„Saga Vestmannaeyja I./ Formáli“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
m (Verndaði „Saga Vestmannaeyja I./Formáli“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 23. júlí 2011 kl. 21:51
Vestmannaeyjar komust mjög snemma undir opinber eignarumráð. Miðað við landnám eyjanna hafa þær eigi verið í einkaeign, og þó ef til vill eigi allar, nema tæpar tvær aldir og þá að líkindum að meira eða minna leyti, að minnsta kosti eitthvað af þessum tíma, í eigu manna á landi. Þær eru orðnar kirkjueign, Skálholtskirkju, þegar fyrir miðja 12. öld, og komnar í einkaeign konungs, Noregskonungs og síðar Danmerkur, sennilegast frá lokum 14. aldar eða frá fyrsta fjórðungi 15. aldar, og lúta þeim eignarumráðum áfram 4—5 aldir eða fram til 1874. Þessi opinberu eignarumráð, hér átt við umráð eyjanna sem konungseignar, hafa sett sinn ákveðna svip á allt atvinnulíf eyjabúa, reist hömlur miklar sjálfsbjargarviðleitni þeirra og markað efnalegu sjálfstæði og framþróun mjög þröngan bás. Voru eyjarnar að þessu leyti ver settar en flest héruð, að ofan á hið stjórnarfarslega einræði og verzlunarkúgun bættist og drottinvaldið eða eignarvaldið yfir öllum jörðum og lendum í eyjunum, með þeim stórkostlegu kvöðum og álögum, er leiguliðar máttu sæta, og um þrjár aldir er þetta vald í höndum sömu manna, er hafa og verzlunarumráðin á eyjunum, einokunarkaupmanna.
Eyjarnar mátti skoða sem heimalendu konungs eða svipað og hin konunglegu góss í sjálfu heimalandinu, er lágu til krúnunnar að landskyldum og leigum og rentumeistari konungs hafði reikningsskil um. Þessi sérstaða eyjanna kemur fram út á við í opinberum boðskap og tilkynningum, og eru þær lengi fram eftir skoðaðar sem annað en Ísland, stundum nefnt „Wort og kronenns land Wespenö“. Arður konungs af Vestmannaeyjum var fyrst og fremst fólginn í jarðaafgjöldum og leigum, sem allt var goldið í verkuðum fiski, er var sú vara, sem mjög var eftirsótt á erlendum markaði, og gafst landsdrottni þannig oft tveir peningar fyrir einn. Vegna þessarar landauragreiðslu eða greiðslunnar í harðfiski, afgjaldafiskar, voru eyjarnar mjög eftirsóttar sem lén og gat konungur lént þær gegn hárri ársgreiðslu, og leigan stigið drjúgum við það, að lénsherrann gat haft aðstöðu til að hagnýta sér sjávarútveginn á eigin skipum með því að notfæra sér þær kvaðir, er leiguliðar voru skyldir til að fullnægja, ef farið var þess á leit, svo sem um ráðningu og skipun niður í skiprúm. Afgjöldin fyrir verzlunarleyfin voru og konungi góður tekjuauki af eyjunum. En vegna fjarlægðarinnar var oft erfitt að hagnýta sér þessi gæði, meðan enskir kaupmenn og útgerðarmenn sóttu til eyjanna og lögðu undir sig verzlunina þar og útveginn að miklu leyti, án þess, er alloft mun hafa átt sér stað, að leita leyfis konungs eða greiða tilskilin gjöld. Auðsætt er, að konungur hefir talið sig bíða allmikið fjárhagslegt tjón við aðfarir enskra í Vestmannaeyjum, er hömluðu konungi frá því að notfæra sér til fulls auðlindir eyjanna, sjávarútveginn og verzlunina, sem konungur tekur í sínar hendur með stofnun verzlunar þar fyrir eigin reikning og útgerðar þar á eigin skipum. En til þess að þetta gæti komizt í framkvæmd og yrði rekið óhindrað, varð að taka upp harðvítuga baráttu við hina ensku kaupsýslumenn í eyjunum, og var ekkert til þess sparað af hendi konungs, sem jafnvel hefir verið farinn að óttazt um yfirráð sín yfir þessari eignarlendu sinni, eins og kemur í ljós af ráðstöfunum þeim, er konungur gerði í þessu skyni: sendingu herskips til eyjanna, byggingu varnarvirkis eða skanz þar og notkun fallbyssubáta við eyjarnar, svo að annarra þjóða skipum var eigi hægt um vik að leita lands við eyjarnar, nema með leyfi virkisstjóra og herskipaforingja, eins og átti sér stað við Sundin í Danmörku sjálfri. Enda tókst konungsvaldinu með þessum ráðstöfunum, er voru fólgnar í því að beita hervaldi við aðkomuskip, er sýndu nokkurn mótþróa, eins og tíðkaðist við Eyrarsund í sambandi við skipatollheimtuna, sem og fyrir milliríkjasamninga, að rýma enskum kaupsýslumönnum og útgerðarmönnum frá eyjunum. Sú barátta og þær fórnir, sem hún hefir kostað, sýnir bezt, hversu mikils konungur hefir talið sig missa í við að geta eigi notið eða beitt til fulls umráðaréttar síns yfir atvinnumálum eyjabúa.
Með stofnun konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum um miðbik 16. aldar hefst nýtt tímabil í sögu eyjanna. Þær komast nú ennþá fastar undir handarjaðar konungsvaldsins, og framkvæmd þess í höndum harðsvíraðra og eigingjarnra umboðsmanna eða þjóna konungsvaldsins leggur eyjabúum ærið þungt ok á herðar í alls konar kvöðum og skylduverkum fyrir konungsverzlunina, og í skipunum og bönnum, svo að menn eru eigi frjálsir ferða sinna, ekki einu sinni til að róa út á sjóinn, né til að hagnýta sér afla sinn svo sem til vöruskipta fyrir landvörur, sem venja hefir verið frá fornu fyrir fulla nauðsyn. Vestmannaeyjar komast þannig fyrr en aðrir landshlutar undir verzlunaránauðina, og eru hnepptar ýmsum höftum og skorðum, löngu áður en verzlunarófrelsið kemur fram almennt í sinni eiginlegu mynd. Með því að taka undir sig útgerðina í eyjunum, svarf hrammur konungsvaldsins enn fastar að. Eyjamönnum, sem stundað munu hafa hingað til útgerð á eigin bátum, með nokkurri takmörkun þó þau tímabil, sem eyjarnar voru léntar, eða í samlögum við enska útgerðarmenn í eyjunum á 15. og 16. öld, var nú meinað að notfæra sér útveginn með þeim hlunnindum, sem jafnan hafa verið talin bezt, þ.e. að gera út á eigin skipum og taka skipshlutina. Nú máttu bændur róa á bátum konungsverzlunarinnar með vinnumenn sína, og þó að margir hrepptu formannslaun hjá konungsverzluninni, vann það lítið upp í það mikla fjárhagstjón, sem bændur biðu við það að mega ekki gera út eigin skip á vertíð. Bátaútgerð eyjamanna var nú í heild bundin við það að halda úti smáferjum á sumrum og 2—3 sexæringum á vetrarvertíð, þegar bezt lét, enda kvörtuðu bændur sáran, er þessar skorður voru settar fyrir atvinnufrelsi þeirra, sbr. kærumálin frá 1583, en fram til þess er konungsútgerðin hófst höfðu bændur getað aukið útveg sinn eftir þörfum með því að halda haustmenn og vetrarmenn af landi til að róa á vegum sínum, eins og tíðkaðist löngu seinna, eftir að Vestmannaeyingar voru orðnir frjálsir.
Föstu skipulagi hefir snemma verið komið á um jarðabyggingu og leigumála á eyjunum. Hafa umboðsmenn konungs, er voru allsráðandi hér, lagt grundvöllinn að niðurskipun jarðanna í ábúðir, eins og síðar hélzt um aldir. Jarðirnar voru flokkaðar niður í aðskildar samábúðir með sérstökum leigumálum, er giltu fyrir hverja samábúð eða sameignir, er svo voru kallaðar, og hafði hver ábúandi í sameigninni jafnan rétt hinum til ýmsra hlunninda og leiguafnota. Með þessari skiptingu jarðanna niður í smábýli hafa jarðaafgjöldin aukizt í heild, og um leið meiri trygging fengin fyrir stöðugri ábúð á jörðunum, er bændur innan hverrar sameignar höfðu með sér samvinnu um alla notkun úteyjanna. Umrætt fyrirkomulag bætti og skilyrðin drjúgum fyrir aukinni sjósókn, er mjög var í þágu landsdrottins og aðalútvegsrekanda eyjanna. Ýmsar aðrar kvaðir, auk hinnar sjálfsögðu kvaðar, að róa á vegum landsdrottins, hvíldu á landsetum konungs í eyjunum, svo sem að inna af hendi dagsverk í þágu konungsverzlunarinnar við ýms störf, er unnin voru á landi vegna útgerðarinnar, og í þágu konungsverzlunarbúsins, við skanzasmíði og margt fleira. Eyjamönnum var algerlega varnað þess að flytja fisk út úr eyjunum, svo sem til vöruskipta á landi, en hið mikla ófrelsi, er þeir áttu við að búa, kemur og fram með mörgum öðrum hætti en hér hefir verið lýst. Eyjabændur voru ekki þess megnugir einu sinni að flytja fugl og egg úr úteyjum á eigin skipum, heldur varð og að nota til þess báta konungsverzlunarinnar, og gjalda fyrir þá skipshluti í fugli og eggjum. Einnig til ferða úr eyjunum til lands, nærsveitanna á landi fyrir Söndum, er mjög tíðkuðust til vöruflutninga, innlendra afurða, við vöruskiptaverzlunina, er hér átti sér stað, máttu menn nota konungsbátana og greiða fyrir þá sérstakt gjald, svo að segja mátti, að þessi vöruskipti eyjamanna og landmanna væru skattlögð allverulega með þessum hætti. Jafnvel hestahald í eyjunum gerðu forstjórar konungsverzlunarinnar í eyjunum að féþúfu fyrir verzlunina, með því að verzlunin hélt sjálf hesta og leigði þá út til flutnings á fiski upp í fiskigarða, þar sem fiskur var hertur, frá fjöru, og tók fyrir þetta vissa fiskatölu af verkuðum harðfiski fyrir hvern reit, auk sjálfrar fiskigarðaleigunnar. En hins vegar var hestahald mjög takmarkað í eyjunum, og bændum aðeins leyfð viss ítala. Landskyldir af jörðum héldust hér óbreyttar ævalengi, þótt þær víðast annars staðar færu lækkandi á seinni tímum.
Þegar Vestmannaeyjar voru leigðar einokunarkaupmönnum voru þær leigðar miklu hærri leigu en gerðist um aðra verzlunarstaði, sem eigi var furða, þar sem í leigunni fylgdu landskyldir allar og leigur af eyjunum, eins og tíðkaðist meðan eyjarnar voru leigðar til fiskitolla, og einnig fylgdi með allur skipastóll konungs hér, innstæðubátarnir (konungsbátarnir, Inventariebaade), sem voru eins og nokkurs konar kvígildi með eyjunum. Með þessu fengu einokunarkaupmenn í sínar hendur sömu umráð og forstöðumenn konungsverzlunarinnar höfðu haft, ekki einasta yfir verzluninni, heldur og yfir útgerðinni, sem nú var rekin nær eingöngu á þeirra skipum, og leiguumráðin yfir jörðum öllum og lendum voru og í þeirra höndum. Lögregluvald og að sumu leyti dómsvald, að vísu takmarkað, hafði konungsfógeti áður haft með höndum, og hafði þetta einkum þýðingu meðan baráttan stóð í eyjunum milli umboðsmanna konungs og enskra útgerðarmanna um umráðin yfir verzluninni og sjávarútgerðinni.
Eyjamenn voru þannig settir, að þeir höfðu ekki umráð yfir skipastóli eyjanna allan einokunartímann og lengur, eins og sést af byggingarbréfum fyrir jörðum á öndverðri 19. öld, að þeir máttu skipa sér niður í skiprúm þar, sem umboðsmaður vísaði til, nema þeir ættu sjálfir skip, sem eigi var að verulegu leyti fyrr en kom nokkuð fram á öldina. Þeir áttu engin hús, þau tilheyrðu öll landsdrottni, jafnvel flestir fiskhjallar og fiskbyrgi. Engan blett af landi, ekki eina einustu þúfu, er þeir gátu kallað sína, og sérstakar kvaðir hvíldu hér á á seinni tímum í sambandi við jarðabyggingar, svo sem festugjöld. Leiguliðaafnot af rekaréttindum voru hér og takmarkaðri en annars staðar. Var svo sorfið að högum eyjamanna yfirleitt, að þeir gátu helzt eigi eignazt neitt. Allur arður rann til kaupmannanna og út úr héraðinu. Og arðurinn af verzlun og fiskveiðum og í gjöldum eftir jarðir og lendur var eigi lítill. Kaupmennirnir, er verzlunina höfðu hér, voru meðal auðugustu borgara Kaupmannahafnar, bæjarfulltrúar þar og borgarstjórar. Til opinberra þarfa í Vestmannaeyjum, ómaga- og sjúkraframfæris, vegalagninga eða þess háttar, ef um hefði verið að ræða, kom sem ekkert framlag frá kaupmönnum, né heldur af jarðeignunum, því að fasteignatíund var hér engin goldin. Kirkjunni, er svipt hafði og verið sínum fjárhagsréttindum, kirkjutíundunum, hlaut konungssjóður þó að lokum að standa straum af fjárhagslega að miklu leyti um tíma.
Tekjur konungs af Vestmannaeyjum frá miðri 16. öld og þar til fram undir lok 18. aldar, landskyldir, verzlunararður og verzlunarleiga, sem og arður einokunarkaupmanna, er þeir höfðu af verzluninni, hefir numið miklu, sjá nánar í II. bindi rits þessa. Og löngu eftir lok einokunartímans eða út alla 19. öldina hélt verzlunin í eyjunum áfram að vera í erlendum höndum, og bátaútvegurinn mikið til í höndum kaupmanna framan af öldinni. Fjárhagsleg viðreisn eyjabúa hefst að vísu upp úr miðri næstliðinni öld, er eyjamenn taka að eignast fiskibáta sína sjálfir og standa eigin fótum undir útgerðinni. Og árangurinn af því, að menn nú loks fá að standa frjálsir að þessum aðalatvinnuvegi eyjanna, sjávarútveginum, kemur fljótlega í ljós í auknu efnalegu sjálfstæði. Nú fara menn smám saman að eignast íbúðarhús sín og húsakynni víða stórum bætt. Ýmsum þarflegum umbótum tekur að brydda á, sem miða til almenningsheilla. Til fulls hefst viðreisnarstarfið eigi fyrr en hinu erlenda verzlunaroki er aflétt, sem eigi varð fyrr en með 20. öldinni.
Vestmannaeyjar höfðu sérstöðu hvað fyrirkomulag tíunda og greiðslumáta þeirra snerti. Hér hvíldu allar álögur og tíundir á framleiðslunni einni, afrakstri og afurðum, en eigi á fasteignum, né heldur lausafé. Var þannig fylgt hér norrænum (norskum) tíundarmáta, um að greiða af afla og ávöxtum, en eigi af lögleigu eftir íslenzkum lögum. Eins og atvinnuhögum eyjabúa var háttað, átti norrænn tíundarmáti hér betur við en sá íslenzki. Hér var raunverulega ekkert annað til að skattleggja en framleiðslan. Fasteignaskattur af eignum konungs enginn goldinn. Þetta fyrirkomulag um tíundir gilti í Vestmannaeyjum frá fornu og alveg fram á síðasta hluta 19. aldar. Þá fyrst komu Vestmannaeyjar undir venjuleg íslenzk tíundarlög. Af framleiðslunni, aðallega fiskaflanum, voru goldin laun embættismanna eyjanna. Prestunum var launað með prestatíundum, prestsfiski, er haldizt hafði frá fornu, og nutu prestarnir lengi hinna sameinuðu eiginlegu tíunda, presta- og kirkjutíundar og upprunalegrar þurfamannatíundar, að 2/3, 1/3 var konungstíund. Þá er sérstakur sýslumaður var settur í Vestmannaeyjar, voru laun hans tekin af fiskafla eyjabúa með sérstökum skatti, sýslumanns- eða salariifiskur. Til þess að standast straum af kostnaði við kirkjuna, er búið var að taka frá henni kirkjutíundirnar, samþykktu bændur fyrir fulla nauðsyn að greiða fiskgjald til kirkjunnar, kirkjufiskinn. Fyrir þörfum sjúkra, einkum holdsveiklinga eyjanna, og þurfalinga var séð með sérstöku fiskgjaldi, þurfamannafiskur, og fuglagjaldi, fuglafiskur, er kom í stað hinnar eiginlegu þurfamannatíundar. Var hið fyrrnefnda gjald upphaflega að skoða sem spítalagjald. Þetta gjald var á seinni tímum aðalstoðin undir sveitarsjóði Vestmannaeyja, svo að eigi þurfti að grípa til niðurjöfnunarútsvara, sem nokkru nam, en sjálf ómagaframfærslan hvíldi hér á niðursetu. Hið gamla fyrirkomulag um skipun fátækramála og álaga í þarfir sveitarsjóðsins yfirleitt hélzt óbreytt í eyjunum meðan aðalstofnar sveitarsjóðsins, spítalahlutirnir í fugli og fiski, spítalafiskur og fuglafiskur, tilféllu sveitinni, en þeir voru látnir nægja ásamt niðursetu til að standa straum af útgjöldum sveitarinnar, og þannig á haldið tíðast, að sveitin átti drjúga inneign, er varðveitt var í Jarðabókarsjóði. Spítalahlutirnir voru teknir upp í hinn almenna Læknasjóð, er stofnaður var með konungsúrskurði 12. ágúst 1848, frá 1. jan. 1865 að telja, sbr. opið bréf 24. marz 1863. Undir almennar skattgreiðslur og tíundir komust eyjarnar ekki fyrr en eftir lögfestingu laganna nr. 25 frá 1877, sbr. lög 12. júlí 1878.
Eins og sýnt hefir verið var Vestmannaeyingum afmarkaður allþröngur bás á eigin athafnasviði. Sinna ágætu sjómennskuhæfileika fengu þeir aðeins notið sem hásetar og formenn, helztu bændur, á annarra skipum að mestu á umliðnum öldum. Framtakssemi þeirra til væntanlegrar aukningar sjávarútvegsins og sjálfsbjargarviðleitni þeirra fékk þannig eigi notið sín til fulls. Og stórkostlegan fjárhagslegan hnekki hafa eyjarnar beðið hér af á liðnum tímum.
Um hina atvinnuvegi eyjabúa, landbúnaðinn og fuglatekjuna, var nokkru öðru máli að gegna. Hér var enginn fjóttekinn gróði eða uppgrip og hingað seildist enginn óviðkomandi. Smábýlabúskapurinn á eyjajörðum verður bændum notadrjúgur, einkum fyrir hlunnindi úteyjanna, en til þess að geta fært sér þau fullkomlega í nyt, þurfa þeir að snúa bökum saman og vinna í sameiningu. Hafa hér myndazt snemma óskráðar reglur og venjur til að fara eftir, og þeim fylgt kynslóð eftir kynslóð. Er það næsta lærdómsríkt að athuga, hversu þessum málum er komið í horf á samvinnugrundvelli meðal bændanna í hverri sameign eða jarðarleigumála. Öll eyjaafnotin voru sameiginleg fyrir hvern leigumála, og
leigumálinn oftast kenndur við aðaleyna, sem undir heyrði. Hvort heldur var um að tala heyskap, beitarréttindi fyrir sauðfé, veiðiréttindi o.fl. í úteyjum, mátti enginn þeirra bænda, er höfðu sömu úteyjar, fara fram fyrir annan, heldur urðu allir að fylgja hinum óskráðu samþykktum hér um, er hver og einn gekk að af sjálfu sér um leið og hann gerðist ábúandi á jörð í sameigninni. Alla framkvæmd um úteyjaferðir, köllun og undirbúning um veiðifarir, hafði einn bóndi innan hverrar sameignar á hendi, og þá fyrir það smávegis þóknun í landauragreiðslu, svo sem í fugli eða ýmsum fríðindum. Með fullkominni samvinnu og félagsátökum tókst bændum að notfæra sér fjarlægar úteyjar á sem beztan hátt og með minnstum tilkostnaði, en slíkt með öllu ókleift mjög fáum eða einum bónda. Og með reglubundnum veiðiförum eftir samþykktum, er studdust við reynslu fyrri tíma, var fuglaveiðum og eggjatekju stillt svo í hóf, að fuglastofninn rýrnaði eigi, og hélzt þannig við allarðvænlegur atvinnuvegur, fuglatekjan. Höfðu sameignarbændur vakandi auga á öllu, er hér að laut, og hinar ýmsu fuglatekjugreinar, lunda- og svartfuglaveiðar og fýlungaveiðar, er öllum var framfylgt, hverri með sínum hætti, voru eftir að eyjabændur fengu sjálfir fullkomin umráð yfir öllum veiðiskap í úteyjum starfræktar með stökustu nákvæmni um veiðiaðferðir og veiðitíma, eftir settum veiðireglum. Tilhögunin og reglurnar um veiði, er mátti heita allflókið viðfangsefni, að minnsta kosti fyrir ókunnuga, var sem óskrifað lögmál eyjamönnum, er sjálfsagt var að fara eftir. Með þessu vannst og áreiðanleg varðveizla nytjafuglsstofnsins, sem mjög var áríðandi, því að héðan kom eyjabændum árlega mikilsvert búsílag, sem bætti upp fæð kvikfénaðarins. Vér sjáum, hversu eyjamenn sækja sér föng í fjöllin og út á sjóinn, og láta eigi bugast af erfiðleikum og hættum, sem hin stranga lífsbarátta þeirra leggur þeim á herðar. Og hún krefst mikilla fórna í missi mannslífa fyrir öflun hins daglega brauðs. Með stöku harðfylgi og vægðarlausri ósérhlífni hefir eyjabúum að jafnaði tekizt á umliðnum öldum að forða héraði sínu frá ógnum hallæris og mannfellis á harðindaárum betur en víða gerðist hér á landi. Í hinni hörðu lífsbaráttu, sem eyjamenn mega heyja, hefir sóknin samt verið vonlaus lengstum fyrir bættum lífsskilyrðum, unz birti af nýjum degi. Aðalávöxtinn af stríði og striti eyjamanna um margar aldir hirtu aðrir utanaðkomandi, aðeins molarnir féllu hinum í skaut til fullnægingar einföldustu nauðsynlegum þörfum hins fábreytta lífs.
Í supplícatíu eyjamanna, er Kláus Eyjólfsson bar fram á Alþingi 1633, er komizt svo að orði: „ ... einkanlega þar ei fást færin með hverjum menn draga arð og fóstur að sínum heimilum, svo vel sem reiðurunum og öðrum innlenzkum og útlenzkum til gagns.“
Í Vestmannaeyjum fór hagur manna mjög eftir fiskaflanum. Þegar fiskiár voru góð fjölgaði fólkinu og ný tómthús risu upp, er hurfu aftur fljótlega, þegar fiskileysisárin komu. Hins vegar voru jarðirnar að jafnaði fullsetnar, þótt árferði versnaði, og björguðust bændur þá af búpeningi sínum, þótt lítill væri, og fuglatekju, er þeir höfðu betri aðstöðu til að notfæra sér heldur en tómthúsmennirnir, er þó nutu og mikils hér af. Eins og sýnt er fram á í þessu riti, versnaði ástandið í eyjunum frá síðustu árum 17. aldar, fram eftir 18. öldinni og var undir lok aldarinnar mjög bágborið. Voru þá aðeins eftir 2—3 tómthús í byggingu í eyjunum, en fyrrum höfðu þau oft verið hátt á 4. tug. Hefir á þessum síðustu tímum sorfið allfast að, eins og sjá má af hinum tíðu dauðsföllum af völdum skyrbjúgs og niðurfallssýki, sbr. dánarskýrslur presta. Barnadauðinn af völdum ginklofaveikinnar var á þessum tímum, er skýrslur ná til, afar mikill, og hefir verið það mjög lengi og sem sérkenni fyrir eyjarnar, þó að vísu væri barnadauði mikill annars staðar, en þetta mun samt eigi hafa komið verulega að sök með tilliti til fólksfækkunar hér, því að alltaf kom nægilegt fólk að af landi, ef skilyrði voru að öðru leyti góð. Ginklofaveikin hélt áfram að vera mjög skæð hér á fyrstu áratugum 19. aldar, og þótti þá eigi annað fært en að setja hér fastan lækni til útrýmingar veikinni, 1828. Gengu eyjamenn röggsamlega fram í því að fá lækni til eyjanna, og buðust til þess að taka þátt í kostnaðinum af fremsta megni. Enda voru eyjamenn því óvanir að hafður væri tilkostnaður þeirra vegna. Mátti segja, að slík framlög ættu sér engan stað utan til kirkjubyggingar, eftir að Landakirkja komst á framfæri Jarðabókarsjóðs á 18. öld. Lítils háttar þóknun og til sýslumannslauna til uppbótar á sýslumannsfiskinum. En því fékkst fyrst framgengt eftir að morðmálið, er kennt var við morðið í [[Hvíld], kom upp, að eyjamenn fengu sýslumann búsettan í eyjum, í lok 17. aldar.
Karlmennskuhugur og áræði hefir þótt einkenna eyjabúa, enda eigi heiglum hent að standa í þeim þolraunum og stórhættum, sem þeim oftlega voru búnar við öflun hins daglega brauðs. Víst fjörbragð og glaðsinni hefir og þótt vera hér yfir fólki, þrátt fyrir einangrunina. Þetta að sumu leyti að þakka stöðugu innstreymi af fólki. Að vísu hefir stundum þótt úr hófi keyra drykkjuskapur og svalllífi, svo að þörf hefir þótt til umvöndunar, eins og kemur fram í skrifum valdsmanna á síðasta hluta 18. aldar og fyrir miðja 19. öld, sbr. og ummæli í kvæði séra Jóns Þorsteinssonar frá öndverðri 17. öld. En líklega mun hér kenna um of vandlætingar, og mun sízt hafa verið verra í eyjunum í þessum efnum en í öðrum verstöðvum, þar sem saman var kominn fjöldi aðkomufólks á vertíð úr mörgum landshlutum. Á tímunum eftir Tyrkjaránið var mikill glundroði hér á ýmsum sviðum, sem eigi var að furða, er eyjarnar tóku að byggjast að nýju og fyllast tók í skörðin eftir hina herleiddu. En samt hefir furðanlega fljótt skipazt í hið fasta og skipulagsbundna form, er á öllum tímum undantekningarlítið var yfir athöfnum manna í sjósókn og fjallasókn, bundið föstum venjum og samþykktum, er hinir ráðandi menn meðal bænda og formanna vöktu yfir á öllum tímum, að eigi færðust úr skorðum innan vébanda samvinnu- og félagssamtaka, og með samlögum að því, er snertir útgerð bænda á eigin skipum og í veiðiförum og úteyjasókn innan hinna einstöku leigumála.
Allsérkennilegt tilbrigði fyrir þjóðlíf eyjanna var stofnun hinnar svokölluðu Herfylkingar eyjabúa um miðja 19. öld, sem nær allir vopnfærir menn í eyjunum skipuðust í undir stjórn sýslumanns síns. Herfylkinguna, er það hlutverk var ætlað að vera lögreglusveit og þó einkum sem landvarnarlið gegn árásum útlendra reyfara, má eiginlega skoða að ýmsu leyti sem endurupptöku hinnar fornu vörzlu í eyjunum í sambandi við Skansinn. Að vísu var nú langt umliðið síðan hervirki og rán höfðu verið framin í eyjunum, en ennþá lifði í hugum manna minningin um Tyrkjaránið og fleiri rán og ýmsir atburðir, er urðu hér á landi í byrjun 19. aldar höfðu gert sitt til að styrkja þann ótta og ugg, er menn báru í brjósti gegn árásum af hendi erlendra ofstopamanna og ræningja. Til þess kom eigi, að Herfylkingin, sem fyrir stranga þjálfun og æfingu eftir gildum herreglum þótti og eigi standa á sporði erlendum hervarnarsveitum, fengi að glíma við viðfangsefni slík, sem henni voru upprunalega ætluð, en af hinni almennu vakningu og auknu sjálfsmeðvitund, sem upp af þessu spratt, beindust hugir manna inn á þær brautir, er miðuðu til aukinna menningarlegra framfara. Má segja, að frá þessum tímum eða um miðja 19. öld byrji hið eiginlega viðreisnartímabil eyjanna.
Fyrir andlegum þörfum eyjabúa sáu prestarnir. Vestmannaeyingar voru að þessu leyti vel settir lengstum, er prestarnir voru tveir og stundum þrír að meðtöldum aðstoðarpresti. Meðal eyjaprestanna voru þjóðkunn skáld og kennimenn meðal hinna lærðustu hér á landi, svo sem séra Jón Þorsteinsson og séra Guðmundur Högnason. Hér voru fyrrum þrjár kirkjur, síðan alllengi tvær og loks ein sóknarkirkja fyrir eyjarnar (Landakirkja), en jafnframt haldið við bænhúsunum á Ofanleiti og í Kirkjubæ fram á síðasta hluta 19. aldar. Barnauppfræðslan hefir verið hér góð, enda aðstæður góðar til að sjá henni vel borgið og börnin fá, er af barnsaldri komust, sökum hinnar skæðu barnaveiki, ginklofaveikinnar, er landlæg var í eyjunum. Um miðja 18. öld er hér og um tíma komið upp skólahaldi fyrir börn með sérstökum kennara.
Í Vestmannaeyjum vöndust unglingar snemma á að taka þátt í sjóförum og veiðiförum með hinum eldri. Allt uppeldi drengja miðaði mjög að því að efla áræði, kjark og líkamlegt þol, svo að unglingarnir gætu sem fyrst orðið hlutgengir um afla allan og veiðiskap. Leikir þeir, er drengir tömdu sér, miðuðu að hinu sama og lutu oft að atriðum úr fjallasókn og sjósókn, svo sem sig í klettum, sprang, klifur utan í björgum, siglingar og róðrar á smábátum, einnig alls konar veiðiskapur, er drengir vöndust upp á eigin spýtur, fara í lundaholur, flugfýlaveiðar á landi og sjó, murtaveiðar og kolaveiðar með sting o.fl. Á seinni tímum hefir komið fram alveg frábær íþróttaáhugi meðal ungs fólks í Vestmannaeyjum af báðum kynjum og fjölbreytt íþróttalíf blómgazt í Vestmannaeyjum í ríkum mæli og jafnvel látið meira til sín taka en annars staðar hér á landi utan Reykjavíkur.
- Sigfús M. Johnsen.