„Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Höfuðlausi draugurinn“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <br> <big><big><center>Höfuðlausi draugurinn.</center></big></big> <small><center>(E.s. Sig. ættfræðings, Árnesings, Jónssonar)</center></small>...) |
|
(1 millibreyting ekki sýnd frá sama notandanum) | |
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 8. júní 2012 kl. 16:55
Þegar Magnús skáld Kristjánsson bjó í Dölum í Vestmannaeyjum, þóttust margir menn verða varir við ófreskju uppi í svo nefndu Hrauni, allt upp undir Dali. Sá vinnumaður var í Dölum, er hét Magnús Kristjánsson, einbeittur og harðfrískur maður. Einu sinni sem oftar kom hann neðan úr Sandi um kvöld og bar skrínu á baki sér. Þegar hann kemur upp fyrir kirkjugarðinn, heyrist honum einhver koma á eftir sér. Honum varð litið við og sá, að skammt á eftir sér kemur höfuðlaus maður. Magnús hirðir eigi um sýn þessa og heldur rólegur áfram. Heyrist honum hinn nú koma nær og nær. Verður honum aftur litið við og er hinn samur að sjá. Magnús heldur enn áfram nokkra stund. En þá verður skrínan allt í einu svo þung, að honum finnst hann varla geta risið undir henni. Kastar hann þá skrínunni af sér og lætur liggja eftir. Þá sér hann, að þessi höfuðlausi dólgur stendur ógnandi andspænis honum. Magnús lætur hann eiga sig og greiðkar sporið heim á leið, en gefur hinum auga við og við, sem ekkert hirti um skrínuna, en fylgdi honum eftir með litlu millibili.
Þegar Magnús kom að túngarðshliði, er dólgurinn horfinn. En í þess stað breytist nú hliðið og gangbrautin heim að bæjarhúsunum. Sýnist honum hann nú vera kominn að Vilborgarstaðahliði og sjá þar traðirnar og bæinn. Segir hann þá við sjálfan sig: „Skal ég þá hafa villzt svona? — Nei — það er höfuðlausi djöfullinn, sem gerir mér þessar grillur og missýni. Ég skal áfram samt.“ Allt hið sama sýndist Magnúsi, þangað til hann var kominn inn til fólksins og gat sagt sögu sína. Þóttist hann sjá, að allt var rétt séð.
(Sigf. Sigfússon: Ísl. þjóðsögur III. 286—287).