„Blik 1961/Örn Tryggvi Johnsen“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
m (Verndaði „Blik 1961/Örn Tryggvi Johnsen“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 1. febrúar 2010 kl. 20:12

Efnisyfirlit 1961



Örn Tryggvi Johnsen

F. 30. jan. 1944. - D. 9. okt. 1960

NOKKUR MINNINGARORÐ

Örn Tryggvi Johnsen.

Föstudaginn 7. okt. 1960 átti sér stað átakanlegt slys hér í Eyjum. Örn Tryggvi Johnsen, Faxastíg 4, varð fyrir voðaskoti og andaðist tveim dögum síðar.
Örn Tryggvi var sonur hjónanna Gísla Friðriks Johnsen, útgerðarmanns, og k.h. Friðbjargar Tryggvadóttur. Gísli Friðrik er sonur Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns.
Örn Tryggvi hóf nám í Gagnfræðaskólanum hér haustið 1957, þá 13 ára gamall. Á s.l. hausti settist hann í 4. bekk skólans. Hann bar þess vitni öll árin sín í skólanum, að hann var bæði vel gerður og vel upp alinn. Honum sóttist námið vel bæði vegna góðra námsgáfna og elju. Hann var vaxandi námsmaður, þegar hann féll frá.
Örn Tryggvi var jafnan hæglátur í daglegri framkomu, athugull og skýr. Samvizkusamur var hann um öll skyldustörf sín, en lét lítið yfir sér á skólabekk. Sjaldan mun hann hafa komið ólesinn í tíma í skólanum og oftast með, þegar á var leitað. Hann átti ríka fegurðarhneigð og var hið mesta snyrtimenni.
Ég varð aldrei annars var, en að Örn væri hinn reglusamasti unglingur, sem neytti hvorki tóbaks né áfengis. Fyrir nokkrum árum hefði mátt kalla það fjarstæðukennt að taka slíkt fram í stuttri minningargrein um 16 ára ungling hér í Eyjum. Nú er öldin önnur.
Að mínum dómi var Örn Tryggvi mikið og gott mannsefni, sem lífið sjálft hefði sannað okkur, ef honum hefði enzt aldur. Að missi slíkra ungmenna er þjóðarskaði, enda þótt fráfall þeirra sé vitaskuld sárast foreldrum, systkinum og öðrum nánustu ástvinum.
Við, sem nutum þess að hafa þennan efnilega ungling í skóla með okkur, ýmist sem kennarar hans eða skólafélagar, biðjum Blik að tjá foreldrum hans og öðrum nákomnum ástvinum og venzlamönnum dýpstu samúð í missi þeirra og söknuði.

Þ.Þ.V.

Minningarsjóður um Örn Tryggva Johnsen


Á s.1. vetri stofnuðu nemendur Gagnfræðaskólans minningarsjóð um samnemanda sinn, Örn Tryggva Johnsen, með kr. 3000,00 framlagi úr sjóði Málfundafélags skólans. Síðan hafa bætzt í sjóð þennan nokkrir peningar, svo að við s.1. áramót nam hann kr. 4366,75.
Minningarsjóður þessi skal vera deild í „Minningar- og styrktarsjóði nemenda Gagnfræðaskólans“, en forseti Íslands staðfesti reglugerð hans árið 1947. Meginhluta vaxta hans skal varið til styrktar ungum Eyjamönnum, sem stunda nám, er atvinnulífi Eyjabúa má verða til varanlegrar eflingar.
Við, sem stöndum að sjóði þessum og starfinu í heild, vildum óska þess, að Eyjabúar vildu minnast þessa sjóðs, þegar þeir finna hvatir til að leggja fé af mörkum til eflingar ungu fólki hér til slíks náms.