„Blik 1962/Búnaðarskólinn á Stend í Noregi“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 64: | Lína 64: | ||
'''Pétur Pétursson''' frá Sólheimum (1876—1878).<br> | '''Pétur Pétursson''' frá Sólheimum (1876—1878).<br> | ||
Í sögu Búnaðarfélags Íslands er fullyrt, að Pétur Pétursson hafi stundað nám á Stend í 2 ár. Hinsvegar virðist nafn hans ekki finnast í skýrslum búnaðarskólans eftir því sem núverandi rektor tjáir mér. Í grein, sem Bjarni Jónasson, hreppstjóri í Blöndudalshólum, hefur lánað mér um Pétur Pétursson, uppruna hans og störf, er fullyrt, að hann hafi stundað nám á Stend. Þess vegna eru nokkur orð um hann höfð hér með. Í sögu Búnaðarfélagsins er einnig fullyrt að Halldór Hermannsson frá Brekku í Mjóafirði hafi stundað búfræðinám á Stend. Heldur ekki nafn hans hefur rektor fundið í skýrslum skólans, og mér ekki tekizt að leita mér fræðslu um hann nánar eða störf hans í þágu búskapar á Íslandi, en Halldór hvarf til Ameríku eftir nokkur ár, frá því að hann kom heim frá Noregi. —<br> | Í sögu Búnaðarfélags Íslands er fullyrt, að Pétur Pétursson hafi stundað nám á Stend í 2 ár. Hinsvegar virðist nafn hans ekki finnast í skýrslum búnaðarskólans eftir því sem núverandi rektor tjáir mér. Í grein, sem Bjarni Jónasson, hreppstjóri í Blöndudalshólum, hefur lánað mér um Pétur Pétursson, uppruna hans og störf, er fullyrt, að hann hafi stundað nám á Stend. Þess vegna eru nokkur orð um hann höfð hér með. Í sögu Búnaðarfélagsins er einnig fullyrt að Halldór Hermannsson frá Brekku í Mjóafirði hafi stundað búfræðinám á Stend. Heldur ekki nafn hans hefur rektor fundið í skýrslum skólans, og mér ekki tekizt að leita mér fræðslu um hann nánar eða störf hans í þágu búskapar á Íslandi, en Halldór hvarf til Ameríku eftir nokkur ár, frá því að hann kom heim frá Noregi. —<br> | ||
[[Mynd: 1962 b 136.jpg|thumb|350px| | [[Mynd: 1962 b 136 A.jpg|thumb|350px| | ||
''Pétur Pétursson frá Sólheimum.'']] | ''Pétur Pétursson frá Sólheimum.'']] | ||
Pétur Pétursson var fæddur að Mosfelli í Svínadal 31. des. 1850. <br> | Pétur Pétursson var fæddur að Mosfelli í Svínadal 31. des. 1850. <br> |
Núverandi breyting frá og með 24. ágúst 2010 kl. 21:36
Í fyrra birti Blik grein um búnaðarskólann á Stend í Noregi, þar sem svo margir Íslendingar höfðu numið á síðari hluta 19. aldar. Sú grein var síðan endurprentuð í jólahefti búnaðarblaðsins Freys.
Hér birtist framhald af greininni í fyrra, æviágrip tveggja nemenda frá Stend, sem létu mikið að sér kveða í félagsmálum og búnaðarframförum hér heima að loknu búfræðináminu í Noregi.
Síðast er svo getið þeirra heimilda og uppsprettulinda, sem efnið í báðar greinarnar er runnið frá.
Eggert Finnsson frá Meðalfelli í Kjós
(1880—1882), f. 23. apríl 1852. Eggert brann af fræðsluþrá og framtakshug þegar á unga aldri og stundaði þá nám hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni að Saurbæ. Það nám í æsku kom honum að ómetanlegu gagni, er hann 28 ára gamall hóf nám í búnaðarskólanum á Stend.
Tveim árum eftir heimkomuna frá búnaðarnáminu í Noregi hóf Eggert Finnsson búskap á föðurleifð sinni, Meðalfelli, og bjó þar óslitið til ársins 1942, er hann afhenti Jóhannesi Ellert einkasyni sínum jörð og bú.
Brátt eftir að Eggert Finnsson gerðist bóndi að Meðalfelli, kom í ljós hinn mikli framtakshugur og búhyggni þessa gáfaða og vel gerða bónda, sem naut í ríkum mæli, svo að orð fór af, duglegrar og gáfaðrar eiginkonu, sem var Elín Gísladóttir (f. 15. sept. 1855) prests á Reynivöllum Jóhannessonar. Þessi hjón gerðu fljótlega garð sinn frægan, ekki aðeins fyrir mikinn myndarskap í búskap og rausn í heimilisháttum, heldur einnig og ekki síður fyrir drengskap, hjálpfýsi og fórnarlund við bændur og búalið í sveitinni.
Um Eggert Finnsson má með sanni segja, að þar hafi vegarnesti það til búskapar, er hann hlaut á Stend, ásamt miklum og góðum eðliskostum um vitsmuni og manngerð, farið vel saman til ómetanlegrar hagsældar og blessunar bændum og búskap í Kjós og víðar um nágrannabyggðir. Áhrifa Eggerts Finnssonar, stórhugar hans og framsækni gætti víða og markaði spor. Þessa eiginleika hans kunnu bændur í Kjós og víðar að meta að verðleikum og fólu honum fjölmörg trúnaðarstörf. Vegna hins mikla trausts, sem samsveitungar hans báru til hans og auðsýndu honum, fékk Eggert mörgum áhugamálum sínum til vegar komið.
Eggert Finnsson sat í hreppsnefnd árum saman og var sýslunefndarmaður um árabil. Einnig var hann sóknarnefndarmaður. Hann beitti sér fyrir nautgriparæktarfélagi í sveit sinni 1903 og stofnun rjómabús 1905 með nokkrum öðrum atorkumönnum. Þá átti hann sæti í stjórn Búnaðarfélags Kjósarhrepps um margra ára skeið og beitti þar áhrifum sínum og búfræðiþekkingu til framtaks og dáða í búnaðarmálum sveitarinnar.
Eggert Finnsson var einn af stofnendum Sláturfélags Suðurlands og studdi eftir mætti að stofnun Eimskipafélags Íslands á sínum tíma.
Félagsmálahyggja Eggerts Finnssonar var rík og brennandi, því að félagsmálin, samtök huga og handa, taldi hann máttinn mikla, öflugasta aflið til að slíta helsi og höft af íslenzku þjóðinni, gera hana frjálsa og framtakssama.
Þessi mikli félagshyggjumaður, Eggert bóndi á Meðalfelli, hafði á yngra manndómsskeiði notið reynslu og öðlazt þroska í einskonar ungmennafélagi í sveit sinni, eins og svo margir aðrir frumkvöðlar okkar Íslendinga í félags- og framfaramálum.
Árið 1892 stofnuðu bændasynir í Kjósarhreppi félag, sem nefnt var Bræðrafélag Kjósarhrepps. Eggert Finnsson sat í stjórn þessa félags, sem beitti sér fyrir svipuðum hugsjónum og ungmennafélögin síðar.
Áður en Eggert Finnsson hvarf til náms að Stend, átti hann þátt í því, að keyptur var fyrsti plógurinn, sem kom í Kjósarhrepp.
Meðalfellstúnið bar þess vott snemma, að stórvirkari tæki en undanristuspaðinn og rekan voru notuð við túnræktina. Túnið var orðið yfir 60 dagsláttur að stærð eða 19—20 ha. löngu áður en jarðræktarlögin (1923) tóku gildi.
Eggert Finnsson kynntist fyrst sláttuvél á búnaðarskólanum á Stend og lærði þar að skilja gildi hennar. Erfitt reyndist lengi framan af að fá þannig gerða sláttuvélartegund að vel kæmi að notum á þétta íslenzka túngróðurinn. Það dró úr kaupum ísl. bænda á sláttuvélum fyrst í stað. Fyrstu sláttuvél sína keypti Eggert Finnsson 1904 og aðra 1907.
Margt er það fleira en hér hefir verið drepið á um framtak og hugsjónir Eggerts bónda á Meðalfelli, sem minnir óneitlega á hugsjónir og áhugamál læriföðurins áhrifaríka á Stend, Wilsons skólastjóra. Má þar nefna skilning og áhuga Eggerts á gildi áveitna og þurrkun mýrlendis. Hann mældi fyrir áveituframkvæmdum og þurrkunarskurðum hjá bændum í Kjós og Kjalarnesþingi. Þá beitti hann sér einnig fyrir ræktun kúakyns og kynbóta í sveit sinni. Sjálfum tókst honum sú ræktun svo giftusamlega, að kúakynið á Meðalfelli varð frægt á sínum tíma og dæmi þess, að úrvals kýr þaðan voru seldar til kynbóta til Færeyja
fyrir atbeina Búnaðarfélags Íslands.
Eins og svo margir aðrir íslenzkir nemendur Wilsons skólastjóra, beitti Eggert sér fyrir aukinni votheysgerð með löndum sínum og stéttarbræðrum. Sjálfur hófst hann handa um votheysgerð, er hann tók við jörð föður síns 1884 og hóf sjálfstæðan búrekstur. Árið 1902 skrifaði Eggert bóndi grein um votheysgerð í Búnaðarritið og sagði þar frá 18 ára reynslu sinni um gerð og notkun votheys. Ekki er mér kunnugt um íslenzkan bónda, sem gerði vothey hér á landi á undan Eggert bónda Finnssyni á Meðalfelli. Ég hygg, að hann muni því hafa gert vothey fyrstur allra íslenzkra bænda og fyrirmyndin og þekkingin komin beint frá búnaðarskólanum á Stend, eins og áður er á drepið.
Ríkur þáttur í ævistarfi Eggerts bónda Finnssonar og þeirra hjóna var hjálpsemi þeirra og liðsinni við sjúka og bágstadda. Sjálfur stundaði Eggert bóndi smáskammtalækningar með mjög góðum árangri, en langt var til læknis og samgöngur og vegir í lakara lagi. Eggert Finnsson gerði því oft að benjum bæði manna og dýra, ef slys bar að höndum.
Með því að vert er að geta þess sem gert er vel, þó að ekki væri nema öðrum til hvatningar, þá langar mig að biðja Blik fyrir eftirfarandi frásögn um manndóm og manngæzku Eggerts bónda á Meðalfelli. Hún á að vera eilítil en fögur heiðursorða á brjóst íslenzku bændastéttarinnar í heild.
Það mun hafa verið síðari hluta vetrar 1890, að Einar Jónsson, unglingspiltur í Skorhaga, missti skot úr framhlaðningi í lærið á sér, þar sem hann var á fuglaveiðum niður við Brynjudalsvog. Einar reyrði fyrir ofan sárið og skreiddist síðan heim á leið, þar til hann gat látið heyra til sín frá bænum. Jón bóndi faðir hans brá síðan við og leitaði á náðir fyrirmanna hreppsins um fyrirgreiðslu til að vitja læknis, en hann þurfti að sækja alla leið suður til Hafnarfjarðar. Þetta var þá í alla staði torsótt leið, ekki sízt að vetrarlagi eða snemma vors. Fátítt var, að menn hefðu hesta á járnum að vetrinum og margt fleira torveldaði læknisvitjun þessa löngu leið.
Jón bóndi gekk bónleiður til síns heima frá fyrsta fyrirmanni hreppsins, sem hann leitaði hjálpar til. Hann hafði engin tök á að veita lið til að nálgast lækni, þó að líf manns lægi við. Annar gaf kost á hjálp sinni með því skilyrði, að Jón bóndi í Skorhaga fóðraði ferðahestana til vors, því að fóðurþyngri yrðu þeir eftir slíkt ferðalag. Þessi skilyrði voru sama og afsvar, því að heybirgðir voru af skornum skammti í Skorhaga, enda jörðin aldrei nein heyskaparjörð, og sízt á þeim harðindaárum, sem þá steðjuðu að.
Í vandræðum sínum leitaði nú Jón bóndi til Eggerts bónda á Meðalfelli, sem þá hafði búið þar í 6 ár. — Jú, öll hjálp, er hann var maður til að láta í té, var guðvelkomin, svo sem efni og aðstaða frekast leyfði. Eggert Finnsson sótti lækninn á eigin hestum og flutti inn að Skorhaga, þar sem gert var að sárum Einars. Síðan flutti Eggert bóndi Einar með sér suður að Meðalfelli og annaðist þar sár hans, þar til hann var gróinn þeirra. Fyrir læknissóknina og umönnun sjúklingsins tók Eggert bóndi enga greiðslu, fannst ekki taka því af fátækum bónda.
Við þessa frásögn bæta svo Kjósverjar, sem bezt þekktu Meðalfellshjónin, þessum orðum: Þetta voru í reyndinni ekki nema venjuleg viðbrögð Meðalfellshjónanna, þegar veikindi eða bágar ástæður í einhverri annarri mynd bar að garði sveitunganna.
Elín Gísladóttir, kona Eggerts bónda, lézt að Meðalfelli
10. júní 1940, og Eggert bóndi 26 jan. 1946. Hjónin eru grafin að Meðalfelli.
Sólmundur Einarsson frá Flekkudal orti vísur um Eggert bónda að honum látnum. Þar er þetta sagt m.a.:
- Eggert dáinn, komið kvöld,
- hvílist rótt hjá móður sinni.
- Hann var meira en hálfa öld
- hér á undan samtíðinni.
- Eggert dáinn, komið kvöld,
- Ungur kröpp með auravöld
- erlend fræða sótti kynni
- til að færa fósturgjöld
- fósturjörð og ættleifðinni.
- Ungur kröpp með auravöld
- Lundin virtist vera köld,
- var þó hlýr sem barn í sinni.
- Æruskyggðan átti skjöld
- æsku frá að grafarmynni.
- Lundin virtist vera köld,
Pétur Pétursson frá Sólheimum (1876—1878).
Í sögu Búnaðarfélags Íslands er fullyrt, að Pétur Pétursson hafi stundað nám á Stend í 2 ár. Hinsvegar virðist nafn hans ekki finnast í skýrslum búnaðarskólans eftir því sem núverandi rektor tjáir mér. Í grein, sem Bjarni Jónasson, hreppstjóri í Blöndudalshólum, hefur lánað mér um Pétur Pétursson, uppruna hans og störf, er fullyrt, að hann hafi stundað nám á Stend. Þess vegna eru nokkur orð um hann höfð hér með. Í sögu Búnaðarfélagsins er einnig fullyrt að Halldór Hermannsson frá Brekku í Mjóafirði hafi stundað búfræðinám á Stend. Heldur ekki nafn hans hefur rektor fundið í skýrslum skólans, og mér ekki tekizt að leita mér fræðslu um hann nánar eða störf hans í þágu búskapar á Íslandi, en Halldór hvarf til Ameríku eftir nokkur ár, frá því að hann kom heim frá Noregi. —
Pétur Pétursson var fæddur að Mosfelli í Svínadal 31. des. 1850.
Um og eftir miðja 19. öld fór sterk vakning um byggðir Húnvetninga, svo að fáar ef þá nokkrar sveitir í landinu stóðu þeim framar í margskonar félags- og framfaramálum. Þar var stofnað lestrar- og búnaðarfélag á áratugnum 1840—1850, og Húnvetningar gjörðu merk átök til að brjóta af sér verzlunarfjötrana gömlu og taka verzlun í eigin hendur með almennum samtökum. Húnvetningar lærðu að skilja gildi fræðslu og samtaka í lífsbaráttunni.
Eftir þjóðhátíðina 1874 fer aftur sterk vakningaralda um hugi Húnvetninga, ekki sízt í Svínavatnshreppi, þar sem Pétur Pétursson var alinn upp. Leiddi sá framfaraáhugi til stofnunar tveggja menningarfélaga í hreppnum, kvenfélags og félags ungra og ógiftra manna í hreppnum, sem þeir nefndu Framfarafélag Svínavatnshrepps.
Svínvetningum var það ljóst, að mennta þurfti unga menn til þess að hafa á hendi forustu í menningarmálum hreppsins, leiðbeina og veita fræðslu í verklegum sem bóklegum efnum, því að áhugi Svínvetninga beindist ekki síður að aukinni fræðslu í verklegri tækni og þekkingu í búskapnum, svo sem bættri hirðingu búfjárins, bættri verkun heyja, vefnaði, jarðyrkju, heimilissmíði allskonar úr tré og járni o.s.frv.
Ungir menn voru valdir til náms, svo að þeir mættu leiðbeina og fræða, þegar heim kæmi aftur. Einn þessara ungu manna var Pétur Pétursson frá Sólheimum. Hann skyldi nema verklega og bóklega búfræði í Noregi. Framfarafélagið sótti um styrk úr landssjóði til Noregsfarar Péturs og fékk kr. 200,00 og fyrirheit um meiri styrk á næsta ári, ef Pétur gæti sent heim góð vottorð kennara sinna um góða hegðun og framfarir í störfum.
Sumarið 1878 kom Pétur Pétursson aftur heim frá búfræðinámi sínu í Noregi og tók þá þegar að starfa að jarðabótum fyrir Búnaðarfélag Svínavatnshrepps. Jafnframt ræddu Svínvetningar um stofnun skóla í hreppnum, þar sem Pétur yrði aðalkennari ungra manna. Framfarafélagið hét árlegum styrk fátækum mönnum í hreppnum, sem læra vildu hjá Pétri. Fullyrt er, að Pétur Pétursson hafi stundað kennslu á vegum Framfarafélagsins 2 vetur eftir heimkomuna
(1878—'79 og 1879—'80). Kennslustaðir voru a.m.k. Sólheimar og Guðlaugsstaðir.
Árið 1880 kvæntist Pétur Pétursson bóndadóttur frá Holti í Svínavatnshreppi, Önnu Guðrúnu Magnúsdóttur. Þá festi hann kaup á Gunnsteinsstöðum í Langadal og setti þar saman bú vorið 1881. Þar gerðist hann athafnasamur bóndi, sem gerði m.a. miklar áveituframkvæmdir á jörðinni eftir fyrirmynd frá Stend.
Árið 1883 var Pétur Pétursson kosinn í skólanefnd Hólaskóla og var þar fulltrúi sýslunefndar Húnavatnssýslu, en hann varð sýslunefndarmaður sama ár. Þá voru tímamót í sögu Hólaskóla. Vafi lék á, að Eyfirðingar vildu lengur taka þátt í rekstri skólans. Sú menningaralda, sem risið hafði í Húnavatnssýslu og Pétur Pétursson var virkur þátttakandi í, skaut traustum stoðum undir þann styrk, sem Húnvetningar veittu þá Skagfirðingum til reksturs bændaskólanum á Hólum. Skólinn naut þar áhrifa Péturs bónda, gáfna hans og lagni. Pétur var ritari skólanefndar til ársins 1888 og varaformaður næstu 3 árin. Árið 1891 var skipulaginu um rekstur skólans breytt. Eftir það stóðu 5 sýslur norðan lands að rekstri hans og skipaði þá amtsráðið skólastjórnina. Var þá Pétur bóndi á Gunnsteinsstöðum skipaður fulltrúi Húnavatnssýslu í skólastjórnina.
Árið 1888 endurvakti Pétur bóndi Búnaðarfélag Bólstaðarhlíðar. Hófst þá mikil sókn í ræktunarmálum hreppsins undir stjórn hans.
Pétur bóndi hafði á sínum tíma nokkur afskipti af verzlunarsamtökum húnvetnskra bænda.
Árið 1910 hætti Pétur búskap á Gunnsteinsstöðum, en við jörðinni tók Hafsteinn sonur hans, sem lézt á s.l. ári. Báðir þeir feðgar gerðu garðinn frægan.
Pétur Pétursson lézt 26. apríl 1922.
Heimildir:
Skýrslur búnaðarskólans á Stend, rit um skólann. Íslenzkar æviskrár og Saga Búnaðarfélags Íslands.
Aðrar heimildir:
Um Eggert bónda Finnsson hefur Magnús bóndi Blöndal á Grjóteyri í Kjós skrifað mér; um Pál Jóakimsson frá Árbót skrifar mér Steingrínur Baldvinsson bóndi í Nesi fyrir atbeina Karls Kristjánssonar, alþingismanns; um Boga Thorarensen Helgason hefir mér skrifað Sveinbjörn Jónsson, bóndi á Snorrastöðum; um Pétur Pétursson á Gunnsteinsstöðum Bjarni hreppstjóri Jónasson í Blöndudalshólum fyrir atbeina Hafsteins bónda Péturssonar á Gunnsteinsstöðum. — Efni viðað víðar að.
Öllum þessum hjálpendum mínum og heimildarmönnum færi ég innilegustu þakkir.