„Blik 1936, 2. tbl./Mataræði~Matjurtir“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
|||
(1 millibreyting ekki sýnd frá sama notandanum) | |||
Lína 2: | Lína 2: | ||
<big><big><center>'''Mataræði ~ matjurtir'''</center></big><br> | |||
Á seinustu þrem áratugum hafa framfarir orðið miklar á mörgum sviðum með okkur Íslendingum. Margs konar hagnýt fræðsla hefir lyft undir þær framfarir. <br> | Á seinustu þrem áratugum hafa framfarir orðið miklar á mörgum sviðum með okkur Íslendingum. Margs konar hagnýt fræðsla hefir lyft undir þær framfarir. <br> | ||
Lína 90: | Lína 88: | ||
Allar grænmetisjurtirnar þurfa gott skjól hér hjá okkur, sérstaklega fyrir austan- og norðanvindunum. Það er þýðingarmikið skilyrði fyrir vexti þeirra og þroska.<br> | Allar grænmetisjurtirnar þurfa gott skjól hér hjá okkur, sérstaklega fyrir austan- og norðanvindunum. Það er þýðingarmikið skilyrði fyrir vexti þeirra og þroska.<br> | ||
Þeir höfundar, sem ég hefi stuðzt við um efni þessarar greinar, eru þeir Einar sál. Helgason (Hvannir), dr. med. Marie Krogh, og H. Nordby Olsen og Sigv. Chr. Berle garðyrkjufræðingar. | Þeir höfundar, sem ég hefi stuðzt við um efni þessarar greinar, eru þeir Einar sál. Helgason (Hvannir), dr. med. Marie Krogh, og H. Nordby Olsen og Sigv. Chr. Berle garðyrkjufræðingar. | ||
:::::::::::::::[[Þorsteinn Þ. Víglundsson|''Þorsteinn Þ. Víglundsson'']]. | :::::::::::::::::::[[Þorsteinn Þ. Víglundsson|''Þorsteinn Þ. Víglundsson'']]. | ||
{{Blik}} | {{Blik}} |
Núverandi breyting frá og með 12. október 2010 kl. 20:40
Á seinustu þrem áratugum hafa framfarir orðið miklar á mörgum sviðum með okkur Íslendingum. Margs konar hagnýt fræðsla hefir lyft undir þær framfarir.
Nú síðast erum við orðnir vísir að kornyrkjuþjóð og grænmetisætum. Og vonandi verðum við meir en vísirinn.
Íslenzka þjóðin hlustar orðið eftir niðurstöðum vísindanna og reynir að færa sér þær í nyt á mörgum sviðum. Margt slenið og heilsubresturinn stafar eflaust af óhollu mataræði. Þess vegna verður aukin þekking á efnasamsetningu matar og gerð hans að aukast hjá okkur, og rétta verður ýmsan misskilning og afleggja ýmsar miður hollar venjur, sem enn ríkja á landi voru um gerð og neyzlu hins daglega matar. Störf þeirra manna og kvenna, sem auka þessa þekkingu þjóðarinnar með útgáfu góðra bóka, námsskeiðum o.fl., eru ómetanleg þjóðnytjastörf.
Merkur skólamaður íslenzkur hefir látið þá trú sína í ljós, að Íslendingar hefðu öll skilyrði til þess að geta orðið gagnmenntaðasta þjóð heimsins, ef að því væri stefnt, og að því bæri að stefna. Það er einnig trú mín, að þeir gætu orðið ein hraustasta þjóð heimsins, ef fast og vel væri á haldið, og að því stefnt ákveðið og eindregið. — Íslenzka moldin, íslenzkir staðhættir allir, og efniviður þjóðarinnar, andlegur og líkamlegur, skapar þá trú mína. Að því ber að stefna.
Grænmetisræktun og grænmetisát fer sigurför um byggðir landsins. Víðast í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum sjást þess merki. Við Eyjabúar megum ekki og skulum ekki verða eftirbátar annarra héraða í þessu sviði framfaranna fremur en á mörgum öðrum sviðum.
Hinn mikli áhugi almennings hér á garðrækt bendir til þess, að mikið verði aðhafzt í þeim efnum næstu ár. Við þurfum að stefna að því fyrst og fremst, að geta fullnægt okkar eigin þörfum um kartöflur og rófur og auka þó neyzlu hvors tveggja til mikilla muna. Jafnframt eigum við að stefna að því, að hver fjölskylda hér stundi nokkra ræktun alls konar grænmetis og neyzla þess fari vaxandi. Við það mundi mataræði margrar fjölskyldunnar, sem litla hefir mjólkina, batna að mun, og heilsufarið jafnframt.
Ég set hér nokkrar tölur, sem eiga að sanna okkur, að grænmeti getur bætt stórlega úr mjólkurþörf heimilanna, þó ég vilji ekki segja, að það geti komið í mjólkur stað, því neyzla hvors tveggja skal haldast í hendur.
Tölurnar eru teknar úr ritum dr. med. Marie Krogh, hins þekkta fjörefnafræðings.
Fjörefnaeiningar í einu grammi af fjörefninu:
A | B | C | |
Nýmjólk | 2 | 0,1 | 0,02 |
Gulrætur | 25-70 | 0,15 | |
Spínat | 60 | 1,5 | |
Kál, grænar baunir, salat | 1-10 | ||
Hrátt grænmeti | 0,2-0,3 | ||
Soðið grænmeti | 0,1-0,2 | ||
Hrátt kál | 0,1 | ||
Kál, soðið í 1 klst. | 0,1 | ||
Kartöflur | um 1 | 0,15 | |
Kartöflur, soðnar | 0,10 | ||
Grænar baunir, soðnar | 0,30 |
Gulrætur tapa C-fjörefninu við langa geymslu. Um það bil helmingur B- og C- fjörefnanna fer forgörðum við suðu eða út í suðuvatnið. Spínat þolir litla sem enga suðu. Annars hafa komið út á íslenzku bækur um fjörefnaforða og matreiðslu grænmetis og ætti fólk að kaupa þær og nota.
Ég gef hér dálitlar leiðbeiningar um ræktun nokkurra grænmetistegunda, þeirra, sem helzt koma til greina hér.
Blómkál.
Það þarf moldarjarðveg, djúpan og vel unninn, blandaðan leir og sandi. Áburðarmagn sé 4 kerruhlöss af mykju eða slori, á einn ara (100 fermetra) eða 12—14 kg. af garðanitrophoska.
Bezt er að setja kálið í raðir með 50—60 cm millibili og um 40 cm á milli plantnanna í hverri röð. Fræið sé hulið moldarlagi, sem er 3—4-föld þykkt fræsins. Þegar plönturnar eru búnar að ná nokkrum þroska, er gott að strá í kring um þær svolitlu af saltpétri og superfosfati og síðan hreykir maður moldinni upp með þeim. Það veitir þeim stuðning og skjól. Hafi slor verið borið í garðinn, þarf superfosfatsskammturinn að vera dálítið meiri.
Blómkálið þarf mikið vatn. Gott er að vökva með áburðarlegi í viðlögum. Kál fær næstum aldrei of mikinn áburð. Þegar blómkálshöfuðin eru farin að vaxa, svo að sjáist á þau milli blaðanna, eru svo sem tvö blöð plöntunnar beygð yfir höfuðin, miðtaug blaðanna brotin. Þá verða kálhöfuðin þéttvaxin, meyr og hvít.
Skera verður blómkálshöfuðið af plöntunni áður en það gisnar og ljókkar.
Ofanritað gildir einnig um ræktun hvítkáls.
Grænkál.
Það vex í alls konar jarðvegi.
Bil milli raða sé 40 cm, en 30 cm milli plantnanna í röðinni. Þessi káltegund stendur lengi fram eftir vetri. Það er eflaust búhnykkur að rækta svo mikið af grænkáli, að hænsnin geti fengið sinn skerf, að minnsta kosti á haustin og fram eftir vetri. Það mundi auka fjörefnaforða eggjanna á þeim tíma.
Gulrætur.
Þær vaxa bezt í góðri og frjórri mold, myldinni og lítið eitt sendinni. Þurfa gott skjól. Áburðarmagn sé um 3 kerruhlöss á 100 fermetra. Bezt er að húsdýraáburðurinn sé gamall og borinn í garðinn að haustinu. Annars er bezt að nota nitrophoska að vorinu, 9—10 kg. á 100 fermetra. Við búum til vanalegt beð (120 cm breitt). Gerum 7—8 rásir með jöfnu millibili langs eftir beðinu, og sáum fræinu í þær. Síðan rótum við moldinni úr brúnum rásanna yfir fræið, svo að um 2 cm. moldarlag hylji það. Sá verður nokkuð þétt og grisja síðan, þegar vel er komið upp. Hæfilegt er að hafa 6—8 cm á milli plantnanna í hverri röð. Gott er að vökva gulrætur með áburðarvatni svo sem tvisvar á vaxtarskeiðinu.
Bezt er talið að geyma gulrætur í kössum eða tunnum, og strá saman við þær þurrum, saltlausum sandi (rigndum fjörusandi) eða mómylsnu.
Rauðrófur.
Þær þurfa frjósaman, sendinn leirjarðveg. Gamall húsdýraáburður talinn heppilegri en nýr. Þær vilja fremur tréna við nýjan áburð. Fræið er hulið með 3 cm þykku moldarlagi. Bil milli raða sé 30 cm og grisjaðar svo, að 10 cm sé á milli plantnanna í röðinni, 3—4 raðir langs eftir beði af vanalegri breidd.
Spínat.
Það þarf mikinn áburð. Velja skal því rakan stað í garðinum, t.d. neðst í honum. Því er dreifsáð eða sett í raðir með 15—20 cm millibili og 7—10 cm milli plantnanna í röðinni. Standi það mjög þétt, vill það hlaupa í „njóla.“ Blöðin verða þá smá og seig. Það þarf að vökva því dyggilega. Einnig þarf það mikinn köfnunarefnisáburð. Þess vegna er gott að vökva því með áburðarvatni öðru hvoru. Maður neytir helzt ungu blaðanna. Þau eru betri. Því er þess vegna sáð með svo sem 3 vikna millibili. Svo kallað vetrarspínat getur staðið fram á vetur. Spínat er auðugt af járnsamböndum.
Steinselja (persille).
Þarf lausan og góðan moldarjarðveg. Vill helzt gamlan áburð. Henni er sáð í raðir með 12—15 cm og grisjuð þannig að 6—8 cm verði á milli plantnanna. Sé seint sáð, má flýta vextinum með því að láta fræið liggja í vatni tvo sólarhringa. Plönturnar má taka upp að haustinu, setja þær í kassa og hafa í björtum hlýjum kjallara fram á vor. Einnig má þurrka blöðin á haustin og geyma þau til vetrarnotkunar.
Höfuðsalat.
Það vex vel í sendinni jörð, sem fengið hefir nægan áburð um vorið eða veturinn. Það má ekki skorta vatn. Það er sett í raðir með 20—25 cm millibili og jafn langt bil sé milli plantnanna í hverri röð.
Blaðsalat.
Bezt er að sá því í raðir með 8 cm millibili. Í röðunum mega plönturnar standa þétt. Þegar blöðin eru orðin svo sem 8 cm há, eru þau skorin af laust fyrir ofan rótina jafnóðum og þörf er á. Hæfilegt er að sá til blaðsalats þrisvar á sumri, með 3—4 vikna millibili. Blöðin skulu notuð meðan þau eru ung. Sterkt sólskin og vindar gera þau verri til átu. Salat þarf mikinn áburð.
Mörgum hættir við að sá matjurtafræinu of djúpt. Hæfilegt er, að moldarlagið, sem hylur það, sé 3—4 sinnum þykkara en fræið, nema annað hafi verið tekið fram hér. Smáu fræi verður því sáð mjög grunnt.
Þegar búið er að sá, skal klappa beðin með gætni, eða þrýsta að moldinni í þeim. Það hefir góð áhrif á rakaleiðslu moldarinnar. Einnig samlagast fræið betur moldinni.
Vandið alla sáningu svo sem verða má. Notið einungis gott fræ. Tryggið ykkur það þótt það sé dýrara. Það marg-borgar sig.
Það er betra að vökva sjaldnar, en vökva vel, þegar það er gert.
Léleg vökvun getur verið verri en engin vökvun.
Gæta verður þess vandlega, að alls konar illgresi nái ekki að hnekkja vexti matjurtanna. Þess vegna verður að uppræta það jafnört og það vex. Fái illgresið að vaxa óhindrað, er vonlaust um að matjurtirnar nái gagnlegum þroska. Verum því ólöt að uppræta það. Til þess má nota ýmsar smástundir, sem annars færu til litils.
Athugið það, að plönturnar anda eftir að þær eru teknar upp eða skornar af stöngli (kál). Þess vegna á ekki að setja til geymslu jarðarávöxt, sérstaklega kál og rótarávöxt, strax eftir uppskeruna. Við öndunina myndast vatnsgufa og kolsýra. Fái ávöxturinn ekki að losna óhindrað við þær og súrefni loftsins frjálst aðstreymi, rotnar hann bráðlega.
Þar sem rófusýki er í görðum, má ekki rækta káltegundir eða aðrar jurtir af svo kallaðri krossblómaætt. Sýkin ásækir allar jurtir af þeirri ætt. Gulrætur, rauðrófur, spínat og salat mun óhætt að rækta þar.
Allar grænmetisjurtirnar þurfa gott skjól hér hjá okkur, sérstaklega fyrir austan- og norðanvindunum. Það er þýðingarmikið skilyrði fyrir vexti þeirra og þroska.
Þeir höfundar, sem ég hefi stuðzt við um efni þessarar greinar, eru þeir Einar sál. Helgason (Hvannir), dr. med. Marie Krogh, og H. Nordby Olsen og Sigv. Chr. Berle garðyrkjufræðingar.