„Blik 1971/Oddgeir Kristjánsson, hljómsveitarstjóri“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 12: | Lína 12: | ||
Á þessu ári er 60 ára fæðingartíð eins hins merkasta manns, sem Vestmannaeyjar hafa alið fyrr og síðar, [[Oddgeir Kristjánsson|Oddgeirs Kristjánssonar]], hljómsveitarstjóra og tónskálds. Eftir þessu ári hef ég dokað með að láta Blik birta og geyma nokkur minningarorð um þennan sjaldgæfa son Eyjanna, ef mér leyfist að orða það þannig án þess að misbjóða metnaðarkenndum annarra „innfæddra“ hér í bæ. <br> | Á þessu ári er 60 ára fæðingartíð eins hins merkasta manns, sem Vestmannaeyjar hafa alið fyrr og síðar, [[Oddgeir Kristjánsson|Oddgeirs Kristjánssonar]], hljómsveitarstjóra og tónskálds. Eftir þessu ári hef ég dokað með að láta Blik birta og geyma nokkur minningarorð um þennan sjaldgæfa son Eyjanna, ef mér leyfist að orða það þannig án þess að misbjóða metnaðarkenndum annarra „innfæddra“ hér í bæ. <br> | ||
[[Mynd: 1971 b 39 B.jpg| | [[Mynd: 1971 b 39 B.jpg|left|thumb|500px|''Oddgeir Kristjánsson.'']] | ||
[[Mynd: 1971 b 41.jpg|200px|ctr]] | |||
<small>''Frú Svava Guðjónsdóttir.''</small> | |||
Hér birti ég fyrst ræðu þá, er séra [[Þorsteinn Lúther Jónsson|''Þorsteinn L. Jónsson]]'', sóknarprestur, flutti við kistu Oddgeirs Kristjánssonar, er hann var graflagður 26. febrúar (1966), en þeir voru góðkunningjar eða vinir frá því að þeir dvöldust hér unglingarnir saman í Eyjum og iðkuðu tónlist og aðrar menntir til heilla og hamingju sjálfum sér og öðrum í hljómsveit þjóðkunnugs tónlistarmanns, er hér starfaði þá. <br> | Hér birti ég fyrst ræðu þá, er séra [[Þorsteinn Lúther Jónsson|''Þorsteinn L. Jónsson]]'', sóknarprestur, flutti við kistu Oddgeirs Kristjánssonar, er hann var graflagður 26. febrúar (1966), en þeir voru góðkunningjar eða vinir frá því að þeir dvöldust hér unglingarnir saman í Eyjum og iðkuðu tónlist og aðrar menntir til heilla og hamingju sjálfum sér og öðrum í hljómsveit þjóðkunnugs tónlistarmanns, er hér starfaði þá. <br> | ||
Lína 25: | Lína 29: | ||
Oddgeir ólst upp í foreldrahúsum fjölmennum og góðum systkinahópi, sem öllum hér er að góðu kunnur.<br> | Oddgeir ólst upp í foreldrahúsum fjölmennum og góðum systkinahópi, sem öllum hér er að góðu kunnur.<br> | ||
Oddgeir Kristjánsson var Vestmannaeyingur af hug og sál og helgaði þessu bæjarfélagi alla starfskrafta sína, ól hér allan sinn aldur að undanskildum þeim árum, er hann dvaldist við hljómlistarnám í Reykjavík, en hljómlistin átti allan hug hans, eins og við þekkjum. Hann mun hafa þráð að geta farið til frekara náms. En þá voru þeir krepputímar hér á landi, sem fjötruðu margan fátækan, þótt mikið upplag hefði og gott, og varnaði honum verðugs frama. <br> | Oddgeir Kristjánsson var Vestmannaeyingur af hug og sál og helgaði þessu bæjarfélagi alla starfskrafta sína, ól hér allan sinn aldur að undanskildum þeim árum, er hann dvaldist við hljómlistarnám í Reykjavík, en hljómlistin átti allan hug hans, eins og við þekkjum. Hann mun hafa þráð að geta farið til frekara náms. En þá voru þeir krepputímar hér á landi, sem fjötruðu margan fátækan, þótt mikið upplag hefði og gott, og varnaði honum verðugs frama. <br> | ||
Árið 1933, þann 15. desember, kvæntist Oddgeir Kristjánsson eftirlifandi konu sinni, frú [[Svava Guðjónsdóttir|Svövu Guðjónsdóttur]], sem héðan er úr Vestmannaeyjum. <br> | Árið 1933, þann 15. desember, kvæntist Oddgeir Kristjánsson eftirlifandi konu sinni, frú [[Svava Guðjónsdóttir|Svövu Guðjónsdóttur]], sem héðan er úr Vestmannaeyjum. <br> | ||
Þau hjón áttu saman þrjú börn, [[Hrefna Oddgeirsdóttir|Hrefnu Guðbjörgu]] og [[Hildur Oddgeirsdóttir|Hildi]], og auk þess einn son, [[Kristján Oddgeirsson|Kristján]], sem lézt aðeins 7 ára gamall. Ennfremur hafa alizt upp á heimili þeirra hjóna þrjú dótturbörn þeirra. <br> | Þau hjón áttu saman þrjú börn, [[Hrefna Oddgeirsdóttir|Hrefnu Guðbjörgu]] og [[Hildur Oddgeirsdóttir|Hildi]], og auk þess einn son, [[Kristján Oddgeirsson|Kristján]], sem lézt aðeins 7 ára gamall. Ennfremur hafa alizt upp á heimili þeirra hjóna þrjú dótturbörn þeirra. <br> |
Útgáfa síðunnar 16. maí 2010 kl. 19:10
Oddgeir Kristjánsson
hljómsveitarstjóri og tónskáld
Fæddur í Vestmannaeyjum 16. nóvember 1911,
d. 18. febrúar 1966
Á þessu ári er 60 ára fæðingartíð eins hins merkasta manns, sem Vestmannaeyjar hafa alið fyrr og síðar, Oddgeirs Kristjánssonar, hljómsveitarstjóra og tónskálds. Eftir þessu ári hef ég dokað með að láta Blik birta og geyma nokkur minningarorð um þennan sjaldgæfa son Eyjanna, ef mér leyfist að orða það þannig án þess að misbjóða metnaðarkenndum annarra „innfæddra“ hér í bæ.
Frú Svava Guðjónsdóttir.
Hér birti ég fyrst ræðu þá, er séra Þorsteinn L. Jónsson, sóknarprestur, flutti við kistu Oddgeirs Kristjánssonar, er hann var graflagður 26. febrúar (1966), en þeir voru góðkunningjar eða vinir frá því að þeir dvöldust hér unglingarnir saman í Eyjum og iðkuðu tónlist og aðrar menntir til heilla og hamingju sjálfum sér og öðrum í hljómsveit þjóðkunnugs tónlistarmanns, er hér starfaði þá.
Einnig leyfi ég mér að taka hér upp nokkur orð úr minningargrein, sem Sveinn Guðmundsson, fulltrúi hér í bæ, skrifaði um Oddgeir Kristjánsson. Og svo að lokum kafla úr grein Ástgeirs Ólafssonar frá Litlabæ (Ása í Bæ), er hann skrifaði um æskuvin sinn og samstarfsmann í tónlistarlífi o.fl. um áraskeið.
Séra Þorsteinn L. Jónsson:
,,Hvert orð er sterkast? Orðið hans, sem kallar: Sjá, einnig dauðir ganga lífs til hallar.
Í dag er héðan kvaddur Oddgeir Kristjánsson, tónskáld og söngkennari.
Hann var fæddur hér í Vestmannaeyjum 16. nóv. 1911. Voru foreldrar hans Kristján Jónsson, trésmiður frá Heiðarbrún, og kona hans Elín Oddsdóttir. Oddgeir var þriðja barn þeirra hjóna af tíu, sem upp komust, en það ellefta er hálfbróðir.
Oddgeir ólst upp í foreldrahúsum fjölmennum og góðum systkinahópi, sem öllum hér er að góðu kunnur.
Oddgeir Kristjánsson var Vestmannaeyingur af hug og sál og helgaði þessu bæjarfélagi alla starfskrafta sína, ól hér allan sinn aldur að undanskildum þeim árum, er hann dvaldist við hljómlistarnám í Reykjavík, en hljómlistin átti allan hug hans, eins og við þekkjum. Hann mun hafa þráð að geta farið til frekara náms. En þá voru þeir krepputímar hér á landi, sem fjötruðu margan fátækan, þótt mikið upplag hefði og gott, og varnaði honum verðugs frama.
Árið 1933, þann 15. desember, kvæntist Oddgeir Kristjánsson eftirlifandi konu sinni, frú Svövu Guðjónsdóttur, sem héðan er úr Vestmannaeyjum.
Þau hjón áttu saman þrjú börn, Hrefnu Guðbjörgu og Hildi, og auk þess einn son, Kristján, sem lézt aðeins 7 ára gamall. Ennfremur hafa alizt upp á heimili þeirra hjóna þrjú dótturbörn þeirra.
Strax og Oddgeir Kristjánsson hafði aldur til, fór hann að vinna fyrir sér og stundaði einkum verzlunarstörf. Við þau störf vann hann lengst hjá Vörubílastöð Vestmannaeyja, eða um hálfan annan áratug, og var forstjóri fyrirtækisins, en hætti þar að mestu, er hann tók að sér söngkennslu í Barnaskólanum hér, en því starfi gegndi hann af kostgæfni til síðustu stundar. En öll sín störf vann Oddgeir af kostgæfni og alúð og svo mikilli samvizkusemi og skyldurækni, að þar mátti ekkert á vanta, ef það á annað borð stóð hans valdi. Alltaf skyldu skyldustörfin verða leyst af hendi eftir beztu getu. Lagði hann þannig jafnan mikla vinnu í hvaðeina, sem hann tók að sér. Og þrátt fyrir nauman tíma vegna tímafrekra skyldustarfa og margvíslegra aukastarfa, var hann maður fórnfús og vinnuglaður. Segja má, að hann hafi borið lotningarfulla virðingu fyrir hverju því verkefni, sem honum var falið að leysa af hendi, enda hafði hann rótgróna andstyggð á öllu handahófi og kæruleysislegri hroðvirkni. Snyrtimennskan, alúðin og hreinlætið samfara heiðarleik til orðs og æðis var honum þannig í blóð borið.
Oddgeir Kristjánsson lézt snögglega og óvænt að morgni föstudagsins 18. þ.m. (1966), er hann var af leikandi list að kenna börnunum að syngja hið gullfagra lag og kvæði: ,,Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein, sem hljómaði til mín ...“ En þá kom kallið :„Hingað og ekki lengra.“
Ég spurði í upphafi orða minna á máli Matthíasar: ,,Hvert orð er sterkast?“
Og svarið var: „Orðið hans, sem kallar.“
Og það var hann, hinn mikli húsbóndi, sem hvíslaði kallorði sínu eyra hans.
Stundin var komin, og húsbóndinn fann hann vakandi í starfi byrjandi dags og þjónustu, og hin heilaga hönd hans tók vin okkar og hóf hann á sína þrekmiklu arma og „bar hann upp til blómanna í birtu og yl“, því að gott á sá þjónn, sem húsbóndinn finnur vakandi, þegar hann birtist.
En ástvinirnir, sem eftir standa einir og höggdofa, þeir geta aðeins sagt: Dáinn, horfinn! En þeim er ennfremur gefinn styrkur og traust til að segja: ,,En ég veit, að látinn lifir. Það er huggun harmi gegn.“
- ,,Sú er hin mikla blessan bezt
- allra þeirra, er meira megna
- en munninn fylla og sínu gegna,
- að þegar þeir deyja, þá er hún mest.“
- ,,Sú er hin mikla blessan bezt
- „Flýt þér vinur í fegri heim.
- Krjúptu að fótum friðarboðans,
- og fljúgðu á vængjum morgunroðans
- meira að starfa guðs um geim.“
- „Flýt þér vinur í fegri heim.
En enginn efar, að rödd húsbóndans hafi einnig sagt: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig.
Kæru vinir, mér hefur oft verið hugsað til þess, er ég sá Oddgeir Kristjánsson fyrst. Þá var hann unglingur, svo til nýfermdur í hópi áhugamanna, sem nálega á hverju kvöldi um nokkurt skeið komu saman á fiskhúslofti, er þá stóð þar, sem Heiðarvegurinn hefst. En þá hafði í annað sinn verið stofnuð lúðrasveit í Vestmannaeyjum. Þessum hópi var hann minnstur vexti og yngstur að árum, en þrátt fyrir það sá, sem mestan vandann bar.
Við hinir, sem vorum eilítið eldri, hlutum að dást að þessum unga sveini, sem svo myndarlega gegndi forustuhlutverki lúðrasveitarinnar án þess að geigaði. Með alvöru og áhuga stundaði hann æfingar og hlustaði þunnu hljóði á leiðbeiningar okkar ágæta söngstjóra og kennara,
Hallgríms Þorsteinssonar. Það var hér, sem Oddgeir komst fyrst í snertingu við nótur og tónfræði. Og það mun þá líka hafa verið sú byrjunarkennsla, sem hann fékk þarna, sem ýtti honum áleiðis til meira náms í hljómlistinni, sem öðlaðist síðan hug hans allan upp frá því. Þessi lúðrasveit varð honum því einskonar fóstra í ríki tónanna.
En hér sem annars staðar sýndi Oddgeir Kristjánsson, hver manndómsmaður hann var og trúr og tryggur sínum fögru hugðarefnum. Það sannaðist bezt, er hann kom frá námi, því að þá stofnaði hann Lúðrasveit Vestmannaeyja ásamt öðrum áhugamanni úr gömlu lúðrasveitinni. Galt hann með því fósturlaunin, og gerði enda betur, því að síðan hefur hann verið stjórnandi hennar óslitið eða um 30 ára skeið. Það starf hefur jafnan verið sjálfboða- og hugsjónastarf hans. Í því starfi felst vitanlega meira en rétt að koma fram við öll hátíðleg tækifæri hér í bænum og halda hljómleika í Samkomuhúsinu og kirkjunni einu sinni á ári. Þetta starf hefur krafizt fórna, eins og oftast tveggja kvölda í viku hverri allan ársins hring. Í þetta starf hefur eyðzt mikill tími til raddsetningar laga. Enn meiri tími hefur þó farið eða eyðzt til þess að kenna hverjum nýjum byrjanda. Ofan á allt þetta starf bættust svo lúðrasveitir skólanna, en þær þurfti að æfa, og þeim varð einnig að kenna. Og meira felst í þvílíku starfi. Ekki má gleyma allri þeirri baráttu, sem starfið krefst við margvíslega erfiðleika, misskilning og áhugaleysi, oft algjört skilningsleysi. Allt kostar það mikla áreynslu, mikil vonbrigði, mikla þrautseigju, mikla karlmennsku. Og allt þetta starf gæti ekki unnizt nema af hugsjón, sem nærist af allri þeirri alúð og innileik, sem maðurinn á í sjóði hjarta síns, af öllum þeim eldi áhugans, allri þeirri ódauðlegu trú á sigur, allri þeirri barnslegu gleði listamannsins og hagleiksmannsins, sem lifnar af neistum hugsjónanna og eygir sigur í hverju átaki, m.ö.o.: þetta gæti aldrei átt sér stað nema með manninum búi óvenjuleg festa og göfgi manns, sem vill verða þjóð sinni og samborgurunum að sem mestu liði, þótt það kosti ósegjanlega þjónustu og sjálfgjöf, því að ,,hver, sem vinnur landi og lýð, treysta skal, að öll hans iðja, allt hið góða nái að styðja þess fyrir hönd, er hóf hann stríð.“ Og það verður, þegar bezt gegnir, hans einustu laun að lokum, en jafnframt hans bezta hlutskipti. Annað biður brautryðjandinn ekki um, en að starf hans komi að gagni.
Þótt hugsjónamál Oddgeirs Kristjánssonar yrðu sýnilegust í starfi hans fyrir Lúðrasveitina, var áhugi hans ávallt og alls staðar vakandi fyrir öllum fögrum listum, því að hann var maður fjölhæfur og kunni góð skil á býsna mörgum efnum.
Hann hafði mikinn áhuga fyrir því að vekja skilning barnanna, sem hann var að kenna, á gildi og blessun tónanna, og hann reyndi af heilum hug að fá þau til að skilja grundvallaratriði söngfræðinnar. Engu minni alúð lagði hann við að kenna þeim að meta ljóðið og gildi þess. Mér er í fersku minni, er hann nú
í vetur var að kenna hinn gullfallega sálm Matthíasar: „Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ Er hann útskýrði sálminn, fannst honum hann tala fyrir daufum eyrum nemendanna, eins og hver kennari þarf svo átakanlega oft að reyna. Hann fór með allar fegurstu ljóðlínurnar úr sálminum og sagðist hafa bent þeim á þetta, en ekkert virtist snerta nemendurna. Og þá sagði hann mér, að hann hefði ekki getað orða bundizt. Hann sagði: „Nú skal ég segja ykkur eitt, börnin mín: Sá, sem aldrei getur heillazt af neinu, t.d. svona snilld og svona einlægri og sannri trú eins og kemur fram í þessum sálmi, og sá, sem ekki á neina trú til á eitthvað, sem er æðra og meira en hann sjálfur, hann er vissulega ekki öfundsverður, því að hann hefur þá hvergi afdrep til að leita sér skjóls í, engan helgan lund til að hverfa til, þegar á móti blæs. Enginn á bágara en slíkur maður, því að hann er dauður sjálfum sér og hugðarefnum lífsins.“
Ég hafði vitað, að Oddgeir var góður maður og vel hugsandi, en ég vissi ekki fyrr en þarna, er hann fór með versin og sagði mér söguna, hversu góður og máttugur prédikari hann var: ,,Ó, sjá þú Drottins björtu braut, þú barn, sem kvíðir vetrarbraut. Í sannleik, hvar sem sólin skín, er sjálfur guð að leita þín. Ó, drottinn, heyr vort hjartans mál, í hendi þér er líf og sál.“
Það leiðir af sjálfu sér, að Oddgeir var góðum gáfum gæddur. Og hann átti líka mörg hugðarefni samhliða hljómlistinni. Þau voru sum einnig sprottin á meiði listarinnar. Þau rækti hann jafnan með sjálfsnámi og vaxandi lífsreynslu. Vegna þessa var hann víða heima; hafði yndi af þjóðlegum fróðleik og bókmenntum og kunni vel að meta hvorttveggja. Hann var mjög ljóðelskur, kunni mikið af kvæðum og hnyttnum lausavísum og var sjálfur laglega hagorður, þegar hann vildi það við hafa. Hann elskaði hina lifandi náttúru og naut þess að ferðast um fjörugrjót, fjöll og fallegt grasivaxið og blómskrýtt landið, enda sýna það hinar fallegu og smekklegu ljósmyndir hans, er hann tók gjarnast í litum, og mörgum eru kunnar. Var það þá ekki sízt hið einfalda í ríki náttúrunnar og hið yfirlætislausa, sem dró að sér athygli hans, þetta, sem fæstum þykir nokkurs til koma, fyrr en bent er á það.
Og þá má ekki gleyma garðinum hans og þeirra hjóna, sem sýnir og sannar ást hans til gróðursins og moldarinnar. Allir vita, hve erfitt er hér til garðræktar. En garður þeirra hjóna ber af öllum görðum hér að blómavali. En það hefur kostað mikla vinnu og erfiði að gera hann að því, sem hann er. Við garðyrkjustörfin átti hann ásamt konu sinni margar sínar dásamlegustu stundir í sumri og sól.
Oddgeir var aðlaðandi maður og þægilegur í viðmóti, skemmtilegur og viðræðugóður. Og hrókur alls fagnaðar var hann, þegar svo bar undir. En öllu var samt vel í hóf stillt, því að hann var laus við allar öfgar í því sem öðru. Hann átti jafnan orð og andlit, sem hæfði ungum og öldnum, var bæði góðviljaður og hjálpsamur og tryggur vináttumaður. Öflug var hann hjálparhella vinum sínum, er á reyndi í lífi þeirra. Þess vegna var öllum hlýtt til hans, enda var hann einn af vinsælustu mönnum þessa bæjarfélags, þar sem lengi mun sjást hans skarð. Hér mun hans verða lengi minnzt. Samt var hann maður skapheitur og skapmikill, er því var að skipta, skoðanafastur og skýr í hugsun, svo að engum gat dulizt, hver skoðun hans var, því að hann var maður hreinskilinn og vildi ekki láta neinn blekkjast af sér. En hann var maður óádeilinn og prúður í orðræðum, og aldrei var hann lastsjúkur eða lastgjarn um ávirðingar náungans. Hann mat alla þá menn mikils, sem hann fann að tóku á verkefnum lífsins með alvöru og svo þá, sem unnu sín umframstörf í sjálfboðavinnu og af innri þörf; þá menn mat hann mest.
Oddgeir Kristjánsson var löngu orðinn þjóðkunnur maður fyrir lögin sín, og ekki fyrir löngu heiðraði bæjarstjórn Vestmannaeyja hann og veitti honum höfðinglega fjárupphæð í þakklætis og viðurkenningarskyni vegna óeigingjarns starfs og hæfileika með því að gefa út verk hans. Fátt mun hafa glatt hann meira þessum efnum. Ég hitti hann einmitt daginn, sem honum var tilkynnt þetta.
Oddgeir hafði nýlega lokið við að búa lögin sín til prentunar, þegar kallið kom.
Þegar við kveðjum Oddgeir Kristjánsson hér í dag og minnumst hans um stund, þá er það ekki fyrst og fremst hæfileikamaðurinn, sem við erum að kveðja og minnast, heldur minnumst við hans fyrst og síðast sem hins góða og velviljaða manns og hins trausta og skemmtilega félagsbróður og samborgara, sem aldrei vildi vamm sitt vita gagnvart neinum. Það veit ég með vissu, að hið sama er að segja um ástvini hans, eiginkonu hans, börn og dætrabörn og systkinalið, að það er ekki hæfileikamaðurinn, sem fyrst og fremst er kvaddur nú, heldur heimilisfaðirinn, alúðarvinurinn og hinn ábyrgi forsjármaður, sem í órjúfasamvinnu við sína ágætu og skilningsríku konu vildi sjá öllu vel farborða, bæði líkamlega og ekki sízt andlega, enda sóttu þau til hans traust.
Og hér er hann kvaddur í dag með þakklæti og virðingu. Skólarnir, félagsbræðurnir og vinnufélagarnir frá Bifreiðastöðinni standa honum heiðursvörð, að ógleymdum félögum og samstarfsmönnum í Lúðrasveit Vestmannaeyja. Sérstakar kveðjur hefur mér einmitt verið falið að flytja frá bifreiðastjórunum og frá byggðarsafnsnefnd, en þar starfaði hann frá upphafi. Og fleiri hugsa til hans með alúð og þökk í huga hér við kistu hans. En síðast og innilegast kveður hann eiginkonan, börnin, barnabörnin og systkinin, sem ö11 eru hér saman komin. Öll þakka þau af hjarta og meir en orð mín fá lýst, og ef til vill ekki þeirra orð heldur, því að þessum efnum á okkar innsta hugsun og tilfinning ekki orð, það er hjartað, sem þá tjáir sig einungis og getur tjáð sig.
Svo er sagt, að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi. Og það er fyrst og fremst vegna þess, að í fábreytni daganna verður hver maður hversdagslegur með öðrum hversdagslegum; hann á ekki töfra fjarlægðarinnar. En Oddgeir, sem hér lifði og starfaði alla ævi og var eins og hver annar venjulegur maður í hópi okkar, hann var að sínu leyti eins konar spámaður í þessum bæ. Það sást gjörla hver ítök hann átti, er fregnin um andlát hans barst út um bæinn á skammri stundu. Segja má, að hvert hjarta í bænum gréti. Þannig hafði Oddgeir sungið sér verðugt lof í huga okkar og hugsun. Og það var einmitt hans innsta ósk að mega það.“
Sveinn Guðmundsson
skrifaði minningarorð um tónskáldið í Framsóknarblaðið 23. febrúar 1966, m.a.:
„Við, sem búum hér, finnum sárt til, þegar horfinn er sjónum okkar mikilhæfur borgari, sem við allir Eyjabúar áttum svo mikið í og sem hafði gefið okkur svo mikið með starfi sínu í þágu tónlistarinnar. Listsköpun Oddgeirs, sem hann gaf Eyjabúum með ævistarfi sínu, er okkur sameiginleg eign, sem ekki verður frá okkur tekin. Hún lifir í verkum hans og í minningunni um hljómsveitarstjórann og tónskáldið Oddgeir Kristjánsson.“
Ég þykist viss um, að flestum Eyjabúum sé það ljúft að taka undir þessi orð, af því að hugsun þeirra á endurhljóm innra með þeim.
Ási í Bæ
skrifaði langa minningargrein um Oddgeir Kristjánsson og birtist hún í Eyjablaðinu 14. marz 1966. Ég tek mér það bessaleyfi að birta hér stutta kafla úr greininni, kafla, sem túlka sérstæð sjónarmið og sérlegan sannleika, sem ekki má gleymast eða hverfa í skuggann, heldur skal honum á loft haldið, því að hann er öllum Eyjabúum góður orðstír og mikil sæmd.
Þannig skrifar Ási í Bæ: ,,Hann (þ.e. O.Kr.) var jarðsunginn með meiri viðhöfn og hátíðleika en títt er að viðstöddu slíku fjölmenni, að næstum er einsdæmi. Bæjarstjórn sýndi honum þá sérstöku virðingu að kosta útför hans. Fjöldi kransa bárust frá félögum og einstaklingum ásamt blómahafi og samúðarkveðjum hvaðanæfa til fjölskyldu hans. Og náttúran skartaði því fegursta, sem hún á til á þessum árstíma.
Hver var hann, maðurinn Oddgeir Kristjánsson, sem var slíkur harmdauði samborgurum sínum, að þeir fylgdu honum til hinztu hvílu með dýpri lotningu en flestum mönnum öðrum? Var hann héraðshöfðingi? Eða var hann kannski tákn þess, sem kynslóð hans hefur næstum gengið sér til húðar til að öðlast: Magn ytri gæða í formi hvers konar eigna? ...
Foreldrarnir Elín og Kristján voru grandvarar manneskjur, sem þekktu vart annað en heiðarleika til orðs og æðis að hætti þeirrar kynslóðar, sem enn bar í sér þann kjarna íslenzkrar sveitamenningar, sem setti manngildið öðru ofar ... Það er ævarandi undrunarefni, hvernig ungmenni í menningarsljóu umhverfi uppgötva þrá sína til mennta og lista ...“
Um starf hans á Bifreiðastöð Vestmannaeyja segir Ási í Bæ m.a.:
,,Ég held mér sé óhætt að segja, að dálítið blendinn félagsandi hafi ríkt á Stöðinni, þegar Geiri kom þar til sögu, og hitt og annað gosalegt spjall um vinnuskiptingu og fleira hafi átt sér þar stað. En ekki var langt um liðið, þegar hreinlyndi Geira og glettni hafði hreinsað andrúmsloftið, og bílstjórar treystu fullkomlega réttsýni hans og forustu í einu og öllu og kunnu vel að meta gott starf hans, enda eignaðist hann þeirra á meðal alúðarvini ... En það var ekki tekið út með sældinni (að halda saman Lúðrasveitinni); fyrst að ná saman hæfum mönnum og halda þeim við æfingar. Þær raddir heyrðust, sem ekki lögðu mikið upp úr þessu „hornagauli“. Í fyrstu reyndist erfitt að halda saman, eftir að vertíð var gengin í garð, ekki laust við, að sumum fyndist hálfhégómlegt að lalla upp í Barnaskóla og púa lofti í látúnshólka, þegar þorskurinn beið óaðgerður í kösum á bryggjum og pöllum. Það kom líka fyrir, að sveitin tvístraðist næstum gjörsamlega, menn fóru á sjó, fluttu burt, hættu. Á mynd frá öðru ári sveitarinnar má sjá, að einungis einn úr þeim hópi er nú starfandi, Hreggviður Jónsson, sem aldrei brást. Það henti einnig, að aðeins 5-6 af 20 mættu til leiks, þegar Geiri kom á æfingu eftir langan og strangan vinnudag við brauðstritið. Menn sögðu við hann: Af hverju ertu að standa í þessu veseni? Já, af hverju ekki að fara í flökun eins og hinir? Ég man þau kvöld, er Geiri kom af æfingu útkeyrður og svo vondaufur, að ekki virtist langt í uppgjöf. En hann var ekki einskipa á lífsfleyinu; hann átti eiginkonu, sem sagði: Ef þú ferð í flökun, þá tek ég við Lúðrasveitinni! Þá kom brosið sem fyrsta balsam á þreytuna og vonleysið. Með öðrum orðum: Ef
þessi mannvitsbrekka, hún Svava Guðjónsdóttir, hefði ekki á þeim augnablikum verið sú óhaggandi stoð, sem aldrei brást, þá veit ég ekki, hver orðið hefðu afdrif Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Í mínum augum varpar þetta ekki skugga á Geira. Enginn er svo sterkur, að hann standi einn og þá er ef til vill mesti maðurinn, sem kann að þiggja heilræði hollvina ... að trúa, að sá góði andi, sem ríkti innan Lúðrasveitarinnar, hafi borið drýgri ávöxt í bæjarlífinu, en margan grunar; það eitt að vita af hópi manna, sem allan ársins hring koma saman til að inna af höndum óeigingjarnt starf, hefur sín áhrif, þó að leynt fari ...
Geiri kynntist einnig djúpri reynslu sorgarinnar, svo sem hendir í heimi hér, er þau hjón misstu Kristján son sinn í bensku, bráðgáfað efnisbarn. Hygg ég, að þá hafi það verið faðirinn, sem átti þann styrk, sem hjálpaði móðurinni yfir örðugasta hjalla saknaðarins. Þannig studdu þessi hjón hvort annað, þegar mest á reyndi.
Þegar aðrir sváfu, las hann góðar bækur til að auðga anda sinn ... hann kynntist ótrúlegri mergð bóka og minnið var frábært ... Með tímanum eignaðist hann mikið og gott bókasafn, en einna mest var dálæti hans á þjóðsögum, enda átti hann flest markvert, sem gefið var út í þeirri grein.
Þegar aðrir hvíldust, samdi hann lögin sín, sem urðu æ vandaðri að allri gerð og frágangi, og taldi hann
sig ekki geta þakkað vini sínum, dr. Róbert A. Ottóssyni, sem vert væri tilsögn og hvatningu ... Frístundum sumarsins helgaði hann blómunum og náði þar árangri flestum betur ...
Æ, hve mannlífið hefði verið tignarlegra, ef fleiri hefðu verið þér líkir, gamli vinur.“
Þetta voru kaflar úr minningargrein Ása í Bæ, en þeir voru aldir hér upp saman í kaupstaðnum og naut Ási mannkosta Oddgeirs, leiðsagnar og tilsagnar til hinztu samverustunda. Þykir mér þess vegna rétt að geyma hér þessi orð hans um Oddgeir Kristjánsson.
- ----
Við minningarorð þau, sem hér eru birt um Oddgeir Kristjánsson, hljómsveitarstjóra, óska ég að bæta lítilli tjáningu frá eigin brjósti.
Þrír voru þeir vettvangar, þar sem leiðir okkar Oddgeirs Kristjánssonar lágu saman og heilladrjúgt starf tókst með ágætum á milli okkar.
Árið 1952 kaus bæjarstjórn Vestmannaeyja að mínum óskum nefnd til þess að létta mér söfnun muna í bænum handa Byggðarsafni Vestmannaeyja og gera þá sýningarhæfa. En fyrst og fremst var nefndarmönnum þessum ætlað það hlutverk að yfirfara ljósmyndasafn það, er kaupstaðurinn hafði eignazt úr dánarbúi Kjartans heitins Guðmundssonar frá Hörgsholti, og skýra myndirnar til skráningar eftir því sem tök reyndust á því. ( Sjá Blik 1959).
Bæjarstjórn Vestmannaeyja valdi þrjá menn í Byggðarsafnsnefndina og Vestmannaeyingafélagið Heimaklettur tvo menn samkvæmt samkomulagi um það.
Einn fulltrúi kaupstaðarins í nefndinni var Oddgeir Kristjánsson. Við störfuðum síðan saman í Byggðarsafnsnefndinni til hinztu stunda hans eða alls 14 ár.
Þó að Oddgeir Kristjánsson gæti ekki innt af höndum mikið starf í Byggðarsafnsnefndinni sökum hinna margháttuðu skyldu- og fórnarstarfa á öðrum sviðum í bæjarfélaginu, þá minnist ég þess með þakklæti og hlýhug, hversu hann kom þar jafnan fram af drengskap og áhuga á vexti og viðgangi Byggðarsafnsins, áhuga og réttu mati á gildi starfsins og stofnunarinnar. Byggðarsafn Vestmannaeyja á ýmsa góða gripi sögulega verðmæta, sem Oddgeir gaf safninu á sínum tíma.
Haustið 1956 eignaðist Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum sjö blásturshljóðfæri. Ég eygði þá hugsjón, er ég hafði alið innra með mér um árabil, hugsjónina þá, að skólinn gæti stofnað lúðrasveit, sem hefði tvöfalt hlutverk: Glæddi með æskulýðnum áhuga og skilning á hljómlist og gæti lagt sitt góða til, er nemendur efndu til skemmtana í skólanum, t.d. á ársfagnaði skólans 1. des. ár hvert. Þessar óskir mínar sem svo fjölmargar aðrar fékk ég uppfylltar.
Oddgeir Kristjánsson gerðist meðeigandi minn að þessari hugsjón. Hann tók það hlutverk að sér að æfa og þjálfa hljómsveit skólans, og tókst það verk hans allt með ágætum. Lúðrasveit Gagnfræðaskólans óx og efldist ár frá ári undir stjórn hans og átti og notaði 25 hljóðfæri að fám árum liðnum. Þetta ánægjulega og gagnmerka samstarf okkar hélzt við lýði í skólanum, þar til ég hvarf frá skólastarfinu vorið 1963 til þess að geta veitt Sparisjóði Vestmannaeyja óskipta starfskrafta mína. En einnig þar höfðum við Oddgeir Kristjánsson samhæft og sameinað krafta okkar og störf til eflingar þeirri stofnun, Sparisjóðnum.
Svo er fyrir mælt í gildandi lögum um sparisjóði, að tveir menn, sem bæjarstjórn kýs, þar sem sparisjóður er starfræktur í kaupstað, skuli skipa stjórn sparisjóðsins með þrem trúnaðarmönnum ábyrgðarmanna. Árið 1951 kaus bæjarstjórn Vestmannaeyja Oddgeir Kristjánsson annan fulltrúa sinn í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja. Þannig atvikaðist það, að leiðir okkar lágu saman, líka á fjármálasviðinu. Í stjórn Sparisjóðsins reyndist Oddgeir Kristjánsson okkur alltaf tillögugóður, réttsýnn og gætinn. Öllum skyldi veita sömu þjónustu, fátækum eins og hinum betur efnum búnu og hvergi halla réttu og sanngjörnu máli. Í þessu trúnaðarstarfi reyndist hann okkur samstarfsmönnum sínum sem alls staðar annars staðar sami drengskaparmaðurinn, sem hafði til brunns að bera glöggsýni og búvit um meðferð fjárins og vildi veita lán með sem öruggustum hætti fyrir stofnunina.
Lúðrasveitar Vestmannaeyja undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar verður minnzt í næsta hefti Bliks, sem ætlunin er að komi út næsta ár. Þar verður eftir föngum gert skil hinu mikla fórnarstarfi þessa óvenjulega manns og sonar Vestmannaeyja í þágu tónlistarmenningar í kaupstaðnum. Það áhuga- og fórnarstarf sönnuðu Vestmannaeyingar í heild, að þeir kunnu að meta að verðleikum. Þess er skylt að geta, því að þeim er það orðstír mikill og sómi.