„Blik 1957/Þáttur nemenda, fyrri hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
m (Verndaði „Blik 1957/Þáttur nemenda, fyrri hluti“ [edit=sysop:move=sysop])
Ekkert breytingarágrip
 
Lína 126: Lína 126:
<br>
<br>
<br>
<br>
[[Mynd: 1957, bls. 60.jpg|left|thumb|600px]]
[[Mynd: 1957 b 60 A.jpg|left|thumb|600px]]




Lína 140: Lína 140:




[[Mynd: 1957, bls. 62.jpg|left|thumb|600px]]
[[Mynd: 1957 b 62 A.jpg|left|thumb|600px]]
 
 


<big>''Nemendur 3. bekkjar bóknámsdeildar veturinn 1956—1957 ásamt einum kennara.</big>
<big>''Nemendur 3. bekkjar bóknámsdeildar veturinn 1956—1957 ásamt einum kennara.</big>
Lína 159: Lína 161:




[[Mynd: 1957, bls. 71.jpg|left|thumb|400px]]
[[Mynd: 1957 b 71 A.jpg|left|thumb|400px]]
 


MYNDASKÝRINGAR<br>
MYNDASKÝRINGAR<br>
''Efri mynd: Tízkusýning nemenda 1. des. 1956. <br>
''Efri mynd: Tízkusýning nemenda 1. des. 1956. <br>
''Frá vinstri: ''Birgir Vigfússon''. Þar fara saman stuttbuxur og stéljakki, montprik og mattadorhattur, glæsibringa og berir fótleggir. — ''Halla Bergsteinsdóttir''. Pils í stytzta lagi og svo: „Eftir því er hefðin hærri, sem hafa þær fleiri klær og skott“. „Vöxturinn fagur, augun indæl, engilbrosið, silkiskrúðinn, fimm þumlunga háir hælar, huppaklemman, lendapúðinn“. — ''Hannes Helgason''. Stæling af amerískri saumakonu í pels með fjaðrahatt, og svo sonur hennar ''Sigurgeir Sigurjónsson''. Snemmborinn sonur saumakonunnar tyggur gummið, ýmist teygir hann það út úr sér eða blæs það upp í blöðru. Fulltrúi æskulýðsmenningar, sem numið hefur land að sinni a.m.k. ''Ragnheiður Björgvinsdóttir'', matróna eða hefðarfrú, tignarleg og tilgerð, stoppuð bæði bak og fyrir. Hælar og huppaklemma, hattur, kjóll og kápa, allt eins og þegar drottningin á Englandi fór í heimsóknina til hans séra Filippusar konungs handan við sundið. ''Aðalsteinn Sigurjónsson''. Hann hafði sofið illa yfir sig, rokið fram úr og út í náttserknum með vekjaraklukkuna í hendinni.<br>
''Frá vinstri: ''Birgir Vigfússon''. Þar fara saman stuttbuxur og stéljakki, montprik og mattadorhattur, glæsibringa og berir fótleggir. — ''Halla Bergsteinsdóttir''. Pils í stytzta lagi og svo: „Eftir því er hefðin hærri, sem hafa þær fleiri klær og skott“. „Vöxturinn fagur, augun indæl, engilbrosið, silkiskrúðinn, fimm þumlunga háir hælar, huppaklemman, lendapúðinn“. — ''Hannes Helgason''. Stæling af amerískri saumakonu í pels með fjaðrahatt, og svo sonur hennar ''Sigurgeir Sigurjónsson''. Snemmborinn sonur saumakonunnar tyggur gummið, ýmist teygir hann það út úr sér eða blæs það upp í blöðru. Fulltrúi æskulýðsmenningar, sem numið hefur land að sinni a.m.k. ''Ragnheiður Björgvinsdóttir'', matróna eða hefðarfrú, tignarleg og tilgerð, stoppuð bæði bak og fyrir. Hælar og huppaklemma, hattur, kjóll og kápa, allt eins og þegar drottningin á Englandi fór í heimsóknina til hans séra Filippusar konungs handan við sundið. ''Aðalsteinn Sigurjónsson''. Hann hafði sofið illa yfir sig, rokið fram úr og út í náttserknum með vekjaraklukkuna í hendinni.<br>
''Sýningin vakti mikla ánægju með nemendum og ársfagnaðargestum.
''Sýningin vakti mikla ánægju með nemendum og ársfagnaðargestum.<br>
 
''Neðri myndin:''Kvæðakórinn 1. des.'' Frá vinstri:<br>
 
 
''Neðri myndin.<br>
''Kvæðakórinn 1. des.''<br>
''Frá vinstri:<br>
''Elínborg Jónsdóttir, Selma Jóhannsdóttir, Elín Leósdóltir, Halla Bergsteinsdóttir, Þorbjörg Jónsdóttir, Rósa Martinsdóttir, Helga Helgadóttir og Anna Erna Bjarnadóttir. <br>  
''Elínborg Jónsdóttir, Selma Jóhannsdóttir, Elín Leósdóltir, Halla Bergsteinsdóttir, Þorbjörg Jónsdóttir, Rósa Martinsdóttir, Helga Helgadóttir og Anna Erna Bjarnadóttir. <br>  
''Með erindum þeim, sem kórinn las, minntist hann sjómannastéttarinnar, móður sinnar, íslenzku konunnar í heild, unga hrausta æskumannsins, unga hugsjónamannsins o.fl.
''Með erindum þeim, sem kórinn las, minntist hann sjómannastéttarinnar, móður sinnar, íslenzku konunnar í heild, unga hrausta æskumannsins, unga hugsjónamannsins o.fl.

Núverandi breyting frá og með 30. ágúst 2010 kl. 21:49

Efnisyfirlit 1957



ctr
(Fyrri hluti)


Huldufólkssaga

Ég ætla hér að endursegja sögu, sem kona, er ég þekki mjög vel, sagði mér.
Það var á gamlárskvöld árið 1917, að þrjár konur og ein 11 ára telpa voru að ganga til kirkju. Veður var mjög gott og auð jörð. Er þær voru komnar skammt frá bænum, sjá þær hvar á að gizka 15—20 ljós koma upp úr hrauni, sem var austan til við bæinn. Ljós þessi líktust svokölluðum olíuluktarljósum, sem þá var venja að ganga með milli bæja og útihúsa þegar dimmt var. Þau virtust líða áfram eins og í gönguhraða, og horfðu þær á þetta á að gizka 20 mínútur, þar til þær sáu þau hverfa í námunda við tóftarbrot, sem áður hafði verið sel frá bæ niðri í þorpinu, og var það kennt við hann. Það var trú manna, að í selinu væri álfakirkja. Og þar sem enginn gat ímyndað sér, hvað þetta gat annars hafa verið, var álitið, að þarna hafi huldufólk verið á leið til kirkju.
Á bænum, sem konurnar og telpan voru frá, heyrðust oft ýmis hljóð koma úr hrauninu. T.d. bar það við einu sinni, eitt vetrarkvöld, er fólkið var inni við vinnu sína, að því heyrðist sem þytur færi fram hjá, líkt og rekinn væri stór fjárhópur fram hjá bænum, heyrði það kindajarm, gelt í hundum og hófatak í hestum. Þetta gat samt ekki um neinn venjulegan fjárrekstur verið að ræða, því að hávetur var. Fólkið fór út að gæta betur að, en allt var kyrrt og enginn sást á ferð.

Selma Jóhannsdóttir, II. b. verknáms.

Sjóferð

Það lætur nú ef til vill hjákátlega í eyrum, að stúlka skuli vera að segja frá sjóferð, en svo undarlega vill nú til, að ég hefi alltaf áhuga fyrir sjónum, og er það víst arfur frá feðrum mínum. Það hefir líka komið fyrir oftar en einu sinni, að ég hefi fengið leyfi til að fara í fiskiróður, og ætla ég nú að segja frá einum slíkum.
Það var í marz 1954, að mig minnir, nóttina milli 12. og 13. „Júlía“ skreið út höfnina ásamt öðrum Eyjabátum.
Á Víkinni var staðnæmzt og beðið eftir að „blússið“ yrði gefið.
Veðrið var dásamlegt, logn og sléttur sjór og gaman að sjá alla ljósadýrðina; hvít, rauð og græn ljós.
Allt í einu kveður við feiknar niður og reykur stígur upp frá bátunum. Nú hafði „blússið“ verið gefið og flotinn brunar út til miða. „Júlía“ heldur suður með Urðum og kokkurinn segir mér, að nú ætli „kallinn“ út á landsuður.
Eftir hálftíma siglingu er farið að leggja línuna. Ekki er þó búið að leggja mikið, þegar byrjar að kalda, og kominn er stormur, þegar lagðir hafa verið 30 stampar. Þá er hætt að leggja meira og ljósdufl sett á. Við það er lónað fram í afturelding. Á meðan leggja sig allir nema einn, sem er á verði. Auðvitað reyni ég að sofna, en það gengur illa vegna veltings. Sjóveik er ég ekki. Varla er orðið bjart, þegar byrjað er að draga línuna, en þá er komið suðaustan rok með slyddu. Sjórinn fyssar yfir bátinn, og hann hendist til. Ég held mig í stýrishúsinu og reyni af veikum mætti að fylgjast með því, sem fram fer. Ég á vont með að hemja mig, enda er veltingurinn óskaplegur. Naumast er hálf línan dregin, þegar hún slitnar. Er þá ekki talið fært að draga meira sökum óveðurs Haldið er því til hafnar, en með lítinn feng. Sjómennirnir segja: „Ekki eru allar ferðir til fjár, þó að farnar séu.“

Októvía Andersen, I. b. B.

Minnisstæður atburður

Þessi litla frásögn sýnir, hve djúp áhrif illt og gott getur haft á óþroskaða barnssál. Þegar amma mín var 9 ára gömul, kom þetta atvik fyrir hana, þar sem hún ólst upp í Dyrhólahverfi í Mýrdal. Af því að hún varð svo hrædd, þá man hún þetta eins vel og það hefði gerzt í gær, en nú er hún yfir áttrætt. Hún segir svo frá:
,,Ég og jafnaldra mín vorum látnar reka kýrnar út í haga, er búið var að mjólka þær á morgnana. Áttum við að reka þær vestur fyrir Gerði, sem svo er kallað. Er það nokkuð hátt undir hömrunum vestur fyrir Múla, sem er tangi, er skagaði nokkuð langt fram af björgunum. Var hann allur grasi vaxinn. Var hann því beittur bæði kúm og kindum. Þegar við vorum að snúa heim, kemur til okkar strákur af næsta bæ og spyr, hvort við viljum koma með sér upp í Háugötu, en það var gata, er lá framan í brekkunni, sem var upp á björgin. Var hún oft farin, er rekið var fé, því að það stytti leiðina upp á björgin að miklum mun. Veðrið var gott, og vorum við því fúsar á að gjöra þetta. En þegar við erum komin upp, segjum við við strákinn, að við viljum heldur fara fyrir neðan hólinn, því að það sé sléttara. En þá stekkur hann upp á hólinn og kallar til okkar, að það séu 3 naut að bíta í láginni fyrir innan hólinn. Segjum við honum þá að koma strax, en þá fer hann að baula til að vekja athygli þeirra á sér. Endurtekur hann þetta nokkrum sinnum. Kemur hann því næst stökkvandi og segir, að nautin séu að koma. Var hann sýnilega ekki minna hræddur en við. Hlupum við nú öll eins og fætur toguðu, þar til við erum komin niður fyrir björgin. Fórum við þar inn í kofa, sem kallaður var Stekkur, en brátt sáum við, að slíkt var vitleysa, því brátt myndu nautin koma þangað og var þá ekki víst, að við slyppum bráðlega. Tókum við því það ráð að hlaupa vestur með björgunum. Þar neðan undir stóð svo stór blágrýtissteinn, að ómögulegt var fyrir nautin að komast upp á hann. Bak við hann var skora, sem við gátum skriðið inn í. Bak við stein þennan biðum við nú nokkra stund og heyrðum við ekkert í nautunum. Þá sögðum við stráknum að læðast meðfram björgunum. Var hann tregur til, en fór samt og kom aftur með þau tíðindi, að öll nautin stæðu við kofadyrnar, sem við fórum fyrst inn í. Þá stukkum við vestur blásteinsskriður, sem voru skammt frá steininum, er við höfðum fyrir felustað, og vestur á Múlann og svo suður mýri, er lá til næsta bæjar, en þar átti strákurinn heima. Fórum við nú glaðar heim, en þegar minnst varði, kemur eitt naut á móti okkur miklu stærra en hin, og þegar það sér okkur, fer það að róta upp jörðinni og bölva einhver ósköp. Snúum við þá til baka og norður fyrir stóran hól, er þarna var. Stukkum við norður eftir honum. Fannst okkur hjörtun ætla að springa, því þetta var svo langt. Hóllinn var kallaður Stórhóll.
En það er af nautunum þremur að segja, að þau stóðu til kvölds við kofann, en stóra nautið fór heim að bænum, sem strákurinn átti heima á. Gátu tveir fullhraustir karlmenn á endanum snarað það og farið með það heim og var því aldrei sleppt lausu eftir þetta.“

Guðfinna J. Guðmundsdóttir, III. bekk.
„Snúða- og pylsumálaráðherrarnir“ héldu embætti sínu einnig á ársfagnaði skólans 1. desember s.l. Frá vinstri: Jóhannes Sævar og Grétar Þórarinsson.

Danmerkurferð

Í sumar, sem leið, fór ég með mömmu minni til Danmerkur. Við lögðum af stað héðan frá Vestmannaeyjum þann 19. júní, og vorum í Reykjavík til 23. júní. Þá flugum við út með einni af flugvélum Flugfélags Íslands til Kaupmannahafnar. Í Kaupmannahöfn dvöldumst við í viku, en í þessari viku gerðist ekkert markvert. Þá fórum við til Borgundarhólms, lítillar eyju, sem tilheyrir Danmörku. Það var mjög skemmtilegt. Við vorum þar í 1/2 mánuð og höfðum leigt sumarbústað, sem ég hafði gert mér miklar vonir um. En þá varð ég fyrir vonbrigðum. Hann var svo lítill og afkáralegur, að það var nú einhver ósköp. Það var ætlazt til að 4 manneskjur gætu verið í honum, en engin tök voru fyrir fleiri en tvo að vera þar. Þar var pínulítið eldhús. Svo var smáskot, þar sem voru 4 rúmflet, en hvorug okkar vildi sofa þar. Og þá var smá stofukytra með legubekk, borði og 4 stólum og í stofunni sváfum við, ég á gólfinu í svefnpoka, en mamma á legubekknum. Og ofan á allt þetta bættist, að fyrir utan sumarbústaðinn var svo krökkt af maurum, að varla var hægt að fara út fyrir hússins dyr. Og svo var auðvitað kamar þarna og ýmislegt fleira frumstætt. Í öðrum sumarbústað þarna rétt hjá var Dísa á Sóla með einhverju af frændfólki sínu, og okkur fannst auðvitað mjög gaman að geta verið saman. Við vorum á alveg ágætri baðströnd, sem heitir Balka, og fórum í sjóinn næstum á hverjum degi. Veðurblíða var næstum hvern dag, meðan við mamma vorum á Borgundarhólmi. (Dísa var 1/2 mán. lengur en við). Aðeins í 2—3 daga var leiðinlegt veður. Þá komu þrumur og eldingar, og það fannst okkur Dísu feikilegt fjör, en mömmu fannst það ekki eins gaman. Þá kom mesta rigning, sem ég hef nokkurn tíma séð. Við höfðum öll leigt hjól, meðan við vorum þarna, og við hjóluðum oft. Það gekk ágætlega og við mundum næstum alltaf eftir að víkja til hægri. Það kom samt tvisvar fyrir, þegar ég átti að beygja fyrir horn, að bifreiðar þurftu að nema staðar vegna mín, vegna þess að ég var á öfugri vegarbrún. En annars var ekki mikil umferð þarna. Nokkrum dögum áður en við fórum aftur til Kaupmannahafnar, fórum við mamma í hringferð um eyjuna í rútubíl og sáum alla fallegustu staðina á henni. Hringferðin tók einn dag, og rétt áður en henni lauk, vildi bílstjórinn, að við færum að syngja. Allir vildu það, en enginn fékkst til þess að byrja, svo að bílstjórinn tók það ráð að byrja sjálfur. Þegar hann byrjaði, tóku allir undir, en það sorglega við þetta var bara það, að veslings bílstjórinn var svo innilega laglaus, að hann setti alla út af laginu um leið og þeir byrjuðu. En samt skemmtum við okkur kostulega.
Svo fórum við til Kaupmannahafnar. Þar vorum við einn dag. Næst lá leiðin til Jótlands, þar sem við ætluðum að heimsækja afa og ömmu. Hjá þeim fengum við hinar beztu móttökur. Þegar ég var búin að vera þar í 2 daga, fór ég til Graasten, sem er bær rétt við landamæri Þýzkalands, en þar var Sigrún Þorsteinsdóttir skólasystir mín í húsmæðraskóla. Þar var ég í 1 1/2 dag. Þegar ég fór aftur, kom Sigrún með mér til þess að eyða mánaðar fríi, sem hún hafði fengið. Það var ekkert sérstaklega gott veður, meðan við vorum þar saman, en samt höfðum við alltaf nóg að gera.
Nokkrum dögum eftir að Sigrún fór til Graasten, fórum við mamma aftur til Kaupmannahafnar. Daginn eftir að við komum þangað, fór mamma með mig í dýragarðinn og nokkur söfn. Eitthvert kvöldið fór ég í Tívólí. Og ég sá Litlu Haffrúna og fór inn á Löngulínu og á „Strauið“. Einn daginn skruppum við til Svíþjóðar og stönzuðum þar nokkra klukkutíma. Annan dag fórum við í „skógarferð“ með Íslendingafélaginu í Kaupmannahöfn. Og þann 23. ágúst nákvæmlega 2 mánuðum eftir að við komum, fórum við heim og þar með var ævintýrið á enda.

Bryndís Brynjúlfsdóttir, III. bekk.

Frá Reykjavík til Bifrastar

Það var sólbjartan og fagran morgun seint í júnímánuði, einn af þessum fágætu morgnum á þessu kalda landi okkar.
Við systurnar og fleira fólk höfðum ákveðið að fara í sumarfrí á einhvern fallegan stað og fannst okkur tími til kominn að láta verða af því. Eftir venjulegan undirbúning fórum við frá Reykjavík kl. 1.30 eftir hádegi.
Þegar komið var út úr bænum, ókum við sem leið lá til vesturs og norðurs. Fyrst í stað gekk allt vel, en svo skeði það, sem helzt ekki má koma fyrir á skemmtiferðalögum: sumir fóru að verða bílveikir, og urðum við öðru hverju að nema staðar og hleypa fólki út til að jafna sig og draga að sér hreint loft; en smám saman lagaðist þetta og þegar við nálguðumst Hvalfjörðinn, leið öllum vel.
Hvalfjörðurinn er mjög fallegur og mjög langur og hefur mörgum fundizt tíminn lengi að líða, sem hafa farið Hvalfjarðarleiðina í vondu veðri og á slæmum vegum, en í þetta skipti þurfti enginn að kvarta.
Sólin skein í heiði og glitaði spegilsléttan fjörðinn og var hann sem bráðið silfur á að líta.
Víða meðfram fjörunni syntu æðarkollur með litlu ungana sína og voru þær að kenna þeim að synda og búa þá undir að bjarga sér á eigin spýtur. Var mjög gaman að sjá, hve þessir litlu hnoðrar voru kvikir og fljótir að skjótast á eftir mömmu sinni.
Margir og gamlir sögustaðir eru í Hvalfirðinum eins og kunnugt er, og má þar fyrst nefna Harðarhólma, þar sem Hörður Grímkelsson sat í sekt með mönnum sínum. Sundið milli lands og hólmans merlaði nú í skini sólar og glitraði, sem á gull sæi, en fyrir innri augu mín ber aðra sýn: konu á sundi með tvo litla drengi sína meðferðis. Það er nótt, eftir að Hörður hafði verið svikinn og veginn, bjóst Helga kona hans við að hefndarþorsti byggðarmanna mundi nær því ekki svalað og mundi næst verða snúið vopnum að sonum þeirra Harðar, og upp á líf og dauða henti hún sér í hafið og svam til lands með annan sona sinna — þann yngri — bundinn við sig, en við hinn — þann eldri — dugðu eggjunarorð hennar.

„Við mig hafði ég Björninn bundið.
Bróður hans var nóg að eggja.
Brauzt ég yfir bárusundið,
bjargaði lífi sona tveggja,“

segir Davíð Stefánsson í hinu gullfallega kvæði sínu Helga jarlsdóttir.
Um ókomnar aldir, meðan íslenzkt blóð rennur í æðum og íslenzk tunga er töluð, mun hinn fagri hólmi, þetta sólmerlaða sund, bera fagurt vitni um þolgæði og fórnarlund hinnar íslenzku móður og standa, sem einhver hinn óbrotgjarnasti minnisvarði um hina heiðnu konu, sem hikaði ekki við að hætta lífinu fyrir börnin sín.
Áfram var haldið, var numið staðar við Ferstiklu. Þar andaðist sálmaskáldið góða, Hallgrímur Pétursson, í fátækt og haldinn einhverjum þeim ægilegasta sjúkdómi, sem um getur — holdsveikinni. —

„Inn í dimmt og hrörlegt hús ég treð
hver er það, sem stynur þar á beð?
Maðkur og ei maður sýnist sá,
sár og kaun og benjar holdið þjá,
blinda hvarma baða sollin tár,
berst og þýtur yfir höfði skjár.“

segir Matthías Jochumsson.
Svona dó þessi maður í eymd og fátækt. Hann, sem um ókomnar aldir veitti svo mörgum huggun og harmabót með hinum trúarþrungnu sálmum sínum. Á Ferstiklu er greiðasala og var svo mikið að gera, að við þurftum sjálf að ganga um beina. Er við höfðum fengið okkur hressingu, var haldið áfram sem leið lá. Brátt komum við að Saurbæ, þar sem Hallgrímur Pétursson var prestur. Síðan tók við Melasveit. Þar undir Hafnarfjalli er Hafnarskógur og þar er skemmtistaður í mjög fögru umhverfi, sem heitir Ölver. Margt mjög fagurt sáum við á leið okkar, sem of langt yrði að telja upp. Á vinstri hönd er Bændaskólinn á Hvanneyri; er mjög staðarlegt að líta þangað heim. Á einum stað bar fallega sjón fyrir augu: lága hæð alvaxna birkikjarri og inn á milli runnanna glitti í lítinn hvítmálaðan sumarbústað með rauðu þaki.
Nú vorum við komin í Norðurárdalinn. Eftir honum liðast silfurtær Norðuráin með sporðaköstum hinna straumsæknu laxa. Í henni eru fagrir fossar: Glanni og Laxfoss. Þar una veiðimennirnir sér í dásamlegu umhverfi við veiði á þessum eftirsótta fiski, laxinum. Nú sást til Bifrastar, sem er sumarhótel í Norðurárdal. Var nú ekið greitt. Brátt brunaði bifreiðin inn á bifreiðastæðið við Bifröst. Bifröst er í yndisfögru umhverfi og þar í faðmi fjallanna við skógarilm og vatnanið var ákveðið að eyða sumarleyfinu. Við stigum út úr bílnum og ég litaðist um, en ég kannaðist vel við mig, af því að þetta var ekki í fyrsta skipti, sem ég kom á þennan dásamlega stað. Nú var farið inn á hótelið, sem er mjög reisuleg bygging, og eftir að við höfðum fengið okkur hressingu, fórum við að hátta í vistlegum herbergjum, sæl og þreytt eftir indælt ferðalag, og hlökkuðum til að vakna að morgni við söng fugla, þyt skóga og vatnanið.

Helga Helgadóttir, I. bekk C.

Minni námsmeyjanna

„Ræðu“ þessa flutti Haraldur Gíslason, nemandi í 2. bekk bóknáms, fyrir minni skólasystra sinna á ársfagnaði skólans 1. des. s.l.

„Virðulegu jómfrúr og meyjar.
Í upphafi skapaði guð himin og jörð, en síðan skapaði hann manninn og blés lífsanda í nasir hans. Þegar hér var komið sköpunarverkinu, tók hann eitt rif úr síðu Adams og bjó til úr því Evu, formóður okkar allra.
Þótt kvenréttindakonur eins og matróna Elínborg og jómfrú Klara megi ekki heyra slíkt nefnt, eruð þið þó, stúlkur, sprottnar frá karlmanninum.
Í norrænum fræðum hétu fyrstu mennirnir Askur og Embla. Það er dálítið gaman að vita það og hugleiða, að til eru trjátegundir með þessum nöfnum. Askur stendur sterkur og beinn en emblan er veik jurt, sem hallar sér að askinum og styðst við hann. Þannig eigið þið að styðjast við okkur, stúlkur.
Þegar hún Eva hætti að striplast gjörsamlega berstrípuð og tók að skýla nekt sinni með fíkjublaði, þá hófst tízkan. Enginn veit um öll þau óskaplegu býsn af fötum, sem konan hefur hengt utan á sig síðan. Skinnpils hafa það verið í köldum löndum, en strápils í heitum. Á Grænlandi ganga þær um í skinnbrókum, sem líkjast buxum sumra námsmeyja, en líklega lokulausar.
Eitt sinn klæddust konur í 10 pils eða fleiri. Innan undir öllum þessum pilsafans var vírgrind eins og í lampaskermi. Þá heimtaði tízkan miklar mjaðmir, stóran rass og bústinn barm. Allar blómarósir skyldu vera feitar eins og hún Gudda í sveitinni.
Þá hétu karlmenn kavalerar og riddarar, sem háðu einvígi um blessaðar jómfrúrnar. Þetta var á þeim tímum, þegar karlmenn voru svo hégómlegir að púðra sig og mála, og voru þeir jafnvel slyngari í því en Halla. Þá gengu þeir í hnébuxum með spennuskó og settu meira vellyktandi í sig en Steini og Geiri í 3. bekk, þegar þeir eru á gæsaveiðum. Þá gerðust strákar eins fýlugjarnir og stelpur og hávaðasamari en þeir Gjábakkafrændur. Á dansleikjum voru karlmenn þá ólíkt djarfari til kvenna en þeir gerast nú hér í skólanum. Ekki voru stúlkur á þeim tíma herskáar, heldur þýðar og mildar í lund. Ef um bardaga var að ræða, var látið nægja að munnhöggvast. Þá tóku þeir stóru og sterku menn eins og Grétar og Gunnlaugur hefðarfrúr eins og Sigrúnu og Elínborgu á háhest og lyftu þeim í söðulinn.
Já, nú er öldin önnur. Nú fækkar pilsunum, hefur alltaf verið að fækka ofan í eitt eða ekki neitt. Nú ganga stúlkur í nankinsbuxum með klauf. Það er nú tízka í sumum skólum. Á dansleikjum minna sveinar nú á strútinn, sem kvað stinga nefi sínu í sandinn upp fyrir augu. Nú stinga skólasveinar höfði sínu í eigin barm, ef þeir eiga að dansa við skólasystur sínar eða þurfa þá allt í einu tilfinnanlega á salernið. Nú láta stúlkur „hnefa semja sátt“ á götum úti og bítast, ef þeim rennur í skap.
Já, tímarnir breytast og mennirnir með, — og það hefur gömul kona sagt mér, hún Gudda Gezs, að í hennar ungdæmi hafi það ekki tíðkazt, að stúlkur gengju í þessu þunna og gagnsæja nælondóti, heldur í svellþykkum vaðmálsflíkum. Og kvenbuxur með klauf þekktust ekki þá.
Þeir einir, sem gagnþekkja skólalífið, fá verulega notið þessarar ræðu. Hún vakti mikinn fögnuð og kátínu.
Ritnefndin.

H.G.

Á Þorláksmessu

Allar götur voru fullar af fólki. Flestir að flýta sér. Við einn búðargluggann stóð lítill drengur. Ég hafði veitt því athygli, að hann var búinn að standa þarna langan tíma. Ég geng til hans og spyr: „Hvað heitir þú, drengur minn?“ „Örn,“ var svarið. „Hvað gamall?“ „Sjö ára.“ „Hví stendur þú hér svo lengi og horfir í gluggann, hér eru engin barnagull til sýnis?“ „Nei, en hér fæst svo feiknalega fallegt og skrautlegt kerti. Mig langar svo mikið til þess að gefa henni mömmu svona jólakerti. Það er með jólabjöllu og greinum á, en ég á ekki fyrir því. Það kostar tvær krónur og ég á aðeins eina krónu.“ — „Hvar er hún mamma þín, væni minn?“ „Hún er að vinna. Hún þvær gólf.“ —
Ég kenndi í brjósti um drenginn, sem vantaði aðeins eina krónu til þess að geta glatt hana mömmu sína á jólunum, konuna, sem vann við hreingerningar. „Komdu með mér inn í búðina og sýndu mér kertið.“ Við gengum inn í búðina til þess að skoða skrautkertin þar. Það var afar eðlilegt, að svona skrautleg jólakerti hrifu huga drengsins. Ég falaði tvö. „Gjörið svo vel,“ sagði afgreiðslustúlkan.
Við gengum síðan út á götuna og ræddum saman dálitla stund. Svo rétti ég honum bæði kertin að gjöf og lét í ljós gleði mína yfir því, hvað hann væri góður við hana mömmu sína. „Vertu alltaf góður við hana mömmu þína,“ sagði ég. Drengurinn varð svo glaður, að hann tók um hálsinn á mér og kyssti mig. Þetta litla atvik vakti mig til umhugsunar. Ef við, hvert og eitt gætum glaðzt jafn innilega yfir litlu og þessi litli drengur og kynnum jafn vel að meta það, sem hún mamma hefur fyrir okkur gert, þá væri ýmislegt öðruvísi en það er og betra.

Guðmundur L. Guðmundsson, I. bekk B.

Viðburðarík baðferð

Hún gerðist árið 1953. Þá var ég aðeins 10 ára að aldri. Dvaldist ég þá sumarlangt á bæ einum undir Eyjafjöllum. Nefnist sá bær Kvíhólmi. Á bænum var einnig drengur úr Reykjavík, er Lárus hét, 8 ára gamall. Vorum við mestu mátar og lékum okkur saman öllum stundum, er tóm gafst til. Sá var bezti leikur okkar, að vaða og busla í vötnum nokkrum, er voru spölkorn fyrir vestan bæinn.
Svo bar til dag einn í byrjun júlímánaðar, er heyskap var lokið þann daginn, að við Lalli (en svo var drengurinn kallaður) gengum sem leið lá vestur að vötnunum. Þetta var um fimmleytið. Logn var og heiður himinn og skein sólin glatt í suðvestri frá bænum. Skartaði hin fallega og sögufræga sveit sínu fegursta skrúði þarna í kyrrðinni. Sólin glampaði í lygnum vatnsfletinum og í móanum heyrðist spóinn vella um leið og krían fældi silungana í bæjarlæknum með hinu hása gargi sínu. Í norðri blasti Eyjafjallajökull við sjónum okkar. Það var eins og eitthvað amaði að hinum háa og tignarlega fjallkonungi þarna í kyrrðinni.
Er við höfum gengið litla stund enn, komum við að vötnunum. Nú kom að því að velja heppilegan stað til að afklæðast á. Að lokum völdum við gróskumikla grastó, er skagaði fram í vatnið. Þegar spjarirnar höfðu verið tíndar af tveimur mjóslegnum kroppum, sem báðir ólmuðu af lífsfjöri, óðum við út í. Vatnið var fremur grunnt og ylvolgt. Þó reyndist það dálítið kaldara, þar sem dýpst var, en þar mun vatnið hafa náð okkur félögum í mitti. Fórum við nú að leika okkur. Höfðum við mikið gaman af því að skvetta vatninu á hvorn annan. Síðar, er við vorum báðir orðnir það blautir, að það angraði okkur ekkert, þó að við fengjum vatnið á okkur, fórum við á hornsílaveiðar. En mikið var af hornsílum þarna í vatninu. Þurfti þó nokkra leikni til þess að handsama þessa litlu, iðandi fiska, sem voru á sífelldri hreyfingu. Við dvöldumst við þessa íþrótt dálitla stund, eða þangað til að mér datt skyndilega í hug hólmi nokkur í vatninu, er lá þarna spölkorn frá landi. Í hólma þessum höfðum við fundið andarhreiður nokkrum dögum áður. Hafði öndin þá legið á nokkrum eggjum og fýsti okkur að vita, hvort nokkur breyting hefði átt sér stað í hreiðrinu síðan.
Nú óðum við hægt og varlega út að hólmanum; bæði vorum við smeykir um, að pyttur væri á leiðinni, en það hefði getað verið óþægilegt að fara í kaf, og líka vildum við reyna að forðast það að styggja fuglinn.
Þetta gekk allt saman með mestu ágætum. Vatnið náði okkur aðeins í hné og engir pyttir né skrímsli af neinskonar tagi vörnuðu okkur ferðinni. En þegar við nálguðumst hólmann, varð okkur hálf hvert við, því að með gargi miklu og bægslagangi hóf andamamma sig upp af hreiðrinu og hnitaði nokkra hringi yfir höfðum okkar í sínum versta ham. Það var eins og hún væri að hugsa um, hvað ætti að gera við svona óþægðargepla. Að því er virtist settist öndin síðan á vatnið spölkorn frá hólmanum.
Lægðist þá óttinn við andamömmu að miklum mun, og héldu garparnir nú ótrauðir áfram ferðinni.
Gerðum við nú vasklega uppgöngu á hólmann, eins og við hugðum, að víkingar til forna hefðu ráðizt á land. Þar fundum við hreiðrið eftir dálitla leit, og voru nú í því þrír litlir og fallegir ungar. Er við höfðum lokið við að skoða ungana í krók og kring og velt þeim á allar hliðar, yfirgáfum við þessa litlu eyju.
Þess ber þó að minnast, að eyjan bar merki hinna miklu landvinninga okkar. Höfðum við rekið þar í jörðu niður gamalt fjósrekuskaft og stóð það nú þarna og bar öllum, er framhjá fóru, merki óskoraðs valds okkar og yfirráða. Þetta var gert til þess að enginn færi villt um, hver þarna löndum réði.
Við óðum nú til lands og sprikluðum í þurru grasinu góða stund til að þerra okkur. Nú litum við út á vatnið aftur. Þá sáum við andamömmu hefja sig til flugs á ný og setjast aftur í hólmann.
Lékum við okkur þarna í grasinu um stund, fórum í eltingaleik á bakkanum, þó að óþægilegt væri, því að mýrarstörin stakk okkur í fæturna. Hugðum við því brátt til heimferðar og bjuggumst til að klæða okkur. En í sama bili og ég renndi fætinum í aðra nærbuxnaskálmina, heyrði ég félaga minn kalla: „Nei, Björn, sjáðu köttinn, sem syndir þarna úti við hólmann!“
Mér var kunnugt um, að köttum er ekkert um vatn gefið, svo að ég sneri mér undrandi við. Var ég þá næstum dottinn um hina nærbuxnaskálmina, þar sem hún flæktist um fót minn í snúningnum. Ég vildi sjá þennan kynlega kött, sem synti eins og selur að sögn félaga míns. Og sjá, þarna kom kvikindið upp úr vatninu og það virtist engu líkara en stórum og löngum ketti. Það synti nú hratt í áttina að hólmanum. Þegar kvikindið kenndi lands í hólmanum, stökk það upp í hann eins og fjöldinn allur af árum og púkum væri á hælunum á því.
En um leið og það skauzt upp í hólmann, sá ég, að það var með langt og loðið skott. Í sömu svipan vissi ég, hvaða óféti þetta var, þetta var MINKUR. Ég vissi, að minkurinn hefur mjög langt skott. Ég var dálitla stund að átta mig á þessu, en síðan kallaði ég upp yfir mig: „MINKUR, MINKUR — MINKUR —.“
Nú tók félagi minn viðbragð líka. Hann var kominn í nærhaldið sitt. Litum við í flýti í kringum okkur í leit að einhverju, sem hægt væri að veitast að minknum með. Sáum við ekkert annað þarna nálægt nema utanyfirbuxur okkar. Þrifum við þær í skyndi, hlupum út í vatnið og óðum eins hratt og við gátum í áttina að hólmanum. Vöruðum við okkur ekki nóg á botninum, svo að á leiðinni hrasaði ég, datt í vatnið og varð rennvotur. En það var ekki mikið verið að hugsa um það. Ég stóð þegar í stað á fætur aftur. Loksins er við komumst upp í hólmann, lafmóðir og holdvotir, tókum við eftir því, að óvinurinn, sem hafði virt okkar völd og yfirráð að engu, var eitthvað að hnýsast og snudda í hreiðrinu. Sáum við, er við nálguðumst það betur, að hann var kominn með einn ungann í kjaftinn.
Réðumst við þarna að minknum með buxurnar á lofti og í vígahug miklum, við vildum hefna fyrir hreiðurránið. Auk þess vissum við, að hver sá, sem drepur varg, fær einhver verðlaun. Þegar minkurinn sá þessa tvo berserki nálgast, virtist hann verða dálítið smeykur. Sleppti hann unganum þegar í stað, tók á sprett og hentist jafnskjótt út í vatnið. En þið þurfið ekki að halda, að kapparnir hafi hætt við svo búið. Nei, þeir fylgdu fast á eftir minknum með buxurnar sínar á lofti og náðu honum í vatninu. Þarna stóðum við nú í vatninu upp í hné og börðum á minknum með buxum okkar. Virtist dýrið all grimmt og bjóst til að ráðast á okkur félaga. Vildi það auðsjáanlega reyna að verjast eftir mætti. Er með öllu óvíst, hvernig farið hefði, ef ekki hefði viljað svo til, að hundurinn hafði heyrt lætin og óhljóðin og komið þegar í stað hlaupandi. (Það var vitanlega ekki alveg hljóðalaus bardagi, eins og menn geta ímyndað sér, þegar tveir kappar og einn minkur eigast við). Kom hundurinn þegar til hjálpar, er hann sá hvað gerðist. Hófst nú blóðugur bardagi, og all tvísýnt var, hver endalokin yrðu.
En að lokum endaði bardaginn þannig, að hinum tveim köppum ásamt hinum dygga þjóni þeirra, hundinum, tókst að vinna á þessu ógurlega óféti, sem ógnaði bæði landi þeirra og búpeningi. Drógum við minkinn síðan á land. Var hann steindauður og illa útleikinn eftir bardagann. Áður en við klæddum okkur í fötin, brugðum við okkur út í hólmann til að vita, hvernig unginn væri útleikinn. Datt okkur ekki annað í hug, en að hann væri að dauða kominn. En er við komum í hólmann, flaug andamamma einu sinni enn upp og var nú verri en nokkru sinni fyrr.
Minkurinn hafði gert hana mjög skelfda og stofnað lífi unganna í hættu, og var hægt að sjá á henni, að henni væri illa við allar heimsóknir. —
Er við komum að hreiðrinu, sáum við ungana þrjá vera að leika sér, eins og ekkert hefði í skorizt. Gátum við ekki séð, hver þeirra hafði verið í minkkjaftinum. Óðum við svo í land. Vorum við glaðir og ánægðir yfir hvernig þessu lyktaði.
Klæddum við okkur í flýti og hlupum heim. Vorum við með minkinn í eftirdragi alla leiðina. Þótti það heldur en ekki tíðindi, er við höfðum frá að segja.
Daginn eftir fengum við leyfi til að fara á fund hreppstjórans og afhenda honum skottið af minknum, en það er hreppstjórinn, sem greiðir verðlaun fyrir öll vargadráp. Við fengum 60 krónur fyrir skottið. Að lokum verð ég að segja frá því, að það voru tveir hreyknir drengir, er skunduðu heim síðar um daginn með þrjátíu krónur hvor í vasanum.

Björn Karlsson, I. bekk C.

síðari hluti



Myndir úr skólanum




Nemendur 3. bekkjar verknámsdeildar veturinn 1956-1957 ásamt nokkrum kennurum.
Aftari röð frá vinstri: Óli Árni Vihjálmsson, Borgþór Eydal Pálsson, Ingólfur Hansen, sr. Jóhann Hlíðar, tímakennari, Guðný Fríða Einarsdóttir, Margrét Halla Bergsteinsdóttir, Árni Ólafsson, kennari, Grétar Þórarinsson og Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri.
Fremri röð frá vinstri: Þórða B. Óskarsdóttir, Jóna Markúsdóttir, Ólöf Óskarsdóttir, Ingibjörg Bragadóttir, Agústa Lárusdóttir, Hallbera Jónsdóttir, Steinunn Ingólfsdóttir, Guðrún Kjartansdóttir og Kristín Þórðardóttir fimleikakennari.
(Ljósm.: Hörður Sigurgeirsson).





Nemendur 3. bekkjar bóknámsdeildar veturinn 1956—1957 ásamt einum kennara. L. — Landsprófsdeild.
Aftari röð frá vinstri: Guðjón Herjólfsson, Birgir Vigfússon (L.), Karl Gränz, Skúli Johnscn (L.), Skúli Magnússon, kennari, Hannes Helgason, Gunnlaugur Björnsson, Hörður Elíasson, Jóhannes Sævar Jóhannesson og Baldvin Einarsson.
Fremri röð frá vinstri: Árni Pétursson (L.), Bryndís Brynjúlfsdóttir, Kolbrún Karlsdóttir, Rósa Martinsdóttir (L.), Margrét Klara Bergsdóttir, Elínborg Jónsdóttir, Guðfinna Guðmundsdóttir, Ester Andrésdóttir, Hrefna Jónsdóttir, Sigrún Þorsteinsdóttir og Sigurgeir Sigurjónsson.
(Ljósm.: Hörður Sigurgeirsson).



Stjórn Málfundafélags Gagnfræðaskólans veturinn 1956 til 1957.
Frá vinstri: Rósa Martinsdóttir, ritari, Sigrún Þorsteinsdóttir, form., Hjálmar Guðnason og Kolbrún Karlsdáttir, gjaldkerar. „Konuríki“ í stjórn Málfundafélagsins hefur jafnan reynzt félagsstarfi skólans vel, segir skólastjóri.



MYNDASKÝRINGAR
Efri mynd: Tízkusýning nemenda 1. des. 1956.
Frá vinstri: Birgir Vigfússon. Þar fara saman stuttbuxur og stéljakki, montprik og mattadorhattur, glæsibringa og berir fótleggir. — Halla Bergsteinsdóttir. Pils í stytzta lagi og svo: „Eftir því er hefðin hærri, sem hafa þær fleiri klær og skott“. „Vöxturinn fagur, augun indæl, engilbrosið, silkiskrúðinn, fimm þumlunga háir hælar, huppaklemman, lendapúðinn“. — Hannes Helgason. Stæling af amerískri saumakonu í pels með fjaðrahatt, og svo sonur hennar Sigurgeir Sigurjónsson. Snemmborinn sonur saumakonunnar tyggur gummið, ýmist teygir hann það út úr sér eða blæs það upp í blöðru. Fulltrúi æskulýðsmenningar, sem numið hefur land að sinni a.m.k. Ragnheiður Björgvinsdóttir, matróna eða hefðarfrú, tignarleg og tilgerð, stoppuð bæði bak og fyrir. Hælar og huppaklemma, hattur, kjóll og kápa, allt eins og þegar drottningin á Englandi fór í heimsóknina til hans séra Filippusar konungs handan við sundið. Aðalsteinn Sigurjónsson. Hann hafði sofið illa yfir sig, rokið fram úr og út í náttserknum með vekjaraklukkuna í hendinni.
Sýningin vakti mikla ánægju með nemendum og ársfagnaðargestum.
Neðri myndin:Kvæðakórinn 1. des. Frá vinstri:
Elínborg Jónsdóttir, Selma Jóhannsdóttir, Elín Leósdóltir, Halla Bergsteinsdóttir, Þorbjörg Jónsdóttir, Rósa Martinsdóttir, Helga Helgadóttir og Anna Erna Bjarnadóttir.
Með erindum þeim, sem kórinn las, minntist hann sjómannastéttarinnar, móður sinnar, íslenzku konunnar í heild, unga hrausta æskumannsins, unga hugsjónamannsins o.fl.