„Ritverk Árna Árnasonar/Hið fyrsta reiðhjól“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: <br> <br> <br> <big><big><center>Hið fyrsta reiðhjól</center></big></big> Hið fyrsta reiðhjól er talið hafa komið til Eyja um það bil 1894-95 og innflutt af Thomas Duddma...)
 
m (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Hið fyrsta reiðhjól“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 28. ágúst 2013 kl. 20:19




Hið fyrsta reiðhjól


Hið fyrsta reiðhjól er talið hafa komið til Eyja um það bil 1894-95 og innflutt af Thomas Duddmann, skipstjóra frá Englandi. Ekki var það mjög ósvipað að útliti og síðari tíma reiðhjól nema að á hjólgjörðinni var heilt gúmmí, þ.e. sver gummíhringur, sem þrykkt var upp á gjörðina.
Vakti farartæki þetta hina mestu umræðu manna hér og þótti stórfurðulegt, að Duddmann skyldi komast nokkuð áfram, en velta ekki strax á hliðina. Fengu margir að reyna að sitja reiðhjólið, en ultu vitanlega strax eins og enn gerist hjá byrjendum.
Duddmann var skipstjóri á enskum línuveiðara, er fiskaði ávallt hér við Eyjar, og hann var hér vel kynntur meðal þorpsbúa. Barn eignaðist hann hér með Dómhildi Guðmundsdóttur úr Mýrdal og er það Karolína Duddmann, sem alin var upp í Staðarbænum á Kirkjubæ hjá Guðlaugu og Magnúsi Eyjólfssyni, en á nú heima á Hásteinsvegi í litlum kofa, sem Matthías Finnbogason vélsmiður átti.
Seinni tíma hjól með loftfylltum gúmmíslöngum innan í þunnum gúmmíhringjum á hjólunum, mun fyrstur hafa flutt hingað Halldór læknir Gunnlaugsson 1907, sér til hægðarauka í læknavitjunum sínum í þorpinu, en hann varð læknir hér 1. júní 1906. Þóttu reiðhjól mestu þarfagripir hér, enda urðu margir til þess furðu fljótt að fá sér reiðhjól, enda þótt vegir væru slæmir og stutt að fara.
Árið 1911, þann 17. júní voru komin 10-12 hjól í þorpið. Þá fóru fram mikil hátíðahöld hér í bæ þann dag í tilefni aldarafmælis Jóns Sigurðssonar, og voru meðal annars haldnar kappreiðar á hjólhestum að fyrirlagi Halldórs læknis. Það var besta veður þennan dag, sól og sumarblíða.
Fólk safnaðist saman að Kirkjuveginum til að sjá þessa nýstárlegu keppni, sem fram átti að fara. Keppendur voru 6, þ.á.m. Sæmundur Jónsson, Guðjón Guðjónsson í (Sjólyst), Bergur og Björn Guðjónssynir. Farið skyldi frá Norðurgarðshliði og niður á vegamótin, sem nú er ,,Heimatorg“. Verðir voru hafðir með stuttu millibili við veginn til að sjá um, að allt gengi skipulega, menn færu ekki út á veginn, og hjólreiðamennirnir hefðu engin svik í tafli. Þó var og læknirinn við á sínu hjóli tilbúinn að þeysa af stað, ef slys yrði á mönnum.
Keppt var í tveim riðlum, 3 í hvorum, þareð vegurinn var svo mjór að ekki þótti gerlegt að láta alla fara í einu. Skyldi svo taka tímann af öllum og sá fá verðlaun, er skemmstan tíma yrði að hjóla vegalengdina. Fólkið var afar æst, og þegar þeir fyrri komu hjá Kirkjunni var hrópað og æpt af öllum kröftum. Menn hertu á þeim með allslags uppörvunarorðum, en þess þurfti tæpast með.
Þarna flykktust þeir niður veginn með mesta hraða, bæði var vegur hallandi og dálitlar brekkur sumsstaðar. En hjólreiðarmennirnir stigu hjólin svo ört sem mögulegt var. Þarna kom Sæmundur, Bergur og Guðjón – hver eftir annan, en Sæmundur fyrstur. Hjá Velli voru þeir samhliða Guðjón og Bergur, en rétt þegar þeir fóru í götubrattan þar brotnaði „pedalinn“ hjá Bergi – svo að hann missti alla möguleika til að vinna. Renndi hann sér þó áfram á hjólinu niðureftir. Þótti hin mesta furða, að hann skyldi ekki fara útaf eða velta, er pedalinn fór af. En Sæmundur náði vel fyrstur á Heimatorg, og þótti tími hans ágætur. Seinni riðillinn fór út um þúfur þannig, að aðeins 1 komst alla leið, Björn Guðjónsson. Hjá hinum tveim komu óhöpp fyrir, sprakk hjá öðrum, en hinn veltist hjá Olnboga og var dæmdur úr leik.
Þetta munu einustu kapphjólreiðar, sem hér hafa verið þreyttar fyrr og síðar, en þær þóttu hið besta skemmtiefni. Sem 1. verðlaun fyrir kappreiðina fékk Sæmundur bókina „Íþróttir fornmanna“ .
Hjólhestur – Reiðhjól er að uppruna þýsk hugmynd frá árinu 1817, en var fyrst þannig, að fæturnir námu við jörð og ýtti hjólreiðamaðurinn sér áfram með fótunum. Síðar kom svo „veltepetterinn“ til sögunnar, – afarstórt stýranlegt framhjól, lítið afturhjól og pedalarnir í framhjólinu.
En skömmu fyrir aldamót gjörbreyta Englendingar þessu, m.a. með því að setja pedalana milli hjólanna með driftarkeðju á afturhjól. Og svo loks 1885, er sonur Dunlop var að leiki sér á hjóli úti í garðinum við heimili sitt í Englandi og kvartaði sáran undan, hve vont væri að sita á hjólinu, datt Mr. Dunlop allt í einu í hug að nota samanþjappað gasloft til þess að taka af mesta hristinginn.
Hann fann þá upp slönguna eins og hún er nú og hlífði henni með gúmmídekki, hlíf, sem tíðkast enn þann dag í dag. Enn síðar kom svo þríhjólið og bremsan í afturhjólið, er virkaði, þegar stigið var afturábak. Þannig er þetta enn í dag, hvaða breytingar, sem á þessu kunna að verða.
Það þarf ekki að taka það fram, að Dunlop varð milljóner af þessari hugmynd sinni, og enn eru dekk og slöngur kenndar við hann og verksmiðjur, sem búa til slöngur og dekk á hjól og bifreiðar.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit