Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1955/ Sigurður Guðjónsson, Framnesi
Þau sorglegu tíðindi bárust um bæinn hinn 6. maí s.l. að Sigurður Guðjónsson frá Framnesi, væri horfinn.
Þegar hófst mjög ítarleg leit, sem hefur því miður engan árangur borið.
Sigurður Guðjónsson var innfæddur Vestmannaeyingur, sonur hina ágætu hjóna Nikólínu Guðnadóttir og Guðjóns Jónssonar frá Framnesi, en þau eru látin fyrir nokkrum árum. —
Sigurður er fæddur 3. nóv. 1911, og hefur alið aldur sinn hér alla tíð.
Eins og flestir vaskir Eyjadrengir hóf Sigurður sjómennsku á unga aldri og stundaði hana ávallt upp frá því, var hann síðustu árin stýrimaður á bátum hér.
Jafnframt sjómennskunni iðkaði Sigurður íþróttir um langt árabil, — og var meðal fremstu íþróttamanna hér um langt skeið. En það var hin frækna íþrótt, íslenzka glíman, sem Sigurður stundaði aðallega. — Var hann í mörg ár glímukóngur Eyjanna, og má telja hann síðastan glímukóng okkar, þar sem þessi fagra íþrótt hefur að mestu legið niðri um langt ára bil.
Sigurður var ríkur íþróttaanda, hvar sem hann fór, ljúfmennska og háttprýði voru honum í blóð borin.
Vinir Sigurðar heiðra minningu hans og biðja Guð að blessa syni hans þrjá og aðra ástvini.
- Drottinn gefi dauðum ró,
- hinum líkn sem lifa.