Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Veiðiferð með Breka VE 61

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. apríl 2017 kl. 08:23 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. apríl 2017 kl. 08:23 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
PÉTUR STEINGRÍMSSON:


VEIÐIFERÐ MEÐ BREKA VE 61


Það hefur verið fastur liður í sumarfríi undirritaðs síðan hann hóf störf í lögreglunni árið 1985 að fara eina veiðiferð á sjó. Yfirleitt hefur það komið í hlut mágs míns, Yngva Sigurgeirssonar skipstjóra á „trollaranum“ Drífu ÁR 300, að aumka sig yfir kappann og taka hann með einn og einn túr á Drífuna þó að hann vissi það að ég hef eingöngu verið til sjós á loðnu- og netabátum og þekki ekkert til trollveiða. En eftir því sem árin liðu og sumarfríin í lögreglunni urðu fleiri sem notuð voru til að fara einn og einn túr á „trollara“ þá lærðist smátt og smátt að þekkja hina ýmsu hluta trollsins. Því miður gaf pilturinn sér aldrei tíma til að læra trollbætningu, svo ef það kom fyrir að trollið kom rifið upp þá var hann settur í nálakörfuna.
Þó að kunnáttan í trollbætningu væri engin þá var undirritaður búinn að ganga lengi með þann draum að komast sem háseti á togara. Sá draumur rættist sl. sumar hjá mér þegar ég var ráðinn á togarann Breka VE 61 sem háseti, einn túr sem átti að vera stuttur því búið var að ákveða að Breki færi í sína árlegu yfirhalningu í slipp eftir túrinn.
Það var mánudaginn 14. júlí sl. kl. 17 sem Breki sigldi úr höfn, framhjá Bjarnarey, „Paradís“ Eyjanna, og áleiðis austur. Engar fiskifréttir lágu í loftinu og enginn um borð nema „karlinn“ vissi hvert átti að fara. Í fimmtán manna áhöfn Breka voru eftirtaldir: Sævar Brynjólfsson skipstjóri, Brynjólfur Garðarsson 1. stýrimaður, Hjalti Hávarðsson 2. stýrimaður, Andrés Sigurðsson 3. stýrimaður, Sigurður Vignisson yfirvélstjóri, Garðar Garðarsson 1. vélstjóri, Hafsteinn Rósinkranz matsveinn, Varnek Nikulásson bátsmaður, Guðlaugur Jóhannsson netamaður, Karl Jóhann Birgisson netamaður, Aðalsteinn Jakobsson netamaður, Óskar Ólafsson netamaður. Undirritaður var um borð sem afleysingarmaður ásamt þeim Sveini Magnússyni og Róbert Marshall og vorum við allir skráðir sem hásetar.
Strax og lagt var af stað úr höfn var skipt á vaktir og var ég á vakt með Varnek, Kalla, Andrési og Aðalsteini. Staðnir voru sex og sex. Á útstíminu var strax farið í það að yfirfara trollið og kom það í hlut minnar vaktar að gera það þar sem við áttum fyrstu vaktina. Varnek bátsmaður var yfirmaður vaktarinnar og lét hann okkur fara yfir trollið frá vængjum og aftur í poka og gerðu netamennirnir við öll göt, stór og smá sem komu í ljós. Á meðan á því stóð fékk undirritaður þann heiður að „kordilla“ fiskilínuna en hún var laus frá á stórum kafla. Á meðan Varnek var að kenna mér að „kordilla“ línuna og koma mér af stað í því þá hefði ég óskað þess að geta lesið hugsanir hans meðan á því stóð og stundum oftar í túrnum. Sérstaklega þegar það kom fyrir að ég sagði „ha?“ ef hann var að útskýra eitthvað fyrir mér eða var að biðja um að gera eitthvað. Varnek er fæddur í Færeyjum en búinn að búa mestan hlut ævinnar í Eyjum. Og þó svo sé átti undirritaður oft erfitt með að skilja hann þegar hann romsaði út úr sér orðunum á sinni yndislega blönduðu Færeysk-Íslensku. En á þessari einstöku A-vakt voru allt fínir drengir sem allir vildu leiðbeina mér svo það tók ekki langan tíma að komast inn í verkin sem voru ætluð mér í þessum túr.
Í byrjun annarrar vaktarinnar hjá okkur var trollið látið fara, einhvers staðar út af suðurströndinni þar sem hvergi sást til miða og enginn um borð vissi hvar var nema „karlinn“ í brúnni. Sagði hann síðar að þetta væru sín einkamið og geymdi hann lórantölur þessarar bleyðu einungis í höfðinu. Fékk enginn að koma í brúna fyrr en hann var búinn að slökkva á öllum siglingatækjum. Fó þá Varnek upp í brú en hann sá um að hífa trollið inn og slaka því út frá stjórnborðinu í brúnni. Við Andrés vorum á bakborðshleranum en þeir Kalli og Addi voru á stjórnborðshleranum. Allan túrinn var mikil keppni á milli okkar hverjir yrðu fyrstir að lása úr og lása í og er túrnum lauk þá komust menn að þeirri niðurstöðu, eftir úrskurð bátsmannsins, að um jafntefli hefði verið að ræða og sættust menn á það. En þessi hlerakeppni kom oft af stað miklum og fjörugum rökræðum á vaktinni um það hverjir hefðu nú verið á undan að lása í eða úr í það og það skiptið.
Það er skemmst frá því að segja að í tveimur fyrstu hölunum fengum við yfir 60 kör af búra á þessum einkamiðum karlsins og má segja að þessi litli rauði og feiti fiskur, sem kom um borð í tveimur hölum, hafi gjörsamlega bjargað túrnum peningalega. Kaupendur í Frakklandi voru svo þakklátir áhöfninni á Breka fyrir sendinguna af búranum að þeir keyptu fiskinn á 290 kr. kg sem var hæsta meðalverð fyrir búra hjá nokkru skipi til þessa. Í búrahölunum komu með margar furðulegar fiskitegundir og sumar sem undirritaður vissi engin deili á. Sá þá Varnek vinur minn um það að fræða mig um leyndardóma undirdjúpanna sem upp komu með búranum. Þarna voru fiskar eins og gjölnir, langhali, bláriddari og rottufiskur. Var Varnek óþreytandi á því að upplýsa mig um lifnaðarhætti þessarra tegunda en hann stóð fyrir aftan mig í aðgerðinni og sá því þegar ég glápti spurnaraugum á þessa fiska þegar þeir komu eftir færibandinu. Einnig komu upp með búranum, keila, langa, blálanga, hákarl, gulllax, stórlúða, svartháfur og dökkháfur og voru menn sammála um það að háfurinn væri sá alleiðinlegasti fiskur að gera að. Eftir aðgerð á fáeinum háfum var hnífurinn yfirleitt orðinn vita bitlaus eftir að hafa runnið í gegnum skrápinn á honum og því þurfti að stála mjög oft ef mikið var af honum í halinu. Í lok túrsins var mannskapurinn farinn að sjá svart ef svartháfurinn birtist á færibandinu í aðgerðarsalnum.
Vinnuaðstaðan á aðgerðardekkinu er einkar vel útbúin. Þannig geta sjö karlar verið við aðgerð í einu og þarf aldrei að beygja sig eftir fiskinum eða kasta honum langa leið. Allt er þetta við hendina, fiskurinn kemur úr móttökunni eftir færibandi á vinstri hlið og þegar búið er að gera að honum fer hann á færibandi sem er til hægri handar og fleytir fiskinum í þvottakarið og þaðan ofan í lest.
Í fyrsta halinu kjaftfylltum við móttökuna en hún tók um 35 tonn. Varnek sendi þá undirritaðan inn í móttökuna þar sem fiskurinn rann frekar treglega inn á færibandið í aðgerðinni. Í móttökunni tóku á móti mér 30 tonna drulluhaugur sem var eins og steypa, blandaður ýmsum fiskitegundum, þ.á. m. hinum dýra eðalfiski búranum, svo og háfi og öðru góðgæti. Eftir nokkra tíma, mjög svo mikla erfiðisvinnu og marga svitadropa við að gogga, róta og ýta til í haugnum kláraðist aðgerðin og var þá ekki þurr þráður á vininum svo hann þurfti að skipta um föt, yst sem innst, fyrir næsta híf. Sama var upp á tengingnum í næsta hali, kjaftfull móttaka af svipuðu konfekti og áður og aflinn neitaði að renna úr móttökunni á færibandið. Undirritaður ætlaði þá ekki að láta segja sér það tvisvar að fara inn og róta við haugnum og var farinn af stað þegar Varnek greip í hnakkadrambið á pilti og sagði þessi orð sem mér gleymast seint: „Ég sendi teg inn í mottökuna til at tu skúldi sveitta. Nú er komi at mer til at taka til höndinni. Ég skal fara inn og röra í fiskinum. Tú skalt bara vera her frammi hjá dröngunum og taka skrælið og orna fiskinum sum fellur til.“ Þar með var karlinn farinn inn í móttökuna þó að hann væri kominn á sextugsaldurinn og margir honum yngri menn tilbúnir að djöflast í hrúgunni í móttökunni. Kom hann ekki út aftur fyrr en hver einasti fisktittur var kominn á færibandið í aðgerðarsalnum. Það er ekki hallað á neinn um borð í Breka þó ég segi að Varnek beri nafnið „togarajaxl“ með sanni.
Alltaf gekk mjög vel að taka trollið og láta fara og því var það fastur liður hjá þessari fimm manna vakt að setjast aðeins niður í „pásukompunni“ áður en farið var í aðgerðina. Í „pásukompunni“ var oft mikið fjör þar sem menn ræddu helst þau mál sem voru efst á baugi þann daginn og þegar upp var staðið voru yfirleitt fimm skoðanir á málinu. Það mál sem strákarnir um borð áttu oft erfitt með að skilja og var undirrituðum alveg óskiljanleg var það þegar fax var að koma um borð frá hinum svokallaða útgerðarstjóra í landi um það að ekki mætti veiða þessa tegund af fiski þennan daginn heldur yrði að reyna við einhverja aðra tegund. Já, hún var oft skrítin fiskveiðistjórnunin.
Á sunnudeginum 20. júlí, eftir fimm daga á veiðum, ákvað karlinn að færa sig nær Eyjum og reyna við karfann suður af Surti þar sem búið var að ákveða löndun daginn eftir. Var stefnan tekin þangað í blíðskaparveðri. Tekin voru tvö höl þar á sunnudeginum og fengum við mjög góðan afla af stórum og góðum karfa. Seint um kvöldið ákvað „karlinn“ að taka trollið inn fyrir og sigla í land. Á heimstíminu skiptu vaktirnar með sér þrifunum á skipinu. Tókum við skipið allt í gegn að innan en strákarnir á B-vaktinni þrifu aðgerðarsalinn og skipið allt ofandekks. Þegar lagst var að bryggju kl. 3 um nóttina var ekki hægt að segja annað en skipið angaði allt af þrifnaði.

Um morguninn hóf löndunargengið að skipa upp úr Breka og vorum við mættir, undirritaður og Sveinn Magnússon, til að ísa yfir búrann sem átti að flytja út til Frakklands. Upp úr skipinu komu 270 kör af fiski eftir þessa fimm daga skemmtilegu veiðiferð en Breki tekur um fimm hundruð kör í lest. Eins og fyrr segir fengum við metverð fyrir búrann í Frakklandi og mjög gott verð fyrir fiskinn sem fór á fiskmarkaðinn hér í Eyjum.
Hjalti Hávarðsson, 2. stýrimaður, sagði mér það að þetta væri með betri túrunum á árinu, þó stuttur væri, og það væri greinilegt að fiskaðist á löggurnar í Eyjum.
Að lokum vil ég þakka öllum í áhöfn Breka fyrir skemmtilega og lærdómsríka daga á sjó um leið og ég óska þeim og öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.