„Blik 1965/Lýðháskólinn í Voss 70 vetra“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: Efnisyfirlit 1965 ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON: =Lýðháskólinn í Voss= =í Noregi 70 vetra= ==''Hvaða Íslendingar stunduðu þar n...) |
m (Verndaði „Blik 1965/Lýðháskólinn í Voss 70 vetra“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 20. apríl 2010 kl. 21:10
Lýðháskólinn í Voss
í Noregi 70 vetra
Hvaða Íslendingar stunduðu þar nám
fyrsta þriðjung aldarinnar?
(Greinin er helguð norskum vinum mínum).
Eftir að Þjóðverjar höfðu valdið dönsku þjóðinni dýpri sárum í ófriðnum 1864 en henni fannst fyrst í stað að hún gæti afborið, skapaðist með henni skólahugsjón, sem varð að veruleika. Skólahugsjón þessi voru lýðháskólarnir dönsku, sem frægir eru um alla jörð sökum þeirra afreka í uppeldis- og menningarmálum, sem sagan og reynslan hafa sannað s.l. öld. Faðir lýðháskólanna dönsku var séra Nicolai F. Severin Grundtvig, sálmaskáld og andlegur víkingur. Hann skildi það, að andleg eigin verðmæti dönsku þjóðarinnar yrði að rækta í þjóðarsálinni sjálfri til þess að efla með henni siðferðilegan styrk og valda þar vexti andlegs þroska. Hið eldgamla norræna lífstré stóð enn fagurgrænt. Allt uppeldi þjóðarinnar skyldi gerast á þjóðlegum grundvelli. Tjáning þjóðarsögunnar og þó sérstaklega persónusögunnar skyldi sem mest fram fara með hinu lifandi orði, og persónuleiki fyrirlesarans (kennarans) orka á sálarlíf nemandans. Skólastarfið skyldi slungið þrem meginþáttum til uppeldisáhrifa. Það skyldi vera gagnsýrt kristnum anda, norrænum anda og þjóðlegum anda. Þannig skyldu þessir nýju skólar efla með dönsku þjóðinni siðferðisstyrk og sjálfstraust, samheldni og persónulegan og þjóðlegan metnað.
Nýir skólar risu með dönsku þjóðinni, lýðháskólar Grundtvigs, og reyndust henni bjargvættir, menningarstólpar, andlegir vitar um aldarskeið. Þannig slapp danska þjóðin við Þjórsárdalsævintýri, Þórsmerkurævintýri, Hreðavatnsævintýri. Þessir skólar vanræktu ekki þátt uppeldisins í starfi sínu, — síður en svo.
Tveir norskir guðfræðingar, Anker og Arvesen, leggja leið sína til Danmerkur til þess að hlusta á fyrirlestra hins fræga danska uppeldisfrumkvöðuls, séra N.F.S. Grundtvigs. Þeir urðu gagnteknir af uppeldis og skólahugsjón hans.
Þessir ungu, norsku guðfræðingar stofnuðu síðan fyrsta lýðháskólann í Noregi. Anker hafði hlotið mikinn arf og óskaði að nota hann allan lýðháskólanum þeirra að Sögutúni (Sagatun við Hamar) til eflingar og gengis. Eftir 14 ára skólarekstur var allt „feðragullið“ hans, eins og hann kallaði arfinn sinn, gengið til þurrðar, — tapað. Og hann var þá sjálfur niðurbrotinn maður sökum „modstanden og forfylgjinga“, þ.e. sökum andstöðu og ofsókna. Þessi hin viðkvæma og háttprúða sál, skólamaðurinn og guðfræðingurinn Anker, þoldi ekki meira, afbar ekki meira af níðinu, spottinu og öðrum ókindarhætti, sem hann og skólastarf hans varð fyrir af embættismönnum og ýmsum valdamönnum öðrum nær og fjær.
Sumarið 1867 þrammaði þriðji norski guðfræðingurinn norður Guðbrandsdalinn, berfættur, með 12 skildinga stráhatt á höfðinu. — Hann var að skyggnast um með bændum þar í dalnum og vita hvort þeir hefðu ekki afgangs eigin þörfum sæmilega stóra stofu handa honum, þar sem hann gæti stofnað og starfrækt lýðháskóla að danskri fyrirmynd næsta veturinn. Þessi ferðalangur var hinn nafnkunni Christopher Bruun. Hann settist að í Sell í Guðbrandsdal og starfrækti þar lýðháskóla sinn veturinn 1867—1868. Fáum árum síðar flutti Bruun skólann sinn í Gausdalinn og kallaði hann Vonheim (Heimili vonarinnar).
Christopher Bruun var enginn Ankerssál. Hann var harður í horn að taka og lét hvorki last né níð, spott né spé smækka sig eða draga úr sér kjarkinn eða baráttuviljann. Hafirðu, lesari minn, lesið Brand eftir Ibsen, þá hefurðu þar lýsingu á skapgerð Christophers. Æruna eða lífið! Öllu skyldi fórna til gæfu og gengis norskum æskulýð og norskri menningu. Christopher Bruun barðist því ótrauðri baráttu fyrir skólahugsjón sinni gegn illkvittni og rógi við fátækt og umkomuleysi. Vilji þessa manns var ódrepandi. Þar sá Ibsen fyrirmyndina. Æskulýðurinn norski fann líka, hvað að honum sneri í Vonheimsskólanum. Hann sótti hann, dróst að honum og bar með sér lofstír hans út um byggðir landsins.
Margir norskir skólamenn urðu heillaðir af lýðháskólahugsjóninni, og skólar risu og skólar féllu. Andstaða kennimanna kirkjunnar, pólitískra eiginhagsmunamanna, þröngsýnna efnishyggju- og embættismanna og margs konar manngerða í þjónustu þeirra varð skólunum víða að falli. En aðrir risu og fólkið lærði smám saman að meta þá, skilja ágæti þeirra til þroska, dugs og dáða æskulýðnum. Svo var á Þelamörk, í Þrændalögum og um Hörðaland.
Árið 1887 kom Björnstjerne Björnson, hið heimsfræga norska skáld og ræðuskörungur, til Voss og flutti þar ræðu.
Ungmennafélagar með öðru fólki í byggðinni flykktust að ræðustól þessa mælskumanns og skáldjöfurs. Þessi för skáldsins til Vosshéraðanna að þessu sinni enti með því, að hann kveikti lýðháskólahugsjónina í hjörtum ungmennafélagsforingjanna. Sá kyndill logaði og safnaði æ fleirum ágætum mönnum að loga sínum.
Um þessar mundir var rúmlega tvítugur kennari við vísi að lýðháskóla, sem hafði inni í gömlu Haugastofunni á Halsneyjarklaustri á Suður-Hörðalandi. Þessi piltur hét Lars Eskeland, fæddur á Storð 6. marz 1867, af gamalli bændaætt. Hann hafði víðar verið kennari og getið sér orðstír fyrir frábæra kennarahæfileika.
Árið 1889 ferðaðist Lars Eskeland til danska lýðháskólans í Askov og kynnti sér þar af eigin reynd áhrif og uppeldishætti þessa nafnkunna lýðháskóla, reglur hans og skipulag.
Árin 1892—1895 var Lars Eskeland kennari við kennaraskólann í Elverum. Sérstaklega þar fór mikið orð af skólastarfi hans.
Á meðan þessu fór fram, þróaðist æ meir lýðháskólahugsjónin með æskulýðssamtökunum í Voss, — foringjum þeirra og vissum liðsmönnum.
Veturinn 1893 höfðu þeir uppgötvað manninn, sem þeir vildu kveðja til starfsins. Lars Eskeland frá Storð skyldi hefja merkið, verða skólastjóri lýðháskólans, brautryðjandi og grjótpáll. Hann þakkaði traustið. Hugsjónin logaði skært innra með honum. Hann afréð að láta til skarar skríða, — til stáls sverfa og stofna skólann. Það gerði hann með samþykki hinnar ungu konu sinnar, sem vildi óskipt deila blíðu og stríðu með manni sínum, en þau voru þá nýgift.
Og skólinn hóf starf sitt 1. okt. 1895. Ungmennafélagið í kaupstaðnum í Vossbyggðunum skaut skjólshúsi yfir hann fyrsta árið. — Hann fékk inni í Ungmennafélagshúsinu. Áður en kom til skólastofnunarinnar, tóku áhrifamenn í héraðinu afstöðu gegn skólanum. Séra Warholm, prestur, skrifaði: „Sé það eitthvað, sem fólkið í þessum byggðum þarf sízt með eða þráir minnst, þá er það lýðháskóli.“ Séra Ivar Hasselberg beitti sér gegn því í sveitarstjórninni, að skólinn hlyti styrk úr hreppssjóði. Tillaga hans féll með með 8:8 atkvæðum. Á amtráðsfundi beittu embættis- og efnishyggjumenn sér gegn því, að skólinn hlyti styrk úr amtsjóði. — Samt var styrkveitingin samþykkt með 23:15 atkvæðum. Málsvarar skólans og unnendur hugsjónarinnar urðu æ öflugri. Fólkið sannfærðist um sannleiksgildi þeirra orða, sem Helleland skólastjóri hafði sagt: „Þeim, sem aðeins vilja lifa til að græða peninga eða tryggja sér góðar og arðvænlegar stöður í þjóðfélaginu, er lýðháskólinn einskis virði, en þeim, sem vilja og þurfa hjálpar við til þess að lifa hamingjusamara lífi og fegurra lífi, mundi það mjög gagnlegt að ganga í lýðháskóla.“
Fyrstu 7 árin hafði skólinn engan samastað. Flækzt var með hann úr einum stað í annan, en vinahópurinn óx ár frá ári og nemendahópurinn að sama skapi. Starfað var af fremsta megni, þó að launin væru af skornum skammti og aðbúðinni mjög ábótavant. Hinu eiginlega kjörorði var fast fram fylgt: Guði allt, heimilinu allt, fósturjörðinni allt.
Skólabyggingar lýðháskólans í Voss, — Frá vinstri: Jómsborg,
heimavistarbyggmg piltanna; útihús skólabúsins; gamla íbúðarhúsið
(fógetabústaðurinn); skólahúsið, sem byggt var 1902 (gluggar á stafni);
lengst til hægri er „Olafssalurinn“, byggður 1922.
Árið 1902 festi Lars Eskeland kaup á jörð til að byggja á skólasetrið og búa þar að öðru leyti um skólann til frambúðar. Það var jörðin Seim (Sæheimur) í Gullfjordingen, norðanvert við Vossvatnið. Það ár var skólahús byggt á jörðinni. Þarna hafði verið aðsetur fógetans í héraðinu og þar stóð stórt íbúðarhús, sem nú kom að góðum notum í þágu skólans, íbúð skólastjórahjónanna og heimavistarherbergi handa nokkrum hluta nemendanna.
Skólinn óx ár frá ári og vann sér sífellt meiri orðstír. Húsrými stækkað, öll aðstaða bætt. Eftir fá starfsár var lýðháskólinn í Voss orðinn nafnkunnasti lýðháskóli á Norðurlöndum næst skólanum í Askov. Eftir að byggt hafði verið nýtt heimavistahús handa nemendum 1911, rúmaði skólinn sjálfur um 160 nemendur, en ár eftir ár var um 20 nemendum komið fyrir í herbergjum á nágrannabæjunum, enda þótt þeir hefðu fæði með öðrum nemendum skólans.
Á árunum 1920—1930 voru árlegar umsóknir að skólanum 400—500 eða um það bil þrefallt fleiri frá ári til árs en skólinn gat rúmað eða veitt skólavist.
Lars Eskeland gat sér ekki aðeins orðstír fyrir kennarahæfileika og skólastjórn, heldur einnig og enn meir fyrir ræðumennsku, andagift og skáldskap. Gæfan elti hann á ýmsa lund í starfinu. Honum völdust góðir samstarfskraftar, sumt afburða kennarar, sem héldu tryggð við starfið og helguðu skólanum lífsstarf sitt, eins og t.d. Olav Holdhus. Hann er mér að minnsta kosti ógleymanlegur. Ég kem að honum síðar. Vissan helming af gæfu Eskelands og gengi mátti hann með réttu þakka eiginkonu sinni, Mörtu Eskeland.
Í lýðháskóla reynir að ýmsu leyti ekki minna á hæfileika eiginkonu skólastjóra, en hann sjálfan. Frú Marta var að ýmsu leyti frábær stjórnandi á hinu stóra skólaheimili og munu fáir nemendur skólans hafa kynnzt þeim áhrifum öllum betur en ég, sem þetta skrifa, sökum þess að ég dvaldist hjá þeim hjónum tvö ár. Veturna tvo gekk ég í skólann og tvö misserin var ég „drengur“, þ.e. kaupamaður hjá þeim og vann að skólabúinu.
Mér hefur oft orðið það ígrundunarefni, hvernig forsjónin velur saman mann og konu til þess að vinna í sameiningu stórvirki fyrir þjóðfélag sitt, eins og staðreyndin er um þessi hjón. Lars Eskeland var lærdómsmaðurinn mikli, andans maður og skáld, innblásinn ræðumaður, heitur, tilfinninganæmur, þar sem hinar ríku kenndir hefðu vissulega æði oft orðið hyggindunum yfirsterkari og skaðað hann og starfið, ef konan hefði ekki tekið í taumana með kaldri skynsemi og frábæru hyggjuviti. Þetta skrifa ég fyrst og fremst handa hinum norsku lesendum Bliks og vinum mínum, sem ætla má að hafi lesið skrif og bækur, þar sem þessara hjóna er minnzt í löngu máli. Það, sem ég hef lesið af máli þessu, finnst mér frú Mörtu Eskelands alltof lítið getið og henni of lítið þakkað gengi skólans.
Frú Marta Eskeland átti hina hyggnu, rólegu skapgerð. Hún yfirvegaði alla hluti. Engar skyndikenndir fóru með hana í gönur. Það sem þó var mikilvægast til gæfu og gengis þeim hjónum í skólastarfinu var hið mikla fjármálavit frúarinnar, búvit, hið hagkvæma hyggjuvit. Þau áttu skólann og búið og báru því fjárhagslegan vanda af því öllu saman. Fjárhagsþröskuldurinn varð einmitt flestum fyrstu lýðháskólunum norsku óyfirstíganlegur. Frú Marta Eskeland stjórnaði búi skólans og fjárreiðum hans, að sjálfsögðu í samráði við mann sinn, en yfirleitt lét hann hana um það allt.
Og meira var þessi kona manni sínum. Eiginmaður hennar orti ekki svo kvæði eða sendi frá sér bókarhandrit eða blaðagrein, að hún hefði ekki áður vegið og metið hvert orð, hverja setningu. Þessu kynntist ég persónulega bæði sumurin, er ég dvaldist hjá þeim, handgenginn, ungur Íslendingur og heimilismaður, vinnupiltur við skólabúið.
Nemendur og kennarar lýðháskólans á skemmtigöngu veturinn 1921-1922.
Það er liðið á sumarið. Lengi hefur verið beðið eftir úrslitasvari stjórnarvaldanna varðandi nána framtíð unga Íslendingsins í Noregi. Þá grípur skólastjóri til pennans og vill hirta stjórnarvöldin norsku fyrir tómlæti og hirðuleysi, þegar ungur Íslendingur á í hlut. Hann skrifar blaðagrein með samþykki konu sinnar. Þegar henni er lokið, er frúin og Íslendingurinn kvödd til að hlusta á greinina. Hún er hvassyrt, en þó ekki um of að frúnni finnst, fyrr en skólastjórinn kemur að atriði, sem ég man vel en óska ekki að birta. Þá segir frú Marta. „Dette kan du ikkje skriva, Lars, du må ikkje egna dei inn på deg.“ „Nå, so stryk eg det då“, sagði hann, og þar með var greinin eins og frúin vildi hafa hana. Auðvitað lagði ég ekkert til málanna, en lífið hefur sannfært mig um það, að frúin hafði rétt fyrir sér. Hin kalda skynsemi hélt hér traustum tökum um taumana. Þannig farnaðist þeim bezt, þessum mætu og merkilegu mannverum, sem úr sárustu fátækt höfðu reist fjárhagslega trausta borg þekkingar og uppeldis, þar sem áhrifin leyndu sér svo að segja hvergi úti um hinar dreifðu byggðir Noregs; nemendur þeirra skáru sig oft úr með vinnuhug og framtaksdug, þar sem þeir settust að, siðferðilega traustir og ályktunaröruggir í viðskipta og félagsmálum. Þessa fullyrðingu mína hef ég frá þeim, sem kynnt sér hafa eða rannsakað störf og áhrif skólans og störf nemendanna síðar.
En skólastjórahjónin voru hér ekki ein að verki, eins og ég drap á áðan. Sumir kennararnir voru afburða starfskraftar, t.d. norsku-, sögu- og reikningskennarinn, Olav Holdhus, sem starfaði við skólann um fjóra áratugi. Kennsla hans til vits og þroska nemendunum, var frábær. Hér skrái ég eitt dæmi um kennslu hans í norskri bókmenntasögu. Efnið er séra Blix, maðurinn og kvæðin hans. Ég fæ til meðferðar og úrlausnar fjórar ljóðlínur úr kvæðinu:
- „Det er vel fagre stunder
- nár våren kjem her nord,
- og atter som eit under
- nytt liv av daude gror.“
- „Det er vel fagre stunder
Mér ber að finna, hvernig á að lesa þessar ljóðlínur, svo að áherzlur séu réttar og merkingin óbrengluð. Mér var vandi á höndum. Ég hafði ekki öðlazt fullkomið vald á norskri tungu, en þó vildi ég reyna. Loks hafði ég lokið ályktunum mínum. Kennarinn var sæmilega ánægður með allar áherzlurnar nema eina. Þar gataði ég tilfinnanlega. Ég ályktaði að leggja skyldi áherzlu á orðið vel, þriðja orðið. En það var skakkt. Það sannfærði kennarinn mig um og alla í bekknum. Legðum við áherzlu á vel, hefði það þau áhrif á merkinguna, að yndi vorsins þarna norður frá yrði helzt um of. Læsum við hins vegar orðið fagre með áherzlu, yrði merkingin þessi: Ég vænti þess, að þú sért mér sammála um það, að stundirnar séu unaðslegar hér norður frá, er vora tekur. Þar skildi sem sé mikið merkingar. Þannig fór þessi mæti kennari og maður, Olav Holdhus, að því að skerpa ályktunargáfu nemenda sinna, skilning og hugsun. Hið sama einkenndi sögukennslu hans. Hann gerði garðinn frægan.
Tvisvar í viku og stundum oftar allan veturinn flutti skólastjórinn fyrirlestra fyrir öllum nemendunum, yngri sem eldri, í einum hóp. Öllum, sem skrifað hafa minni frá námsárum sínum í skólanum í tíð Lars Eskelands, ber saman um það, að fyrirlestrar hans og um leið maðurinn sjálfur þá, sé þeim ljósast í minni. Svo er mér einnig farið. Þar er mér þó efni bókmenntasögunnar, persónusaga sumra skáldanna norsku, og meðferð skólastjórans á efninu, gleggst í huga, svo og túlkun hans á hinum meiriháttar persónum í Heimskringlu og lýsing Íslendingsins Snorra Sturlusonar á þeim.
Engin fræðsla orkaði á hugsun okkar og skapgerð með jafn miklu seiðmagni og töfrakrafti sem efni margra fyrirlestranna með hitanum og orkunni í flutningi þeirra. Þar fylgdi hugur svo máli, að nemendur hrærðust, þegar ræðumaðurinn viknaði. Slíkur kenndarflutningur frá sál til sálar í skóla mun sjaldgæfur. Þegar ég minnist þess arna, langar mig að minna á það, að Norðmenn sveltu sum sín beztu skáld á sama tíma sem sum mestu skáldin okkar sultu heilu hungri. Margt er líkt með skyldum. Stundum notaði skólastjórinn fyrirlestrartímana til upplesturs á völdu efni úr norskum bókmenntum. Þeir tímar og það efni orkaði einnig á okkur.
Í starfsreglum skólans mun það hafa verið orðað svo, að fyrirlestrarnir skyldu veita æskulýðnum andlega vakningu og siðgæðislegan styrk. Þar mun heldur ekki hafa verið skotið fjarri markinu. Þeir skyldu miða að því að glæða ættjarðarást og vekja og efla vinnudug og framtakshug með æskulýðnum. Svo nafngetinn varð Lars Eskeland af fyrirlestrum sínum í skólanum, að prófessorar, rektorar, læknar og prestar dvöldust við skólann á stundum skemmri eða lengri tíma, til þess að njóta fyrirlestranna og læra af þeim.
Annars voru námsgreinar skólans þessar: norska (landsmál), saga, reikningur, stærðfræði, náttúrufræði, þjóðfélagsfræði, landafræði, leikfimi, teikning og söngfræði. Aðeins stúlkurnar nutu kennslu í handavinnu.
Lars Eskeland fór miklum viðurkenningarorðum um Íslendinginn Snorra Sturluson og taldi hann hafa bjargað frá glötun fornsögu Noregs. Margar sögupersónur Heimskringlu mat Eskeland mikils. Sérstaklega bar hann sterkan hlýhug til Ólafs helga. Mundi ég mega fullyrða, að hann hefði dýrkað hann innra með sér frá fyrstu manndómsárum sínum? Skólastjórinn ól með sér heita ættjarðar- og frelsisást. Hann leit á Ólaf helga hinn fyrsta píslarvott norsks frelsis, norsks sjálfstæðis. Jafnframt var öll sú kúgun og þjóðernisleg og menningarlegt áþján og undirokun, sem Norðmenn urðu að þola og líða um aldir, sem fleinn í sálarlífi hans. Hann dróst æ meir að trú Ólafs helga, katólsku trúnni.
Þegar hann byggði seinna skólahúsið á Seim (árið 1922), lét hann fyrirlestrarsalinn í húsinu bera nafn Ólafs helga. Jafnframt var sett á innri stafn salarins trélíkneski af hinum helga konungi. Þegar svo Íslendingar þeir, sem numið höfðu í skólanum, gáfu stofnuninni stórt málverk til minnis um gömul og gagnleg kynni og dálítinn þakklætisvott fyrir það, sem skólinn hefur verið íslenzkum námsmönnum sínum og íslenzku þjóðlífi, þá lét skólastjórinn staðsetja það í fyrirlestrarsalnum gegnt líkneskinu af Ólafi helga. Meiri virðingu gat skólastjóri ekki sýnt íslenzku nemendunum og þjóð þeirra. Hann bar í brjósti sér brennandi áhuga á íslenzku þjóðerni, sérstaklega íslenzkunni og menningarlegri og fjárhagslegri viðreisn þjóðarinnar. Til Íslendinga skyldu Norðmenn snúa sér til að styrkja eða efla með sér heilbrigða norska þjóðerniskennd með því að kynnast íslenzku máli og íslenzkum fornbókmenntum.
Aldrei fundum við nemendur hans vott af áróðri fyrir katólskri trú í kristindóms- eða bænatímum hans í skólanum. En þegar ég kvaddi hann haustið 1923 tjáði hann mér, að ekki liði langur tími þar til ég frétti að hann og þau hjónin hefði tekið katólska trú. Þó liðu tvö ár áður en trúarskiptin voru tilkynnt opinberlega. En þá var líka friðurinn úti fyrir þessum mikla og mæta Norðmanni.
Norðmenn höfðu lengi státað af því, að norska stjórnarskráin frá 1905 væri hin frjálslyndasta, sem til væri í nokkru ríki. Fullkomið trúfrelsi væri í landinu m.a. En annað varð uppi á teningnum. Lýðháskóli, sem stjórnað væri af katólskum manni, átti alls ekki að njóta styrks úr norskum ríkissjóði. Norska stórþingið stóð í miklum vanda. Var hið norska trúfrelsi aðeins á pappírnum? Enginn skyldi líða fyrir trú sína samkvæmt norsku stjórnarskránni! Nú komu fram háværar raddir um það og kröfur, að Lars Eskeland skyldi víkja úr skólastjórastarfinu. Jafnvel hlýhuga vinir og tryggir aðdáendur, sem áður höfðu verið um langt skeið, snerust nú gegn honum, vildu hvorki heyra hann né sjá, hvorki sem mann eða skólamann. Þetta var harmleikur.
Stórþingið leitaði álits hinna sex norsku biskupa um það, hvort lýðháskólinn í Voss skyldi hljóta ríkisstyrk undir stjórn hins katólska skólastjóra, Lars Eskelands. Fjórir biskupanna lögðu til, að skólinn yrði sviftur styrknum. Tveir biskupanna töldu sjálfsagt, að skólinn fengi styrkinn framvegis, þrátt fyrir trúarskiptin. Án ríkisstyrks varð skólinn ekki starfræktur.
Þetta athyglisverða mál, prófsteinn á frjálslyndi norsku ríkiskirkjunnar, fékk þann endi, að Lars Eskeland varð að víkja úr skólastjórastöðunni til þess að lýðháskólinn hans héldi ríkisstyrknum og yrði ekki lagður niður. 83 þingmenn greiddu atkvæði gegn styrknum en 59 með honum.
Óafmáanlegur blettur á norsku stjórnarfari, stórþinginu og kirkjunni. Heitar voru blaðadeilurnar í Noregi í Eskelandsmálinu svokallaða og fyrirsagnir blaðagreinanna stundum ærið stóryrtar. Í stórþinginu urðu miklar umræður og oft heitar um þetta mál. Trúfrelsi eða ekki trúfrelsi í landinu, þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar? Einn af þingmönnum verkamannaflokksins sagði: „Það getur leikið vafi á því, hvort veita á ríkisframlag til lýðháskóla, þar sem svo fávísir (uvidende) menn stjórna þeim.“ Þar átti þingmaðurinn við Lars Eskeland. Svo öfgafullar og fávíslegar urðu stundum þessar umræður í sjálfu Stórþinginu. Þessi ummæli verkamannaþingmannsins Þorgeirs Vraa hleyptu af stað harðvítugum blaðadeilum og stóryrtum á stundum. Blaðið „17. maí“ hafði þessa fyrirsögn, eftir að stórþingsmaðurinn Vraa hafði rætt um fáfræði Eskelands skólastjóra: „Er Lars Eskeland fávís maður eða er Þorgeir Vraa kjaftaskur?“ („kjeftause“).
Skólastjóri og kennarar Lýðháskólans í Voss 1951—1952. — Frá vinstri: Öystein Eskeland, skólastjóri, Martin Mölster, frk. Vettvik, Hirth, smíðakennari, og Ingjald Bolstad, núverandi skólastjóri.
Árið 1928 neyddist Lars Eskeland til þess að víkja úr skólastjórastöðunni, því að Stórþingið hafði samþykkt með 83 atkv. gegn 59 að svifta skólann ríkisstyrk, ef hann stjórnaði skólanum. Þá gerðist Eysteinn (Öystein) Eskeland, sonur skólastjórahjónanna, skólastjóri lýðháskólans. Faðirinn fékk að vera kennari við skólann. Svo broslegur var skrípaleikur þessi. Auðvitað hafði Lars Eskeland alla aðstöðu til þess eftir sem áður að beita áhrifum sínum í vil katólskri trú og kirkju, ef hann hefði nokkru sinni ætlað sér það. En það hafði honum auðvitað aldrei komið til hugar. Það taldi hann trúnaðarbrot við þann mikla hóp norskra foreldra, sem um tugi ára hafði trúað honum fyrir ungmennum sínum. Hvarf hans til katólskrar trúar voru einkamál hans, óháð skólastarfinu. Oft hef ég spurt sjálfan mig: „Hvað mundi alþingi Íslendinga og fræðslumálastjórnin íslenzka og íslenzka kirkjan hafa sagt og gert, ef slíkur skólamaður íslenzkur sem Lars Eskeland var í ættlandi sínu, hefði horfið frá þjóðkirkjunni og játað sig katólskri trú. Innra með mér hef ég alltaf fengið sama svarið: Ákvæðin um fullkomið trúfrelsi í íslenzku stjórnarskránni hefðu verið í heiðri höfð. Svo ríka trú hef ég á íslenzku skoðanafrelsi og drengilegu frjálslyndi.
Lars Eskeland tók ofsóknunum með ótrúlegu þreki, enda þótt orð og hnjóðsyrði ýmissa þeirra landa hans, sem vinir voru áður, gengju nærri honum og særðu hann. — Sem fyrr er sagt var hann einlægur ættjarðarvinur og eldheitur þjóðræktarmaður. Norsk tunga, hreinsun hennar og andlegur aðall, var honum hjartans mál. Áhrif dönskunnar á norskt mál og norskar bókmenntir voru honum áhyggjuefni og særði þjóðernistilfinningu hans. Þetta vissu katólskir trúbræður hans. Stundum, þegar þeir gerðu að gamni sínu, sögðu þeir við Eskeland, að hann mundi þjáður í hreinsunareldinum á þann hátt, að hann yrði neyddur til að tala dönsku!
Árin liðu. Heimsstyrjöldin brauzt út. Þjóðverjar hertóku Noreg. Voss gerðu þeir að hernaðarmiðstöð um miðbik Vestur-Noregs. Þeir tóku öll skólahús lýðháskólans til sinna nota, gerðu þau að hermannabústöðum og birgðaskemmum. Öllu skólastarfi tortímt. Þegar styrjöldinni lauk, voru skólahúsin innan veggja meira og minna eyðilögð. Ekki viðlit að reka þar skóla nema fyrst færi þar fram mikil viðgerð á húsum með ærnum kostnaði, sem var ofurefli einstaklings í skólastarfi.
Samband ungmennafélaganna norsku óskaði þó, að lýðháskólinn í Voss yrði endurreistur. Það tók að sér rekstur hans fyrstu árin eftir styrjöldina, tók skólann á leigu. En nú hafði mikið breytzt í norsku þjóðlífi. Atvinnuvegir í rústum, skólakerfi lamað, bjargálnir breytzt í fátækt, allt fjárhagskerfi norsku þjóðarinnar stóð höllum fæti.
Eysteinn Eskeland tók aftur við rekstri skólans 1950. En skólinn bar lengi ekki sitt barr eftir styrjaldarárin.
1958 keyptu héruðin í Voss lýðháskólann, og hafa rekið hann síðan. Skólastjóri er Ingjald Bolstad.
Hér birti ég að lokum lista yfir þá Íslendinga, sem sóttu lýðháskólann í Voss frá árinu 1900, er fyrsti Íslendingurinn settist þar á skólabekk, til ársins 1931. Þá dró mjög úr aðsókn Íslendinga að skólanum fyrst og fremst vegna breyttra aðstæðna hér heima um framhaldsskólanám.
Íslendingar, sem námu í Voss-Folkehögskule á árunum 1900—1931:
Íslendingar við nám í Lýðháskólanum í Voss 1922—1923. — Frá vinstri: Sigurður Jónasson, pípulagningameistari í Reykjavík, Þ.Þ.V., Haraldur heit. Leósson, kennari á Ísafirði, og Guðjón Sigurðsson, garðyrkjubóndi í Gufudal í Hveragerði.
1900—1901 Guðmundur Guðmundsson, Núpasveit, f. 17. maí 1871. Hann var kennari í N.-Þingeyjarsýslu fyrir aldamót. Bókhaldari í Seyðisfirði 1901—1919. Fluttist þá til Reykjavíkur 1919 og lézt þar 12. febr. 1941.
1907—1908 Þórarinn Kristjánsson, Svarfaðardal, f. 26. maí 1896. Bóndi á Tjörn í Svarfaðardal og sýslunefndarmaður frá 1924 um margra ára skeið; hreppstjóri frá árinu 1929 og barnakennari um 40 ár; í stjórn KEA á Akureyri lengi.
1907-1908, 1908-1909 Snorri Sigfússon, Svarfaðardal, f. 31. ágúst 1884.Barnakennari 1909—1910; ungmennaskólakennari 1910—1912 og skólastjóri á Flateyri vestra frá 1912—1930; skólastjóri barnaskólans á Akureyri frá
1930—1947; námsstjóri í Norðlendingafjórðungi 1942-1954. Snorri er fyrir löngu landskunnur fyrir skólastörf sín og félagsstörf, þar sem hann hefur verið leiðandi maður um langt æviskeið, m.a. í Reglunni.
1908-1909 Jóhann Franklín Kristjánsson úr Eyjafirði, f. 7. maí 1885. Hann var í stjórnarnefnd Byggingar- og landnámssjóðs frá 1929 og þar til hann var lagður niður sem sérstök stofnun. J.F.K. fann upp aðferð (1915) til þess að steypa tvöfalda veggi úr steinsteypu. Fleiri uppfinningar hefur hann gert um byggingarframkvæmdir og gerð íbúðarhúsa.
1911-1912 og 1912-1913 Árni Hallgrímsson frá Úlfsstaðakoti í Skagafirði, f. 17. sept. 1885. Ritstjóri og útgefandi tímaritsins Iðunnar frá árinu 1926 í mörg ár.
1912-1913 Klemens Guðmundsson úr Húnavatnssýslu, f. 14. marz 1892. Bóndi í Bólstaðarhlíð í Bólstaðarhlíðarhreppi í A.Hún. Um árabil var K.G. víðförull fyrirlesari hér á landi í trúboðserindum Kvekara, en trú þeirra tók hann í Englandi.
1913—1914 Grímur Grímsson, Ólafsfirði, f. 15. jan. 1882. Var skólastjóri barnaskóla Ólafsfjarðar 1906—1934; sat í mörgum nefndum í Ólafsfirði, svo sem skólanefnd, skattanefnd og hreppsnefnd. Hann lézt 1954.
1914-1915 Aðalheiður Albertsdóttir úr Eyjafirði, f. 8. nóv. 1888. Stundaði víða barnakennslu á árunum 1912—1920; skólastjóri barnaskólans í Hrísey 1920—1942.
1915—1916 Sigríður Jónsdóttir úr Jökuldal, húsfreyja á Egilsstöðum á Héraði.
1916—1917 Rannveig Líndal, Gróðrarstöðinni á Akureyri, f. 29. jan. 1883. Barnakennari í Skagafjarðarsveitum um margra ára skeið og síðan kennari við kvennaskólann á Blönduósi í 7 ár. Einnig var hún um skeið kennari í Noregi og á Grænlandi. Forstöðukona og kennari við tóvinnuskóla Halldóru Bjarnadóttur á Svalbarðsströnd 1946—1955.
1916—1917 Sigurður Gíslason, Kolbeinsdal í Skagafirði, f. 6. júlí 1883. Barnakennari í Skagafirði um árabil og kennari á Siglufirði 1938—1944. Síðan skrifstofumaður á Akureyri.
1916—1917 Björn Guðmundsson frá Sleðbrjóstsseli á Fljótsdalshéraði. Hann mun búa eða hafa búið myndarbúi í Sleðbrjótsseli og verið forgöngumaður félagssamtaka og framfaramála í sveit sinni.
1916—1917 Bjarni Ásgeirsson frá Knarrarnesi í Mýrasýslu, f. 1. ágúst 1891. Bóndi í Knarrarnesi 1915—1921 og á Reykjum í Mosfellssveit 1921—1951. Bjarni var alþingismaður Mýramanna 1927—1951; bankastjóri Búnaðarbankans 1930—1938; lét byggja fyrsta gróðurhúsið hér á landi 1923 og hófst þar með sá atvinnuvegur að rækta blóm og ávexti við jarðhita. Sendiherra Íslands í Osló 1951—1956. Dáinn 15/6 1956.
1916—1917 Pétur Einarsson, Skógum í Fnjóskadal.
1918—1919 Sveinn Sigurjónsson frá Seyðisfirði.
1919—1920 Ingunn Gísladóttir frá Vindfelli í Vopnafirði.
1919—1920 Valgerður Björg Björnsdóttir bónda á Grund í Svarfaðardal Sigfússonar, læknisfrú í Reykjavík.
1919—1920 Sigurður Greipsson, Haukadal í Biskupstungum, f. 22. ágúst 1897. Stofnaði íþróttaskóla í Haukadal 1927 og hefur rekið hann síðan; einnig bóndi þar og gestgjafi; starfað mikið í stjórn Sambands U.M.F.Í; formaður Héraðssambandsins Skarphéðins frá 1922 um tugi ára; kunnur íþróttamaður, íþróttafrömuður og bindindisáhugamaður.
1919—1920 Þorsteinn Sigurðsson, Vatnsleysu í Biskupstungum, f. 2. des. 1893. Bóndi á Vatnsleysu síðan 1922. Búnaðarþingsfulltrúi um margra ára skeið og nú formaður Búnaðarfélags Íslands. Formaður búnaðarfélags í sveit sinni, skólanefndar og sóknarnefndar. Áhrifamaður í Mjólkurbúi Flóamanna, Kaupfélagi Árnesinga og Sláturfélagi Suðurlands um árabil. Virkur starfskraftur í ungmennafélagi sveitar sinnar um tugi ára. Söngstjóri karlakórs í sveit sinni nær 20 ár.
1919—1920 Arnór Sigurjónsson frá Litlu-Laugum í Þingeyjarsýslu, f. 1. maí 1893. Skólastjóri barnaskólans á Breiðumýri 1921—1924; helzti stofnandi héraðsskólans að Laugum í Þingeyjarsýslu og skólastjóri hans frá stofnun (1924) til ársins 1933; höfundur kennslubókar í Íslandssögu; hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, annazt útgáfur bóka og þýtt bækur á íslenzkt mál; bóndi að Þverá í Dalsmynni í S.Þing. 1942-1952; síðan fulltrúi í Hagstofu Íslands.
1920—1921 Lena Figved frá Eskifirði.
1920—1921 Ragnar Ólafur Tryggvason frá Reyðarfirði.
1921—1922, 1922-1923 Þorsteinn Þ. Víglundsson frá Norðfirði, f. 19. okt. 1899. Skólastörf o.fl. í Vestmannaeyjum 1927—1963.
1922-1923 Guðjón A. Sigurðsson úr Svarfaðardal, f. 12. sept. 1899. Ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands 1933; bústjóri ríkisins á Reykjum í Ölfusi
1933—1939; átti frumkvæðið að stofnun Framræslu og áveitufélags Ölfushrepps; formaður þess félags og svo búnaðarfélags og nautgriparæktarfélags, einnig formaður fræðslunefndar og skattanefndar um skeið; kunnur gróðurhúsaeigandi í Gufudal í Hveragerði og garðyrkjumaður.
1922—1923 Sigurður Jónasson frá Stokkseyri, pípulagningameistari í Reykjavík.
1922—1923 Haraldur Leósson frá Sigtúnum í Eyjafirði, f. 21. sept. 1884. Skólastjóri Unglingaskóla Ísafjarðar 1923—1931; kennari við Gagnfræðaskólann á Ísafirði 1931-1954; bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður; formaður skólanefndar mörg ár og sat í yfirskattanefnd um skeið; félagi í söngkór á Ísafirði um árabil.
1922—1923 Gunnlaugur Björnsson, Hólum í Hjaltadal, f. 26. júní 1891. Bóndi að Brimnesi í Viðvíkursveit og jafnframt kennari við Bændaskólann á Hólum um 20 ára skeið; hreppsnefndaroddviti nokkur ár; starfaði að ritstjórn Skinfaxa, rits Ungmennafélags Íslands um tíma og skrifaði merkan bækling um Hóla í Hjaltadal.
1922—1923 Jón M. Benediktsson, Akureyri, frá Breiðabóli á Svalbarðsströnd, lengi lögregluþjónn á Akureyri.
1923—1924 Kristinn Helgason.
1923—1924 Kristinn Pétursson frá Bakka í Dýrafirði, f. 17. nóv. 1896. Kunnur listmálari og myndhöggvari; starfsmaður hjá dagblaðinu Tidens Tegn í Oslo
1924—1927; teiknikennari við barnaskóla í Reykjavík 1935—1937 og við iðnskólann í Reykjavík frá 1948.
1923-1924 Júlíus Magnússon.
1923—1924 Jón Þorsteinsson frá Hofstöðum í Mýrasýslu, f. 3. júlí 1898. Kunnur fimleika, sund- og glímukennari á árunum 1916—1924, en það ár stofnaði hann íþróttaskóla í Reykjavík. Jón hefur annazt sjúkraleikfimi um tugi ára; oft ferðast til annarra landa með fimleikaflokka.
1923—1924 Guðjón Guðjónsson, f. á Akranesi 23. marz 1892. Kennari í Vestmannaeyjum 1916—1917; skólastjóri barnaskólans á Stokkseyri 1917—19; barnaskólakennari í Reykjavík 1919—1930; skólastjóri barnaskóla Hafnarfjarðar 1930—1954; í stjórn sambands ísl. barnakennara alls um aldarfjórðung; hefur verið í útvarpsráði, í stjórn Sumargjafar og annazt mörg önnur trúnaðarstörf.
1924—1925 Björn Arnór Guðmundsson frá Núpi í Dýrafirði, f. 26. júní 1879. Kennari við Núpsskóla 1908—1928; skólastjóri héraðsskólans á Núpi 1929—1942; hreppstjóri frá 1922 um mörg ár; formaður Héraðssambands U.M.F. Vestfjarða um tugi ára frá 1911; áhrifamaður í samvinnusamtökum bænda í Dýrafirði um fjölda ára.
1924—1925 Guðmundur Gíslason Hagalín, Reykjavík, f. 10. okt. 1898. Einn kunnasti rithöfundur þjóðarinnar.
1924—1925 Kristín Jónsdóttir Hagalín, Reykjavík, f. 12. maí 1900.
1924—1925 Kristmann Guðmundsson, Reykjavík, f. 23. okt. 1901. Hinn frægi rithöfundur og bókmenntagagnrýnandi.
1924—1925 Jóhann Björnsson frá Seljateigi í Reyðarfirði, f. 12. sept. 1897. Kennari í Reyðarfjarðarhreppum 1915—1937; bóndi að Seljateigi frá 1926; einn af stofnendum Verkamannafél. Reyðarfjarðarhrepps og lengi í stjórn þess; í stjórn búnaðarfélags í mörg ár; formaður skólanefndar um skeið; sýslunefndarmaður
1950—'54.
1924—1925 Jóhannes Guðjónsson frá Saurum í Helgafellssveit.
1925—1927, 1927—1928 Gunnar Guðmundsson frá Veðramóti í Skagafirði.
1925—1926 Sigurbjörg Skúladóttir, Bollastöðum, Blönduósi.
1926—1927 Sigrún Ingólfsdóttir frá Fjósatungu í Fnjóskadal, f. 14. maí 1907, kona Kristjáns Karlssonar fyrrv. skólastjóra Bændaskólans á Hólum.
1926—1927 Þóra Tr. Tryggvadóttir frá Höfn í Hornafirði.
1926—1927 Halldór Halldórsson frá Torfastöðum í Vopnafirði.
1926—1927 Gunnar Guðmundsson, Skarðshreppi, Skagafjarðarsýslu.
1926—1927 Björn Pálsson úr Svínavatnshreppi.
1926—1927 Þorleifur Bergsson, Svarfaðardal.
1926—1927 Helga Vilhjálmsdóttir, f. að Ölduhrygg í Svarfaðardal 11. febr. 1902. Kennari í Ólafsfirði 1928—1930; handavinnukennari Kvennaskólans á Blönduósi 1924—1947 og á Varmalandi frá 1947.
1926—1927 Andrés G. Þormar, Reykjavík, f. 29. jan. 1895 að Geitagerði í Fljótsdal. Símritari og nú aðalgjaldkeri Landssímans; form. í félagi símamanna um skeið; hefur stundað ritstörf.
1928—1929 Jón Dagsson frá Djúpavogi.
1928—1929 Jón Jóhannsson frá Djúpavogi.
1928—1929 Elías Kristjánsson frá Króksfjarðarnesi í Barðastrandarsýslu.
1928—1929 Ágúst Sæmundsson, Borgarnesi.
1929—1930 Ólafur Kristjánsson frá Skerðingsstöðum.
1929—1930 Knútur Þorsteinsson frá Úlfsstöðum í Loðmundarfirði, f. 12. maí 1907. Kennari víða: Fáskrúðsfirði, Vestmannaeyjum, Reykhólshreppi, Sandgerði, Neskaupstað, Seyðisfirði; skólastj. á Höfn í Hornafirði frá 1948.
1920—1930 Jón Björnsson, f. að Holti á Síðu 1907. Kunnur rithöfundur, sem skrifað hefur fjölda bóka.
1929—1930 Skúli Þorsteinsson, Stöðvarfirði, f. 24. des. 1906. Kennari á árunum 1925 —1939; skólastjóri í Eskifirði 1939—1957; fluttist þá til Rvíkur og gerðist þar barnakennari; unnið mikið að ungmennafélagsmálum og íþróttamálum; skrifað bækur og birt eftir sig kvæði í blöðum og tímaritum.
1930—1931 Kristín Sveinbjörnsdóttir, Geirshlíðarkoti í Flókadal.
1930—1931 Magnús B. Magnússon, Ísafirði, Jón Halldórsson, Ísafirði.
Þennan lista hef ég gert fyrst og fremst eftir skrám eða skýrslum lýðháskólans og bætt við því, sem mér hefur auðnazt að finna markverðast að mínum dómi um þessa íslenzku nemendur hans. Sumir þeirra dvöldust við skólann stuttan tíma, — 2—3 mánuði t.d. — aðrir á annan vetur eða 2 ár. Ef til vill hefur undirriraður dvalizt þar lengst og kynnzt þar ýmsu betur en flestir aðrir, og mætti því gjörla þar um vitni bera. Því miður hefur mér ekki tekizt að ná hinni minnstu fræðslu um suma nemendurna.
Þegar hér var komið árum (1931) má segja, að klippi fyrir aðsókn Íslendinga að skólanum. Næstu tvo áratugina eru þar aðeins 3 Íslendingar við nám.
Vissulega hafa æði margir hinna íslenzku nemenda skólans verið virkir aðilar í athafna- og menningarlífi þjóðarinnar. Þar hefur þjóðin að sjálfsögðu notið áhrifa skólans, hvort sem þessir nemendur hans hafa alltaf verið sér þess meðvitandi eða ekki.
Nú kreppir vissulega að í uppeldismálum okkar Íslendinga. Vanræksla kemur okkur í koll. Ævintýrin gerast, — átakanleg, óskapleg. Bakkusarliðið í landinu er þagnað, því að það hefur náð markinu; áfengið flæðir yfir landið og áfengisveitingahúsum fjölgar árlega. Harðast verður æskulýðurinn úti fyrir áhrifum aðsteðjandi spillingarstrauma.
Þessa ógæfu okkar og hörmung vita erlendir vinir okkar. Þeir skilja ástæðurnar fyrir því, að Hreðavatns- og Þjórsárdalsævintýri gerast með þjóðinni. Þeir sjá þarfir okkar og vilja leggja okkur lið. Þeir hvetja til að stofna lýðháskóla í Skálholti og gefa fé til stofnunarinnar.
Trúað gæti ég því, að þjóðkirkjan íslenzka bæri gæfu til þess með hinn þjóðlega og víðsýna kirkjuhöfðingja, biskupinn, í fararbroddi, að hrinda þessari lýðháskólahugsjón í framkvæmd.