„Ritverk Árna Árnasonar/Línuspil“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <br> <br> <br> <big><center> Línuspil</center></big> Á fyrstu árum línunnar var hún ávallt dregin af handafli, sem bæði var afar erfitt verk og vandasamt, ef vel átti að f...) |
m (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Línuspil“ ([edit=sysop] (ótiltekinn))) |
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 27. ágúst 2013 kl. 10:31
Á fyrstu árum línunnar var hún ávallt dregin af handafli, sem bæði var afar erfitt verk og vandasamt, ef vel átti að fara við slæmar aðstæður.
Um veturinn 1912 var hér norskur maður Jocobsen að nafni. Hann var kvæntur Kristínu dóttur Jóhannesar Jóhannessonar, er síðast bjó á Eiðinu hér, í húsum þeim, er Brillain lét byggja og síðar skal að vikið nánar. Jacobsen þessi var vel að sér að mörgu leyti og kom sér vel áfram hér í Eyjum. Hann var þennan vetur með mb Ásdísi, sem Gísli Johnsen átti.
Ekki verður vitað með vissu, hvort hann hefir verið búinn að sjá línuspil utanlands, áður en hann kom hér eða hvort Gísli Johnsen hefir séð það í sínum utanlandsferðum, en þennan vetur setja þeir upp línu-dráttarvél í Ásdísi, sem þótti hin mesta fásinna, vanþekking manns á störfum sjómanna, þ.e.a.s. vanþekking Gísla Johnsen, sem aldrei hafði línu dregið. Mönnum fannst, að vélin gæti aldrei dregið neitt, en mundi slíta allt og purpa. Og svo prófar Jacobsen spilið, og viti menn, þegar það loks fæst til að snúast slítur það alla línuna, en gekk þó aðeins sára lítið. Og menn styrktust í þeirri trú, að vél þessi væri ónothæf við línudrátt.
Það var þó einn maður, sem ekki tók þátt í hleypidómum þessum, einn, sem sá ágæti hennar gegnum gallana. Það var Þorsteinn Jónsson í Laufási. Hann réðst í það að kaupa sér línudráttarvél í bát sinn Unni. Þar gekk þetta allt mikið betur. Hann réðst í það að kaupa í „Unni“ línuspil sama síðsumar, þ.e. 1912. Þótti mönnum þetta all einkennileg ráðabreyting af Þorsteini jafn gætnum manni, og spáðu öllu eins um þetta dráttarverk. En hér fór allt öðruvísi en á Ásdísi.
Segir hann, að þessa vertíð væri dráttarmaður nákvæmur, Kristinn Ingvarsson, orðlagt hraustmenni og vanur erfiðum línudrætti. Fannst Krisni nú hálf lítilmannlegt að draga línuna, því að hann hafði ekkert fyrir því, gat setið í rólegheitum, hringað niður í bjóðið berhentur, masað og reykt.
Og er í land kom úr fyrsta róðrinu, komu margir niður á bryggju. Skoða og fregna um allt línutapið sem Þorsteini hafði verið spáð með þessu tiltæki sínu, eða línuspilið, sem allt sliti og eyðilegði. En kvað við annan tón. Lína kom öll í lagi, hver krókur, allt vel og fagurlega hringað niður í bjóðið og greitt sem rúlla væri á að líta. Og nú fengu menn ferðina til útvegunar á spilum. Hver eftir annan kom með spil þar til hver einasti bátur hefir línuspil, sem þykir og svo sjálfsagt að, ef það er bilað, eru menn í landi og sleppa róðri heldur en draga með höndunum. Já, meira að segja trillurnar eru víst flestar, ef ekki allar, með spil.