„Blik 1939, 6. tbl./Andlit í skóginum“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: Þorsteinn Þ. Víglundsson: '''Andlit í skóginum.''' Við erum stödd í Hallslaut í Þjórsárdal, kennarar og nemendur, morguninn 19. júlí s.l.<br> Ég vakna klukkan 4 og g...)
 
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 10. október 2009 kl. 17:13

Þorsteinn Þ. Víglundsson:

Andlit í skóginum.

Við erum stödd í Hallslaut í Þjórsárdal, kennarar og nemendur, morguninn 19. júlí s.l.
Ég vakna klukkan 4 og get ekki fest svefn aftur. „Hrotið er hátt í hverri kró" í hinum tjöldunum.
Daginn áður höfðum við ferðazt mikið. Um morguninn ókum við upp að Gjá. Þaðan gengum við yfir Stangarfjall að Háafossi eða Háufossum, því að þeir eru tveir, og þaðan út Fossárdal, út að bifreiðinni, sem beið okkar spölkorn utan við Skeiðamannahólma. Við vorum þreytt um kvöldið eftir gönguna og allt ferðalagið. Það var því engin furða, þótt fast væri sofið. En ég sef helzt aldrei vel á ferðalögum og sízt seinni hluta nætur.
Í dag er ferðinni heitið upp að Hjálparfossi og Skeljastöðum, þar sem talið er, að Hjalti Skeggjason hafi búið. Þar er verið að grafa upp kirkjugarðinn á þessum forna kirkjustað.
Ég skreiðist út úr tjaldinu. Sólin er fyrir nokkru komin upp og gyllir fjöll og hálsa, skóginn og auðnirnar. Aðeins nokkrir skýhnoðrar eru á lofti. Allt er hljótt og kyrrt. Jafnvel seytlið í Sandánni við hliðina á mér er vart heyranlegt. — Einkennilegt umhverfi! Annars vegar skógurinn, þróttmikill og ilmandi. — Þar vaxa jarðarber í skjóli trjánna. — Hins vegar eyðiflákarnir, þar sem öfl eyðileggingarinnar hafa farið um hinni svörtu hendi.
Við höfum tjaldað hér á mörkum skógarilms og auðnar. Og einhvers staðar í útjaðri þessarar auðnar, við rætur Skeljafells, liggja nú uppgrafnar beinagrindur fornra dalbúa. Mér er þetta ríkt í huga.
Svo dregur skógurinn í hlíðinni handan við ána að sér athygli mína. Skuggar trjánna eru enn langir, en styttast smám saman við hækkandi sól.
Ég leggst niður á árbakkann til þess að njóta betur áhrifa umhverfisins.
Einkennilegur skýhnoðri! — Lögun hans minnir á unglingsandlit, sem stækkar og breytist. — Í skóginum koma einnig fram andlit, — ungleg, ellileg, fögur, grett. Þessi stund minnir á kennslustund, þegar kennaranum gefst aðstaða og næði til að virða fyrir sér andlit og svip nemendanna. Svo er margt sinnið sem skinnið, og svo er um andlitin.
Þarna birtist göfugmannlegt öldungsandlit. Svipurinn er hreinn og mildur. Göfgi og tign skín af ásjónunni. Þetta er andlitssvipur hins ræktaða manns, sem glætt hefir guðseðli sitt og öðlazt þroska til að líta á breyskleika meðbræðra sinna í réttu ljósi, — ljósi samúðar og skilnings. En hvað okkur líður vel í návist þeirra manna. Friður fyllir sál og sinni. Við stöndum við uppsprettu algæzkunnar, því að þar sem góðir menn fara eru guðsvegir.
Nokkru ofar í skóginum birtist andlit gamallar konu. „Brýr og kinnar voru sem bókfell margra alda; þær birtu langa sögu um marga daga og kalda“, eins og Guðm. Friðjónsson kemst svo vel að orði í kvæðinu sínu ágæta, „Ekkjan við ána“. — Það er svipur hinna liðnu alda — ævi íslenzku þjóðarinnar. — Íslenzka móðirin hefir jafnan með hetjuhug borið sinn hluta af hita og þunga dagsins, og rúnir áhyggna og andstreymis hefir tíminn rist í andlit hennar. Tignum þær rúnir. Undir þeim er frið að finna. Þar býr mildi móðurhjartans, — samúð með öllu, sem lifir og líður.
Nokkru norðar sé ég athyglisvert andlit. Drættirnir eru skarpir, fastir og ákveðnir. Þeir bera vott um vilja, einbeittni og þrótt. Er þetta ekki andlit atorkumannsins, — mannsins, sem er lífið og sálin í athafnalífi þjóðarinnar og færir björg í bú?
Neðst í skóginum birtast nokkur andlit. Eitt er þeirra skýrast. Drættirnir eru slapir og svipurinn skuggalegur. Er þetta andlit drykkju- eða glæpamannsins? — Hugurinn hvarflar suður að Litla-Hrauni. Þar fórum við hjá fyrir þrem dögum. Við námum staðar við hliðið á girðingunni með fram þjóðveginum og virtum fyrir okkur þetta fangahæli. Járngrindur fyrir gluggum og dyrum! Tákn hins glataða frelsis.
Ég áræði að ganga heim að húsinu. Vil ná tali af forstöðumanninum. Ég staðnæmist fyrir framan hinar traustlegu járngrindur fyrir dyrunum og litast um. Engan mann er að sjá. Þarna kemur í ljós handleggur út á milli járnrimlanna fyrir næsta kjallaraglugga! „Góðan daginn!“ Ekkert svar. En skuggalegt andlit birtist — þrjózkulegt, auðnuleysislegt. — „Góðan daginn!“ endurtek ég. „Hvaðan ert þú?“ er spurt rámum rómi. „Frá Vestmannaeyjum. Gæti ég náð tali af forstöðumanninum?“ „Er langt síðan þá komst úr Eyjum?“ „Í gær. Er forstöðumaðurinn viðlátinn?“ Í þeirri andránni koma nokkrir ungir menn fram að dyrajárngrindunum. Ég ber upp erindi mitt við þá, að finna forstöðumanninn. Brátt kemur fram fulltrúi hans, því að hann sjálfur er ekki heima. Fulltrúinn handleikur stóra lyklakippu, lýkur upp járngrindunum, snarast út fyrir og aflæsir þeim í skyndi. Síðan gengur hann með mér út að girðingunni, þar sem hópurinn bíður okkar. Við fáum leyfi til að setja fram nokkrar spurningar um rekstur hælisins og fangana þar. Þeim er svarað vingjarnlega og greiðlega. Svo er þessari einkennilegu heimsókn lokið. En svipir og drættir andlitanna, sem ég sá innan við járngrindurnar, standa mér fyrir hugskotssjónum. Þeir seiða fram sýnir. Allt ungir menn, fangarnir, — innan við þrítugt. Sviptir frelsi! — Glatað mannorð! — Vonarpeningur þjóðfélagsins! — Og orsökin? Drykkjuskapur og afleiðingar hans; alls konar ofbeldis- og skemmdarverk unnin í ölæði, þjófnaðir og aðrir glæpir.
„Sjálfskaparvíti“! — Aðeins þetta eina orð sagði samkennari minn, þegar við höfðum kvatt fulltrúann. Þetta eina orð vakti til umhugsunar. Við gengum þegjandi um stund. Okkur var víst öllum hið sama í huga, hugsunin um þessa sérstæðu stofnun, þessa ungu ógæfumenn og orsökina að óláni þeirra. Sjálfskaparvíti! Vissulega er drykkjuskapurinn og afleiðingar hans sjálfskaparvíti mjög margra æskumanna, en ekki nærri allra. Við, hinir fullorðnu, eigum drjúgan þátt í því, með neyzlu okkar á eiturlyfjum og hvernig við neytum þeirra, að draga úr eða jafnvel eyða með öllu mótstöðuafl og baráttuhug æskunnar gegn eiturlyfjaplágunni, áfengis- og tóbaksnautn­inni, og skapa æskulýðnum þannig nautnavítið með okkar eigin lífi og fordæmi.
Mér flýgur í hug, að eitt sinn átti ég alvarlegt, en þó vinsamlegt, tal við ungan mann, sem dvaldi um skeið fangi á Litla-Hrauni sökum alls konar misgjörða í ölæði. Það var í fyrstu erfitt, að fá hann til að ræða málið alvarlega og í einlægni. Sínar innri hugsanir huldi hann í fyrstu léttúðarhjúp, þegar þetta mál bar á góma. En það kom í ljós, að undir hjúpnum þeim sló blæðandi hjarta, sem kvaldist af þrá eftir styrk, eftir samúð og skilningi, — eftir horfnum manndómi, sem þorrið hafði að sama skapi sem tóbaks- og áfengisástríðan óx. Nú var hann sannarlega þræll ástríðanna. Og fyrsta vísirinn að óláni sínu taldi hann vera vindlingareykingar, sem hann lærði af slæmum félaga á fermingaraldri. Þá var fyrsta varnar„línan“ brotin og eftir það brast hver mótstöðuviðleitnin af annarri. Hverjir eru samúðarverðir og hjálparþurfi, ef eigi þeir æskumenn, sem syrgja horfinn manndóm og mannorð, og kveljast í hjarta sínu yfir þeirri hugsun, að vera orðnir stjórnlaust rekald á hafi mannlífsins, þjóðfélagsheildinni til ama og tjóns. Þessum ungu

mönnum getum við hjálpað, ef við aðeins viljum einhverju fyrir þá fórna, veita þeim rétta aðhlynning og lækning. Þeir eru sjúklingar, sem þurfa sitt eigið sjúkrahús og síðan skóla.
Nú birtast mér andlit nokkurra þeirra neðst í skóginum milli birkitrjánna, — þau, sem ég hafði áður séð innan við járngrindur. Var þetta dálítið tákn þeirra breytinga, sem verða munu í þjóðlífi og þjóðaruppeldi okkar Íslendinga á komandi tímum, að hið ólífræna og óheilbrigða í andlegu lífi okkar og skólauppeldi breytist til batnaðar, verði lífrænt og heilbrigt? — Járngrindur þar, en birkitré hér. En andlitin? Hafa þau breytzt eða birtast nú önnur ný? — Já, vissulega. Hver eru þessi andlit, sem nú koma í ljós? — Það eru andlit unglinganna, sem hér eru með okkur á ferðalaginu og njóta drauma sinna í tjöldunum. — En hvað þessi hraustlegu og glaðlegu andlit falla vel við umgjörð sína og umhverfi. Óspilltur, glaður og hraustur æskulýðurinn úti í ósnortinni náttúrunni! Það vekur heillandi hugsanir. — Svo syrtir í álinn. Hið spillta mannlíf drepur hendi við hvoru tveggja. Hönd hinnar sönnu menningar er að vísu sterk og megnar að lyfta, móta og laga, en fingraför spillingarinnar valda oft rotblettum og sárum, sem seint gróa.
Þytur — sólskríkja!
Hafði ég gleymt mér andartak?

Okt. 1939.