Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Vertíðin í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. febrúar 2018 kl. 17:09 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. febrúar 2018 kl. 17:09 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


PÁLL ÞORBJÖRNSSON


Vertíðin í Vestmannaeyjum


Margir eru þeir sem orðið hafa fyrir vonbrigðum með árangurinn af vertíðinni hér í Vestmannaeyjum í vetur. Línuvertíðin gekk í betra lagi og vel það hjá flestum og voru menn því bjartsýnir um heildarárangur, því venjulega er netaveiðin kjarninn úr vertíðinni hér og aprílmánuður aðalaflamánuðurinn, en aflinn brást í apríl að verulegu leyti.
Sagan er þó ekki öll sögð með þessu, flotinn er stöðugt að batna, bátarnir að stækka og vélarnar að verða aflmeiri. Meiri og betri veiðarfæri eru notuð nú en áður, en þó er útkoman deginum ljósari.
Við erum í stöðugu kapphlaupi við minnkandi afla. Engum blöðum er um það að fletta að ef sendur væri nú á sjó meðalbátur með meðallagi útbúnað veiðarfæra eins og þeir gerðust fyrir ca. 10 árum þá yrði skipshöfnin þar ekki matvinnungur.
Allmikill hluti flotans var í vetur gerður út með færeyskum sjómönnum. Kom okkur þar að haldi að atvinnurekstur Færeyinga er í kaldakoli og verða þeir í hundraðatali að leita út fyrir landsteinana í atvinnuleit. Getum við stólað á slíkt bjargráð til frambúðar?
Sjósókn við Íslandsstrendur er hörð og ströng, enginn ákveðinn vinnutími og helgidagahald takmarkað. Það er því að vonum að eitthvað sérstakt verði að koma til svo menn sæki frekar í þá atvinnu en aðra. Meðfædd ævintýralöngun og von um að bera meira úr býtum en við aðra almenna atvinnu orkaði lengi á það að manna varð ekki vant í sæmileg skiprúm. Nú er öldin önnur. Kaupgjald eða aflahlutur fiskimanna hefur farið stöðugt rýrnandi, í hlutfalli við dýrtíð og aðra launþega, hin síðari ár.

ctr


Róðrarsveit vélstjóra. Sigurvegarar í félagakeppni og sigurvegarar í landskeppni í Hafnarfirði 1955.


Ef við ætlumst til að fiskiflota okkar verði haldið úti framvegis verður margt að breytast og mun ég nú ræða það nokkuð með tilliti til Vestmannaeyjaflotans.
1. Vestmannaeyjaflotinn verður ekki mannaður nema með því að stór hópur aðkomusjómanna komi til árlega. Þessum mönnum verður að búa góð skilyrði í landi hvað aðbúð snertir. Áður fyrr voru menn þessir alloft á heimilum útgerðarmanna og formanna og nutu þar svipaðrar aðhlynningar og aðrir heimamenn. Þessu verður í velflestum tilfellum ekki við komið lengur, vegna skorts á húsnæði í heimahúsum og þess að hjálparstúlkur á heimilum er nú nær óþekkt fyrirbæri. Sjómönnunum verður því að búa sérstök heimili í landi með sams konar þægindum og nútímamenning krefst fyrir aðra borgara, annars fæst ekki nema úrkast á bátana í framtíðinni.
2. Þess er engin von, að menn sækist eftir því að vera fiskimenn, nema líkur séu fyrir því að bera meira úr býtum við þá atvinnugrein en við atvinnu í landi á sama tíma. Þess vegna verður meðalhluturinn í sæmilegu aflaári að gera talsvert meira en laun verkamanna í landi á sama tíma. Mér sýnist að þess sé lítil von með núverandi fiskverði og hlutaskiptum. Útgerðarmenn munu að vonum ekki telja að hlutaskiptum verði breytt sjómönnum í hag svo nokkru nemi. Þá er ekki annað eftir en hækkað fiskverð. Einhver kann að segja að ekki sé hægt að hækka fiskverðið og kunna að vera fyrir því nokkur rök ef einhliða er á málið litið. Ég hef áður minnzt á það að stór hluti flotans er mannaður Færeyingum. Þessum mönnum verður að gjalda að talsverðu leyti í erlendum gjaldeyri, en það þýðir í raun og veru hærra fiskverð til þeirra en til félaga þeirra sem íslenzkir ríkisborgarar eru því þeir geta verzlað fyrir sínar krónur í landi þar sem tollar eru lægri og sennilega enginn bátagjaldeyrir svo nokkuð sé nefnt.
3. Vestmannaeyingar komu fljótt auga á að miðin innan hinnar þröngu íslenzku landhelgi nægðu þeim ekki. Þess vegna fengu þeir því framgengt að sérstakt svæði var afmarkað utan landhelgi á netavertíðinni og það varið fyrir ágangi togara. Erlendir sem innlendir togarar sættu sig við þetta og í raun og veru var komin viðurkenning erlendra sljórnarvalda fyrir þessu svæði til handa bátaflotanum. Þegar nýju fiskiveiðatakmörkin gengu í gildi var af valdhöfunum ekki hirt um að halda þessu svæði og gæzlan látin niður falla. En við þetta eitt var ekki látið sitja, heldur var takmarkalínan dregin á allt annan hátt hér á svæðinu milli Vestmannaeyja og Reykaness heldur en t.d. fyrir Faxaflóa. Í stað þess að draga línuna milli Geirfuglaskers og Eldeyjardrangs eins og sjálfsagt hefði verið að gera var hún látin taka stóran sveig inn að landinu. Ráðstöfun þessi hefur orðið allafdrifarík fyrir flotann í Vestmannaeyjum og hefur vertíðin í vetur sannað það alláþreifanlega. Það verður að vera skilyrðislaus krafa Vestmannaeyinga að þegar verði hafizt handa og þetta leiðrétt þannig að hann verði dregin milli Geirfuglaskers og Eldeyjardrangs.
4. Þegar búið er að fá það í gegn að grunnlínan verði dregin milli Geirfuglaskers og Eldeyjadrangs, hefur rýmkazt svo mjög um fiskimið fyrir flotann frá Vestmannaeyjum að ég tel það tímabært fyrir Vestmannaeyinga að athuga um alfriðun svæðis eða svæða innan friðunartakmarkanna fyrir þorskanetaveiðum. Ég get búizt við, að þetta þýði einhverja fórn í bili, en ég er sannfærður um, að þetta mundi margborga sig og verða einhver mesta tryggingin fyrir áframhaldandi öruggum aflabrögðum í framtíðinni. Tillögur um þessa friðun og tilhögun hennar verða að sjálfsögðu að koma frá fiskimönnunum sjálfum og helzt einhuga.

Ég hef hér að framan drepið á 4 atriði af mörgum, en þessi tel ég einna þýðingarmest, ef fiskveiðar eiga að geta verið undirstöðuatvinnuvegur fyrir Vestmannaeyinga í framtíðinni. Það kann að vera að skoðanir verði eitthvað skiptar um það sem hér hefur verið á drepið og er þess þá að vænta að komið verði með rök gegn þeim. Umræður ættu þá að geta skapazt um málið og ef til vill fleira sem til úrlausnar mælti verða. Hitt vænti ég að allir geti verið mér sammála um að ekki verði unað við lengur, að fiskimennirnir séu verr launaðir en sambærilegar starfsgreinar, að flotinn sé mannaður útlendingum og að annað sjónarmið ríki þegar færa á út okkar landhelgi heldur en t.d. Suðurnesjamanna.