„Sveinn Jónsson (Sveinsstöðum)“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
m (Verndaði „Sveinn Jónsson (Sveinsstöðum)“ ([Breyta=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn) [Færa=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn))) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 8. desember 2022 kl. 12:04
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Sveinn Jónsson“
Sveinn Jónsson trésmiður fæddist að Steinum undir Eyjafjöllum 19. april 1862 og lést 13. maí 1947.
Sveinn byggði Sveinsstaði árið 1893.
Jón Valur Jensson tók saman eftirfarandi grein og birti á Garður.is.
Grein hans er hér birt orðrétt:
Sveinn Jónsson var fæddur 19. apríl 1862 á Steinum undir Eyjafjöllum, sonur Jóns bónda á Steinum og síðar á Leirum, f. 13. júlí 1837, d. 24. febr. 1894, Helgasonar á Kálfhaga í Flóa, Guðmundssonar, og konu hans (20. okt. 1858) Guðrúnar, f. 1837, d. 13. okt. 1896, Sveinsdóttur frá Skógum, Ísleifssonar í Ytri-Skógum, Jónssonar ríkisbónda og lögréttumanns í Selkoti undir Eyjafjöllum, Ísleifssonar á Lambafelli, Magnússonar. Sveinn ólst upp hjá foreldrum sínum á Steinum og næsta bæ, Leirum, unz hann var 12 ára, er hann missti föður sinn, en síðan hjá móðursystur sinni á Steinum. 14 ára hóf hann róðra í Vestmannaeyjum, en hélt til Reykjavíkur 1883 til að læra trésmíði. "Þá var eg 21 árs að aldri; hafði ekki farið neitt að heiman, utan róið sjö vetrarvertíðir í Vestmannaeyjum, enda hafði eg ekkert lært nema að slá og róa," sagði hann síðar. Lærði hann trésmíðina hjá Þorkatli Gíslasyni og fekk sveinsbréf 1886. Fluttist svo til Vestmannaeyja 1887 og starfaði þar sem trésmiður í 11 ár, eignaðist þar konu og átti með henni sín börn, en var upp frá því trésmíðameistari í Reykjavík frá 1898. Sumarið áður en hann fluttist þangað alkominn var hann þar við smíðar á barnaskólahúsinu. Hann var tvívegis við smíðar á Austfjörðum, Eskifirði, og einnig í Vík í Mýrdal. Varð hann yfirsmiður 40 húsa, m.a. húss Sturlu kaupmanns Jónssonar, Hallbergs og Halldórs Jónssonar bankagjaldkera o.m.fl., en þekktastur er hann fyrir þátt sinn í Völundarfélaginu, sem m.a. byggði Íslandsbanka, Gutenberg, Iðnskólann og Kleppsspítalann, áður en hann gerðist kaupmaður. En sem byggingameistari og hjá Völundi reisti Sveinn mörg stórhýsi og var alkunnur maður að dugnaði, vandvirkni og framtakssemi. Árið 1902 keypti hann Miðvöll og Suðurvöll (Miðstræti) í þeim tilgangi að skipta túnunum niður í byggingarlóðir. Byggði hann þar flest timburhúsin sjálfur í hinum reisulega sveitser-stíl, sem borizt hafði hingað frá Noregi, en átt upptök sín í Mið-Evrópu.
Vorið 1902 tóku Sveinn og sex aðrir trésmiðir í Reykjavík (Guðmundur Jakobsson, Einar Pálsson, Helgi Thordersen, Hjörtur Hjartarson, Jón Sveinsson og Sigvaldi Bjarnason) sig saman um að stofna hlutafélag til þess að setja þar upp trésmíðaverksmiðju og sóttu þá um kaup á Klapparlóð svonefndri til að reisa þar verksmiðjuna. Ekki fór svo, að bæjarstjórnin féllist á þá skilmála, sem í boði voru, og varð þá ekki úr þessu né fyrirheitnu 15.000 króna láni úr landsjóði. En fimmtudaginn 25. febrúar 1904 var trésmiðafélagið Völundur hf. stofnað, og var Sveinn meðal stofnenda, ásamt Magnúsi Th. S. Blöndahl, Hirti Hjartarsyni, Sigvalda Bjarnasyni, Guðmundi Jakobssyni, Sigfúsi Eymundssyni bóksala og Ólafi Sveinssyni gullsmið. Segir í lögum félagsins, að hlutverk þess sé að vinna að timbursmíði í verksmiðju, sem sett verði á stofn í Reykjavík, og reka timburverzlun. Upphaflegt stofnfé var 12.000 krónur, er skiptist í 40 hluti og hver hlutur 300 kr., en þó ákveðið, að stofnféð mætti vera allt að 20.000, en 15. febr. 1905 samþykkt að það mætti vera 100.000 kr. Á fundi 30. okt. 1906 var ákveðið að auka veltufé félagsins upp í allt að 200.000 kr. og gefa út 100 króna hlutabréf. Sat Sveinn í stjórn Völundar frá stofnun. Magnús Blöndahl hafði áður rekið timburverzlun í félagi við sex aðra menn, og áttu þeir hús og lóð við Vonarstræti. Þá eign keypti Völundur 1. apríl 1904 og rak frá þeim tíma timburverzlun. Vorið 1904 fær félagið vilyrði fyrir kaupum á Klapparlóðinni (sem úr varð vorið 1905) og leyfi til að byggja þar timburgeymsluhús og byrja á grunni undir fyrirhugaða verksmiðju. Fór Magnús til timburkaupa fyrir félagið um veturinn, og þá réð það danskan mann, Rostgaard, til að annast um smíði og kaup á vélum til verksmiðjurnar. Kom hann hingað með vélarnar í ágúst 1905, og var þá strax tekið að koma þem fyrir, en verksmiðjan var fullger og tók til starfa 7. nóv. 1905.
Í 2. árgangi Óðins (1907) er ágæt lýsing á hinu stóra verksmiðjuhúsi, reykháfnum rammbyggða (sem í fóru 23.000 tígulsteinar), gufukatli, 11.000 punda þungri gufuvél og öðrum vélbúnaði, en hreyfivél í kjallaranum knúði áfram allar aðrar vélar í verksmiðjunni. Lá frá henni hreyfiás eftir kjallaranum endilöngum, og sneri vélin honum, en hann aftur með leðurreimum settur í samband við hjólin á vinnuvélunum uppi í húsinu. Voru smíðavélarnar 15, og hafði hver þeirra sitt verk: ein fletti borðum, önnur skellti sundur planka, þriðja sagaði ýmsar bugður í tréð, fjórða heflaði, fimmta plægði, sjötta boraði, sjöunda renndi, ein brýndi verkfærin o.s.frv. Var Völundur eitt umsvifamesta fyrirtæki Reykjavíkur í marga áratugi, eins og segir í Óðni 1933: "... sem nú er orðið eitt hið mesta iðnaðar- og verzlunarfyrirtæki þessa bæjar, undir stjórn Sveins M. Sveinssonar, sonar Sveins Jónssonar af eldra hjónabandi. Hefur Völundur tvö síðastliðin ár borið hæst útsvar allra gjaldenda hjer í bænum."
Sveinn fekkst einnig alllengi við eigin verzlun (með veggfóður o.fl.). Í nefndum árgangi Óðins 1933 er stutt auglýsing frá kaupmanninum: "Sv. Jónsson & Co., Kirkjustræti 8B, Reykjavík, hefur venjulega fyrirliggjandi miklar birgðir af fallegu og endingargóðu veggfóðri, margs konar pappír og pappa ? á þil, loft og gólf ? og gipsuðum loftlistum og loftrósum. Talsími 40. Símnefni Sveinco."
Sveinn sat lengi í byggingarnefnd Reykjavíkur og var bæjarfulltrúi 1908?10. Ennfremur starfaði hann mikið að bindindismálum. Var hann einn af stofnendum stúkunnar Verðandi 3. júlí 1885, en "af öllum stúkum á landinu var Verðandi oftast heppnust að ná í menntaða, gáfaða og efnilega menn." Hann var kosinn gjaldkeri stórstúkunnar sumarið 1907 (stórgjaldkeri) og varð síðar heiðursfélagi í Stórstúku Íslands. Hafði hann mikil afskipti af kaupum á Hótel Íslandi, þegar Templarar keyptu það og ráku. Sveinn ritaði árið 1909 (47 ára): "Það hefi eg talið hina giftusamlegustu stund lífs míns, að vera fyrstur manna með í að stofna stúkuna Verðandi nr. 9. Það hefir mér fundist minn mesti heiður." Þegar kosið var til bæjarstjórnar í Reykjavík 1908, voru 18 listar í framboði; var Sveinn í framboði fyrir templara og hlaut kosningu ásamt öðrum manni. En á þeim árum var gengi góðtemplara mikið og helzti sigur þeirra vínbannið 1912/1915?1935 (með undanþágu á léttum vínum frá 1922). Átti Góðtemplarareglan frá upphafi sínu hérlendis 1884 góðu gengi að fagna. Meðal leiðandi manna þar voru ritstjórarnir Jón Ólafsson, Valdimar Ásmundsson og Björn Jónsson (síðar ráðherra); um leið var þetta siðmenntandi alþýðuhreyfing, þar sem menn tömdu sér fundarsköp og lærðu koma fram, og ruddu samtökin brautina fyrir starf verkalýðsfélaga.
Sveinn gekk í Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík 3. okt. 1901 og var þar virkur í fundastarfi, flutti t.d. hátíðarræðu í fjölmennu 40 ára afmælissamsæti félagsins 1907 og eins á 65 ára afmæli þess. Átti hann sæti þar í nefndum, lengst í skemmtinefnd, og var gjaldkeri sjúkrasjóðs um nokkurt árabil frá 1906. Hann var kjörinn heiðursfélagi Iðnaðarmannafélagsins 3. febr. 1932. Innan þess félags var hann einn forgöngumanna þess árið 1906, að Einar Jónsson myndhöggvari var fenginn til að gera líkneski af Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni, og sat í 'Ingólfsnefndinni' sem gekkst fyrir samskotum. Þegar styttan var afhjúpuð á Arnarhóli 1924, var Sveinn meðal ræðumanna og las upp grein úr Þjóðólfi 1864, þar sem stungið var upp á þvílíku minnismerki á Arnarhóli. Hann var einnig áhugamaður um stjórnmál og sat í stjórn stjórnmálafélagsins Fram, "sem mikið kvað hjer að um eitt skeið, og hefur hann hvarvetna komið fram sem hinn nýtasti og merkasti maður" (Óðinn 1933). Árið 1925 gaf hann ásamt systkinum sínum 1000 kr. í byggingasjóð elliheimilisins Grundar til minningar um foreldra þeirra; það skilyrði fylgdi gjöfinni að halda skyldi upp á brúðkaupsdag þeirra hjóna ár hvert, og hefur sá siður haldizt á Grund fram á þennan dag. Hann eignaðist hlut í Morgunblaðinu 1938, og áttu afkomendur hans lengi sæti í stjórn Árvakurs hf. Sveinn andaðist þann 13. maí 1947. ? Ritstörf: Skrifaði margar greinar í blöð; um Ingólf Arnarson landnámsmann (í hdr.); safnaði Sveinn í hjáverkum öllu, sem hann gat náð til, um Ingólf, lét vélrita og færa inn í "bók, sem nú er orðið mikið verk. Við dóma sagnfræðinga um elztu frásagnir af landnámi Ingólfs og dvöl hans hjer fyrstu árin hefur Sveinn gert athugasemdir, sem eru eftirtektar verðar" (Óðinn 1933, líklega skrifað af ritstjóranum, Þorsteini Gíslasyni). Þá gerði hann sér ferð til Noregs til þess að kynnast ættstöðvum Ingólfs í Dalsfirði á Fjölum. Í Eyfellskum sögnum Þórðar Tómassonar eru tvær frásögur byggðar á sögn Sveins, önnur þeirra um langalangafa hans Jón lögréttumann Ísleifsson (ættföður Selkotsættar) og einkum syni hans.
Sveinn var fjórkvæntur, en átti aðeins börn með fyrstu konu sinni. 1. k.h. (12. nóv. 1886): Guðrún, f. 28. nóv. 1862, d. 20. okt. 1949, Runólfsdóttir á Maríubakka í Fljótshverfi, Runólfssonar; þau skildu. Börn þeirra (ólust upp með móður sinni í Vestmannaeyjum eftir skilnaðinn): 1) Sigurveig Guðrún, f. 10. jan. 1887, d. 21. mars 1972, átti þýzkan mann, Hans Isebarn í Berlín; þau skildu (börn þeirra þrjú ólust upp á heimili Sveins og 3. k.h. Elínar); s.m.h.: Björn Sæmundsson Brimar (en fyrir hjónaband átti hún barn með Sigfúsi M. Johnsen, síðar bæjarfógeta í Vestmannaeyjum, og var sonur þeirra Baldur Johnsen læknir). 2) Júlíana, f. 31. júlí 1889, d. 17. apríl 1966 listmálari í Kaupmannahöfn, ógift. 3) Sveinn Magnús (Sveinn M. Sveinsson), f. 17. okt. 1891, d. 25. nóv. 1951, forstjóri í Völundi, kvæntur Soffíu Emilíu Haraldsdóttur prófessors Níelssonar (en börn þeirra Sveinn Kjartan verkfr. í Rvík, Haraldur frkvstj. Árvakurs, Leifur lögfr. og Bergljót kona Braga Benediktssonar prests og félagsmálastjóra í Hafnarfirði). 4) Ársæll, f. 31. des. 1893 í Vestmannaeyjum, d. 14. apríl 1969, formaður, útgerðarmaður og forstjóri skipasmíðastöðvar í Vestmannaeyjum, m.m., kvæntur Laufeyju Sigurðardóttur frá Innri-Njarðvík. ? 2. k.h. (18. ág. 1907): Guðrún Guðmundsdóttir, d. 1. marz 1941, 81 árs, dóttir Guðmundar Brynjólfssonar, bónda á Keldum í Mosfellssveit. Þau skildu (hún átti áður Filippus Filippusson í Gufunesi). ? 3. k.h. (8. júní 1918): Elín Magnúsdóttir verzlunarkona, f. 12. ág. 1877, d. 10. ág. 1933, 55 ára, dóttir Magnúsar Árnasonar, trésmíðameistara í Rvík, og Vigdísar Ólafsdóttur prests í Viðvík Þorvaldssonar. ? 4. k.h. (18. maí 1935): Guðlaug hjúkrunarkona, f. 10 júní 1904, Teitsdóttir á Stóru-Drageyri í Skorradal, Erlendssonar.
Helztu heimildir:
Íslenzkar æviskrár IV, 501?2 (Sveinn), VI, 466 (Sveinn M. Sveinsson).
Hver er maðurinn? II, 275?6.
Reykjavík. Bæjar- og borgarfulltrúatal 1836?1986, s. 274?5.
Óðinn II/12 (marz 1907), s. 92?95; XXIX/8-12 (ág.?des. 1933), s. 64 (þar er einnig ágæt lýsing á Elínu, 3. konu Sveins, og mynd af þeim saman).
Tuttugu og fimm ára minningarrit góðtemplara á Íslandi, 1884?1909, Rv. 1909, s. 139?40, 52?3, 36?7, 13.
Gísli Jónsson: Saga Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, Ak. 1967, s. 29?30, 68, 99?100, 216, 235, 269, 274?5, 289?306, 313, 336.
Eyfellskar sagnir II (1949), 114?15: Féþúfan; III (1950), 62?66: Selkotsbræður.
Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar, 1870?1940, fyrri hluti, s. 40 o.v.
Íslenzkir samtíðarmenn I, 45 (Ársæll Sveinsson), 435 (Júlíana Sveinsdóttir).
http://www.grund.is/posturinn/hp1298.pdf
http://www.heimur.is/sogur_og_greinar/?ew_news_onlyarea=content1&ew_news_onlyposition=5&cat_id=28871&ew_5_a_id=138347
Hér lýkur grein Jóns Vals Jenssonar.
I. Kona Sveins var Guðrún Runólfsdóttir frá Grindavík, f. 26. nóv. 1860, d. 20. okt. 1949.
Börn þeirra voru:
1. Sigurveig Sveinsdóttir húsfreyja, f. 10. jan. 1887, d. 21. mars 1972.
2. Júlíana Sveinsdóttir listmálari, f. 31. júlí 1889, d. 17. apríl 1966.
3. Sveinn Magnús Sveinsson, kenndur við Völund í Reykjavík og var eigandi hans, f. 19. okt. 1891, d. 23. nóvember 1951.
4. Ársæll Sveinsson útgerðarmaður, kaupmaður, iðnrekandi og bæjarfulltrúi, f. 31. des. 1893, d. 14. apríl 1969.
5. Andvana sveinbarn 17. september 1897.
6. Sigurður Sveinsson bifreiðastjóri og kaupmaður f. 18. nóv. 1898, d. 28. júní 1964.