„Blik 1974/Góða gesti ber að garði“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
m (Verndaði „Blik 1974/Góða gesti ber að garði“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 18. maí 2010 kl. 20:35

Efnisyfirlit 1974


Góða gesti ber að garði



Hinn 7. maí s.l. vor (1974) bar sérlega gesti að garði hjá okkur Vestmannaeyingum. Þessir gestir voru bankamennirnir Hannes Pálsson, formaður Sambands íslenzkra bankamanna, og samstjórnarmaður hans þar, Stefán Gunnarsson, starfsmaður í Seðlabanka Íslands. Og hvert var svo erindi þessara góðu gesta?
Í fórum sínum höfðu þeir bréf til bæjarstjórans okkar. Hér gefur lesendum Bliks að lesa:

Samband íslenzkra bankamanna.

Reykjavík, 3. apríl 1974.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja, hr. bæjarstjóri Magnús Magnússon, Vestmannaeyjum.

Hæstvirt bæjarstjórn.

Bankamannasamböndin í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, svo og samtök danskra sparisjóðsstarfsmanna söfnuðu á sínum tíma mikilli fjárupphæð til aðstoðar fólki vegna jarðeldanna í Vestmannaeyjum. Var sambandi voru afhent fé þetta með tilmælum um, að vér ákvæðum á hvern hátt því yrði ráðstafað.
Stjórn vor hefur nú komizt að þeirri niðurstöðu, að sjóði þessum verði bezt varið með því að afhenda hann bæjarstjórn Vestmannaeyja með ósk um, að hann gangi til safnahúss þess, sem nú er verið að reisa fyrir hin ýmsu söfn bæjarins.
Andvirði söfnunarfjárins var lagt á sparisjóðsbók, er hér með fylgir til frjálsrar ráðstöfunar fyrir yður.
Oss þætti ekki ótilhlýðilegt, að eitthvert af herbergjum hússins bæri heiti, er minnti á norrænt bankafólk, þó að vér að sjálfsögðu gerum enga kröfu til þess.

Vinsamlegast.
Samband íslenzkra bankamanna.
Hannes Pálsson.

Þetta var þá erindi hinna góðu gesta okkar að þessu sinni. Og gjöfin var ekkert smáræði. Innstæðan í bókinni nam kr. 3.126.144,40.
Við Vestmannaeyingar færum stjórn Sambands íslenzkra bankamanna og hinum göfgu gestum, alúðarfyllstu þakkir fyrir þessa miklu og hallkvæmu gjöf okkur til handa. Hún vottar okkur göfugmennsku og góðan skilning á þörfum okkar á myndarlegu safnahúsi, sem skal verða í senn bókhlaða bæjarins og geymsla og sýningarrými Byggðarsafnsins okkar. Þar gefst með tíma sögufróðum einstaklingum kostur á að meta og skilja sögu þess fólks, sem hér í Vestmannaeyjum hefur háð harða lífsbaráttu um aldir, greitt fjölda landa sinna veginn fram á við til betri lífskjara og verið um leið þjóðfélagi sínu hin styrka fjárhagslega stoð sökum dugnaðar og harðsækni í glímunni við ægi, uppsprettuna miklu. Þ.Þ.V.




Stjórn íslenzkra bankamanna.
Nœr frá vinstri: Unnur Hauksdóttir, J.G. Bergmann.
-Fjœr frá vinstri: Guðmundur Eiríksson, Einar Ingvarsson, Stefán M. Árnason, Hannes Pálsson og Þorsteinn Egilsson.