„Blik 1959/Hugvekja“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: Efnisyfirlit 1959 ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON: =''Hugvekja''= <big>''Flutt í Gagnfræðaskólanum haustið 1959</big> <br> <br> Ská...) |
m (Verndaði „Blik 1959/Hugvekja“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 23. mars 2010 kl. 15:37
Hugvekja
Flutt í Gagnfræðaskólanum haustið 1959
Skáldin hafa stundum spreytt sig á að finna mannlífinu ýmsar samlíkingar. Eitt þeirra líkir því við langan fjallveg, brattan og torsóttan. Bernsku- og æskuárin hefjast niðri á flatlendinu annars vegar við fjallið, en gamalmennið, sem orðið er barn í annað sinn, endar ævina í dalnum hinumegin við fjallið.
Setjum svo, að við tækjum okkur ferð yfir erfiðan fjallveg frá bæ skammt frá fjallinu. Fyrst liggur leiðin um sléttar lendur, túnið og engjarnar, og veitist mjög auðveld. Allt leikur í lyndi fyrir okkur eins og á bernsku- og æskuárunum. Og við hlökkum til að komast upp í hreina og tæra fjallaloftið og njóta hins fagra útsýnis.
Miklar göngur, ekki sízt yfir erfið fjöll og firnindi, reyna á allan líkamann.
Einnig reyna fjallaferðir oft á vitsmunina, því að ekki er lengi að skipast veður í lofti, gera blindbyl eða svarta þoku, og getum við þá hæglega villzt og ef til vill látið lífið í gjám eða gljúfrum.
Til þess að vera nokkurn vegin örugg að komast heilu og höldnu yfir fjallið, þurfum við að vera vel undir ferðina búin. Það er ónóg að hafa nægan mat í malpokanum. Það er heldur ekki nægilegt að vera vel klæddur. Við verðum að eiga þrótt og þor, eiga krafta í köglum og þrautseigju.
Öðlumst við slíkt fyrirhafnarlaust? Nei, alls ekki. Ekki fremur en sveinninn verður slyngur knattspyrnumaður án allrar þjálfunar og meyjan mikilvirk og fagurvirk í saumaskap sínum án allrar æfingar eða iðkunar sauma. Við erum oft þannig af guði gerð, að með okkur leynist mikill lífsþróttur, hreysti og kjarkur. Þó yrði það talið óðs manns æði að leggja gangandi á fjall, langan og erfiðan veginn, illa búin undir ferðina. Við verðum að hafa þjálfað okkur áður í leik eða starfi, stælt fætur og líkama.
Þannig er þetta, nemendur mínir, með lífsgönguna sjálfa.
Hún hefst á flatneskjunni. Það er svo auðvelt og fyrirhafnarlítið að lifa bernsku- og æskuárin sín heima í skjóli góðra foreldra. ,,Dælt es heima hvat,“ segir í Hávamálum; allt er auðvelt heima. Ef við vildum svo ræða meira um samlíkingu skáldsins um mannlífið og fjallið, þá mundum við álykta, að þið hinir eldri nemendur væruð nú þegar staddir við rætur sjálfs fjallgarðsins og hæfuð senn brattagönguna. Hinn yngri hluti ykkar er enn úti á sléttlendinu, þar sem foreldrarnir halda í hönd ykkar, og þið eigið góðan spöl eftir að rótum fjallsins.
Hvar fáum við svo hjá okkur samlíkinguna við nestispokann á baki fjallgöngumannsins? Ætti ég að tákna hana með tveim orðum, mundi ég velja orðin þekking og vinnugleði.
Sem betur fer eykst nú ávallt skilningur æskufólks hér og foreldra á gildi þekkingarinnar, sem er ómissandi nesti hverjum æskumanni á lífsleiðinni. En þekkingin og bókvitið er ekki einhlítt nesti í fjallgönguna miklu. Samfara nokkru bókviti verðum við að vera nestuð vinnugleði og viljastyrk, ef okkur á að farnast vel yfir fjallgarð lífsins. Og enn er þetta ekki nóg fremur en nóg nesti í malpokanum. Við verðum að rata yfir fjallið til þess að ná settu marki. Hvar mundum við finna samlíkingu í sjálfu mannlífinu við ratvísi fjallgöngumannsins? Ef til vill yrðum við þar ekki á eitt sátt. Eitt orð mundi ég vilja velja þar til táknrænnar samlíkingar. Það orð er siðgæði. Það er lífsreynsla mín, að sá maður, sem ekki hirðir um að lifa lífinu eftir föstum siðgæðisreglum, svo sem næm samvizka og brjóstvit býður honum beztar, er nokkurnvegin viss með að falla í fjallagljúfur þjóðlífsins fyrr eða seinna og tapa þar æru sinni og heiðri, en það er háskasamlegra en líkamlegur dauði. Þessa sjáum við mýmörg dæmi í sjálfu þjóðfélaginu okkar.
Ég ætlast til þess, nemendur mínir, að þið hugleiðið þessar hugsanir og samlíkingar mínar og að þær mættu leiða til gleggri skilnings á markmiði skólastarfsins. Við reynum eftir mætti að nesta ykkur af þekkingarmolum til fjallgöngunnar miklu. Meira en molar verða það ekki, en þeir geta orðið ykkur til ómetanlegrar undirstöðu, ef þið reynist sjálf gædd vilja, dug og dáð til þess að halda þar áfram, sem við endum, og hefja lestur góðra og fróðlegra bóka. Látið skaðræðisritin liggja kyrr og ókeypt í búðunum og notið nokkurn hluta af tekjum ykkar til kaupa á góðum bókum. Þær verða margar vinir ykkar, sem þið lærið að meta og getið skipt geði við, þegar ykkur langar til. Það er gullvægur sannleiki, að góð bók er gulli betri. Jafnframt vildi ég mega óska ykkur þeirra lífsgæða, að þið lærðuð að meta starfið, elska vinnuna, öðlast vinnugleðina. Það er ömurleg sjón að sjá þá menn vinna, sem engan hafa áhuga á starfinu, en hanga við það og hugsa eingöngu um að tíminn líði og þeir fái sem mesta peninga fyrir sem minnsta vinnu. Þannig skapast vinnusvikin, sem nú eru svo alltof algeng í þjóðfélaginu okkar. Slík vinnubrögð deyða allan vísi að vilja og tortíma manndómi. Þau eru brot á siðgæðisreglum af því að þau eru svik í viðskiptum. Asni, sem vinnur, er hátign hjá lötum manni eða vinnusvikara.
Okkur mönnunum er lífsnauðsyn að setja okkur góðar og fastmótaðar siðgæðisreglur, sem við ekki víkjum frá. Þær verða okkur svo leiðarsteinninn á lífsleiðinni. Ef við virðum þær og höldum, móta þær okkur og ávinna okkur traust meðbræðranna, af því að þeir þekkja okkur af lífsreglum okkar og vita þessvegna nákvæmlega, hvernig við munum bregðast við hinum ýmsu fyrirbrigðum í samlífinu. Hinn, sem engar setur sér siðgæðisreglurnar, er háður duttlungum sinnar eigin skapgerðar og veðrabrigðum þar. Honum er ekki að treysta. Svik í dag, heiðarleiki á morgun og aftur svik.
Ef þið setjið ykkur góðar og fastar siðgæðisreglur, efla þær með ykkur manndóm og vilja, gera ykkur að siðgæðislega traustum viljamönnum. Þeim ungmennum, sem sést yfir þetta, hættir við að verða veifiskatar eða einskonar vogrek, eða, ef við höldum samlíkingunni, villuráfandi fjallgöngufólk, sem virðist ár og lækir renna upp á við og heldur að undanbrekkugangan leiði að lokum á tind fjallsins. Og það er ekkert leyndarmál, nemendur mínir, að hinar fáu og glöggu skólareglur okkar hér eru öðrum þræði eilítill vísir að siðgæðisreglum og lífsreglum. Ef þið lærið að virða skólareglurnar og fara nákvæmlega eftir þeim, eflist þið að siðgæðislegum vilja, sem býr ykkur undir annað meira, sem mætir ykkur á lífsleiðinni.
Duglegi æskumaðurinn, tápmikla ungmennið, sem þráir að beita kröftum sínum, setur sér snemma markmið í lífinu. Hugur og líkami þrá átök. Þessir tápmiklu æskumenn, piltar og stúlkur, vinna verk sín af atorku og manndómi, hvort sem þeir beita sér að bóknámi eða líkamlegri vinnu.
Ég minnist þeirra tíma, er við hér höfum lokað skólanum nokkra daga á vertíð, þegar meiri afli hefir borizt hér á land, en venjulegt vinnuafl í bænum megnar að vinna úr góða markaðsvöru. Þá höfum við beitt því vinnuafli, sem við hér höfum yfir að ráða til þess að reyna að bjarga stórkostlegum verðmætum frá skemmdum.
Aldrei hefi ég vitað fólk almennt ganga að starfi sínu með meiri og innilegri vinnugleði en nemendur mína þá.
Mjög oft eru það duglegustu nemendurnir í bóknáminu, sem einnig reynast liðtækastir við líkamlegu störfin. Þar fara saman námsgáfur og vinnugleði, sem raunar bæta hvort annað upp eins og brauðið, smjörið og áleggið í malpokanum. Oft sýna líka litlu námsmennirnir mikið vinnukapp og mikla vinnugleði við líkamlegu störfin. Þar hafa þeir hlotið verulega gott nesti í vöggugjöf, sem verður þeim giftudrjúgt og þjóðfélaginu til gagns og gæfu, þá tímar líða.
Miklar og góðar námsgáfur eins og það orð er venjulega skilið, er mikil og góð guðsgjöf.
En hefði ég sjálfur fengið að velja hinar ákjósanlegustu og þó takmörkuðu guðsgjafir til handa börnum mínum, hefði ég kosið þeim vinnugleði og viljaþrótt, dugnað og siðgæðisstyrk, en þá minna af hinum svokölluðu námsgáfum. Ég þekki sem sé, ykkur að segja, svo marga afburða námsmenn frá skólaárum mínum bæði hér heima og í Noregi, sem lítið hefir orðið úr af því að viljann og dugnaðinn skorti og siðgæðislega kjölfestu. Allt of margir þeirra hafa af þeim sökum haft lítið út úr fjallgöngunni miklu, hvorki fengið að njóta þar uppi sólar eða fagurs útsýnis, og sumir þeirra jafnvel villzt í gljúfur og gjár þjóðlífsins sökum skorts á siðgæðislegri kjölfestu.
Þið kannist við storkunarorðin: Uss, þorir ekki. Hvítvoðungur mömmu sinnar. Pelabarnið hans pabba síns. Hræddur vesalingur. Kjarklaus skræfa. Þorir ekki að lykta af tóbaki, hvað þá neyta þess. Þolir ekki eina skeið af áfengi fremur en hænuhaus. Uss, ræfill.
Já, þið kannist við storkunaryrðin. Athugið það, nemendur mínir, að hér er storkarinn mikið meiri persóna en ungmenni það, sem lætur storka sér og gerist ginningarfífl hans.
Láti barnið eða unglingurinn hinsvegar ekki storka sér, láti storkunaryrðin sem vind um eyrun þjóta, — skammast storkarinn sín og finnur innra með sjálfum sér smæð sína. Hann hefur biðið ósigur. Ósjálfrátt virðir hann þann vilja og það siðgæðisþrek, sem unglingurinn sýndi, er hann hafnaði því að gerast ginningarfífl hans. Þetta þurfið þið að hugleiða og skilja, nemendur mínir.
Sá æskumaður, sem setur sér hátt og göfugt takmark í lífinu og býr sig vel undir það, beitir síðan afli hugar og handar til að ná því, nær venjulega langt.
Þýzka stórskáldið Göethe segir á einum stað í æviminningum sínum: „Það, sem menn óska sér í æsku, fá þeir ríkulega uppfyllt á elliárunum.“
Ef til vill finnst sumum, að skáldið taki hér helzt til djúpt í árinni og þar skeiki mjög.
Það mun rétt vera, að margir æskumenn, piltar og stúlkur, láta í ljós óskir sínar um framtíðina og segjast vilja verða þetta eða hitt, en verða það svo alls ekki, heldur allt annað og minna en óskað var. Þið þekkið sjálfsagt mjög mörg dæmi þessa. Og þá munduð þið vilja segja, að staðhæfing skáldsins væri um leið fallin um sjálfa sig. Það er þó ekki svo. — Skáldið á hér auðvitað við æskumenn sem fylgja óskum sínum fram af hug og dug, halda einbeittir og viljasterkir að settu marki.
Gildi mannsins fer eftir því, hve mikið hann leggur á sig af gagnlegu starfi. Sá, sem ekkert gott aðhefst, er einskis virði guði jafnt sem mönnum. Ég endurtek það, að asni, sem vinnur, er hátign við hliðina á lötum manni eða athafnaleysingja. Hamingjusamur er hver sá æskumaður, sem á vilja og krafta til að vinna, á vinnugleði. Vinnan á að vera manninum andlegur og líkamlegur aflgjafi. Hún er meginleiðin til andlegs þroska og fagurs mannlífs.
Ég spurðist fyrir um það hérna einn daginn hjá nemendum mínum í 4. bekk, hvað þeir vildu helzt, að ég ræddi um í næstu hugvekju. Margir æsktu þess, að ég ræddi um skólastarfið og framkomu nemendanna í skólanum. Þessa gagnfræðadeildarnemendur skil ég vel. Deildin hefur í heild verið samtaka um að rækja forustuhlutverk sitt í skólanum svo sem bezt verður á kosið. Það hefir verið henni áhugamál.
Í heild hefi ég svo ekki undan neinu að kvarta. Mér finnst þetta starf allt leika í lyndi. Þó er það ekkert leyndarmál, að innan þessa fjölmenna ungmennahóps eru öfl, sem þarf sérstakrar gæzlu við. Vonandi standa þeir fáu unglingar til bóta um sjálfsstjórn og framkomu. Að minnsta kosti hlýt ég að vona það, því að annars fer illa fyrir þeim. Í skólastarfi þessu mega þeir blessaðir unglingar vita það, að hrísinn er aldrei langt frá eplinu. Ég vildi mega óska þeim þess, að þeir mættu njóta gómsætu eplanna sem allra lengst og til vandarins þyrfti aldrei að grípa.
Og til ykkar, nemendur mínir, sem brátt skráist héðan á braut eftir fjögurra vetra nám, vildi ég segja þetta: Þið eruð að mörgu leyti vel búin undir fjallgönguna miklu, ef þið byggið með hug og dug á þeim undirstöðum, sem þið hafið hlotið hér.
Og þið hafið með framkomu ykkar sannað það, að bezta eign hvers skóla eru þeir nemendur, sem gæta sóma síns og skólans í hvívetna og um leið heiðurs og sóma foreldra sinna og heimilis.
Ungir Akurnesingar hafa getið sér mikinn og góðan orðstír fyrir sigursæld í knattspyrnu. Fyrir þá frækni hafa þeir hlotið verðskuldaða viðurkenningu í bæjarfélagi sínu. Þið hafið einnig unnið glæsilegan ,,knattspyrnusigur“ á vettvangi sjálfs mannlífsins. — Á s.l. vori fóruð þið hópferð til Skotlands með v.s. Gullfossi. Eftir heimkomu ykkar barst mér bréf frá skipstjóranum, Kristjáni Aðalsteinssyni. Bréf þetta er sigurvottorð ykkar.
Þar segir um ykkur:
...„Ég vil ennfremur taka það fram af fyllstu hreinskilni, að mér féll vel við þennan ungmennahóp. Háttprýði og hegðun þeirra var í alla staði með mesta sóma, það ég bezt veit. Sömuleiðis er ánægjulegt að sjá svona heilan hóp, sem hvorki reykir eða neytir áfengis. Ég hefi trú á, að góð mannsefni hafa verið þarna á ferð, sem eiga eftir að verða þjóð okkar og landi til sóma. Svo vil ég ljúka þessum línum með því að óska yður, herra skólastjóri, og skóla yðar alls hins bezta í framtíðinni, og væntanlega eigið þér eftir að útskrifa marga slíka ágætishópa eins og þennan, sem ég hafði hin góðu kynni af...
- Yðar einlægur
- Kr. Aðalsteinsson
- M.s. GULLFOSS.
- Kr. Aðalsteinsson
- Yðar einlægur
Þetta voru þá orð skipstjórans. „Og þetta er að kunna vel til verks og vera lands síns hnoss“, nemendur mínir. Og víst er það engin tilviljun, að Kristján Aðalsteinsson hefir verið valinn til þess að vera skipstjóri á fánaskipi íslenzka millilandaflotans. Það er auðheyrt á bréfinu, að hann er meira en venjulegur skipstjórnarmaður og sjómaður. Honum er það ljóst, að hin fámenna íslenzka þjóð þarf, ef svo mætti segja, valinn einstakling í hvert rúm þjóðfélagsins, hvert rúm á þjóðarskútunni.
Og fyrsta von þess og vottur, að unglingurinn muni skipa þar vel sitt rúm er það, að hann temji sér snemma siðlega og háttsama framkomu og reglusemi.
Við þökkum skipstjóranum á Gullfossi fyrir þessi orð og góðar óskir og alla þá ágætu aðbúð, sem þið nutuð á hinu góða og glæsilega skipi. Ég veit, að minning ykkar frá þeirri ágætu ferð mun lengi geymast í hug ykkar. Ennfremur veit ég og vona, að þið haldið fast og lengi við þá háttsemi og þá reglusemi, sem skipstjóri og sjálfsagt ýmsir menn hans hafa dáðst mest að í fari ykkar. Ef þið reynist þar staðföst og dygg, verður það veganesti ykkur bæði drjúgt og farsælt í fjallgöngunni miklu.