„Hans Klog“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
m (Verndaði „Hans Klog“ ([edit=sysop] (ótiltekinn))) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 3. mars 2014 kl. 20:11
Hans Jensen Klog kaupmaður kom til Vestmannaeyja um 1750 og varð þá verzlunarþjónn, en var orðinn forstjóri konungsverzlunarinnar í Eyjum í lok einokunartímabilsins 1787. Afnám einokunarinnar var tilkynnt með auglýsingu 18. ágúst 1786 og málið afgreitt til fullnustu með tilskipun 13. júní 1787 og skyldi gilda frá 1. janúar 1788.
Klog keypti konungsverzlunina 1788, líklega snemma árs, því að 8. maí það ár skrifa yfirvöld í Danmörku um afhendingu Garðsverzlunar til Hans Klog. Garðsverzlun eða hinn danski Garður voru húsin kölluð, því að þau voru byggð innan garðs í Skanzinum. Með kaupunum fylgdi þilskipið Seien en konungsbátarnir voru seldir sér. Lóðin var undanskilin og taldist eign konungs eins og aðrar lóðir og lönd í Eyjum.
Klog var mikill athafnamaður, hafði búskap bæði á Kornhól og Miðhúsum og voru þá 27 manns í heimili hjá honum um skeið. Erfiðleikar, fiskleysi, harðindi og fólksflótti frá Eyjum komu honum í þrot. Verzlunin var tekin af honum og eignir hans seldar 1798, en hann flutti til Danmerkur. Verzlunin var seld árið eftir þeim Westy Petreus og Peter Ludvig Svane. Þeir höfðu einnig keypt Innréttingarnar og verzlunina í Reykjavík og Keflavík.
Sagt er, að hann hafi alið upp og kostað til náms sr. Pál skálda Jónsson og ef til vill einnig alið upp Þuríði systur hans, en Jón Eyjólfsson faðir þeirra hafði verið undirmaður hans. Var Hans Klog svaramaður Þuríðar, er hún giftist.
Hans Klog var höfðingi í lund og kom það líka fram við bágstatt hrakningsfólk af fimm skipum úr Mýrdal 1775, alls 90 manns.
Sr. Jón Oddsson orti um þá atburði:
- Viðtektir góðar veitti þjáðum
- Vestmannaeyja þjóðin flest
- gáfu þeim kost með kærleiksdáðum,
- kaupmaður Hans þó allra bezt,
- nákvæma sýndi hjúkrun hann
- hverjum, sem til hans koma vann.
Kirkjumál
Hans Klog átti frumkvæði að því 1771, að byggð yrði kirkja sú, sem enn stendur í Eyjum. Skrifaði hann yfirvöldum um málið og fékk góðar undirtektir. Var kirkjan fullbúin 1778 eða 1780. Gaf hann kirkjunni tvo altarisstjaka 1766.
Fjölskylda
Kona hans var Abelone Klog, fædd Holm og áttu þau þrjú börn. Þau voru:
- Tómas Klog, sem varð landlæknir að Nesi við Seltjörn, fæddur 15. apríl 1768 í Eyjum og lézt 31. janúar 1824 í Nyköbing á Falstri. Hann var skipaður landlæknir 25. maí 1804 og veitt lausn 23. júní 1815.
- Jens verzlunarstjóri í Eyjum (1801), f. 1778.
- Anna Soffía.
Heimildir
- Upphaflega grein skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson
- Jóhann Gunnar Ólafsson: Verzlunarstaðir í Vestmannaeyjum. Gamalt og nýtt, 1949.
- Jóhann Gunnar Ólafsson: Landakirkja í Vestmannaeyjum. Blik, 1957.
- Læknar á Íslandi. Reykjavík: Þjóðsaga, 2000.
- Manntal 1801.
- Sigfús M. Johnsen. Saga Vestmannaeyja. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja H.F., 1946.
- Þorkell Jóhannesson. Saga Íslendinga VII. Reykjavík: Menntamálaráð og Þjóðvinafélag, 1950.