„Blik 1960/Þáttur nemenda, seinni hluti“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
m (Verndaði „Blik 1960/Þáttur nemenda, seinni hluti“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 19. janúar 2010 kl. 20:49
Þáttur nemenda
- (seinni hluti)
Þú skalt ekki stela
Það var góðviðrisdag, að mamma sagðist þurfa að fara í búðir; ég yrði því að finna kaffið til sjálf handa mér, þegar ég kæmi úr skólanum.
Ég lofaði því öllu og var hreykin af því, að mamma skyldi treysta mér til að gera þetta, þar sem ég var ekki nema 9 ára gömul.
Á leiðinni heim úr skólanum bauð ég vinkonu minni með mér heim í kaffi. Ég fann til kaffið og brauð með. Svo mundi ég eftir smákökum, sem mamma hafði bakað daginn áður. — Ég hikaði dálítið, en náði svo í þær, enda þótt mamma hefði beðið mig að láta þær kyrrar.
Þarna borðuðum við okkur svo saddar, að við gátum naumast hreyft okkur.
Svo fór vinkona mín, og ég tók af borðinu.
Þegar mér var litið ofan í kökustaukinn, hrökk ég við. Nú iðraðist ég þess, sem ég hafði gert. — Ég stakk kökustauknum upp í skáp og hljóp út til að leika mér.
En hvernig sem ég reyndi að leika mér eins og aðrir, gat ég það ekki, því að alltaf lá á huga mér þetta, sem ég hafði gert illt. Einnig var mér bumbult af kökuátinu.
Þegar ég kom inn, var mamma komin. Ég sagði henni, að ég væri svo lin, að ég yrði að fara í rúmið. Mamma var hrædd um, að ég hefði ofkælt mig úti.
Um miðja nótt vaknaði ég og mér leið illa. Ég varð að fá að létta á hjarta mínu og segja mömmu allt. Ég kallaði á mömmu. Hún kom til mín og settist hjá mér. Hún sagðist vita, af hverju mér væri svona illt.
Ekkert varð mamma vond við mig, eins og ég mátti þó búast við. Hún sagði bara, að sér þætti vænt um að heyra sannleikann. Svo sagðist hún vilja gefa mér heilræði í stuttri málsgrein: ,,Sá, sem stal, steli ekki framar.“ Mamma kyssti mig svo á kinnina og bað mig að biðja guð að hjálpa mér til þess að gera aldrei slíkt framar.
Mikið leið mér vel, eftir að ég hafði sagt henni mömmu allan sannleikann og hún hafði fyrirgefið mér. Þá var barnshjartað mitt sælt.
- Kristjana Björnsdáttir,
- Gagnfræðadeild.
- Kristjana Björnsdáttir,
- ● ● ●
Þegar ég varð hræddur
Ég er hugaður eins og ljón og hef sjaldan orðið hræddur. En eitt atvik er mér minnisstætt.
Á vertíð 1953 ætlaði ég og annar strákur niður á bryggju. Við vorum á aldrinum 7—8 ára. Við lögðum lykkju á leið okkar og fórum inn í olíuport, sem BP á, því að það var opið. Við klifruðum síðan upp á norðurvegginn á innanverðu portinu og litum á seiðin, sem syntu í þaranum í sjónum norður af. Af þessu vorum við hugteknir um stund. Brátt urðum við samt leiðir á þessu og ætluðum út úr portinu. — En viti menn? Þegar við komum að hliðinu, var búið að loka því og aflæsa. Við klifruðum upp á það að innan verðu, en þar voru járnbitar. Við treystum okkur ekki niður hliðið að utan verðu, því að þar var það lagt sléttum járnplötum.
Tókum við nú til að hrópa og kalla. En þegar enginn heyrði til okkar, hættum við því og fórum að gráta. Svo var grátið um hríð. Svo tókum við til að hrópa og kalla á nýjan leik. Allt kom það fyrir ekki. Svo hófst grátur á ný. — Loks sagði Matti, en svo hét pilturinn, sem með mér var: „Þetta gagnar ekki, við verðum að kalla hærra.“ Komum við okkur þá saman um að kalla báðir í einu. Það gerðum við svo, en sökum ekkans hrópuðum við ekki hærra báðir en öðrum var eiginlegt ógrátnum.
Til allrar hamingju kom Eiríkur Ásbjörnsson í kró sína, sem er þarna rétt hjá, til að taka á móti fiski hjá báti sínum, Emmu. Hann heyrði eitthvert hljóð eða org. Við athugun sá hann okkur, þar sem við stóðum á efsta hliðbitanum og komumst hvorki niður í portið aftur eða niður hliðið að utan.
Eiríkur kom nú og hjálpaði okkur yfir hliðið. Við bárum okkur mannalega, þegar við vorum komnir „niður á jörðina“ aftur og úr allri hættu, að okkur fannst, og kváðumst ekki hafa verið neitt hræddir. — Eiríkur kímdi, því að hann sá það auðvitað á okkur að við höfðum grátið, já orgað mikið. Augun voru grátþrútin og rómurinn sár.
Úr bryggjuferðinni varð ekki meira þann daginn.
Geta má þess, að við höfðum upphaflega afráðið að vera lengur niðri á bryggju en við höfðum leyfi til. Svo ætluðum við okkur að koma heim með glænýja ýsu í soðið, svo að við fengjum síður skammir fyrir sviksemina.
Einu sinni hef ég komið inn í þetta port síðan. Ég sat þá í olíubílnum hjá bifreiðarstjóranum. Ég skotraði augunum til járnbitans efst á hliðshurðinni, þar sem við sátum skælandi og komumst hvorki niður aftur af honum eða yfir hliðið. Það fór um mig hrollur við hugsunina.
Lengi á eftir leit ég á Eirík Ásbjörnsson sem lífgjafa minn og bjargvætt.
- Ólafur R. Eggertsson,
- 2. C.
- Ólafur R. Eggertsson,
- ● ● ●
Úr ritgerðum nemenda um:
„Bæjarlífið“
„... En hvað þýðir fyrir foreldra að halda heila fyrirlestra um spillingu og eiturlyfjaneyzlu unglinganna, ef foreldrarnir sjálfir reykja og drekka. Unglingunum dytti áreiðanlega ekki í hug öll þessi eiturlyfjaneyzla, ef þeir sæju hana ekki fyrir sér bæði innan og utan heimilanna...“
- Sigríður Helgadóttir,
- 4. bekk
- Sigríður Helgadóttir,
- ● ● ●
„... En hverskonar heimili eru það, sem reyna ekki að gæta unglingsins, meðan hann er að þroskast, heldur láta arka að auðnu um framtíð hans og líða honum að leiðast út á ógæfubrautir?
- Ágústa Pétursdóttir,
- 4. bekk.
- Ágústa Pétursdóttir,
- ● ● ●
„... Það er auðvitað gott fyrir unglingana að lyfta sér upp öðru hvoru. En fyrir sumum fer þetta út í öfgar, og þeir slæpast úti á hverju kvöldi og sækja dansleiki, jafnvel hversu ómerkilegt og auðvirðilegt skrallið er. Þetta verður að vana hjá þeim, og þeim finnst síðan, að þeir geti ekki án þessa verið. Foreldrarnir eiga sinn þátt í því, að krakkarnir verða svona. Þeir gera sér ekki nóg far um að halda í hemilinn á unglingunum. Til er það líka, að sumir foreldrar virðast fegnir að losna við unglingana út á götuna.
- Lilja Óskarsdóttir
- frá Grímsey,
- 4. bekk
- Lilja Óskarsdóttir
- ● ● ●
Heimilin hér í bæ eru upp og ofan, alveg eins og annars staðar, bæði afbragðsheimili og svo sæmileg.
Æskulýðurinn, sem elst upp á þessum heimilum, er sagður mjög spilltur; svo segir eldra fólkið. Áður á ekkert að hafa þekkzt jafn ósiðlegt og nú. Unglingarnir eru taldir miklu verri nú en áður var. Það mál styð ég alls ekki. Ég er handviss um, að þeir hafi verið misjafnir í „gamla daga“ alveg eins og nú.
Allt ætlaði af göflunum að ganga, þegar Rock'n roll kom til sögunnar. Aldrei hafði sézt neitt líkt því áður. Eldra fólkið hnussaði og sveiaði í allar áttir, en flestir voru þá búnir að gleyma sínum yngri árum, þegar þeir á morgnana örmagna af þreytu lyppuðust niður, eftir að hafa dansað „charlesstone“ alla nóttina með öllum þeim ósköpum, sem þeim dansi fylgdu. Nú er „rokkið“ að mestu gengið yfir og í þess stað dansað „cha-cha-cha“ af fullum krafti.
Já, gallabuxurnar voru eftir. Þá greip eitt æðið unglingana, nankinsbuxnaæðið. Enginn stúlka taldi sig tolla í tízkunni, nema hún gengi í bláum nankinsbuxum með breiðu uppbroti og „klauf“. — Já, æskulýðurinn er duttlungafullur, og hann, sem elst upp nú, verður ráðandi menningarinnar hér í Vestmannaeyjum eftir víst árabil. Vonandi rís hann undir ábyrgð sinni.
- Helga Helgadóttir,
- 4. bekk.
- Helga Helgadóttir,
- ● ● ●
Í landlegum á vertíð er þessi bær eins og iðandi stórborg úti í heimi. Svo mikil virðist fólksmergðin. Innan um þennan hóp aðkomufólks er óþjóðarlýður, enda þótt meiri hlutinn sé gott og siðmenntað fólk. Allur þessi iðandi og kiðandi fólksstraumur dregur að sér forvitni æskulýðsins og ginnir hann burt frá heimilunum. Það er von, að æskufólk þrái að vera með í öllu þessu iðandi lífi. En þetta fjör og líf er æði oft miður heilbrigt unglingum um og yfir fermingu.
Aftur á móti er þetta gagnstætt á sumrin. Þá er Vestmannaeyjakaupstaður friðsamur bær. Þá notar fólk tímann til að fara í stutt ferðalög til meginlandsins eða út fyrir alla landssteina.
Ég hygg að fullyrða megi, að Vestmannaeyingar sjálfir séu mannaðir eða menntir, þrátt fyrir þann svip, sem yfir bænum er á vertíðum.
- Brynja Hlíðar,
- 4. bekk.
- Brynja Hlíðar,
- ● ● ●
Fólk flykkist til Eyja á vertíð til að vinna, og svo til að svalla. Með sanni má segja, að þar fer misjafn sauður í mörgu fé. Þessi mikli straumur aðkomufólks hefur í för með sér mikil áhrif á bæjarlífið. Oft taka ungir Eyjaskeggjar ýmislegt upp eftir þessu lakara aðkomufólki, t.d. að láta eins og vitfirringar á götum bæjarins, sækja hverja dansskemmtun, drekka, reykja og fleira, sem horfir til ófagnaðar. Þessar eftirhermur eru oft leiknar til þess að reyna að sýnast meiri í augum aðkomufólksins. Þetta að sýnast, eru oft listir hinna vitgrönnu manna.
- Atli Einarsson,
- 4. bekk
- Atli Einarsson,
- ● ● ●
Í endaðan janúar eykst hér mjög ölvun og allskyns drabb á dansleikjum og óregla færist í heild mjög í vöxt. En þó að aðkomufólkið hafi þetta í för með sér, þá er það mín skoðun að yfirgnæfandi meiri hluti þess sé ágætisfólk, sem ekki á nokkurn þátt í slarki því, sem hér er á veturna, heldur mikill minnihluti þess. — Á veturna eru opinberar skemmtanir hér oft mjög lélegar, bíó og dansleikir, og svo höfum við, sem göngum í Gagnfræðaskólann, okkar skóladansleiki, en hvert eigum við að sækja skemmtanir, þegar við ljúkum skólagöngu í janúarlokin. Eiga þá skrílböllin og áfengisskröllin að taka við okkur?
- Andri Hrólfsson,
- 4. bekk.
- Andri Hrólfsson,
Eggjaránið
Það var fagran vormorgun, að sólin sendi geisla sína yfir sveitina fögru. Hvergi sást skýhnoðri á lofti. Ekkert hljóð heyrðist nema í fuglunum. Þeir voru allir nýkomnir heim frá dvöl sinni í fjarlægum löndum vetrarmánuðina og nú teknir til að verpa. Spói einn var nýorpinn og lá á eggjum sínum. Hann dró kollinn undan vængbarðinu, þegar sólin fór hlýjum geislum sínum um hann.
Eftir dálitla stund hrökk hann upp við það, að hann heyrði einhvern koma. Það var lítill drengur, sem nálgðist hreiðrið. Hann kom hlaupandi. — Spóinn var hræddur en lá þó kyrr á eggjunum í þeirri von, að drengurinn sæi hann ekki.
Nei, þetta vogaði hann ekki lengur. Hann flögraði af eggjunum, en þó ekki langt, því að hann var svo hræddur um eggin sín.
Drengnum brá, þegar spóinn skrapp rétt undan fótunum á honum. En svo áttaði hann sig fljótlega. ,,En hvað ég var heppinn,“ hugsaði hann, „þarna er spóahreiður með fjórum eggjum í.“ Hann beygði sig niður að hreiðrinu, skoðaði eggin vandlega, tók þau upp og lét þau í húfuna sína og fór með þau.
Þegar drengurinn var kominn spölkorn frá hreiðrinu, leit hann til baka. Þá sá hann, hvar veslings spóinn skreiddist að tómri hreiðurkörfunni og lagðist í hana. En drengurinn hélt áfram heim. —
Dagurinn var á enda og drengurinn hafði leikið sér um daginn, en þó var hugsunin um eggin, sem hann rændi, efst í huga hans. Drengurinn háttaði og lagðist til svefns, en svefninn vildi ekki koma. Hann bylti sér í rúminu, sneri sér ýmist á hægri eða vinstri hlið og reyndi að gleyma tilverunni, en allt kom fyrir ekki. Alltaf fannst drengnum, að hann sæi eggjamömmu sitja hnýpna og sorgmædda við hreiðrið sitt.
Iðrunarkenndirnar sóttu nú æ meir á drenginn og þær voru bæði sárar og harmþrungnar. Loks blundaði drengurinn andartak. Brátt hrökk hann upp af svefninum. Hann hafði dreymt, að spóinn kom til hans og spurði: „Hvar eru eggin mín?“
Nú gat drengurinn ekki byrgt grátinn lengur. Við grátinn vaknaði mamma drengsins og spurði undrandi, hvað gengi að honum. Drengurinn sagði nú móður sinni, hvað að sér amaði. Vildi hann helzt fara með eggin og láta þau aftur í hreiðrið. „Það þýðir ekki neitt,“ sagði mamma hans. „Þú skalt heldur strengja þess heit, að taka aldrei egg frá nokkrum fugli framar.“ Því hét drengurinn. Síðan róaðist hann og sofnaði.
- ● ● ●
Í sveit
Mjög margir krakkar í Eyjum fara einhvern tíma í sveit. Ég minnist þess, er ég var 9 ára og fór mína fyrstu reisu út á landsbyggðina. Skipið skilaði mér á Hornafjörð, en þar átti ég að vera um sumarið. — Ekki man ég glöggt, hvað bærinn hét, en með sjálfum mér kallaði ég hann aldrei annað en Skollastaði, því að mér leiddist þar mjög mikið. Kerlingin á bænum tönnlaðist sífellt á því, að nú færu beljurnar út yfir á eða inn fyrir dal. Aldrei voru þær, þar sem þær áttu að vera. Karlinn var á látlausum þingum eða fundum um alla sveit. A.m.k. sá ég hann helzt aldrei. Krakkagríslingarnir voru skítugir og leiðinlegir, enda gerðu þeir ekki annað en að moka flórinn.
Eitt kvöld í ausandi slagviðri var ég rekinn til að ná í „blessaðar kussurnar“, eins og kerlingin kallaði þær. Ég bað hana að lofa mér að fara í meira af fötum, áður en ég legði af stað til að sækja kýrnar. Hún jánkaði því og sagði mér að vera fljótur. Ég fór inn í herbergið, þar sem ég svaf, og opnaði fátaskápinn. Þarna héngu sparifötin og brostu við mér eggjandi. Í brjóstvasanum á jakkanum var aleiga mín, tveir rennsléttir hundraðkallar.
Ég snaraði mér í fínu fötin, fór í regnkápu utan yfir og labbaði út. Ég hikaði á hlaðinu, en tók síðan stefnu beint á kauptúnið. Ég hafði sannfrétt, að Esja væri á leið suður. Ég stefndi á ljósin og kom á bryggjuna á Höfn, þegar skammt var liðið nætur. — Jú, jú, Esja hafði komið kl. 8 um kvöldið. Ég fór strax um borð og fékk mér far til Eyja á 2. farrými.
Lítið veit ég hvernig ferðin gekk, því að ég svaf alla leiðina. En þegar ég kom heim, var ég hýddur.
- Kjartan Tómasson,
- 2. B.
- Kjartan Tómasson,