„Blik 1974/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, VI. hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: Efnisyfirlit 1974 ==Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum== ==VI. hluti== <br> <br> Sumarið 1918 unnu Eyjamenn að því að safna fé til kaupa á björgunarskipi til Ey...)
 
Ekkert breytingarágrip
Lína 5: Lína 5:
==Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum==
==Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum==
==VI. hluti==
==VI. hluti==
:''(Kf. Fram - framhald)''
<br>
<br>
<br>
<br>

Útgáfa síðunnar 29. desember 2009 kl. 21:20

Efnisyfirlit 1974


Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum

VI. hluti

(Kf. Fram - framhald)



Sumarið 1918 unnu Eyjamenn að því að safna fé til kaupa á björgunarskipi til Eyja. Kaupfélagið Fram greiddi kr. 1.000,00 í skipskaupasjóðinn. Þótti það drengilega gert og bera forustumönnunum fagurt vitni.
Með síaukinni framleiðslu fiskafurða fór skortur á stakkstæðum á Heimaey mjög í vöxt, þar sem allur saltfiskur var þurrkaður á þeim. Unnið var að því öll haust að rífa upp grjót, flytja það á hestvögnum á stakkstæðislóðirnar og leggja grjótið, laga þurrkreiti. Nú skorti Kaupfélagið Fram tilfinnanlega þurrkreiti fyrir hinar miklu fiskbirgðir, sem féllu því í skaut. Lóðir fékk það í ríkum mæli og vinnuafl ókeypis til þess að skapa félagsmönnum sínum bætta aðstöðu til fiskþurrkunar. Hverjum kaupfélagsmanni var gert að skyldu að fórna félaginu 50 stunda vinnu við þetta starf. Það gerðu þeir með ljúfum huga. Það sannar okkur bezt, hve einhuga þessi félagsskapur var og skilningsríkir félagsmenn á gildi samtakanna og mátt samstöðunnar.
Á styrjaldarárunum fyrri fór allt verðlag mjög hækkandi eins og jafnan, þegar öngþveiti ófriðar og illra norna grúfir yfir mannheimi. Ég hef nefnt nokkrar tölur um verð á innlendum afurðum, þegar Kaupfélagið Fram hóf afurðasölu sína. Og nú þrem árum síðar býður það fisk sinn í samræmi við annað verðlag og selur Þorsteini Jónssyni á Seyðisfirði:

Línuþorsk nr. 1 ... kr. 265,00 skpd
Línuþorsk nr. 2 ... — 250,00 -
Netafisk nr. 1 ......— 255,00 -
Netafisk nr. 2 .......—240,00 -

Fiskverðið er miðað við afurðirnar komnar um borð í flutningaskipið. Kaupfélagið seldi samtals um 1400 skippund af línu- og netaþorski í júlílokin 1919.
Á stjórnarfundi 5. nóv. 1921 var ráðningartími framkvæmdastjórans endurnýjaður til næstu 5 ára frá 1. júní 1922 að telja. Þegar hann réðist kaupfélagsstjóri, var árskaup hans afráðið kr. 3.500,00, en nú fimm árum síðar kr. 8.000,00, og svo dýrtíðaruppbót eins og áður, ef kaupfélagið reyndist hafa efni á að greiða honum þær launauppbætur, eins og tekið er fram í frumheimild.
Í byrjun vertíðar 1922 voru ráðnir nýir bræðslumenn við lifrarbræðslu kaupfélagsins. Þar þurfti nú orðið þrjá menn, og mánaðarkaup þeirra var orðið kr. 250-350 krónur.
Eiginlegir félagsmenn Kaupfélagsins Fram voru rúmlega 40, þegar þeir voru flestir. Fleiri fengu ekki að vera þar með, eftir því sem næst verður komizt. Völdum viðskiptamönnum var hins vegar gefinn kostur á að skipta við félagið og efna til skuldar við það. Í desember 1921 samþykkti stjórn félagsins t.d. að leyfa 13 kunnum Eyjabúum að fá vörulán hjá félaginu, efna þar til verzlunarskulda, en fjórum var hafnað, sjálfsagt sökum oflítils lánstrausts.
Það bar við, að sótzt var eftir að kaupa hluti í félaginu, kaupa þessi 500 króna bréf, sem upphaflega áttu sér stað þar við stofnun kaupfélagsins. Þeirra viðskipta nutu aðeins valdir menn með samþykki stjórnarinnar. T.d. fékk Jón Guðmundsson á Mosfelli, sem fyrstu árin var formaður félagsins en nú óskaði að ganga úr því, leyfi stjórnarinnar til að selja Eyvindi Þórarinssyni fimm hundruð króna hlutabréfið sitt. Þá var verð þess orðið kr. 3.000,00 eða sexfalt. Bendir það ekki til uppgangs og velgengni í rekstri kaupfélagsins? - Reikninga þess hef ég ekki til athugunar, og á þess vegna erfitt með að sanna þetta að öðru leyti.
Árið 1921 var mjög óhagstætt sjávarútveginum. Fiskverðið var of lágt til þess að mæta hinum mikla og stóraukna tilkostnaði útgerðarinnar.
Þetta óhagstæða afurðaverð dró þó furðu lítið úr framkvæmdahug margra útgerðarmanna í Eyjum, eins og t.d. félagsmanna Kaupfélagsins Fram. Árið 1923 höfðu skuldir félagsmanna kaupfélagsins vaxið því svo að segja yfir höfuð. Þær tóku að hnekkja rekstri þess. Hinn 9. nóvember um haustið tók stjórn félagsins allt þetta skuldafargan félagsmanna og utanfélagsmanna, sem einnig höfðu þar skuldareikning, til gaumgæfilegrar yfirvegunar. Stjórn félagsins afréð að hefta mest öll lánaviðskipti, þó að það væri erfitt á þessum tíma árs, nema skuldararnir gengjust undir skuldbindingu, skrifuðu undir eftirfarandi hátíðlegt loforð:
„Með því að Kaupfélagið Fram í Vestmannaeyjum hefur í dag lofað að lána mér til næstkomandi vertíðar vörur þær, sem ég nauðsynlega þarfnast til útgerðar, sem og peninga fyrir beitu, einnig vörur til heimilis, allt eftir því sem nefnt Kaupfélag Fram hefur vörur þessar til á þeim og þeim tíma, þá lofa ég og skuldbind mig til að greiða lán þetta með fiski, lifur, sundmaga og hrognum, sem ég kann að afla á næstkomandi vertíð, svo framt sem ég afla það mikið, að það nægi til lúkningar láninu. Sömuleiðis lofa ég og skuldbind mig til að gefa nefndu félagi afsal fyrir fiskinum og fiskafurðunum jafnóðum og ég afla þeirra eða hvenær sem félagið óskar þess. Skylt er mér að leggja inn lifrina jafnóðum og hún aflast, - einnig að annast hirðingu og verkun á fiskinum og hinum fiskafurðunum.“
Þannig hljóðaði þá þessi skuldbinding. Flestir skuldunautarnir skrifuðu undir orðalaust. En sumir vildu heldur selja hlut sinn í kaupfélaginu, greiða skuldir sínar með vissum afföllum og vera þannig lausir allra mála. Þennan 500 króna hlut félagsmannsins greiddi kaupfélagið með kr. 3.250,00 og féll þá varasjóðseign seljandans til félagsins án sérstaks gjalds, enda setti þá skuldunauturinn næga tryggingu fyrir skuld sinni. Einn skuldunauturinn, sem var varamaður í stjórn kaupfélagsins, gerði uppreisn og neitaði með öllu að viðurkenna skuld sína við félagið nema munnlega, þó lýsti þessi félagsmaður yfir því, að honum fyndist skuldbindingin vel orðuð og ágæt og nauðsynleg kaupfélaginu, framtíð þess og gengi, en ekki um það að ræða, að hann skrifaði undir hana. Óskaði hann þó allrar fyrirgreiðslu sjálfum sér til handa af hálfu kaupfélagsins í framtíðinni. Stjórn kaupfélagsins vildi ekki hlíta kröfum þessa varastjórnarmanns og afréð að loka reikningi hans og sækja hann til saka, sækja hann til skuldagreiðslu, ef hann stæði ekki í skilum við félagið á næstu vertíð. - Þar við sat.
næga tryggingu fyrir skuld sinni. Einn skuldunauturinn, sem var varamaður í stjórn kaupfélagsins, gerði uppreisn og neitaði með öllu að viðurkenna skuld sína við félagið nema munnlega, þó lýsti þessi félagsmaður yfir því, að honum fyndizt skuldbindingin vel orðuð og ágæt og nauðsynleg kaupfélaginu, framtíð þess og gengi, en ekki um það að ræða, að hann skrifaði undir hana. Oskaði hann þó allrar fyrirgreiðslu sjálfum sér til handa af hálfu kaupfélagsins í framtíðinni. Stjórn kaupfélagsins vildi ekki hlíta kröfum þessa varastjórnarmanns og afréð að loka reikningi hans og sækja hann til saka, sækjahann tilskuldagreiðslu, ef hann stæði ekki í skilum við félagið á næstu vertíð. - Þar við sat.
Sumarið 1923 byggði kaupfélagið stórt íbúðarhús vestan við Kornloftið svo kallaða. Sú bygging hélt nafninu Garður eins og íbúðarhúsið gamla frá einokunartímabilinu hafði gert („Den danske Gaard“). Þetta nýja íbúðarhús var byggt úr timbri. Þarna bjó kaupfélagsstjórinn síðan með fjölskyldu sína.
Þetta sama sumar endurbyggði kaupfélagið gamla „pakkhúsið“ danska og var það byggt úr steinsteypu.
Hraun rann yfir báðar þessar byggingar eins og allar aðrar á Skansi á Heimaey í marzmánuði 1973.
Sumarið 1925 lét Kaupfélagið Fram endurbæta gömlu Austurbúðarbryggjuna, sem svo var kölluð, breikka hana og styrkja. Hún var upprunalega hraunhali, sem einokunarverzlunin lét gera að bryggju sinni við upphaf einokunarverzlunar í Vestmannaeyjum eða um miðja 16. öld.
Til þessa tíma hafði kaupfélagið verið hlutafélag í reyndinni, þó að það héti að vera kaupfélag. En á aðalfundi þess 19. júní 1925 var rætt um að breyta lögum þess og gera það að samvinnufélagi í þeirri von, að þá væri ekki hægt að skattleggja það eins mikið og niðurjöfnunarnefnd og bæjarstjórn hafði gert á liðnum árum.
Áður hef ég skráð hér í greinarkorni þessu verð á saltfiski þeim, sem Kf. Fram seldi snemma árs 1918. Nú óska ég að skrá söluverð þess á saltfiski haustið 1926 til samanburðar.
Eftir að hafa reynt sitt ýtrasta til að ná sem allra hæstu verði fyrir þau 2000 skippund, sem kaupfélagið hafði á boðstólum allt sumarið 1926, neyddist það til að selja saltfiskinn haustið 1926 fyrir þetta verð: Línuþorsk nr. 1 kr. 105,00; línuþorsk nr. 2 kr. 95,00; netafisk nr. 1 kr. 95,00; netafisk nr. 2 kr. 85,00. Hér er ávallt miðað við skippund = 160 kg.
Kaupfélagsstjórinn tjáði stjórn félagsins, að þetta fiskverð væri tveim krónum hærra en aðrir fiskkaupmenn hefðu boðið félaginu.
Athugull lesandi beri svo saman fiskverðið árið 1918 og 1926, hversu það er óhagstætt útgerðinni þrátt fyrir vaxandi verð á öllum tilkostnaði við útgerðina, og má þá ljóst vera, að heimskreppan mikla er í aðsigi.
Kaupfélagið Fram ruddi brautir um ýmislegt, sem laut að ráðningu starfsmanna sinna. Árið 1927 réði það t.d. lifrarbræðslumenn sína á fast mánaðarkaup kr. 250-325 á mánuði og var þar tekið fram, að þeir fengju aukagreiðslur fyrir sunnudagavinnu. Það var alveg nýtt fyrirbrigði í samningum við starfsfólk það, sem vann við aðgerð eða annað, sem laut að framleiðslunni. Búðarmenn og pakkhúsmenn voru þar einnig betur launaðir en almennt gerðist. Þeir höfðu í árskaup kr. 3000-4000.
Á stjórnarfundi Kaupfélagsins Fram hinn 29. apríl 1927 ræddi stjórnin um stofnun fisksölusamlags útvegsbænda í Vestmannaeyjum. Til þess tíma hafði hver aðili potað sér um sölu aflans, og átti sér þá stað nokkur samkeppni og stundum bauð einn niður verðið fyrir öðrum. En nú tóku augu útvegsbænda í Eyjum að opnast fyrir skipulagsleysi þessu og skaðsemdaröflum. Kaupfélagsstjórnin vildi vera með í sölusamtökum þessum, af því að hún hafði sjálf reynt óhagræðið af einstaklingspotinu um sölu afurðanna. Ekki vil ég fullyrða, að stjórn kaupfélagsins hafi átt upptökin að stofnun Fisksölusamlags Vestmannaeyja, en fljót var hún að átta sig á nauðsyn þess að vera ríkur aðili að því.
Forstjóri kaupfélagsins hafði reynzt vel. Hann var dugmikill og hygginn stjórnandi. Stjórnin sóttist þess vegna eftir því að ráða hann þriðja starfstímabilið, en það var fimm ár. Hinn 1. apríl 1927 réðst Jón forstjóri enn hjá kaupfélaginu næstu fimm árin frá 1. júní 1927 til 31. maí 1932. Nú voru árslaunin afráðin kr. 8.000,00 og dýrtíðaruppbót. Ég læt hér fylgja með þessi ákvæði um laun til þess að glöggur lesandi minn hafi aðstöðu til samanburðar á launagreiðslum þá og nú. Þess ber að geta, að forstjórinn naut ókeypis húsnæðis hjá félaginu.
Á aðalfundi, sem haldinn var 5. ágúst 1928 er skýrt frá niðurstöðum rekstrarreiknings félagsins fyrra árs og endanleg tala færð inn í fundagerðabókina.
Árið 1928 skilaði reksturinn gróða, sem nam kr. 23.364,13. Samkvæmt gildi íslenzku krónunnar þá, mun þessi niðurstaða ekki talin slæm. En þess ber að gæta, að hér eru ekki öll kurl til grafar komin um efnahag kaupfélagsins. Það átti mikið fé útistandandi hjá skuldugum viðskiptavinum, og var sumt af því vonarpeningur. Til þess m.a. að létta kaupfélaginu þá innheimtu og tryggja um leið meiri vörusölu og heildarrekstur, þá keypti félagið blautfisk, sem svo var kallaður, keypti fisk „upp úr sjónum“ og lét verka hann sjálft. Einnig létti lifrarkaup félagsins alla innheimtu skulda.
Í ágústmánuði 1929 syrti í álinn fyrir Kaupfélaginu Fram, því að þá lézt hinn ötuli og hyggni forstjóri þess, kaupfélagsstjórinn Jón Hinriksson. Hann hafði alltaf notið óskoraðs trausts allra félagsmanna og fjölmargra bæjarbúa.
Félagsfundur samþykkti smíði á silfurskildi til þess að festa á kistu hins látna kaupfélagsstjóra og reisa veglegan minnisvarða á gröf hans. Verkin sýna merkin í Landakirkjugarði, þar sem minnisvarðinn ber af flestum bautasteinum þar.
Í september 1929 var haldinn aðalfundur Kaupfélagsins Fram. M.a. var þar rætt um framtíð félagsins. Átti að slíta félaginu, þar sem hinn mikilhæfi foringi var fallinn frá eða reyna að ráða nýjan kaupfélagsstjóra. Þessi spurning stjórnarinnar á fundi þessum varpar nokkru ljósi á það, hversu þeim fannst syrta mjög í álinn um framtíð félagsins við fráfall Jóns Hinrikssonar.
Á aðalfundi þessum var samþykkt tillaga um að ráða framkvæmdastjóra og „reka félagið áfram á sama grundvelli.“ En hvar fannst hæfur framkvæmdarstjóri? Stjórnin virtist ráðvillt í þessum efnum, svo að bankastjóranum Viggó Björnssyni leizt ekki orðið á blikuna. Íslandsbanki átti ekki lítið undir því, að giftusamlega tækist til um ráðningu forstjóra fyrir Kaupfélagið Fram, sem bankinn hafði lánað stórfé og átti mikið í húfi.
Um það bil mánuði eftir fráfall framkvæmdastjórans féllst stjórnin á að skeggræða þetta mál við bankastjórann. Þá hélt hún fund með honum. Bauðst hann til að gera sér ferð á hendur með svo sem tveim stjórnarmönnum til Reykjavíkur til þess að finna hæfan mann í stöðuna. Varð það úr.

Hinrik Jónsson.

Endalyktir þessa máls urðu þær, að Hinrik G. Jónsson, sonur hjónanna Jóns Hinrikssonar og k.h. Ingibjargar Theodórsdóttur var ráðinn framkvæmdastjóri kaupfélagsins til næstu tveggja ára. Hinrik var lögfræðingur að mennt.

Jón Gíslason, Ármótum við Skólaveg.

Honum til aðstoðar og brautargengis réð stjórnin Jón Gíslason frá Ármótum við Skólaveg. Hann var maður gætinn og athugull og öllum hnútum kunnugur, því að hann hafði verið í stjórn Kaupfélagsins Fram frá því að það var stofnað.

Árslaun hins nýráðna kaupfélagsstjóra skyldu vera kr. 5.000,00 og ókeypis húsnæði í Garði handa honum og móður hans, ekkju Jóns heitins.
Nú tók fjárhagskreppan að segja til sín svo að um munaði. Skuldir félagsmanna fóru vaxandi ár frá ári og námu hjá býsna mörgum þeirra frá kr. 2.000,00 til kr. 4.000,00. Afráðið var að leita eftir veðum í fiski, húsum eða bátshlutum. Hjá sumum tókst þetta, öðrum ekki. Á sama tíma féllu afurðirnar mjög í verði. Heimskreppan var gengin í garð.
Haustið 1930 kom í ljós, að litlar líkur voru til að kostur yrði á að selja hálfþurran fisk, en kaupfélagið átti þó nokkrar birgðar af honum, -fisk, sem ekki hafði reynzt kleift að ljúka þurrkun á fyrir haustrigningarnar. Til þess að gera þennan fisk að söluhæfri vöru, varð að fullþurrka hann. Þar sem Eyjamenn sjálfir áttu þá ekkert þurrkhús, urðu þeir að flytja þessar fiskbirgðir til Reykjavíkur og fá þær fullþurrkaðar þar í þurrkhúsi.
Við áramótin 1930/1931 skuldaði kaupfélagið Útvegsbankanum kr. 115.000,00, sem bankastjórinn Viggó Björnsson vildi fá veð fyrir. Að öðrum kosti gæti bankinn ekki lánað félaginu peninga til vörukaupa á komandi vertíð. Félagið stóð nú höllum fæti fjárhagslega. Það hafði lánað viðskiptamönnum sínum að undanförnu mikið af nauðþurftum til heimilis og útgerðar eða sem svaraði allt að kr. 100,00 út á hvert skippund fisks, og var það nær allt fiskverðið. Nú skorti kaupfélagið veltufé til þess að geta birgt sig upp af nauðsynjum til útgerðar og heimilisþarfa í byrjun vertíðar. Tækist ekki að greiða fram úr þessum fjárhagsvandræðum, væri ekki annað fyrir félagið en að leggja upp laupana. Framtíðarrekstur félagsins byggðist nú á því, að Útvegsbankinn vildi lána því fé til vörukaupa gegn veði í væntanlegum afla á vertíð, og tæki það veð í aflanum til tryggingar skuldum sínum við bankann og svo til tryggingar á greiðslum viðskiptamanna við það sjálft.
Peningaleysi og viðskiptatregða margskonar tók að sverfa að fyrirtækjum og einstaklingum, sem eitthvað ráku. Föst laun fóru lækkandi. Menn buðust til starfa við lækkandi laun heldur en vera með öllu atvinnulausir. Á þessum tíma réðist fastur starfsmaður til kaupfélagsins fyrir kr. 2.400,00 árskaup eða kr. 200,00 mánaðarlaun. Þrem föstum starfsmönnum var sagt upp vinnu með þriggja mánaða fyrirvara, þar sem starfslið félagsins þótti óþarflega margt vegna samdráttar í rekstri og menn vildu ógjarnan sætta sig við lækkandi laun fyrr en í fulla hnefana, þrátt fyrir samdrátt og fjárhagskreppu.
Þegar fjárhagskreppan magnaðist og skuldir kaupfélagsins fóru vaxandi ár frá ári og lítið greiddist af útistandandi skuldum félagsmanna, notuðu hinir betur stæðu félagsmenn sér ákvæði 18. greinar félagslaganna og sögðu sig úr kaupfélaginu hver af öðrum, en úrsögn varð að tilkynna stjórninni með árs fyrirvara. Félagsmenn tóku að óttast ákvæði 17. greinar félagslaganna, en hún hljóðaði þannig: „Félagsmenn ábyrgjast allir skuldir félagsins in solidum“, þ.e. einn fyrir alla og allir fyrir einn, -samábyrgð.
Björn Kalmann, lögfræðingur, var nú ráðinn til þess að innheimta skuldir og þá með lögsókn, ef annað kæmi ekki að liði. Dæmi eru þess, að samningar voru gerðir um skuldaskil á þá lund, að 20% skuldarinnar greiddust strax með því að 80% hennar yrðu strikuð út, felld niður. Ýmsir skuldunautar aðrir komust undan málsókn með svipuðum samningum, þó að jafnan væri greiddur allt að helmingur skuldarinnar. Félagsstjórnin sá þann kost vænstan oft og tíðum, úr því sem komið var, að sæta þessum kjörum fyrir hönd félagsins.
Útvegsbankinn frétti brátt, að kaupfélagsmenn sögðu sig úr félaginu til þess að losa sig við hina sameiginlegu ábyrgð á skuldum þess. Eftir ár frá úrsögn var félagsmaðurinn laus við allar ábyrgðir. Þessar tíðu úrsagnir voru alvarlegt mál Útvegsbankanum, sem átti mikið fé hjá Kaupfélaginu Fram. Hinn 9. sept. 1932 dagsetur bankinn bréf til stjórnar kaupfélagsins og krefst greinargerðar fyrir flótta félagsmanna úr kaupfélaginu, þar sem hann hafi hagsmuna að gæta. Bankinn lánaði þá kr. 30,00 út á hvert skippund og treysti um leið á samábyrgð félagsmanna um greiðslu þessa fjár. Þar að auki skuldaði kaupfélagið bankanum mikið fé, sem bankinn hafði lánað því til vörukaupa o.fl. Stjórn kaupfélagsins benti bankanum á þá staðreynd, að félagsmenn væru ekki lausir undan ábyrgðum sínum í félaginu fyrr en ár væri liðið frá úrsagnardegi. Enn væri því tími til stefnu að notfæra sér ábyrgðaraðild í skuldheimtunni.
Að fenginni skýrslu um eignir og skuldir kaupfélagsins komst bankinn að þeirri niðurstöðu, að kaupfélagið ætti enn fyrir skuldum. Jafnframt lét bankinn þá hótun í ljós, að enginn mætti segja sig úr Kaupfélaginu Fram vegna samábyrgðarinnar nema eiga það á hættu að gengið yrði að eignum hans og þær klófestar til tryggingar og greiðslu á skuldum kaupfélagsins við bankann. Þetta boð bankans var tilkynnt félagsmönnum.
Þetta boð bankans hafði þau áhrif, að félagsmenn tóku aftur úrsagnir sínar og gengu þannig aftur undir þær ábyrgðir, sem þeir upphaflega höfðu gengizt undir, þegar þeir gengu í kaupfélagið.
Þegar hér var komið málum, skuldaði kaupfélagið bankanum kr. 41.500,00 á yfirdráttarreikningi. Bankastjórinn krafðist þess, að bankanum yrðu afhent öll veðskuldabréf kaupfélagsins til tryggingar þessari skuld. Jafnframt hét hann að lána félaginu enn kr. 21.000,00 til vörukaupa gegn öðrum tryggingum. Þetta þótti stjórninni harðir kostir. Engu varð þó um þokað í ákvörðun bankastjórans í skuldamálum þessum. En þess skal þó getið, að bankinn bauð ábyrgð á kola-, salt- og veiðarfærakaupum kaupfélagsins árið 1933. Að öðrum kosti hefði kaupfélagið orðið að leggja upp laupana. Þá var jafnframt leitað eftir gjaldfresti hjá öðrum lánardrottnum félagsins.
Í byrjun ársins 1933 sagði Hinrik Jónsson, framkvæmdastjóri kaupfélagsins Fram, lausu starfi sínu við félagið með sex mánaða fyrirvara.
Í ljós kom á aðalfundi kaupfélagsins í byrjun árs 1933 að útistandandi skuldir Kaupfélagsins Fram námu á fimmta hundrað þúsundum. Tekizt hafði að tryggja félaginu greiðslu á 1/4 hlutum skuldanna en 1/4 hafði verið afskrifaður gjörsamlega.
Stjórn kaupfélagsins hafði ekki tekizt að ráða framkvæmdastjóra, þegar nálega þrír mánuðir voru liðnir af uppsagnarfresti Hinriks Jónssonar. En þá barst stjórn Kaupfélagsins Fram óvænt bréf. Kaupfélagsstjóri Kaupfélagsins Bjarma ritaði stjórn Kaupfélagsins Fram langt og ýtarlegt bréf og vakti máls á, að kaupfélögin yrðu sameinuð í eitt. Færði hann rök sín fyrir hugmynd þessari. Jafnframt sendi hann Útvegsbankanum í Eyjum afrit að bréfi þessu, þar sem hann vissi bankann hafa hagsmuna að gæta um rekstur og framtíð Kaupfélagsins Fram umfram önnur fyrirtæki í bænum.

Jónas Jónsson.

Vorið 1933 lét einn af starfsmönnum Gunnars Ólafssonar og Co. tilleiðast að gerast framkvæmdastjóri Kaupfélagsins Fram. Árslaun hans voru afráðin kr. 6.000,00. Þessi maður var Jónas Jónsson, kunnur að ágæti í starfi sínu hjá Gunnari Ólafssyni og Co. á Tanganum í Eyjum, og síðar kunnur útgerðarmaður þar. Hann tók síðan við framkvæmdastjórastarfinu á miðju sumri 1933.
En nú stóð allt fast um rekstur félagsins. Allar eignir þess voru veðsettar Útvegsbankanum og hann neitaði félaginu um frekari fyrirgreiðslur, meiri lán til vörukaupa. Var þá leitað til aðalbankastjóra Útvegsbankans í Reykjavík, Helga Guðmundssonar. Hnútur þessi var leystur þannig, að 12 bezt stæðu félagsmennirnir skrifuðu á víxla, veðvíxla, sem bankanum voru afhentir, samtals kr. 43.500,00. Út á víxla þessa lánaði Útvegsbankinn síðan þetta fé.
Nú var líka breytt til um rekstur félagsins. Kaupfélagið keypti nýja vélbáta og jók útgerð sína að miklum mun. Þar var hagnaðarvonin.

Jón Ólafsson, útvegsbóndi, Hólmi.

Á aðalfundi félagsins í desember 1934 lýsti formaður félagsins, Jón Ólafsson útgerðarmaður á Hólmi, yfir því, að útgerð kaupfélagsins hefði gengið ágætlega það ár (1934) og bjart væri nú framundan um rekstur félagsins.
En þessi mikla bjartsýni varaði ekki lengi. Brátt tók að syrta í álinn um rekstur söludeildarinnar, þó að útgerðin gengi sæmilega.
Haustið 1936 tók félagsstjórnin þá ákvörðun samkv. tillögu framkvæmdastjórans, Jónasar Jónssonar, að söludeild félagsins yrði lögð niður sökum fjárskorts til vörukaupa, þar sem engar vörur fengjust orðið nema gegn staðgreiðslu, enda öll verzlun erfið sökum innflutningshafta og gjaldeyrisörðugleika, og engin breyting sýnileg á því ófremdarástandi í nánustu framtíð.
Og enn jukust erfiðleikarnir. Á stjórnarfundi félagsins 28. nóvember 1936 var um það rætt, hvort kaupfélagið skyldi „gefa sig upp sem gjaldþrota fyrirtæki,“ eins og það er orðað í frumheimild, þar sem fjárhagsörðugleikarnir væru lítt viðráðanlegir. Var stjórnin sammála um að tilkynna þessa fyrirætlan bréflega Útvegsbankanum, svo að bankastjórinn gengi þess ekki dulinn, hvað fram undan væri um tilveru félagsins.
Einhvernveginn fór það þó svo, að kaupfélagið gat rekið útgerð sína vertíðina 1937.
Enn tapaði það stórfé á henni svo að gjaldþrot var framundan. Svo miður sín voru stjórnarmennirnir sökum þessara vonbrigða, þessa fjárhagslega skipbrots, að þeir hirtu ekki um að undirrita allar fundargerðir sínar, heldur létu þær óundirritaðar. Þar lagðist það þyngst á sálarlífið, að félagið gat ekki staðið í skilum við starfsmenn sína, greitt þeim umsamið mánaðarkaup að vertíðarlok-um. Eina vonin var nú sú, að lán fengist úr Skuldaskilasjóði til þess að fleyta félaginu yfir mestu örðugleikana. Bankinn bauðst til þess að mæla með þeirri lánveitingu.
Einar Sigurðsson hafði keypt eignir þær, sem Gísli J. Johnsen hafði átt áður í Vestmannaeyjum. Þessa eign kallar hann „Godthaabseign“ í bók sinni Fagur fiskur í sjó. Þarna á bls. 284-286 gerir Einar ríki nokkra grein fyrir því, þegar hann keypti eignir Kaupfélagsins Fram við árslokin 1940. Ég óska að láta Einar sjálfan tala, þar sem mig brestur skjöl og skilríki varðandi þessi eigandaskipti:
„Garðseignin, Den Danske Gaard, eins og hún var kölluð, lá að Godthaabseigninni. Það var elzti verzlunarstaðurinn og eina eignarlóðin í Vestmannaeyjum. Kristján Linnet bæjarfógeti og umboðsmaður þjóðjarða í Eyjunum, dró í efa, að hér væri um eignarlóð að ræða, og heimti lóðargjald, en Kaupfélagið Fram neitaði að greiða, og fór þá Kristján Linnet í lögtaksmál.
Vann Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti málið fyrir félagið í undirrétti og Einar B. Guðmundsson hæstaréttarlögmaður í hæstarétti. Þetta er stór og verðmæt lóð, sem nær alveg niður að sjó að norðan og austan og suður fyrir Skans. Á henni eru allmiklar húseignir, þar á meðal af eldri húsum: Kornloftið, Austurbúðin og íbúðarhúsið Garðurinn. Nú var það haustið eftir, þá er ég keypti Godthaabseignina af Útvegsbankanum, að Jón Ólafsson á Hólmi, formaður Kaupfélagsins Fram, kom að máli við mig og stakk upp á, að ég keypti allar eignir kaupfélagsins og tæki að mér að greiða allar skuldir og skuldbindingar félagsins og leysti þar með félagsmenn Kaupfélagsins Fram undan öllum persónulegum skuldbindingum vegna félagsskaparins.“

Einar „ríki“ Sigurðsson, hreppstjóra og skipstjóra Sigurfinnssonar, Heiði

.

Skuldirnar voru á milli 400.000 og 500.000 krónur. Listi, sem var gjörður yfir eignir félagsins, hljóðaði upp á 444.000 krónur, og þar í voru útistandandi skuldir upp á 60.000 krónur, að mestu tapaðar.
Í þessum eignum voru tveir sjö ára vélbátar, 21 og 22 lesta, Frigg og Óðinn, og einn eldri, Freyja, álíka stór, og partar í tveim minni bátum. Í meðvitund minni var Kaupfélagið Fram eitt af stærri fyrirtækjum í Eyjunum og mátti muna fífil sinn fegri en nú var komið.
Nú hafði félagið lagt niður sölubúð sína og var hætt að verzla nema með kol og salt, en bankinn hélt þeirri verzlun að kaupfélögunum Fram og Bjarma til þess að drýgja tekjur þeirra. Þá voru það forréttindi að verzla með kol og salt, og það var á fárra færi nema þeirra, sem áttu stuðning bankans vísan.
Skipti félagsmanna voru þá orðin lítil sem engin við félagið. Þá greip félagsstjórnin til þess ráðs að kaupa báta og fara sjálf að gera út.
Þessi útgerðarrekstur krafðist æ meiri persónulegrar ábyrgðar þeirra manna, sem voru í stjórn Frams.
Stjórn Kaupfélagsins Fram og Einar Sigurðsson undirrituðu kaupsamninginn 31. des. 1940. Þar með var Kaupfélagið Fram úr sögunni. Það hafði um visst árabil verið hin styrka fjárhagslega stoð útvegsbænda þeirra, sem að því stóðu.

(Framhald í næsta hefti Bliks).

Til baka