„Blik 1973/Markverðir viðburðir“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
m (Verndaði „Blik 1973/Markverðir viðburðir“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 12. janúar 2010 kl. 10:25
Markverðir viðburðir
Samkór Vestmannaeyja og
Guðni Hermansen geta sér og
bæjarfélagi sínu góðan orðstír á erlendri grund.
I. Samkór Vestmannaeyja getur sér góðan orðstír
Segja má með sanni, að merkisviðburður hafi átt sér stað í sögu byggðarlagsins okkar, þegar flokkur Eyjafólks tók sér ferð á hendur til Færeyja til þess að sýna þar óperettuna Meyjarskemmuna eftir Franz Schubert.
Samkór Vestmannaeyja hafði, með frumkvæði og forustu frú Nönnu Egils Björnsson, haft sýningar á söngleik þessum í Leikhúsi Vestmannaeyjakaupstaðar við Heiðarveg veturinn 1972 við góða aðsókn og ágæta dóma.
Í júnímánuði í fyrrasumar tók svo Samkórsfólkið sér ferð á hendur til Færeyja til þess að sýna söngleik þennan þar. Leikarar voru nánast 40 manns með aðstoðarfólki, og 30 manna hópur, vinir og vandamenn, slógust með í förina.
Ferðast var með fánaskipi íslenzka millilandaflotans, Gullfossi, milli landanna.
Söngleikurinn var fyrst sýndur í Þórshöfn í Færeyjum á þjóðhátíðardaginn 17. júní við mjög mikla aðsókn og hrifningu leikhúsgesta.
Það er ánægjulegt og býsna athyglisvert að lesa færeysku blöðin, sem greina frá heimsókn Vestmannaeyjafólksins, komu þeirra til landsins og sýningar á þessu kunna listaverki.
Færeyska blaðið Dimmalætting kemst svo að orði m.a.: „Íslenzka söngfólkið túlkaði vel kenndirnar í hinum mörgu söngvum Meyjarskemmunnar. Þó að móðurmál þessara tveggja frændþjóða sé líkt á pappírnum, er framburður íslenzkunnar Færeyingum framandi. En hér kom leikskráin að miklu liði, þar sem efni hvers hlutverks var skýrt í stuttu máli.“
Dimmalætting fullyrðir, að margir leikendurnir hafi skarað fram úr í hlutverkum sínum, og verði leikurinn í heild hinum mörgu færeysku leikhúsgestum ógleymanlegur.
Dimmalætting klykkir út með þessum orðum: „Mestan heiðurinn af þessari sýningu hefur þó Nanna Egils Björnsson, sem af þekkingu sinni og reynslu bæði heima og erlendis hefur mótað og skapað þetta menningarstarf Eyjafólks af mikilli kostgæfni og mikilhæfri forustu sinni.
Færeyska blaðið Tingakrossur tekur einna dýpst í árinni um sýningu Eyjafólks á Meyjarskemmunni. Blaðið segir, að vitað hafi verið, að Íslendingar væru söngelsk þjóð, en að finnast skuli svona margir góðir einsöngvarar í jafnlitlu bæjarfélagi og Vestmannaeyjakaupstaður er og koma fram í Meyjarskemmunni, þess hefði Færeyingar ekki getað vænzt. Tingakrossur segir jafnframt, að hinir býsna mörgu leikhúsgestir hafi undrast leiklist þessa fólks, ekki sízt þegar haft er í huga, að leikararnir eru aðeins „venjulegt fólk“, en ekki vanir og þjálfaðir leikarar — aðeins fólk, sem rækir venjuleg dagleg störf eins og allir aðrir í Vestmannaeyjakaupstað. Eftir dagleg störf vinnur þetta fólk svo að þessum áhugamálum sínum. „Leikur Vestmannaeyinga er framúrskarandi,“ segir blaðið, „svo að leikarar okkar geta tekið þá til fyrirmyndar.“
Í tilefni þessarar markverðu heimsóknar Samkórs Vestmannaeyja til Færeyja ræðir færeyska Dagblaðið um hina góðu og mikilvægu samvinnu frændþjóðanna, hinnar færeysku og þeirrar íslenzku, og bendir á það með hlýjum orðum, að Vestmannaeyingar hafi með þessari heimsókn sinni lagt sitt fram til að knýta traustar þau frændsemis- og menningarlegu bönd, sem okkur ber öllum að rækja og treysta.
Þá benda færeysku blaðamennirnir á þá staðreynd, að þessi leiksýning Samkórs Vestmannaeyja í Færeyjum sé alveg sérstaklega sögulegur viðburður þar í landi sökum þess, að þetta sé í fyrsta sinni í sögu færeysku þjóðarinnar, að óperetta hefur verið sungin og sýnd þar í landi. Þarna voru því ruddar markverðar brautir.
Síðast segir Dagblaðið og tekur undir með blaðinu Tingakrossur: „Við undrumst, að frú Nanna Egils Björnsson skyldi geta fundið svo margar góðar söngraddir í svo fámennu bæjarfélagi sem Vestmannaeyjakaupstaður er.“
Alls munu sýningar á Meyjarskemmunni hafa orðið fjórar í Færeyjum.
Fararstjóri í þessari sögufrægu ferð var Eyjólfur Pálsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans í kaupstaðnum.
Á s.l. hausti sýndi Samkór Vestmannaeyja Meyjarskemmuna á Seltjarnarnesi við mjög lofsamlega dóma.
Þrír hljóðfæraleikarar aðstoða við sönginn í óperettunni Meyjarskemmunni. Frúin sjálf leikur á píanó, Björn Sv. Björnsson, eiginmaður hennar, leikur á fiðlu og Gísli Bryngeirsson frá Hvassafelli leikur á klarinett. — (Á dönsku heitir óperettan Jomfruburet. Færeyingar bjuggu til nafnið á óperettunni dagana sem kórinn dvaldist þar. Þeir vildu kalla hana á hreinu færeysku máli Moyggjarburet).
II. Málverkasýning Guðna Hermansen í Færeyjum
En meira vildum við sagt hafa um Færeyjaferð þessa.
Við fluttum þarna út tvíþætta vestmanneyíska menningu, eins og rogginn eða kotroskinn Eyjaskeggi komst að orði í eyru þess, sem þetta skrifar, þegar hann ræddi um hið sögulega ferðalag. Og þetta eru sannyrði, því að Guðni listmálari Hermansen efndi til Færeyjarferðar með sama skipi um leið og Samkórinn og hélt sýningu á 35 málverkum sínum í Listaskálanum í Þórshöfn.
Þessi málverkasýning Guðna var einnig opnuð almenningi á þjóðhátíðardaginn.
Færeysku blöðin ljúka upp einum munni um ágæti sýningarinnar og ræða list Guðna á athyglisverðan hátt með völdum orðum. Þau segja listamanninn íslenzka andríkan og innblásinn listmálara, þar sem innblástur eða andagift hans í veruleika og ímyndunarheimi, í hinu ómeðvitaða sálarlífi („surrealismi“), birtist í litum. En út af þessari list hans bregði þó, þegar hann heillast af náttúrufyrirbrigðum svo sem Surtsey, björgunum í Vestmannaeyjum og fleira, sem gagntekur hugsun hans og sálarlíf í það og það skiptið. „List Guðna, sem hann er þjálfaður í,“ segja færeyskir blaðamenn, „er lítið þekkt í Færeyjum
(þ.e. súrrealisminn). Þessi list hans er fegurri en við eigum að venjast,“ bæta þeir við.
Klukkan 3 e.h. laugardaginn 17. júní opnaði borgarstjórinn í Þórshöfn,
P. Christiansen málverkasýningu Guðna með hlýlegri ræðu í garð Íslendinga.
Við athöfn þessa voru 300 manns. Í ræðu sinni tók borgarstjórinn það fram, að heimsókn Guðna Hermansen með listaverk sín til Færeyja væri fyrsta heimsókn íslenzks listmálara með málverk sín til landsins og þess vegna sérlega sögulegur viðburður. Borgarstjórinn lét þá einlægu von sína í ljós með áherzlu, að þessi sýning Guðna Hermansen yrði aðeins upphaf að öðru meira á þessu sviði, — tíðum heimsóknum íslenzkra listamanna til Færeyja á sem flestum sviðum með listir sínar til kynningar. Hér var sem sé Vestmanneyingurinn Guðni Hermansen brautryðjandi eins og Samkór Vestmannaeyja á sínu sviði.
Mesta og alveg sérstaklega hrifningu virtist vekja með Færeyingum málverkið Barbara, sem er aðalpersónan í skáldsögunni nafnkunnu Barböru, eftir færeyska rithöfundinn Jörgen Frantz Jacobsen.
Ársrit Vestmannaeyja, Blik, sér mikla ástæðu til að færa öllu þessu listafólki okkar og samfélagsþegnum alúðarþakkir fyrir strit og starf og þá mikilvægu dirfsku að auglýsa svo áþreifanlega vestmanneyíska menningu út á við með svo heillaríkum árangri, sem raun ber vitni um.
Einhvern tíma hefði það þótt fjarstæðukenndur spádómur, að Eyjabúar ættu það eftir að verða brautryðjendur á sviði lista og menningar. Ég skildi þó og vissi ef til vill manna bezt vegna skólastarfs míns, að atorkan og gáfurnar bærðust innra með fólkinu unga, en sýna þarf þeim eiginleikum sóma, hlynna að þeim og glæða, ef þeir eiga að notast, njóta sín, koma fram í dagsljósið til heilla og hamingju eigendunum sjálfum, og samborgurum þeirra og komandi kynslóðum.
Við sýnum svo nokkrar myndir hér frá þessum menningarlegu viðburðum.
Brúðkaupið í byrjun II. þáttar.
Talið frá vinstri: Þorsteinn Eyjólfsson (Fianz Shober barón, skáld), Áki Haraldsson (Christian Tschöll, hirðglermeistari), Jóhann Friðfinnsson (Johann Michael Vogl, óperusöngvari), Þórhildur Óskarsdóttir (Hanna Tschöll), Reynir Guðsteinsson (Franz Schubert, tónskáld), Ágústa Guðmundsdóttir (Hilda Tscöll), Hörður Runólfsson (Andreas Bruneder, söðlameistari), Dagfríður Finnsdóttir (Frú María Tschöll), Trausti Eyjólfsson (Ferdinand Bimder, póstafgreiðslumaður), Birna Jóhannesdóttir (Heiða Tscöll). -
Brúðkaupsgestir sitjandi frá vinstri: Gyða Arnórsdóttir, Ólöf Magnúsdóttir, Unnur Ketilsdóttir, María Vilhjálmsdóttir, Valgerður Kristjánsdóttir og Halla Bergsteinsdóttir. — Brúðkaupsgestir standandi frá vinstri: Hólmfríður Ólafsdóttir, Ásmundur Jónsson, Grímur Þórðarson, Jónas Guðmundsson, Hávarður Sigurðsson og Hjálmar Eiðsson.
Kórinn í byrjun III. þáttar.
Talið frá vinstri: Halla Bergsteinsdóttir, Hjálmar Eiðsson, Hávarður Sigurðsson, Hólmfríður Ólafsdóttir, Grímur Þórðarson, Jóhann Friðfinnsson, Valgerður Kristjánsdóttir, Unnur Ketilsdóttir, Dagfríður Finnsdóttir, Jónas Guðmundsson, Ásmundur Jónsson, Kristín Georgsdóttir, Ásthildur Sigurðardóttir, Birna Jóhannesdóttir, María Vilhjálmsdóttir, Hörður Runólfsson, Trausti Eyjólfsson, en bak við hann er Sigurjón Guðmundsson.
Lokasöngur III. þáttar, og jafnframt Meyjarskemmunnar.
Talið frá vinstri: Ágústa Guðmundsdóttir, Hörður Runólfsson, Birna Jóhannesdóttir, Trausti Eyjólfsson, Þórhildur Óskarsdóttir, Sigurjón Guðmundsson (Nowotny, leynilögreglumaður), Gyða Arnórsdóttir, Þorsteinn Eyjólfsson, Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Þorsteinsdóttir (Demoisella Giuditta Grisi, óperusöngkona), Áki Haraldsson, Reynir Guðsteinsson, Dagfríður Finnsdóttir, María Vilhjálmsdóttir, Jóhann Friðfinnsson, Hávarður Sigurðsson, Ólöf Magnúsdóttir, Jónas Guðmundsson og Hólmfríður Ólafsdóttir.
Leik- og hljómlistarstjóri, frú Nanna Egils Björnsson, sést hér taka við blómum frá Bœjarstjórn Vestmannaeyja eftir frumsýningu á Meyjarskemmunni eftir Schubert-Beté. Lengst til vinstri er Hörður Runólfsson, en hœgra megin eru leikararnir Trausti Eyjólfsson og Þórhildur Óskarsdóttir. — Þorsteinn Eyjólfsson gaf Bliki skýringar við myndirnar. Þökk sé honum.
Guðni Hermansen, listmálari, við listsköpunina.
Hluti af listsýningarsalnum í Þórshöfn, þar sem Guðni listmálari sýndi list sína.