum, steinsnar frá Reykjanesskaga.
Það voru lúnir leiðangursmenn sem klifruðu upp bryggjustigana í Höfnum á háfjörunni laust eftir miðnætti og heldur voru þeir fastari fyrir en stiginn góði á efstu syllu í Eldeyjarbjargi, en það var aðeins enn ein andstæðan þennan dag, andstæðan sem gefur lífinu gildi.
Kórverk drottningar Atlantshafsins í Eldey söng í eyrum, en þegar súlubyggðin í Eldey syngur einum rómi er hávaðinn með ólíkindum. Þá má maður sín lítils.

Árni Johnsen