„Blik 1956/Hugvekja“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: Efnisyfirlit 1956 ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON, skólastjóri: =''Hugvekja''= <br> <br> Nemendur mínir. Þegar ég læt ykkur þreyta ...) |
m (Verndaði „Blik 1956/Hugvekja“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 10. mars 2010 kl. 18:26
ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON, skólastjóri:
Hugvekja
Nemendur mínir.
Þegar ég læt ykkur þreyta próf í kennslugreinum mínum og sit yfir ykkur í bekknum, megið þið ekki halda, að ég láti augun ein vaka yfir ykkur, en láti hugann reika víða utan við kennslustofuna. Nei, oftast fer fjarri því. Einmitt við það tækifæri, sem próftímarnir veita, gefast mér tómstundir til að virða ykkur fyrir mér, ef ég mætti segja svo, og hugleiða í ró og næði hvern og einn af bekkjarsögninni.
Þegar þið hafið dvalizt hér með okkur nokkra mánuði, höfum við kennararnir þegar nokkurn pata af skapgerð ykkar og þeim manndómsvísi, sem með ykkur býr.
Eitthvað gott býr með ykkur öllum. Hjá mörgum ykkar fer saman góðar námsgáfur, gott hjartalag, heiðarleiki í hugsun og viljastyrkur. Það er mannvænleg skapgerð. Slík ungmenni eru fædd rík. Þau hafa þegar í
móðurlífi öðlazt hina mestu og beztu guðsgjöf.
Þegar við stundum hugleiðum fallvaltleika hinna veraldlegu gæða, ályktum við og segjum, að meiri vandi sé að gæta fengins fjár en afla. Ekki gildir þetta síður um góðar guðsgjafir, meðfædda mannkosti.
Já, nemendur mínir, þið eruð óneitanlega mannvænlegur hópur unglinga, sem spáir góðu um framtíðina. Ég veit, að ykkur þykir ákaflega vænt um það, að ég skuli líta svona á ykkur í heild. Mér þykir líka vænt um að geta sagt ykkur þetta. Þið vitið af reynslu, að ég segi ykkur ekkert með yfirskini, heldur eins og það ber fyrir hverju sinni með kostum sínum og löstum, hvort sem ykkur þykir það súrt eða sætt. Að öðrum kosti væri þessi skóli engin uppeldisstofnun.
Þetta bæjarfélag okkar er ekki stærra en svo, að hér þekkir hver annan. Heimilin þekkjast einnig. Þegar nemendur 1. bekkjar deildanna hafa tjáð mér á hausti, hverra manna þeir eru, kannast ég við eða þekki flesta foreldrana og veit um leið nokkur deili á heimilunum. Það er ómetanleg gæfa þessu byggðarlagi, hversu hér eru mörg góð heimili. Þannig eru heimili ykkar langflestra. Þau eru og eiga að vera sá gróðrarreitur, þar sem ykkar meðfæddu guðsgjafir fá að vaxa og þróast og ná þroska með aðstoð og samvinnu við aðrar uppeldisstofnanir hér í bæ, svo sem skólana, kirkjuna og önnur uppalandi samfélög.
Kvœðakór Gagnfræðaskólans 1. des. 1955. — Frá vinstri til hægri: María Njálsdóttir, Guðbjörg Ásta Jóhannesdóttir, Aðalheiður Rósa Gunnarsdóttir, Kristbjörg Einarsdóttir, Þorsteinn Þ. Víglundsson, Ásta Jóhannsdóttir, Sigrún Eymundsdóttir, Hólmfríður Kristmannsdóttir, Árný Guðjónsdóttir. Í kvæðalestri sínum minntist kórinn m.a. fósturjarðarinnar, sjómannsins, bóndans, móðurinnar, húsmóðurinnar, meyjunnar og hins tápmikla sveins.
Ekki megið þið halda, mínir kæru, að ég hafi ekki haft ástæður til að segja jafn fögur orð um aðra nemendahópa, sem hér hafa dvalizt við nám undanfarinn aldarfjórðung. Jú, hvern einasta vetur hefi ég hugsað á þennan veg til nemenda minna.
Þegar ég minnist þeirra mannvænlegu hópa og lít yfir nöfn nemendanna í skrám skólans, blettar samt sortaský heiða hugsun. Hvers vegna? Þegar ég lít yfir farin ár, birtist mér sú átakanlega reynsla, að alltaf eru það einhverjir einstaklingar úr nemendahópnum, sem lúta þeim örlögum að fara í hundana, eins og ég kalla það. Æði oft eru það unglingar, sem verið hafa í hópi hinna mannvænlegustu á ykkar skeiði. Þetta eru mér sárustu vonbrigðin í starfinu. Það er segin saga, að hér valda mestu um eiturlyfjanautnirnar, tóbaks- og áfengisnautnin. Veila hefur reynzt í skapgerð unglingsins. Skapgerðin ekki reynzt nægilega traust. Viljinn ekki nógu sjálfstæður og máttugur til þess að standast aðsteðjandi strauma. Það er hægara að slá undan eða beygja hjá en sækja á móti straumnum eða brekkunni.
Aldrei minnist ég svo þessara veiklyndu og ógæfusömu nemenda minna, að mér komi ekki í hug heilræðavísur séra Hallgríms Péturssonar til íslenzka æskulýðsins. Þar standa t.d. þessar ljóðlínur:
- Hugsaðu um það helzt og fremst,
- sem heiður þinn má næra.
- Aldrei sá til æru kemst,
- sem ekkert gott vill læra.
- Hugsaðu um það helzt og fremst,
Beztu mennirnir meðal forfeðra okkar, sem við lesum um í Íslendingasögunum, höfðu þau einkenni, að þeir máttu í engu vamm sitt vita. Þeir gátu ekki þolað blett á heiðri sínum eða æru. Þeir mátu heiður sinn og mannorð meira en allt annað. Öllu vildu þeir fórna til þess að halda mannorði sínu hreinu og óskertu. Með þessari göfugu hugsun nærðu þeir sómatilfinningu sína, svo að þeir uxu að manndómi og manngildi. Þessi hugsun hefir öndvegisgildi enn þann dag í dag. Þessvegna dáum við alltaf slíka menn.
En ein hugsun fæðir af sér aðra. Mér flýgur í hug einhver ömurlegasti dagurinn í skólastarfi mínu.
Einu sinni á fjórðungi aldar hefir lögregluþjónn verið sendur í þennan skóla til þess að sækja hingað nemanda til yfirheyrslu. Nemandinn var staðinn að vítaverðum verknaði í bænum. Svo fljótt, sem ég gat því við komið, fór ég í lögreglustöðina til þess að kynna mér sakir piltsins. Þarna blasti við mér átakanleg sjón. Fjórir drengir yngri en nemandinn biðu þarna réttar og rannsóknar. Allir voru þeir staðnir að vítaverðum verknaði í bænum, svo sem þjófnaði og skemmdarverkum. Þessir drengir höfðu sannarlega lítið um það hugsað að vernda heiður sinn og mannorð og næra sómatilfinningu sína, enda ef til vill lítið fengizt við það að glæða hjá þeim þá hluti í heimilum þeirra. Það eru sem sé ekki allar syndir guði að kenna, sízt þær „syndir“, sem æskulýðurinn drýgir. Við hinir fullorðnu eigum mikla sök á þeim oft og einatt. Ábyrgðarleysi okkar hinna fullorðnu í orði og æði í daglegu samlífi við unga menn og ungar konur, ungmenni yfirleitt, spilla oft hugsunarhætti æskufólks og sljóvga sómatilfinningu þess.
Nemendur, ég finn og veit, að það er þegar kominn í ykkur jólahugur. Fyrri hluti skólaársins er senn á enda. Ég veit einnig, að þið, sem hafið stundað hér nám áður, væntið þess samkvæmt venju, að ég láti nokkur orð falla til uppgjörs á milli okkar fyrir liðna mánuði.
Ekki eru margir dagar síðan ég færði ykkur í ræðukorni þakklæti mitt fyrir það, hversu fljótt og vel þið samrýmdust skólareglunum, þegar við hófum hér starfið í haust. Frá fyrstu stundu virtust þið vilja og gera skyldu ykkar í þeim efnum. Svo hefir það verið til þessa, svo að segja eins og bezt verður á kosið. Auðsjáanlega voru sum ykkar háð sælgætisástríðu, þegar þið hófuð námið. Níu eða tíu af ykkur skráðu þannig nöfn sín mjög bráðlega á hinn svo kallaða „japllista“ skólans. Það, sem af er þessum mánuði, hefir aðeins einn nemandi bætzt við á þennan lista, en hinir, sem þar voru áður, virzt hafa vald á ástríðu þessari og ósið síðan um miðjan nóvember. Það getur því orðið full ástæða til að gefa þeim upp sakir og strika nöfn þeirra út af listanum.
Þá hafa nöfn fjögurra nemenda staðið á „sóða-listanum“, hjá mér hér í haust. Þeir koma iðulega illa þvegnir í skólann. Óhreinn háls, óhreinar hendur, skitnar neglur og óhrein föt. Ekki eiga nemendurnir sjálfir að öllu leyti sök á þessu. Þó getum við vænzt þess, nemendur, að þið á þessum aldri búið allir yfir þeim manndómi, að þið getið hirt ykkur sjálfir.
Ég blygðast mín ávallt fyrir það að láta aðra sjá og vita, að ég gangi með óhreinar hendur að ástæðulausu og „sorgar-rendur“ undir nöglunum af einskæru hirðuleysi og sóðaskap. Þessa blygðunartilfinningu vildi ég líka, að þið ættuð, nemendur. Svo lengi, sem við kunnum að blygðast okkar og viljum bæta ráð okkar, jafn lengi leynist vaxtarbroddur til hins góða innra með okkur og þroskavon í hvaða mynd eða með hvaða hætti, sem það svo er.
Blessuð jólin eru nú framundan með jólahugleiðingum, tómstundum og skemmtunum. Svo hefir verið að orði komizt, að tómstundir okkar væru gullkorn ævinnar. Vissulega geta þær líka orðið hættulegustu stundir ævinnar. Vinnan færir okkur blessun á margan hátt. Með vinnu gætum við stundum bezt þess neista, sem liggur innst, neista manndóms og æru, sem býr með okkur hverjum einum. Það geta tómstundirnar líka gert, ef við notum þær rétt, ef við notum þær til þess að glæða þennan neista, guðdómsneistann í okkur, eins og ég kalla hann, og nærum heiður okkar og sómatilfinningu, svo að ég noti orð okkar ágæta séra Hallgríms Péturssonar. Nemendur mínir, verið á verði um sjálfa ykkur í tómstundum blessaðra jólanna. Þær geta orðið hættulegar unglingum þrátt fyrir allt. Það er orð að sönnu, að sterk bein þarf til þess að þola góða daga.
Ég óska þess, að við berum öll gæfu til að koma hér saman aftur eftir áramótin með endurnærðum viljaþrótti og námshug eftir hvíldina og hóglífið.
Morgundagurinn verður síðasti kennsludagur fyrir jól að þessu sinni. Þá flytja prestarnir okkar jólahugleiðingar og kveðjur hér í skólanum.