„Blik 1941, 1. tbl/Sumarferðalagið 1940“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
m (Verndaði „Blik 1941, 1. tbl/Sumarferðalagið 1940“ [edit=sysop:move=sysop])
Ekkert breytingarágrip
Lína 45: Lína 45:
:::[[Vilborg Guðjónsdóttir]]. <br>
:::[[Vilborg Guðjónsdóttir]]. <br>
:::[[Ásta Benedikta Þórðardóttir|Ásta Þórðardóttir]].<br>
:::[[Ásta Benedikta Þórðardóttir|Ásta Þórðardóttir]].<br>
{{Blik}}

Útgáfa síðunnar 22. október 2009 kl. 15:36

Sumarferðalagið 1940


Halló, halló! Mætum öll uppi í skóla í kvöld kl. 8. Rætt um sumarferðalagið! Þannig hljóðaði tilkynningin. Við þutum upp í skóla, sum ákveðin, önnur hikandi. Þar voru mættir Þ.Þ.V. skólastjóri og Þ.E. kennari, báðir í ferðahug.
Ákveðið var að ganga á Eyjafjallajökul. Þeir skiptu með sér verkum við undirbúning ferðalagsins, eins og undanfarin sumur. Skyldi Þ.Þ.V. útvega bát, tjöld og bíla, en Þ.E. annast nestið og útbúnað okkar nemendanna að öðru leyti.
Við lögðum saman í einn matarsjóð: haframjöl, niðursoðið kjöt, sykur, kakó, súputeninga, mjólk o.fl. Þá voru tínd til áhöld, svo sem prímusar, pottar, skeiðar, hnífar, olíubrúsar o.fl. Hvert okkar hafði meðferðis ullarteppi eða sæng og kodda. Við vorum áminnt um að klæða okkur vel innst sem yzt og leggja allan hégóma á hilluna. Gefin var í skyn gagngerð skoðun á okkur hátt sem lágt inn að bjór, áður en lagt yrði af stað, og yrði sá kyrrsettur, sem ekki væri vel búinn.
Laugardaginn 13. júlí var lagt af stað frá bæjarbryggjunni kl. 2:30 e.h. með m.b. „Unni“. Við vorum 20 ferðafélagarnir. Ferðinni var heitið undir Fjöllin og skyldi báturinn flytja okkur upp á Tangann. Veður var blítt, þó nokkur vestan-norðvestan vindur. —
Við gerðum ekki ráð fyrir neinni sjóveiki. Það fór á annan veg. Sérstaklega þóttust sumir drengirnir stæltir gegn sjóveikinni. En rétt fyrir norðan Faxa seldi fyrsti drengurinn upp. Þá kýmdum við stúlkurnar í barminn, því að engin okkar hafði enn látið á sjá. En brátt heimsótti „sjósa“ einnig okkur.
Eftir rúmlega þrjá stundarfjórðunga komum við upp undir Tangann. Þar biðu menn og hross eftir okkur í sandinum. Nú var byrjað að flytja fólkið í land. Ólafur Vigfússon, hinn kunni sægarpur, og skólastjórinn voru ferjukarlarnir. Fimm ferðir fóru þeir milli báts og lands með fólk og flutning, og urðu þeir í hverri ferð að vaða í mitti eða dýpra, því að „skakki“ var við sandinn vegna vindsins. Aðrir blotnuðu lítið, nema smávegis í stóru tærnar, ef orð er á því gerandi.
Þegar allir voru komnir í land, var lagt af stað fótgangandi að Bakka í Landeyjum. Farangurinn var fluttur á hestvögnum. Á Bakka var dvalið um stund og nutum við þar alúðar og gestrisni. Þaðan lögðum við af stað upp að Tjörnum. Við Álana mættum við Þ.E., sem annaðist um flutninginn á far­angri okkar með öðrum manni. Við höfðum með okkur tvo hesta frá Bakka til að „ferja“ okkur á yfir Álana. Þ.Þ.V. og kona hans, sem var með í ferðalaginu, tóku það hlutverk að sér. Allt gekk það vel, nema hvað hestur jós eitt sinn úti í ánni undir Þ.Þ.V. og einni ungmeynni, svo að lá við kaffæringu. Við hlógum dátt, þegar hættan var hjá liðin.
Á Tjörnum beið okkar bifreið. Við bjuggumst við að sjá þar nýtízku bifreið með bólstruðum sætum. Í stað hennar beið okkar vörubifreið með fjárgrindum. Fyrst var allur farangurinn látinn upp á pallinn og hafður fyrir sæti. Fremur var þröngt um okkur, en þó kátt á hjalla.
Næsti áfangi var Stóra-Mörk undir Eyjafjöllum.
Móts við Eyvindarholt sprakk eitt hjól bifreiðarinnar. Notuðu þá sumir unglingarnir tækifærið og fóru heim að Eyvindarholti meðan á viðgerð stóð, til þess að fá sér eitthvað í svanginn. Þeim var mjög vel tekið og fengu skyr og mjólk.
Við komum að Stóru-Mörk um kvöldið. Þá voru reist tjöldin og síðan sezt að snæðingi. Fórum við síðan að sofa og voru allir hvíldinni fegnir.
Morguninn eftir átti að ganga á jökulinn, ef veður leyfði.
Þá vöknuðum við snemma.
Veður var fremur ískyggilegt; þokusúld og rigningarlegt útlit. Var þá hætt við jökulferðina að sinni. Í stað þess gengum við í Nauthúsagil.
Þegar við komum í gilið, vorum við orðin þreytt, — en afþreyttumst fljótt, því að þarna blasti við okkur stórfengleg sjón. Þarna sáum við stærstu reyniviðarhríslu landsins. Þ.E. tók af okkur myndir með hrísluna í baksýn. Við fórum alveg niður í gilið, sem er öllu heldur gljúfur. Eftir því rennur lækur. Botn gljúfursins er lítið breiðari en farvegur hans. Við gengum inn í gljúfrið, inn að háum, fallegum fossi, sem þar er. Þar tók Þ.E. aftur mynd af okkur öllum. Til þess að komast þangað þurftum við oft að stikla yfir lækinn, runnum á steinum og blotnuðum í fæturna. En áfram gekk það með hlátri og kátínu. Á einum stað stikluðum við smáfoss. Það var aukaæfintýri. Á leiðinni fram gljúfrið féll ein yngismærin á botninn í lækinn. Þá var hlegið dátt, barin bleytan úr endanum á henni, hlegið og haldið áfram.
Um hádegið komum við aftur heim í tjaldbúð. Þá var komið glaðasólskin og bezta veður, svo að afráðið var að ganga á jökulinn. Við fengum fylgdarmann frá Stóru-Mörk.
Við borðuðum vel og tókum með okkur nesti og nýja skó, eins og þar stendur. Svo var lagt af stað með fylgdarmanninn í broddi fylkingar. Brátt varð okkur of heitt á göngunni, svo að við fækkuðum klæðum og smurðum okkur með sólkremi og matarolíu.
Þarna þrömmuðum við áfram og upp klukkutíma eftir klukkutíma, án þess að nokkuð bæri við. Við lögðum einn ásinn eftir annan að baki okkar, gengum upp með giljum og lækjum, og yfir gil og læki, áfram, áfram, ung og hraust, másandi og blásandi eða flatmagandi í steikjandi sólarhitanum. — Loks sáum við snjó. Þá hresstumst við og hugðum markmiðið í nánd, þ.e. Guðnastein. Við spurðum fylgdarmanninn öðru hvoru, hvort nú væri ekki stutt leið eftir. Við vorum orðin hálfleið á að fá alltaf sama svarið: „Ætli það sé ekki svo sem klukkutíma gangur.“
Fagurt fannst okkur um að litast í glampandi sólskininu. Fögur var Hlíðin og tign og friður um láð og lög.
Loks náðum við jökulströndinni. Þá röðuðum við okkur á kaðal og gekk síðan fylgdarmaðurinn fyrstur. Við stefndum á Skerin, sem svo eru kölluð. Allt gekk slysalaust, nema hvað ein ónefnd mey féll upp að mitti í eina sprunguna. Héldum við, að hennar síðasta stund væri komin, en hún var svo heppin að halda sér í Þ.Þ.V, svo að ekkert alvarlegt skeði.
Þegar við vorum komin í á að gizka 1400 m. hæð, voru kraftar okkar flestra á þrotum. Norðan stormur æddi um jökulinn og hiti við 0 stig. Hér skipti því í tvö horn frá því fyrr um daginn.
Kennararnir töldu nú ráðlegast að fara ekki lengra, heldur snúa við. Þá áttum við eftir um klukkutíma gang upp að Guðnasteini, sem er í 1600 metra hæð yfir sjávarmál.
Útsýni var hér fremur slæmt vegna misturs og þoku, svo að við greindum aðeins Vestmannaeyjar. Hinsvegar var útsýn til norðurfjalla sæmileg.
Ferðin niður af jöklinum og heim í tjöldin gekk vel og stanzlaust. Þangað komum við um lágnættið. Var þá matbúið og borðað, því að matlystug vorum við í bezta lagi. Síðan lögðumst við til svefns þreytt og ánægð eftir vel unnið dagsverk. Við sváfum svefni hinna réttlátu fram að dagmálum næsta morgun.
Þá var komin rigning. Felldum við þá tjöldin, tókum saman pjönkur okkar og ókum að Seljalandi undir Út-Fjöllunum. Þegar þangað kom, fengum við húsaskjól í helli, sem er notaður fyrir hlöðu á vetrum.
Veður fór batnandi, er á daginn leið, og við skemmtum okkur eftir föngum. Sum okkar leigðu sér hesta og riðu á næstu bæi. Þar fundum við sum gamla kunningja frá bernskudvöl okkar í sveit eða frá vertíðardvöl hér í Eyjum. Alls staðar mættum við alúð og gestrisni. Þá má líklega ekki nefna það, að þessar kynnisferðir ollu rasssæri hjá sumum. — Við gengum í Paradísarhelli, sem er skammt austan við Seljaland. Hann er alkunnur frá útlegð Hjalta, sem var unnusti Önnu á Stóru-Borg.
Rétt við Seljalandsbæinn vex rós, sem hvergi vex annars staðar á landinu, að talið er. Sagt er að Papar hafi flutt hana hingað með sér. Við skoðuðum hana, og gaf bóndinn okkur grein af henni.
Næstu nótt sváfum við inni í íbúðarhúsinu á Seljalandi, flest okkar í einni flatsæng og undum vel hag okkar.
Daginn eftir ókum við frá Seljalandi austur að samkomuhúsinu hjá Skarðshlíð undir Austur-Eyjafjöllum og settumst þar að. Á leiðinni austur fórum við í sundlaugina hjá Seljavöllum. Það var yndislegt. — Í samkomuhúsinu er ágætt eldhús og hitunartæki, og bjuggum við okkur þar góða máltíð. Síðan skoðuðum við umhverfið, sem er sérkennilegt og fallegt. M.a. skoðuðum við Rútshelli, sem á sína einkennilegu sögu. — Í þessu samkomuhúsi sváfum við næstu nótt. — Næsta dag ókum við austur að Skógarfossi og skoðuðum hann og umhverfi hans. Síðan ókum við austur fyrir Jökulsá á Sólheimasandi. Þá var snúið heim á leið. Vestur með Fjöllunum skemmtum við okkur prýðilega eins og fyrri daginn. Þá þrumaði einn drengurinn bassa með sinni miklu, fölsku bassarödd, svo að rumdi í klettunum. Við hlógum ákaft og sungum líka.
Fastráðið var að fara heim til Eyja næsta dag, svo fremi að veður leyfði. — Sum okkar voru tímabundin. Einn drengjanna til dæmis kvaðst mundi tapa þrjú hundruð krónum, kæmist hann ekki heim næsta dag. Hann var ráðinn í atvinnu. Um tvennt var að velja: fara til Stokkseyrar eða Reykjavíkur. „Laxfoss“ átti að fara frá Reykjavík til Eyja um kvöldið. Við afréðum þó að fara til Stokkseyrar.
Skipta skyldi um bifreið hjá Steinum. En í nánd við Varmahlíð bilaði bifreiðin okkar. Það tafði okkur býsna langan tíma. Loks kom hin bifreiðin til að sækja okkur. Þá var ekið óðfluga sem leið liggur vestur Suðurlandsundirlendið að Selfossi. Þar keyptum við okkur efni í góða máltíð og pöntuðum bát frá Eyjum til að sækja okkur. Síðan ókum við til Stokkseyrar. Þar settumst við að í barnaskólahúsinu. Skólanefndin á Stokkseyri hefir oftar sýnt Gagnfræðaskólanum okkar þá velvild að lána honum skólahúsið til afnota endurgjaldslaust, þegar nemendurnir hafa verið á ferðinni. Það ber að þakka kærlega.
Nú tókum við telpurnar á allri okkar kunnáttu í matgerðarlist og tókst okkur vel matargerðin, eða það sögðu kennararnir, þó að sumir drengirnir hefðu ótrú á okkur í fyrstu, af því að við höfðum ekki gengið í matreiðsluskóla. Þeir borðuðu þó með góðri lyst að okkur virtist.
Veður var gott þetta kvöld og fengum við að spóka okkur um kauptúnið dálitla stund áður en gengið var til hvílu.
Kl. 2:30 um nóttina mátti heyra undirgang mikinn. Brátt var hrópað: „Allir upp í skyndi.“ Formaðurinn á bátnum, sem skyldi flytja okkur heim, stóð í dyrunum.
Við þutum upp til handa og fóta, pokuðum rúmfötin og kvöddum Stokkseyri. Veður var gott í fyrstu og sjór sléttur. Þegar undir Eyjar kom, tók vindur að bæra báru og síðan að hvessa. Margir voru orðnir sjóveikir fyrr en varði. Tveir piltar, sem í fyrstu höfðu gert gys að sjóveiki okkar telpnanna, lágu nú á hnjánum niðri í lest og báru sig aumlega. Þeir seldu þar blikkfötum innihald maga síns fyrir lítið.
Kl. 9 f.h. lagði báturinn að Edinborgarbryggjunni. Hafði þá safnazt margt fólk á bryggjuna til þess að taka á móti okkur. Hélt svo hver heim til sín ánægður með ferðalagið.

Dóra H. Magnúsdóttir.
Rósa Kristinsdóttir.
Elín Vilhjálmsdóttir.
Vilborg Guðjónsdóttir.
Ásta Þórðardóttir.