„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Ég man þá tíð...“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
mEkkert breytingarágrip
Lína 79: Lína 79:
      
      
Vestan við Austurbúðarbryggjuna voru uppsátur fyrir Landeyjaskip, en 1906-1907 var byggður þarna beituskúr mótorbátsins Hansínu.
Vestan við Austurbúðarbryggjuna voru uppsátur fyrir Landeyjaskip, en 1906-1907 var byggður þarna beituskúr mótorbátsins Hansínu.
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}}

Útgáfa síðunnar 27. ágúst 2015 kl. 11:42

Ég man þá tíð...

Karl Guðmundsson Reykholti, sem hefur teiknað nokkrar myndir í blaðið, er fæddur í Reykjavík 4. maí 1903 og heitir fullu nafni Karl Schiött; ritar hann því Karl S. Guðmundsson undir myndir sínar. Hann fluttist kornungur til Vestmannaeyja með foreldrurn sínum, Helgu Jónsdóttur og Guðmundi Magnússyni, sem bjuggu hér lengstum að Goðalandi. Var Guðmundur góður smiður og þekktur maður í Eyjum á sinni tíð og ætíð kenndur við hús sitt Goðaland. Karl byrjaði ungur að stunda sjóinn og hófu þeir sína sjómennsku saman á árabát. Benóný heitinn Friðriksson frá Gröf, Karl á Goðalandi, Þorgeir Jóelsson á Sælundi og Magnús Ísleifsson í Nýjahúsi. Allir urðu þeir síðar þekktir siómenn í Vestmannaeyjum, miklir aflamenn og landsfrægir. Þá voru þeir fimmtán ára gamlir og var Binni í Gröf formaðurinn. Ási í Bæ hefur brugðið upp snilldarlega skemmtilegri lýsingu á úthaldi þeirra strákanna í þætti um Binna heitinn í bókinni „Aflamenn". Sóttu þeir svo fast sjóinn, að í minnum var haft. Sagði einn gamlinginn, er honun blöskraði „glannaskapur" þeirra strákanna, sem reru dag eftir dag í suðursjóinn í austanrumbu og rótfiskuðu: "Og enn róa strákarnir, það er mikið, að þeir skuli ekki vera búnir að margdrepa sig." Fimmtán ára gamall varð Karl beitningamaður hjá Jóni á Hólmi, en árið 1926 byrjaði hann formennsku með m/b Skála fógeta og var formaður næstu 16 árin, og var alla tíð ágætur aflamaður. Karl var formaður með Skúla fógeta í 5 vertíðir og síðan með Tjald, Ófeig og Óðin. Karl átti lengi í útgerð og gerði út bátinn Ver frá árinu 1934 ásamt bróður sínum Jóni, Björgvin Jónssyni o.fl.

Frá árinu 1957 fram til eldgossins var Karl virðingarmaður Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja og jafnframt trúnaðarmaður Fiskifélags Íslands og tók saman aflaskýrslur. Í þessum störfum sínum var Karl sérlega farsæll og nákvæmur. Myndirnar, sem birtast hér í blaðinu eftir Karl, bera vitni listahandbragði og eru merkileg heimild um liðna tíð. Nokkrir þeirra staða, þar sem hús þessi stóðu, fóru undir ösku og hraun, en í stað annarra eru nú komin nýtízkuleg mannvirki. Karli var veitt heiðursskjal Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja árið 1974 fyrir gifturíkt starf í þágu sjómannastéttarinnar og byggðarlagsins. Eftir eldgosið hefur hann, ásamt konu sinni Unni Jónzsdóttur, verið búsettur í Reykjavík. Eru þeim hjónum sendar kveðjur og Karli beztu þakkir fyrir þessar ágætu myndir.

Hús þessi standa þar sem Eilífðin, rústir Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja og FES, standa núna.

Salthúsið stóð með gafl á móti austri. Áfast við það að norðan eru aðgerðar- og beitningarskúrar. Beitningarskúrarnir voru á efri hæð, en aðgerðarskúrarnir á neðri hæð. Þarna höfðu beitningarskúra og aðgerð Portland, Eros, Ásdís, Glaður og fleiri bátar. Hús þessi munu hafa verið byggð á árunum 1912-1915.

Í salthúsinu var timburgeymsla á efri hæð, en saltið var geymt á jarðhæð. Í húsinu, sem snýr gafli á móti höfninni, voru verbúðir uppi á lofti, einnig var þar veiðarfærageymsla og pakkhús Edinborgarverzlunar.

Við hún á húsinu er fáni Sameinaða gufuskipafélagsins, en Gísli J. Johnsen var umboðsmaður félagsins og afgreiðslumaður skipa þeirra, sem höfðu alltaf viðkomu í Vestmannaeyjum á leið til og frá höfnum erlendis. Einnig hafði hann á hendi afgreiðslu norska skipafélagsins Bergenska, en skip þess Lyra kom við í Vestmannaeyjum alveg fram að heimsstyrjöldinni síðari. Gísli var auk þess brezkur vararæðismaður.

Á gafl hússins eru málaðir fánar pessara skipafélaga og brezki fáninn.

Þegar þessar skipaviðkomur eru rifjaðar upp og þau þægindi, sem fólk hafði af þeim, er spurning hvort hér hafi ekki orðið um hreina afturför að ræða, því að á síðari árum hefur það talizt til tíðinda, ef íslenzk skip hafa tekið farþega beint héðan og til útlanda eða þeir stigið af skipsfjöl hér á leið sinni heim.

Mikið hagræði var einnig að þessu fyrir Vestmannaeyinga, sem voru á ferð í Reykjavík og fengu þægilega skipsferð heim til Eyja á stórum skipum.

Efst á Bæjarbryggjunni.

Húsin á næstu mynd eru séð úr Læknum, sem nokkur hluti er eftir af ennþá milli Bæjarbryggju og Edinborgarbryggju, sem lá vestan FES og olíutankanna, þar sem austurhluti Nausthamarsbryggju liggur nú.

Yzt til vinstri er Geirseyri, næst sér á kró á horni Strandvegar og Formannabrautar. Þetta er Stakkagerðiskróin, fiskaðgerðarhús Gísla Lárussonar í Stakkagerði (d. 1935), sem þar bjó langa ævi ásamt konu sinni Jóhönnu Árnadóttur (d. 1932), en margt Eyjamanna er af þeim komið. Theódór Friðriksson rithöfundur, sem kunnur er af ævisögu sinni Í verum, var vertíðarmaður hjá Gísla á fyrstu vertíð sinni í Eyjum árið 1920. En Theódór hefur ritað sérstaklega góðar og glöggar frásagnir frá þessum merkilegu tímum umbrota og breytinga í Vestmannaeyjum.

Theódór var aðgerðarmaður og átti einn að gera að helmingi aflans af Má VE 178, sem Gísli Lárusson átti ásamt formanni bátsins Bernótusi Sigurðssyni. Már fórst þessa vertíð, hinn 12. febrúar 1920 (Sjá Sjómannadagsblað Vestm.eyja 1970). Theódór segir svo frá: ,,Stakkagerðiskróin var beint upp af bæjarbryggjunni, en bryggjurnar voru þá þrjár í Vestmannaeyjum. Voru hinar kallaðar Edinborgarbryggja og Tangabryggja. Hafði Gísli Johnsen konsúll bækistöð fyrir báta sína við Edinborgarbryggju, Gunnar Ólafssonkonsúll við Tangabryggju, en flestir bátar annarra höfðu athvarf við Bæjarbryggjuna. Þótti mér þarna margt um að vera og króafjöldinn óskaplegur, en krær þessar voru svolitlir kumbaldar, flestir úr timbri og margir úr sér gengnir, enda sumir byggðir á pöllum, er náðu fram í fjöru, og féll sjór undir pallana með flóði. Öllum fiski var ekið upp í krærnar í handvögnum, og átti aðgerðarmaðurinn að annast það. Var það þrælavinna.

Stakkagerðiskróin bar þarna af flestum hinum krónum. Þetta var lítið einlyft steinhús og var gert að fiskinum niðri, en beitingin fór fram uppi á loftinu. Í krónni voru þrjár steyptar þrær í röð með öðrum veggnum, og átti þar að pækilsalta fiskinn, en síðan skyldi umhlaða honum eftir nokkra daga. Finnur sagði, að króin væri allt of lítil, þegar mikið aflaðist, og illt væri að koma fyrir nema litlu salti, en það væri allt annað en þægilegt að þurfa að standa í saltakstri jafnframt því að taka móti fiskinum. Annars voru þarna inni góð áhöld, stampar, flatningsborð, vagn, hnífar o.fl., er mér voru falin til varðveiz1u, um leið og mér var fenginn króarlykillinn."

Svartahúsið, eign Tangaverzlunar, en upphaflega byggt af Lyder Höjdal 1908-1909. Húsið var byggt á stöplum, sem sjá má, en þeir voru nefndir Johnson-stöplar eftir enskum manni, sem í fyrstunni ætlaði að byggja þarna.

Á þessum árum voru hús þessi yfirleitt nefnd Tangahús, en þegar Tangaverzlun byggði fiskgeymslu- og vöruhúsin þrjú, sem enn standa upp af Básaskersbryggju, komst nafnið Svartahús á. Oft voru þessi hús manna á meðal nefnd Þrætuhús vegna þess að Tangaverzlun neitaði að láta bæjarfélagið hafa þau til stækkunar á Bæjarbryggjunni, en mikil þrengsli voru efst á bryggjunni á leiðinni niður á Bæjarbryggju milli Geirseyrar og Svartahúss og iðulega umferðaröngþveiti, þegar öllum fiski var keyrt upp á handvögnum. En það var erfiðasta verkið hjá aðgerðarmönnum. Og svo að enn sé vitnað í Theódór segir hann svo um handvagnana og erfiðið:

„Lifrinni varð ég að aka á handvagni eftir allri Strandgötu vestur í „Brasið", eins og lifrarbræðslan var kölluð. Var það erfitt verk, því að oft var mikið í vagninum og stundum ofærð, snjór eða krapaelgur upp undir öxul. Kom það oft fyrir, að ég strandaði með vagninn í þessu helvíti. En það varð mér þá helzt til bjargar, að umferð var þarna mikil, og varð oftast einhver greiðvikinn náungi til þess að ýta vagninum mínum af stað, ef ég strandaði alveg, enda mátti ég ekki verða fyrir öðrum þarna á miðri götunni. Við Brasið urðu oft miklar stimpingar og ólæti í ösinni, því að margir örgeðja menn vildu stundum ryðjast þar að í einu. Varð að gæta sín að meiðast ekki á höndunum í þeim hamagangi, er margir lifradallar voru á lofti í senn. - Þegar ég var laus við lifrina, gat ég fyrst farið að búa mig undir næstu aðgerð. Byrjaði ég þá oftast á því að sækja sjó í tunnur ofan á bryggju, síðan sótti ég salt, umstakkaði fiski, hvatti hnífa o.s.frv. Leið dagurinn við þessa snúninga, og var sjaldan tími aflögu, aður en báturinn kom að.

Þess var krafizt, hverju sem viðraði, að allir aðgerðarmenn og beitustrákar væru komnir á bryggjuna, er bátarnir komu að á kvöldin. Mér leizt ekki á þetta, meðan ég var að venjast ósköpunum og gauraganginum, sem því fylgdi. Oft komu margir bátar að í senn, og var þá bæði bjóðum og fiski rutt upp á bryggjuna hér og þar með litlu millibili. Voru þá kasir um alla bryggjuna, og ekki önnur aðgreining en skata eða lönguflykki. Stóðu formennirnir hjá kösunum þungir á brún, aðgættu, að kasirnar rynnu ekki saman og ráku eftir aðgerðarmönnunum að taka fiskinn. Fiskurinn var fluttur af bryggjunni í handvögnum með löngum kjálkum, og ýttu menn vögnunum á undan sér eins og í tryllingi. Voru þarna stundum á ferð vagnar svo að tugum og hundruðum skipti, og æddu menn áfram með þá berhöfðaðir, en löðursveittir í hörkufrosti. Var það því mörgum lausnarstund, er fiskurinn var kominn í hús í hvert skipti, þó að ekki væri við annað notalegra að hvílast en aðgerðina og það eigi ósjaldan með fingurmein eða sinaskeiðabólgu. Blöskraði mér það alveg, hvað ég sá marga menn í Vestmannaeyjum með vafða fingur og hendur í fatla. En það þötti linkuháttur að gefast upp, fyrr en í fulla hnefana, en frægð að geta skráfað sig sem mest."

Séð niður Formunnusund 1920-1930.

Hægra megin götu, ef horft er niðureftir. Frá vinstri: Geirseyri — aðgerðar- og fiskgeymsluhús. Húsið byggði kaupfélagið Herjólfur árið 1910-1911, síðar keypti Siggeir Torfason húsið, líklega um 1915, en hann hóf útgerðarrekstur í Eyjum árið 1916. Lét hann þá smíða þrjá báta undir Skiphellum Helgu, Sillu og Láru. Smíðuðu þeir Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ og Guðmundur Jónsson á Háeyri bátana, sem voru settir fram til sjávar á bökum manna, bakaðir, sem kallað var. Eftir að Siggeir keypti húsið var það alltaf kennt við Siggeir, fyrst kallað Siggeirshús og síðar Geirseyri. Á loftinu voru verbúðir fyrir sjómenn og aðgerðarmenn og var þar mötuneyti. Í kjallaranum var aðgerð, og þar var saltað. Á miðhæð var fiskurinn umsaltaður, en á sumrin var þar þurrfiskgeymsla. Við austurgafl á Geirseyri voru hin gömlu skipahróf, uppsátur Eyjabáta í aldaraðir. Parna stendur nú mjölgeymsluhús FES, en hraunið braust inn í það hús mitt, en var síðan hreinsað í burtu.

Strandvegur lá sunnan við Geirseyri. Kró með gafl út að Formannasundi, en með hlið að Strandvegi, hét Edinborgarsteinn. Kró þessi var byggð á króarstæðum Ofanleitis á árunum 1912-1920 og var steinsteypt. þar af nafnið „steinn", en flestar krær aðrar voru þá járnklæddar á timburrenglur. Síðan var þarna á horninu byggt stórt, tvflyft steinhús, sem stóð á horni Formannasunds og Strandvegar fram að eldgosinu. Var það ávallt kallað Steinninn og var lengi í eigu Ármótsfeðga, Jóns, Þórarins og Markúsar. Síðast var það í eigu bræðranna í Háagarði, sem höfðu þarna veiðarfærageymslu fyrir útgerðina af Báru. Edinborgarsteinn var síðast viðgerðarverkstæði fyrir fyrirtæki Einars Sigurðssonar.

Neðsta kró austan megin við Formannasund með gluggum sitt hvorum megin við dyrnar var kró Árna Árnasonar frá Grund, og var áður kró tengdaföður hans Lárusar hreppstjóra Jónssonar að Vestri-Búastöðum.

Þá kemur kró Péturs Lárussonar á Vestri- Búastöðum, og leigði hann ýmsum króna, t.d. Kristjáni Egilssyni á Stað o.fl. Þá var króarsund til austurs og voru þar krær Magnúsar Guðmundssonar á Vesturhúsum og Vigfúsar Jónssonar í Holti.

Yfir þessum króm sér á gaflinn á Heiðiskrónni, sem stóð fram til eldgossins, en mikið breytt.

Háa húsið, tvílyft, með tveim dyrum móti vestri, er veiðarfærageymsla Þorsteins Jónssonar í Laufási, sem síðar var flutt á stöpla fyrir vestan Bæjarbryggjuna, þar sem pallarnir frægu stóðu og Fiskiðjan er nú. Veiðarfærageymsla Þorsteins var byggð ofan á Dalbæjarkróna, sem síðustu árin var leigð fyrir beituskúr.

Mótorbáturinn Kristbjörg hafði syðstu króna. Upp við húsið stendur svonefnd ,holbauja", en slíkar baujur voru notaðar sem uppihald á báða enda línunnar. Þær voru aftur á móti aldrei notaðar á netaveiðum; þá voru notaðar baujur með fjölda netakúlna umhverfis mitt skaftið, venjulega fjórar lengjur, með þremur til fjórum kúlum í lengju, samtals 12 eða 16 kúlum.

Framan við krærnar eru tveir handvagnar, sem framar öðru einkenndu vinnuaðstöðuna í landi á þessum tíma, sem hefur oft í gamni og alvöru verið kallaður handvagnaöldin.

Þessu líkir voru aðgerðar- og beituskúrar Vestmannaeyjum fram til ársins 1920, en þá var farið að byggja aðgerðar- og veiðarfærahús úr steini upp af Skildingafjöru og Básaskersbryggju, sunnan Strandvegar, vestan Heiðarvegar; hús sem enn standa.

Tómas Guðjónsson í Höfn byggði um 1940 myndarlegt stórhýsi á þeirra tíma mælikvarða ofan við Edinborgarsteininn, þar sem Bústaðakróin og Dalbæjarkróin stóðu. Þetta var tvílyft steinhús með miklum kvisti og var alltaf kallað Tómasarhúsið.

Einar Sigurðsson eignaðist húsið mjög fljótlega eftir að það var byggt og síðustu árin var það mjölskemma fyrir FES. Sunnan við Tómasarhús byggði Georg Gíslason lítið fiskhús og reykhús. Rafveita Vestmannaeyja keypti síðar það hús og stækkaði og var þarna viðgerðarverkstæði og birgðahús. Þetta var myndarlegt steinhús, sem þó var kallað „Ólakot", víst í höfuð Ólafi Vilhjálmssyni, sem var starfsmaður Rafveitunnar í fjöldamörg ár.

Kornhúsið, byggt 1830 og var elzta hús Eyjanna, er það fór undir hraun veturinn 1973.

Austurbúðin (Garðsverslun) byggð 1880, úr höggnu móbergi úr Heimakletti. Kumbaldi; jafnframt því sem húsið var fiskgeymsluhús yfir vertíðina fyrir blautfisk, en fyrir þurrfisk að sumrinu, var það einkum á haustin og vorin samkomuhús Eyjamanna og notað til veizluhalda, leiksýninga og grímudansleikja á síðustu áratugum fyrri aldar og fram yfir aldamótin 1900.

Áfast Kumbalda að norðan var fiskaðgerðarhús með hallandi þaki. Norðan við fiskaðgerðarhús þetta lá stígur frá Austurbúðarbryggjunni, sem er fremst á myndinni, að kolakjallara Austurbúðar, sem var undir búðinni að norðan.

Nyrzt á vesturhlið Austurbúðar sést stór hurð með blökk á bita fyrir ofan. Þangað voru hífðir korn- og mjölsekkir, en mjölinu var hvolft í stórar beðjur. Frá Þessum miklu kornbeðjum lágu síðan rennur í mjölafgreiðslu verzlunarinnar, sem var á hæðinni fyrir neðan yfir kolakjallaranum.

Norðan við Austurbúð og Kumbalda eru beituskúrar, sem voru fyrstu beituskúrar vélbátanna í Vestmannaeyjum og voru einu beituskúrarnir í Eyjum frá 1906-1911. Skúrar þessir stóðu allt þar til síldar- og loðnuþrær FES voru byggðar þarna árið 1963. Voru þessir skúrar alltaf notaðir til beitingar og aðgerðar.

Austurbúðarbryggjan var hlaðin úr höggnu móbergi og mun hafa verið gerð vegna byggingar Austurbúðarinnar árið 1880. Fyrstu vélbátar í Eyjum notuðu Austurbúðarbryggjuna þar til Bæjarbryggjan var byggð árið 1907. Bryggjan var áður lögð með timbri.

Vestan við Austurbúðarbryggjuna voru uppsátur fyrir Landeyjaskip, en 1906-1907 var byggður þarna beituskúr mótorbátsins Hansínu.